Veflestur er þjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá
Umhverfisráðuneyti

767/1997

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 579/1993 um aukefni í matvælum. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um breytingu á reglugerð nr. 579/1993 um aukefni í matvælum.

1. gr.

2. gr. verði svohljóðandi:

Aukefni eru efni sem aukið er í fæðu til þess að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika matvæla, eins og nánar er kveðið á um í viðauka 4. Í fullunninni vöru eru aukefni til staðar að öllu leyti eða að hluta, í breyttri eða óbreyttri mynd.

2. gr.

3. gr. verði svohljóðandi:

Eftirtalin efni eru ekki aukefni:

 a)        tæknileg hjálparefni*;

 b)        bragðefni, nema þau séu tilgreind í aukefnalista;

 c)        varnarefni (svo sem skordýra- og sveppaeitur og önnur varnarefni);

 d)        vítamín og steinefni (bætiefni) notuð í þeim tilgangi að hafa áhrif á næringargildi matvæla;

 e)        efni ætluð til meðhöndlunar á neysluvatni;

 f)         vörur sem innihalda pektín og eru framleiddar úr þurrkuðu eplakvoðumauki og/eða berki sítrusávaxta, með hjálp útþynntrar sýru sem síðan er að nokkru hlutleyst með natríum eða kalíum söltum (fljótandi pektín);

 g)        hráefni (gúmmí) til framleiðslu á tyggigúmmíi;

 h)        hvítt eða gult dextrín, ristuð eða dextríneruð sterkja, sterkja umbreytt með sýru- eða basameðhöndlun, bleikt sterkja, eðlisfræðilega umbreytt sterkja og sterkja meðhöndluð með amýlösum;

 i)         blóðvökvi, ætilegt gelatín, vatnsrofin prótein og sölt þeirra, mjólkurprótein og glútein;

 j)         amínósýrur og sölt þeirra, hafi þau ekkert tæknilegt hlutverk í vörunni, að frátaldri glútamínsýru, glýsíni og systíni og söltum þeirra;

 k)        kasín og sölt þess;

 l)         inúlín;

 m)       matarsalt, sykur, etýlalkóhól, borðedik og mjöl (t.d. kartöflumjöl);

 n)        matvæli þykkt eða þurrkuð og bragðefni sem notuð eru við framleiðslu matvæla vegna bragðáhrifa, ilmáhrifa eða næringargildis og gefa matvælum þar að auki lit, svo sem paprika, túrmerik og saffran og

 o)        litarefni sem notuð eru til að lita óæta ytri húð á matvælum, s.s. ostskorpu og pylsuskæni.

3. gr.

8. gr. verði svohljóðandi:

Í tilbúnum samsettum matvælum getur hvert hráefni innihaldið þau aukefni og í því magni sem leyfilegt er samkvæmt aukefnalista. Samanlagt magn hvers aukefnis í samsettum matvælum má þó ekki vera meira en tilgreint hámarksmagn efnisins í matvælaflokki þeim sem hin tilbúna vara tilheyrir í aukefnalista, hafi slík mörk verið sett þar fyrir notkun efnisins.

Framangreind ákvæði eiga ekki við um ungbarnablöndur, stoðblöndur og barnamat.

4. gr.

Við d-lið 12. gr. bætast málsliðir sem eru svohljóðandi:

Í tengslum við vöruheiti á borðsætuefnum skal koma fram merkingin _Borðsæta sem inniheldur _", þar sem fram kemur heiti sætuefnisins. Á umbúðum borðsætuefna sem innihalda aspartam skal koma fram merkingin: _Inniheldur fenýlalanín" og vörur sem innihalda sykuralkóhól skulu merktar: _Mikil neysla getur haft hægðalosandi áhrif".

5. gr.

Við 14. gr. bætist ný mgr. sem er svohljóðandi:

Hollustuvernd ríkisins skal, að höfðu samráði við aukefnanefnd, gangast fyrir rannsóknum á neyslu aukefna. Niðurstöður rannsóknanna skulu bornar saman við dagleg neyslugildi (ADI - Acceptable Daily Intake), sem ákvörðuð hafa verið af vísindanefnd Evrópusambandsins um matvæli (SCF) eða sérfræðinganefnd Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um aukefni og aðskotaefni í matvælum (JECFA) fyrir viðkomandi efni. Aukefnanefnd skal leggja mat á niðurstöður þessara rannsókna og gera tillögur um breytingar á heimildum til notkunar viðkomandi aukefna, ef þurfa þykir.

6. gr.

Við viðauka 1 bætast flokksheitin: Burðarefni (carrier) og froðuefni (foaming agent).

7. gr.

Viðaukar 3 og 4 breytast eins og fram kemur í fylgiskjali.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum og öðlast gildi 1. janúar 1998. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, tilskipun 94/35/EB um notkun sætuefna í matvælum, með breytingu 96/83/EB, tilskipun 94/36/EB um notkun litarefna, tilskipun 95/2/EB um notkun aukefna, annarra en litar- og sætuefna, með breytingu 96/85/EB, tilskipun 95/31/EB um hreinleikaskilyrði fyrir sætuefni sem ætluð eru til notkunar í matvælum, tilskipun 95/45/EB um hreinleikaskilyrði fyrir litarefni og tilskipun 96/77/EB um hreinleikaskilyrði fyrir aukefni, önnur en litar- og sætuefni.

Bráðabirgðaákvæði.

Dreifing vöru sem er í samræmi við þessa reglugerð er heimil frá og með 1. janúar 1998. Fyrir vörur sem ekki eru í samræmi við þessa reglugerð, en uppfylltu áður gildandi reglur, er veittur frestur til 31. desember 1998 til að gera nauðsynlegar breytingar.

Umhverfisráðuneytinu, 18. desember 1997.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

 

 

 

Prenta reglugerð

Þetta vefsvæði byggir á Eplica