Menntamálaráðherra sér til þess að haldin séu sveinspróf fyrir iðnnema í löggiltum iðngreinum, hefur eftirlit með framkvæmd prófanna og veitir upplýsingar um þau.
Menntamálaráðherra setur reglur um uppbyggingu og tilhögun sveinsprófs í hverri löggiltri iðngrein um sig að fengnum tillögum viðkomandi starfsgreinaráðs.
Heimilt er að taka hvern þann til sveinsprófs sem lokið hefur burtfararprófi frá iðnmenntaskóla og tilskilinni starfsþjálfun í atvinnulífi samkvæmt námskrá viðkomandi iðngreinar.
Heimilt er að taka til verklegs sveinsprófs án réttar til inngöngu í meistaraskóla iðnnema sem á við sértæka námsörðugleika að stríða þannig að hann telst ekki fær um að ljúka að fullu burtfararprófi úr skóla og menntamálaráðherra hefur heimilað próftöku.
Meistari staðfestir umsókn um sveinspróf fyrir nema í samningsbundnu iðnnámi en iðnmenntaskóli fyrir þá nema er stunda nám á verknámsbraut viðkomandi skóla. Umsóknin skal vera á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal fylgja:
1. Burtfararprófsskírteini skóla.
2. Afrit af námssamningi nema.
Sá sem hefur heimild menntamálaráðherra, sbr. 2. mgr. 3. gr., til að þreyta verklegt sveinspróf eingöngu skal þegar sótt er um prófið leggja fram bréf ráðuneytisins þar að lútandi.
Próftaki greiðir þann kostnað við próftöku sem greiðist ekki af opinberu fé, svo sem efnisgjald, nema hefð sé um annað eða um annað samið.
Menntamálaráðherra skipar sveinsprófsnefndir í löggiltum iðngreinum fyrir allt landið til þess að sjá um framkvæmd sveinsprófa, þar með talið mat á úrlausnum. Hann setur sveinsprófsnefndum starfsreglur að fengnum tillögum starfsgreinaráða. Í starfsreglum skal kveðið á um samningu og framkvæmd prófa, aðstöðu á prófstað, einkunnagjöf og birtingu niðurstaðna.
Þóknun sveinsprófsnefndarmanna greiðist úr ríkissjóði samkvæmt nánari ákvörðun menntamálaráðherra.
Í sveinsprófsnefnd skulu vera þrír menn og jafnmargir til vara og skulu þeir skipaðir af menntamálaráðherra til fjögurra ára í senn. Tveir nefndarmenn skulu skipaðir að fengnum tillögum viðkomandi starfsgreinaráðs og skulu að jafnaði vera bæði meistari og sveinn. Einn skal skipaður án tilnefningar og skal hann hafa kennslureynslu í viðkomandi iðngrein ef þess er nokkur kostur. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin kýs sér formann.
Trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á þeim sem sitja í sveinsprófsnefnd. Þeim er óheimilt að fjalla um eða birta í heild úrlausnir einstakra nemenda.
Sveinsprófsnefndarmaður víkur sæti úr nefnd ef hann er eða hefur verið meistari iðnnema eða kennari hans í verknámi, náskyldur honum eða tengdur.
Nefndarmönnum ber sjálfum skylda til þess að upplýsa um aðstæður er geta valdið vanhæfi þeirra sbr. 3. - 6. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Þegar prófi er lokið skal sveinsprófsnefnd gefa menntamálaráðherra skýrslu um prófið.
Þegar próftaki hefur lokið sveinsprófi og niðurstöður þess liggja fyrir skal prófnefnd gefa honum kost á að sjá þær. Sé próftaki ósáttur við niðurstöður nefndarinnar getur hann óskað eftir skýringum á þeim. Telji hann enn ástæðu til að véfengja niðurstöður sveinsprófsnefndar getur hann vísað málinu til úrskurðar menntamálaráðherra innan þriggja mánaða frá þeim tíma er honum voru niðurstöður kunnar.
Menntamálaráðherra getur tilnefnt sérstaka trúnaðarmenn til þess að fjalla um ágreininginn. Úrskurður menntamálaráðherra er lokaúrskurður á stjórnsýslustigi.
Eigi síðar en 24 dögum eftir sveinspróf skal prófnefnd senda próftaka niðurstöður sveinsprófa í ábyrgðarpósti eða á annan tryggan hátt. Á prófskírteini kemur fram árangur nemanda í einstökum þáttum prófsins og (ein) aðaleinkunn.
Í síðasta lagi mánuði eftir að sveinspróf eru haldin sendir prófnefnd niðurstöður til menntamálaráðuneytisins.
Óheimilt er að veita öðrum en próftaka upplýsingar um einkunnir hans á sveinsprófi nema nauðsyn beri til vegna fræðilegra rannsókna enda sé krafist fullrar þagnarskyldu að fenginni heimild tölvunefndar.
Innan árs frá því að niðurstöður sveinsprófa eru birtar sbr. 9. gr. getur próftaki krafist þess að fá úrlausn sína afhenta. Öðrum skriflegum úrlausnum skal eytt á tryggilegan hátt að þeim tíma liðnum og er sveinsprófsnefnd ábyrg fyrir þeirri framkvæmd.
Um varðveislu upplýsinga sem unnar eru upp úr prófúrlausnum á sveinsprófi fer eftir ákvæðum laga um Þjóðskjalasafn.
Menntamálaráðherra heldur skrá um þá sem gengist hafa undir sveinspróf í löggiltum iðngreinum.
Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. getur menntamálaráðherra samið við tiltekna aðila um að annast framkvæmd sveinsprófanna. Í samningi skal m.a. koma fram að umsýsluaðili prófanna sjái um framkvæmd þeirra, auglýsi þau og skrái próftaka til prófs og útvegi sveinsprófsnefnd vinnuaðstöðu. Leita skal samþykkis menntamálaráðherra fyrir samningnum.
Sveinspróf skal halda eigi sjaldnar en einu sinni á ári í framhaldi af brautskráningu úr iðnmenntaskólum enda sé nægjanleg þátttaka próftaka fyrir hendi að mati menntamálaráðuneytisins. Sveinspróf skulu fara fram á viðurkenndum prófstað. Fari sveinspróf í iðngrein fram á fleiri en einum stað á landinu samtímis skal prófið vera samræmt eftir því sem við verður komið.
Umsóknir um sveinspróf skulu sendast menntamálaráðuneytinu sé annað ekki tiltekið í auglýsingu.
Umsóknarfrestur um sveinspróf skal vera einn mánuður frá birtingu auglýsingar.
Menntamálaráðherra getur viðurkennt iðnmenntun sem aflað er erlendis gegn framvísun prófvottorðs án þess að viðkomandi gangi undir sveinspróf, enda séu kröfur til námsins sambærilegar við þær sem gerðar eru til viðkomandi starfsnáms hér á landi. Gengið skal úr skugga um slíkt með samanburði við íslenska námskrá í viðkomandi iðngrein.
Einnig er heimilt að leyfa einstaklingi með starfsmenntapróf erlendis frá að sanna kunnáttu sína með sveinsprófi ef erfitt reynist að fá fram nægilega örugg gögn.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 24. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 278/1997 um sveinspróf.