Landbúnaðarráðuneyti

444/1982

Reglugerð um loðdýrarækt og innflutning loðdýra - Brottfallin

Almenn ákvæði.

1. gr.

Landbúnaðarráðuneytið hefur yfirumsjón með allri loðdýrarækt í landinu, sbr. lög nr. 53 frá 29. maí 1981. Yfirdýralæknir og héraðsdýralæknar annast eftirlit með því að reglum um heilbrigði, innflutning og sóttkví loðdýra sé fylgt.

Búnaðarfélag Íslands annast eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um loðdýrarækt sé framfylgt. Skal eftirlitsmaður heimsækja hvert loðdýrabú eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Fulltrúa Búnaðarfélags Íslands er heimilt að leita álits viðkomandi héraðsdýralæknis um mál er snerta heilbrigðisþætti búanna.

2. gr.

Loðdýr og loðdýrarækt nefnist það í reglugerð þessari ef dýr eru alin vegna verðmætis skinnanna, eingöngu eða aðallega. Loðdýrabú nefnast hús, búr og girðingar þar sem loðdýr eru höfð í vörslu.

Landbúnaðarráðherra sker úr álitamálum um hvort dýrategund skuli teljast loðdýr eða ekki.

Um innflutning og sóttkví.

3. gr.

Óheimilt er að flytja til landsins loðdýr nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðuneytisins og með samþykki yfirdýralæknis. Þeir sem óska eftir að flytja loðdýr til landsins skulu senda um það skriflega umsókn til landbúnaðarráðuneytisins ásamt upplýsingum um hvaðan dýrin verði keypt, tegund, fjölda þeirra, kyn, aldur og auðkenni, sbr. 3. gr. laga nr. 53 frá 21. maí 1981.

4. gr.

Ekki er heimilt að veita innflutningsleyfi fyrir loðdýrum til Íslands nema fyrir liggi skriflegar upplýsingar heilbrigðisyfirvalda í viðkomandi landi um að eigi hafi orðið vart smitsjúkdóma undanfarin þrjú ár í því búi þar sem dýrin eru keypt og að slíkra sjúkdóma hafi heldur ekki orðið vart í héraðinu næstliðin þrjú ár.

Áður en loðdýr eru flutt til landsins setur yfirdýralæknir reglur um þær rannsóknir, ónæmisaðgerðir o. fl. sem nauðsynlegt er talið af öryggisástæðum að gera í hvert sinn.

5. gr.

Loðdýrum sem flutt eru til landsins skulu fylgja fullgild heilbrigðisvottorð svo og vottorð um ónæmisaðgerðir, ef þeirra hefur verið krafist. Strax og dýrin koma til landsins skulu þau skoðuð af embættisdýralækni sem ganga skal úr skugga um að þau séu heilbrigð og að þeim fylgi tilskilin vottorð og aðrar þær upplýsingar sem krafist var er innflutningsleyfi var veitt.

6. gr.

Ef loðdýr sem inn eru flutt reynast heilbrigð og fullnægja að öðru leyti settum skilyrðum skulu þau sett í sóttkví á kostnað og ábyrgð eiganda á meðan ríkið byggir ekki einangrunarstöð. Dýrunum skal haldið í sóttkví eins lengi og yfirdýralæknir telur nauðsynlegt, minkum eigi skemur en 16 mánuði og refum eigi skemur en 12 mánuði. Um útbúnað og tilhögun sóttkvíar skal fara eftir fyrirsögn yfirdýralæknis og er óheimilt að flytja þangað dýr fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að fyrirkomulag og búnaður sé eins og fyrir hefur verið lagt.

Ef sóttkví er í nágrenni eða tengslum við loðdýrabú má eigi selja eða afhenda á annan hátt dýr úr búinu meðan á sóttkví stendur og eigi fyrr en viðkomandi embættisdýralæknir heimilar.

7. gr.

Í hvert sinn sem innflutt loðdýr eru sett í sóttkví skal embættisdýralæknir afhenda eiganda eða umráðamanni dýranna skrifleg fyrirmæli um hvaða varúðarráðstafanir séu nauðsynlegar til að varna því að smitsjúkdómar berist frá hinum innfluttu dýrum. Skulu reglur þessar staðfestar af yfirdýralækni fyrir hönd landbúnaðarráðuneytisins.

Ef umráðamaður eða eigandi loðdýranna vanrækir eða hlítir ekki settum reglum um sóttkví varðar það sektum.

Ef um endurtekið eða alvarlegt brot er að ræða getur landbúnaðarráðuneytið látið lóga bótalaust, á kostnað eiganda, öllum þeim dýrum sem í sóttkví eru.

8. gr.

Meðan innflutt dýr eru í sóttkví skulu þau skoðuð reglulega af embættisdýralækni samkvæmt nánari fyrirmælum yfirdýralæknis. Eigandi eða umráðamaður skal veita nauðsynlega aðstoð við skoðun dýranna. Umráðamaður dýranna skal án tafar gera embættisdýralækni viðvart ef upp kemur sjúkdómur í dýrunum og öll hræ af dauðum dýrum skal hann varðveita og senda til rannsóknar. Embættisdýralæknir hlutast til um, í samráði við yfirdýralækni, að gengið sé úr skugga um, strax og unnt er, hvaða sjúkdóm sé um að ræða. Skal hann þegar gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu og tjón af völdum sjúkdómsins.

9. gr.

Eigandi ber ábyrgð á vanhöldum, slysum og óhöppum sem loðdýr kunna að valda meðan á sóttkví stendur.

Komi upp smitsjúkdómur í innfluttum loðdýrum meðan þau eru geymd í sóttkví er landbúnaðarráðuneytinu heimilt, ef um hættulegan og óþekktan sjúkdóm á Íslandi er að ræða skv. dómi yfirdýralæknis, að láta lóga öllum hinum innfluttu dýrunum bótalaust, á kostnað eiganda. Sama máli gegnir um önnur loðdýr sem kunna að hafa smitast ef það má rekja til vanrækslu eiganda.

Hræjum og öðru er smithætta getur stafað af skal eyða á tryggilegan hátt að fyrirmælum yfirdýralæknis. Skylt er eigendum hinna innfluttu dýra að leggja fram nauðsynlega vinnu við hreinsun og sótthreinsun að lokinni slátrun.

Sé talið nauðsynlegt að eyða búrum eða öðrum útbúnaði skal það gert á kostnað eiganda, bótalaust af hálfu ríkissjóðs.

Um almennar sjúkdómavarnir.

10. gr.

Komi upp smitsjúkdómur eða grunur um smitsjúkdóm í loðdýrabúi skal umráðamaður eða eigandi þegar í stað gera viðkomandi héraðsdýralækni aðvart.

Skal héraðsdýralæknir þegar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja frekari útbreiðslu sjúkdómsins og tjón af hans völdum. Jafnframt skal hann hlutast til um að fá staðfesta sjúkdómsgreiningu með því að senda nauðsynleg líffæri eða heil hræ til rannsóknar að Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum.

Ennfremur skal hann tilkynna yfirdýralækni um sjúkdóminn og hafa samráð við hann um

frekari sóttvarnaraðgerðir.

Heimilt er að hneppa loðdýrabú í sóttkví um lengri eða skemmri tíma ef upp kemur alvarlegur smitsjúkdómur í búinu og fyrirskipa aðrar ráðstafanir sem landbúnaðarráðuneytið telur nauðsynlegar til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins, þ. á m. slátrun dýranna. Skulu fyrirmæli um slíkar aðgerðir gefin skriflega.

11. gr.

Nú er talið nauðsynlegt að gera ónæmisaðgerðir á loðdýrum til að girða fyrir eða hefta útbreiðslu smitsjúkdóma. Skal þá eingöngu nota efni sem landbúnaðarráðuneytið hefur viðurkennt. Bólusetja skal eftir reglum sem yfirdýralæknir setur. Bólusetningu annast héraðsdýralæknar eða menn undir þeirra umsjón, sem lært hafa meðferð bóluefnis og héraðsdýralæknar telja fullgilda til verksins.

Skýrslur um bólusetningu skal senda yfirdýralækni jafnskjótt og við verður komið. Skulu þær gerðar á sérstök eyðublöð sem hann afhendir héraðsdýralæknum.

Innflutning bóluefnis í þessu augnamiði annast Lyfjaverslun ríkisins eða Tilraunastöðin á Keldum. Öðrum er óheimill innflutningur. Skal Tilraunastöðin á Keldum sjá um að nauðsynleg lyf séu ætíð tiltæk.

Nú fyrirskipar landbúnaðarráðuneytið bólusetningu í tilteknu búi vegna yfirvofandi smithættu eða til varnar veiki sem upp hefur komið og skulu þá allir loðdýraeigendur er fyrirskipunin nær til veita næga aðstoð við bólusetningu ella skal kveða til aðstoðarfólk á þeirra kostnað. Kostnað við bólusetningu og bóluefni skulu eigendur loðdýrabúsins bera samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðuneytið setur.

12. gr.

Óheimilt er að flytja milli fjárskiptahólfa hráar sláturafurðir sem ætlaðar eru til fóðurs fyrir loðdýr nema með leyfi sauðfjárveikinefndar.

Til loðdýrafóðurs má eingöngu nota sláturafurðir af dýrum sem reynst hafa heilbrigð við slátrun.

Við alla meðferð loðdýrafóðurs úr sláturafurðum skal þess gætt að öðrum dýrategundum stafi ekki smithætta af fóðurleifum eða fóðri sem ekki er nýtt. Hræ af loðdýrum má ekki nota ósoðin sem fóður.

13. gr.

Ef hundapestar verður vart er heimilt að fyrirskipa bann á samgangi hunda á tilteknum svæðum tiltekinn tíma. Sama máli gegnir um flutning á loðdýrum á milli búa.

Hundaeigendur á þeim svæðum sem bannið nær til skulu gæta þess að halda hundum

sínum heima og forðast að þeir hafi samgang við aðra hunda eða komi nálægt loðdýrabúum. Ef út af ber eru hundar þeirra réttdræpir.

Um stofnun, gerð og rekstur loðdýrabúa.

14. gr.

Þeir sem óska að stofnsetja loðdýrabú skulu senda landbúnaðarráðuneytinu umsókn um það efni. Með umsókn skulu fylgja upplýsingar um menntun og reynslu þeirra sem eiga að sjá um hirðingu og meðferð dýranna. Umsóknum skulu einnig fylgja ítarlegar áætlanir um byggingu loðdýrabúsins, gerð þess, tæknilegan rekstur og fjármál svo og upplýsingar um hvaða dýr fyrirhugað er að rækta á búinu. Ennfremur skal fylgja umsókninni umsögn viðkomandi sveitarstjórnar, skipulagsnefndar og heilbrigðisnefndar.

Landbúnaðarráðuneytið veitir leyfi til stofnunar loðdýrabús að fenginni umsögn Búnaðarfélags Íslands. Heimilt er að binda leyfi við ákveðin stærðarmörk og miða fjölda ásetningardýra við að hirðing þeirra sé fullt starf tveggja manna. Leyfin skulu gefin út á sérstökum eyðublöðum þar sem tilgreindur er fjöldi og tegund dýra. Loðdýrarækt má þó ekki hefjast á búinu fyrr en trúnaðarmaður Búnaðarfélags Íslands og yfirdýralæknir hafa gert úttekt á byggingum, vörslu, búnaði og allri aðstöðu og gengið úr skugga um að gerð búsins fullnægi ákvæðum laga og reglugerða. Verði nefndir eftirlitsmenn eigi samdóma um hæfni búsins til móttöku á loðdýrum skal búseigandi bæta um svo samþykki fáist.

Óski loðdýrabóndi að stækka bú sitt umfram það sem tilgreint er í gildandi leyfi skal hann sækja um það til landbúnaðarráðuneytisins sem fer með þá umsókn á sama hátt og umsókn um ný leyfi.

Breytingar á húsum og stækkun á þeim skal taka út með sama hætti og nýjar byggingar.

15. gr.

Loðdýrabú skal hafa minnst tvöfalda vörn gegn því að dýr sem þar eru geti sloppið úr haldi. Dýr skulu ávallt vera í dýrheldum vírnetsbúrum, gerðum úr efni sem er viðurkennt af Byggingastofnun landbúnaðarins. Skálar skulu ávallt vera dýrheldir, úr viðurkenndum efnum. Inngangur í slíka skála skal vera nægilega rúmur, með tveim hurðum og þannig umbúið að ekki sé hægt að hafa ytri og innri dyr opnar samtímis. Um bú sem hafa fleiri en sem svarar eitt þúsund minkalæður eða 300 refalæður skulu og vera dýrheldar girðingar. Um þennan búnað og gerð skála skal fara eftir tillögum Búnaðarfélag Íslands og teikningum sem gerðar eru eða viðurkenndar hafa verið af Byggingastofnun landbúnaðarins.

Þar sem gömul hús eru tekin til loðdýraræktar skal eigandi eða forráðamaður afla sér teikninga af nauðsynlegum breytingum, þar á meðal gerð öryggisútbúnaðar, áður en framkvæmdir hefjast. Slíkar teikningar skulu samþykktar af Búnaðarfélagi Íslands og Byggingastofnun landbúnaðarins.

Ef byggingar hafa ekki fullt vörslugildi skal gera um þær dýrhelda girðingu. Girðingar skulu fullnægja þeim ákvæðum er hér fara á eftir um vörsluhæfni og þeim styrkleikamörkum sem ákveðin eru í stöðlum frá Byggingastofnun landbúnaðarins.

Girðing skal vera a. m. k. 4 m frá skólum og mishæðum. Stólpar girðinga skulu vera úr fúavörðu tré, steinsteypu eða "galvaniseruðu" járni og grafnir niður fyrir frost. Á stólpa skulu fest 3 langbönd.

Girðing um minkabú skal eigi vera lægri ofan jarðar en 160 cm. Grindin skal vera klædd að innanverðu með vírneti og nái klæðning a. m. k. 40 cm niður fyrir jarðaryfirborð. Beggja megin girðingar skal fyllt með grófri möl. Á efri brún girðingar að innanverðu skal setja 30 cm breiðan járn- eða álrenning.

Girðingar um refabú skulu vera minnst 180 cm háar, klæddar með vírneti úr minnst 1,65 mm gildum vír. Möskvar netsins mega ekki vera stærri en 60 mm. Yfir girðingarnetinu skal hafa loftskör úr sams konar neti og skal skörin mynda sem næst 120° horn við girðinguna innanverða. Neðan á girðinguna skal festa jarðskör úr sama efni og jafn breiða loftskörinni. Jarðskörin skal grafin í jörð skáhallt inn frá girðingunni.

Standi girðingar um loðdýrabú á klöpp skulu þær steyptar niður, þannig að þær veiti trygga vörslu og séu nægilega traustar.

Lokubúnaður göngudyra skal vera spennugormslokun eða annar álíka, þannig að hurð læsist um leið og henni er sleppt. Dyrum fyrir ökutæki skal lokað með rennihurðum (bílskúrshurðum) og skulu þær aðeins opnanlegar innanfrá.

Girðing um kanínubú skal vera a. m. k. 1,5 m á hæð og grafin í jörð, skáhallt inn, a. m. k. 25 cm eða búið þannig um að dýrin geti ekki grafið sig út úr girðingunni. Gildleiki vírsins skal eigi vera minni en 1,65 mm og möskvastærð eigi meiri en 5,2 cm.

16. gr.

Í hverju minkabúi skal vera hæfilegur fjöldi af hentugum gildrum og skulu sumar þeirra ávallt vera innan girðingar og til taks ef dýr sleppa út. Einnig skulu vera í hverju loðdýrabúi nokkrir háfar og tengur eða önnur hentug tæki til að fanga dýr sem sloppið hafa.

Í hverju loðdýrabúi er skylt að halda nákvæma skrá yfir öll dýr í búinu; lífdýr, hvolpa sem fæðast, svo og hvolpa og fullorðin dýr sem kunna að drepast. Öll dýr sem misfarast skal brenna eða grafa þegar í stað séu þau ekki send til rannsóknar.

Búnaðarfélag Íslands lætur prenta og sér um útgáfu gagna til skýrsluhalds og segir nánar fyrir um notkun þeirra. Trúnaðarmenn Búnaðarfélags Íslands skulu hafa aðgang að þessum skýrslum þegar þess er óskað.

Ýmis ákvæði.

17. gr.

Sala loðdýra innanlands er aðeins heimil til þeirra er hafa leyfi landbúnaðarráðuneytisins til reksturs loðdýrabús. Skal seljandi fullvissa sig um það. Því aðeins má selja lífdýr að dýrin hafi áður verið flokkuð af trúnaðarmanni Búnaðarfélags Íslands. Alla sölu skal skrásetja í þríriti. Heldur seljandi einu eintaki en kaupandi og Búnaðarfélag Íslands fá hvor sitt.

Flytja skal refi og minka í netbúrum og lokuðum flutningatækjum. Aldrei má flytja fullorðin dýr saman í búri og ekki fleiri en tvo hvolpa saman enda séu þeir yngri en þriggja mánaða.

Villt, íslensk loðdýr má eingöngu taka til eldis í sérstökum loðdýrabúum, að fengnu leyfi frá landbúnaðarráðuneytinu. Þeir sem veiða loðdýr lifandi í þessu skyni eiga ekki rétt til verðlauna af opinberu fé.

18. gr.

Héraðsdýralæknar og Búnaðarfélag Íslands skulu hafa samvinnu um strangt eftirlit með hreinlæti og fóðrun í loðdýrabúum. Skylt er eigendum eða umsjónarmönnum að fylgja eftirfarandi ákvæðum:

a. Fóðrun og þrif dýra skulu vera góð.

b. Óhreinindi sem setjast í búr og hreiðurkassa skal fjarlægja þegar í stað.

c. Gólf í loðdýrabúum skulu jafnan vera þurr, hrein og fóðurgangar steyptir.

d. Saur og úrgang skal fjarlægja það oft að ekki valdi raka eða ólofti. Úrgang skal geyma í sérstökum, steyptum þróm nema honum sé strax ekið í flög eða á völl.

e. Fóður skal geyma í sérstökum geymslum, blautfóður skal kæla eða frysta. Allar vélar sem notaðar eru við fóðurgerð skal hreinsa daglega eftir notkun. Í fóðurgerðarhúsum skulu veggir og gólf sléttpússuð svo auðvelt sé að halda þeim hreinum með vatnsskolun.

f. Rottum, músum, flóm, flugum og fuglum skal útrýma úr loðdýrabúum ef þeirra verður vart. Bannað er að hafa hunda og ketti í loðdýrabúum.

19. gr.

Bannað er að gera loðdýrum í loðdýrabúum ónæði.

Valdi óviðkomandi menn skemmdum á loðdýrabúum eða geri ónæði sem veldur tjóni varðar það sektum og bótaábyrgð.

Óheimilt er að fara í loðdýrabú nema með leyfi eiganda eða umsjónarmanns. Loðdýrabú skulu vera læst með lás þegar ekki er verið að starfa í þeim.

20. gr.

Loðdýr skal aflífa með eins skjótum hætti og unnt er og þess gætt að valda þeim sem minnstum sársauka eða kvölum. Yfirdýralæknir setur reglur um lyf til notkunar við aflífun loðdýra, afhendingu slíkra lyfja, varðveislu þeirra og annað er máli skiptir.

21. gr.

Óheimilt er að reisa loðdýrabú í minna en 500 m fjarlægð frá mannabústöðum eða vinnustöðum annarra en sjálfs búsins. Í strjálbýli er heimilt að reisa loðdýrabú nær mannabústöðum á aðliggjandi bújörðum með samþykki hlutaðeigandi ábúenda og/eða eigenda. Að öðru leyti skal farið að fyrirmælum heilbrigðisnefndar um staðsetningu, sbr. breytingu frá 12. maí 1982 á 3. málsgr. 162. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 45/1972.

Vanda skal staðarval loðdýrabúa. Jarðvegur skal vera þurr, t. d. melar, holt eða hraun, þar sem ekki er hætta á að vatn safnist fyrir.

Varast skal staði þar sem gætir sjóroks, aðfennis eða óeðlilegs hávaða, t. d. frá flugvélum, þungavinnuvélum, grjótnámi eða umferð.

22. gr.

Sleppi loðdýr úr vörslu skal sá sem vörsluna annast þegar í stað gera gangskör að því að handsama eða veiða dýrin. Jafnframt skal hann tilkynna hvarfið án tafar til veiðistjóra og viðkomandi lögreglustjóra.

Sé út af brugðið varðar það sektum til ríkissjóðs.

23. gr.

Einstaklingar þeir og félög sem fengið hafa leyfi til loðdýraræktar og loðdýrarækt stunda skulu stofna til landssamtaka sem beiti sér fyrir fræðslu meðal félagsmanna og stuðli að kynbótum og bættri arðsemi loðdýraræktar. Félagið gæti hagsmuna atvinnugreinarinnar í hvívetna. Landbúnaðarráðuneytið skal staðfesta lög félagsins.

Búnaðarfélag Íslands annast leiðbeiningaþjónustu í loðdýrarækt.

24. gr.

Hafi aðili fengið leyfi til að stofna loðdýrabú skal honum skylt, áður en dýr eru flutt í búið, að leita viðurkenningar eftirlitsmanns Búnaðarfélags Íslands og viðkomandi héraðsdýralæknis um að loðdýrabúið sé svo úr garði gert að vel sé. Verði nefndir eftirlitsaðilar eigi samdóma um búnað búsins til móttöku á loðdýrum skal búseigandi bæta um svo samþykki fáist.

25. gr.

Sé út af ákvæðum reglugerðar þessarar brugðið þannig að eftirlitsaðilar, trúnaðarmaður Búnaðarfélags Íslands og viðkomandi héraðsdýralæknir telji að svipta beri viðkomandi aðila leyfi sínu til loðdýraræktar og/eða taka dýr úr vörslu þeirra ber þeim að tilkynna landbúnaðarráðuneytinu það.

Ráðuneytið felur viðkomandi lögregluyfirvöldum að framkvæma viðeigandi aðgerðir.

26. gr.

Brot gegn reglugerð þessari, sem ekki er sérstaklega mælt fyrir um í greinum hér að framan, varða sektum til ríkissjóðs nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Ítrekuð, alvarleg brot af ásetningi eða stórfelldu gáleysi skulu jafnframt valda leyfishafa

eða vörslumanni réttindamissi til að reka loðdýrabú.

Fara skal með mál út af brotum á reglugerð þessari að hætti opinberra mála.

27. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 53 frá 29. maí 1981 um loðdýrarækt, lögum nr. 11 frá 23. apríl 1928 um varnir gegn því að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins, lögum nr. 77 frá 1. október 1981 um dýralækna og lögum nr. 74 frá 28. apríl 1962 um innflutning búfjár og öðlast gildi þegar í stað og birtist þeim sem hlut eiga að máli.

Jafnframt er úr gildi fallin reglugerð um sama efni frá 16. nóvember 1969.

Landbúnaðarráðuneytið, 22. júlí 1982.

Pálmi Jónsson.

Haukur Jörundarson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica