Landbúnaðarráðuneyti

165/2007

Reglugerð um aðbúnað og meðferð minka og refa. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið og tilgangur.

Reglugerð þessi gildir um minka og refi sem eru loðdýr sem alin eru vegna verðmætis skinnanna. Um kanínurækt gildir reglugerð nr. 557/1998.

Tilgangur þessarar reglugerðar er að tryggja góðan aðbúnað, og meðferð minka og refa sem aldir eru í loðdýrahúsum vegna verðmætis skinnanna.

2. gr.

Yfirstjórn.

Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til.

Landbúnaðarstofnun er ráðherra til aðstoðar og ráðgjafar og hefur undir sinni stjórn dýralækni loðdýrasjúkdóma. Landbúnaðarstofnun skal vinna að bættu heilbrigði loðdýra og sjúkdómavörnum, með sértækum aðgerðum, almennri fræðslu, og leiðbeiningar- og forvarnastarfi. Stofnunin skal hafa frumkvæði að framkvæmd nauðsynlegra rannsókna og sýnatöku í samvinnu við sérfræðinga. Stofnunin skal hafa eftirlit með aðbúnaði og innflutningi minka og refa og sóttkví þeirra.

3. gr.

Leyfi til að halda minka og/eða refi.

Það er leyfisskylt að halda minka og/eða refi.

Sækja skal um leyfi til Landbúnaðarstofnunar til að reka minka- eða refabú. Óheimilt er að hefja minka- eða refarækt, m.a. taka dýr í hús, fyrr en Landbúnaðarstofnun hefur veitt leyfi til að halda minka og/eða refi á búinu, að undangenginni skoðun á því hvort aðstaða á búi, húsakostur, búragerð o.fl. fullnægi ákvæðum reglugerðar þessarar.

Komi í ljós að aðstaða á fyrirhuguðu loðdýrabúi fullnægir ekki ákvæðum reglu­gerðar­innar skal Landbúnaðarstofnun krefjast skriflega nauðsynlegra lagfæringa og úrbóta innan ákveðins frests.

Landbúnaðarstofnun skal hafa samráð við Umhverfisstofnun, ef þess er talin þörf.

4. gr.

Búfjáreftirlit, tilkynningarskylda.

Í samræmi við reglugerð um búfjáreftirlit o.fl. nr. 743/2002 sinna búfjáreftirlitsmenn reglubundnu eftirliti með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé fylgt.

Hver sá sem verður var við að eiganda eða umráðamann refa eða minka skorti fóður eða viðeigandi aðbúnað fyrir dýrin, hann vanhirði þau, beiti þau harðýðgi, eða hætta er á að þau sleppi út í náttúruna, skal tilkynna það Landbúnaðarstofnun (héraðsdýralækni). Berist slíkar upplýsingar til dýralæknis, búfjáreftirlitsmanns, búnaðarsambands eða lögreglu skal tilkynna það Landbúnaðarstofnun samdægurs. Stofnunin skal þá innan tveggja sólarhringa fara á staðinn og meta ástand dýranna í samræmi við 16. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.

5. gr.

Aðgerðir ef vörsluheldni búa er ófullnægjandi.

Komi í ljós við skoðun Landbúnaðarstofnunar og héraðsráðunauts, skv. 16. gr. laga um búfjárhald o.fl., að veruleg hætta sé á því að refir eða minkar sleppi úr loðdýrahúsi út í náttúruna skulu Landbúnaðarstofnun og héraðsráðunautur gefa umráðamanni dýranna skrifleg fyrirmæli um ráðstafanir telji þeir það nauðsynlegt og upplýsa sveitarstjórn um málið. Veita skal mest þriggja vikna frest til úrbóta en fresturinn skal vera til muna styttri ef brýnna aðgerða er þörf til að bæta vörsluheldni. Gefa skal umráðamanni búfjár mest fjögurra sólarhringa frest til andmæla. Upplýsa skal sveitarstjórn um málið.

Virði umráðamaður refa eða minka ekki þær ráðstafanir sem lagðar voru fyrir, eða geti hann ekki orðið við þeim, og/eða Landbúnaðarstofnun telur að úrbætur þoli ekki bið, skal stofnunin krefjast þess við lögreglustjóra að hann beiti sér fyrir því að dýrin verði aflífuð eða vörslusvipting fari fram.

Lögreglustjóri skal tilkynna umráðamanni að til standi að aflífa dýrin, að fjórum dögum liðnum. Samhliða þessu skal lögreglustjóri gefa sveitarstjórn tækifæri til að taka að sér vörslu dýranna eða afla samþykkis umráðamanns til að bæta úr aðstæðum á búinu. Hafi nauðsynlegar úrbætur ekki verið gerðar að liðnum fjögurra daga lokafresti skal lögreglustjóri, í samráði við Landbúnaðarstofnun, láta aflífa öll þau dýr á búinu sem hætta er á að sleppi út í náttúruna.

6. gr.

Svipting leyfis til að halda mink og ref.

Ef framleiðandi fullnægir ekki skilyrðum, sem sett eru í þessari reglugerð skal Landbúnaðarstofnun krefjast úrbóta skriflega þar sem tilgreind eru þau atriði sem lagfæra þarf. Landbúnaðarstofnun skal gefa framleiðanda hæfilegan, tímabundinn frest til nauðsynlegra lagfæringa og endurbóta. Telji Landbúnaðarstofnun eftir að veittur frestur er liðinn, ástand á búinu enn óviðunandi, skal stofnunin veita stuttan lokafrest til úrbóta. Ef viðhlítandi úrbætur hafa ekki verið gerðar að lokafresti liðnum skal Land­búnaðar­stofnun svipta framleiðanda leyfi til þess að halda minka og refi.

Hafi verið gripið til vörslusviptingar eða aflífunar með heimild í 5. gr. þá er það full­nægjandi grundvöllur leyfissviptingar samkvæmt þessari grein.

Leyfissviptingin tekur gildi að liðnum mánuði frá því að hún var tilkynnt umráðamanni dýranna.

7. gr.

Varnir gegn því að dýr sleppi úr búum.

Loðdýrabú skal hafa minnst tvöfalda vörn gegn því að dýr sem þar eru vistuð geti sloppið úr haldi. Dýr skulu ávallt vera í dýrheldum búrum. Skálar skulu ávallt vera dýrheldir með neti í öllum opnanlegum fögum. Inngangur í loðdýrabú skal vera tvöfaldur, þ.e.a.s. í gegnum opið svæði með dyrum sem opnast inn og út. Dyrnar skulu búnar sjálfvirkum lokunarbúnaði, t.d. spennugormsbúnaði, þannig að hurð falli að dyrastöfum um leið og henni er sleppt. Aldrei skulu báðar dyrnar vera opnar samtímis.

8. gr.

Öryggisráðstafanir.

Í hverju minkabúi skal vera hæfilegur fjöldi af hentugum gildrum til taks ef dýr sleppa út. Einnig skulu í hverju loðdýrabúi vera nokkrir háfar og tangir eða önnur hentug tæki til að fanga dýr sem sloppið hafa innanhúss.

Í hverju loðdýrabúi er skylt að halda nákvæma skrá yfir öll dýr í búinu, lífdýr og hvolpa. Landbúnaðarstofnun og búfjáreftirlitsmenn skulu hafa aðgang að skránni þegar þess er óskað.

Sleppi minkur eða refur úr vörslu skal sá sem vörsluna annast þegar í stað reyna að handsama eða veiða dýrið og tilkynna hvarfið til Umhverfisstofnunar.

9. gr.

Aðbúnaður og meðferð minka og refa.

Á minka- og refabúum skal fylgt eftirfarandi fyrirmælum:

  1. Óhreinindi sem setjast í búr og hreiðurkassa skulu fjarlægð. Hús skulu vera þrifaleg og skulu gólf vera þurr og hrein.
  2. Saur og úrgang skal fjarlægja það oft að ekki valdi raka eða ólofti, hvorki innan- né utandyra. Hauggeymsla skal fullnægja ákvæðum reglugerðar nr. 804/1999 um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri, með síðari breytingum.
  3. Fóður skal geyma og meðhöndla í samræmi við góða búskaparhætti svo það liggi ekki undir skemmdum eða geti reynst heilsuspillandi.
  4. Meindýrum skal leitast við að halda í skefjum með öllum tiltækum ráðum. Heimilt er að hafa hunda og ketti í loðdýrahúsum séu þeir bólusettir í samræmi við leiðbeiningar Landbúnaðarstofnunar.
  5. Notkun vaxtarhormóna og pelsmótunarefna, t.d. melatonins, er ekki heimil. Óheimilt er að nota hverskonar sýklalyf að staðaldri í fóður fyrir minka eða refi.
  6. Minkar skulu hafa aðgang að þurrum hreiðurkassa allt árið og skal frá þeim gengið með heyi, hálmi eða öðru einangrandi efni.

10. gr.

Minka- og refahús.

Óheimilt er að gera loðdýrum í loðdýrabúum ónæði að óþörfu. Eftirlit skal haft með loðdýrum, að minnsta kosti einu sinni á dag. Þetta skal gert með þeim hætti að ekki komi órói eða ótti að dýrunum. Séu fleiri en eitt dýr í hverju búri skal hafa aukið eftirlit með þeim. Dýr sem ekki sættast skulu aðskilin.

Óheimilt er að fara inn í refa- eða minkabú nema með leyfi eiganda eða umsjónarmanns.

Loðdýrabú skulu hafa það breiða fóðurganga að gott sé að hafa eftirlit með dýrum. Þau skulu hafa góða lýsingu t.d. glugga sem hleypa dagsbirtu inn og þau skulu vera vel loftræst.

Ákvæði skipulagslöggjafar gilda um byggingu minka- og refabúa, m.a. um fjarlægð þeirra frá vatnsbólum.

11. gr.

Kröfur um búragerð og efni í búr.

Búr skulu ætíð þannig gerð að dýrin geti ekki skaðað sig á oddhvössum eða ófrá­gengnum brúnum eða köntum.

Búr skulu smíðuð úr efnum sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa og almennt eru notuð og seld á opinberum mörkuðum til búragerðar fyrir minka og refi.

Búr fyrir refi og minka skulu fullnægja skilyrðum þeim sem sett eru fram í viðauka I með reglugerð þessari.

12. gr.

Sjúkdómavarnir.

Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að dýr sé haldið smitsjúkdómi sem lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, taka til, ber að tilkynna það Landbúnaðarstofnun eða lögreglu. Um rannsókn og meðhöndlun málsins, þ.m.t. niðurskurð eða ónæmisaðgerðir, fer eftir ákvæðum þeirra laga.

13. gr.

Dýravernd.

Aflífun og pelsun refa og minks má aðeins framkvæma utan augsýnar annarra dýra og á máta sem hræðir þau ekki. Ref og mink má ekki flá á næstu fimm mínútum eftir aflífun.

Dýr skal fóðra að minnsta kosti einu sinni á dag. Fóður þeirra og vatn skal fullnægja næringarþörf þeirra og má ekki innihalda óásættanlegt magn baktería og heilsuspillandi efna.

Villt loðdýr er óheimilt að taka til eldis í refa- eða minkabúi.

Landbúnaðarstofnun annast eftirlit með allri fóðurframleiðslu fyrir minka og refi. Hræ af loðdýrum má ekki nota sem fóður handa minkum eða refum.

14. gr.

Blóðprufur.

Öllum minkabændum ber skylda til að taka blóðprufur vegna plasmacytoses á hverju ári, fyrir 15. september, samkvæmt fyrirmælum Landbúnaðarstofnunar. Taki viðkomandi bóndi ekki umræddar prufur þrátt fyrir ítrekun, getur Landbúnaðarstofnun látið vinna verkið á kostnað bóndans. Einungis eru heimil viðskipti með lifandi mink ef bæði kaupandi og seljandi geta sannað með blóðprófunum að bú þeirra hafi verið laust við plasmacytoses síðastliðin 3 ár.

15. gr.

Girðingar.

Eftir gildistöku þessarar reglugerðar skulu öll refa- og minkabú vera með tvöfaldar varnir skv. 7. gr. Heimilt er þó að stunda framleiðslu í húsum sem við gildistöku þessarar reglugerðar hafa ekki fullt vörslugildi hafi húsin þess í stað dýrheldar girðingar.

Skal hlið á girðingunum vera tvöfalt með opnu rými á milli hliðanna sem sé það stórt að það rúmi vélar sem þarf að nota við losun, t.d. haugs. Girðingarnar skulu gerðar samkvæmt teikningum sem Landbúnaðarstofnun hefur viðurkennt.

Girðingar skulu vera að lágmarki 4 m frá skálum og mishæðum. Stólpar girðinga skulu vera úr fúavörðu tré, steinsteypu eða ,,galvaniseruðu" járni og grafnir niður fyrir frost. Á stólpa skulu fest 3 langbönd.

Girðingar um minkabú skulu að lágmarki vera 160 sm ofan jarðar. Grindin skal vera klædd að innanverðu með vírneti og klæðningin skal ná a.m.k. 40 sm niður fyrir jarðaryfirborð. Beggja vegna girðingar skal fyllt með grófri möl. Á efri brún girðingar að innanverðu skal setja 30 sm breiðan járn- eða álrenning.

Girðingar um refabú skulu vera minnst 180 sm háar, klæddar með vírneti úr minnst 1,65 mm gildum vír. Möskvar netsins mega ekki vera stærri en 60 mm. Yfir girðingarnetinu skal hafa loftskör úr sams konar neti og skal skörin mynda sem næst 120° horn við girðinguna innanverða. Neðan á girðinguna skal festa jarðskör úr sama efni og jafn breiða loftskörinni. Jarðskörin skal grafin í jörð skáhallt inn frá girðingunni.

Standi girðingar um loðdýrabú á klöpp skulu þær steyptar niður, þannig að þær veiti trygga vörslu og séu nægilega traustar.

16. gr.

Refsiákvæði og gildistaka.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsiviðurlögum skv. 18. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald, með síðari breytingum. Hafi búfjáreigandi gerst sekur um illa meðferð á minkum eða refum skal honum bannað að eiga eða halda búfé. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. tl. 17. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. og öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 444/1982 um loðdýrarækt og innflutning loðdýra með síðari breytingum.

17. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir framleiðendur sem halda minka eða refi við gildistöku reglugerðar þessarar uppfylla sjálfkrafa skilyrði 3. gr. um leyfi til að halda minka eða refi.

Í eitt ár frá gildistöku reglugerðar þessarar hefur ráðherra heimild til að veita undan­þágur frá ákvæðum viðauka I um búrastærðir.

Landbúnaðarráðuneytinu, 15. febrúar 2007.

Guðni Ágústsson.

Arnór Snæbjörnsson.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica