REGLUGERÐ
um endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts af neyslufiski.
1. gr.
Upphafsákvæði.
Endurgreiða skal fiskverslunum hluta virðisaukaskatts af neyslufiski eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð þessari.
2. gr.
Neyslufiskur sem endurgreiðsla tekur til.
Eftirtalinn neyslufiskur fellur undir endurgreiðsluákvæði reglugerðar þessarar: Ýsa, þorskur, ufsi, steinbítur, karfi, langa, keila, lúða, koli, skata, skötuselur, rauðmagi og grásleppa, sem fiskheildsalar eða eftir atvikum smásalar með fisk kaupa nýjan, saltaðan, reyktan eða siginn til endursölu eða frekari vinnslu innanlands.
3. gr.
Aðilar sem fá endurgreiðslu.
Eftirtaldir aðilar fá endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari, enda selji þeir neyslufisk sem um ræðir í 2. gr.: Heildverslanir með fisk sem kaupa óunninn fisk beint af fiskmarkaði, frá fiskvinnslufyrirtæki eða útgerðaraðila. Fisksalar (smásalar) og matvöruverslanir, sem m.a. selja fisk í smásölu, fá þó endurgreiðslu ef þessir aðilar kaupa óunninn fisk beint af fiskmarkaði, frá fiskvinnslufyrirtæki eða útgerðaraðila, en ekki af heildverslun.
Þeim sem um ræðir í 1. mgr. er skylt að nýta endurgreiðslufjárhæðina að fullu til frádráttar söluverði sínu á neyslufiski sem þeir selja og endurgreiðsla tekur til.
4. gr.
Endurgreiðsluhlutfall.
Endurgreiðsla vegna neyslufisks, sbr. 1. mgr. 2. gr., skal nema 10,97% af verði hans til fiskverslana, sbr. 1. mgr. 3. gr. vegna endurgreiðslutímabilsins janúar-febrúar 1994.
Ákvæði um skattverð í III. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, gilda um heildsöluverð og smásöluverð samkvæmt þessari grein. Endurgreiðsla samkvæmt reglugerð þessari telst þó ekki til skattverðs í þessu sambandi.
5. gr.
Endurgreiðslubeiðni.
Aðilar sem um ræðir í 3. gr. skulu eigi síðar en 10. dag hvers mánaðar senda viðkomandi skattstjóra greinargerð um sölu sína eða kaup í síðastliðnum mánuði á neyslufiski sem um ræðir í 2. gr.
Greinargerð skv. 1. mgr. skal vera á sérstöku eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
6. gr.
Afgreiðsla endurgreiðslubeiðni.
Skattstjóri skal rannsaka endurgreiðslubeiðni og leiðrétta hana ef hún er í ósamræmi við reglugerð þessa eða önnur fyrirmæli skattyfirvalda. Skattstjóri skal tilkynna innheimtumanni ríkissjóðs um samþykki sitt til endurgreiðslu. Innheimtumaður annast endurgreiðslu.
Hafi beiðni um endurgreiðslu verið skilað á tilskildum tíma skal endurgreiðsla fara fram innan fimmtán daga frá lokum skilafrests. Frestur þessi framlengist þó ef skattstjóri getur, vegna atvika sem rekja má til umsækjanda, ekki gert nauðsynlegar athuganir á gögnum þeim sem beiðnin byggist á. Endurgreiðslubeiðnir sem berast eftir lok skilafrests skulu afgreiddar með greinargerð næsta mánaðar.
Endurgreiðsla má því aðeins fara fram að ákvörðun um virðisaukaskatt liggi fyrir vegna fyrri tímabila. Kröfu um vangreiddan virðisaukaskatt ásamt álagi og dráttarvöxtum skal skuldajafna á móti endurgreiðslu.
Komi í ljós að endurgreiðsla samkvæmt reglugerð þessari hafi verið of há skal skattstjóri þegar í stað tilkynna aðila og innheimtumanni ríkissjóðs þar um. Um álag og dráttarvexti vegna of hárrar endurgreiðslu fer samkvæmt 27. og 28. gr. laga um virðisaukaskatt.
7. gr.
Færslur í bókhald og ársreikning.
Sá sem fær endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar skal færa hana á sérstakan tekjureikning í bókhaldi sínu. Þá skal endurgreiðslan tilgreind annað hvort sérstaklega í ársreikningi sem fylgir skattframtali eða í skýringum með honum.
Að öðru leyti gildir eftir því sem við getur átt, reglugerð nr. SO/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.
8. gr.
Viðurlagaákvæði.
Röng skýrslugjöf eða framlagning rangra eða villandi gagna, svo og röng upplýsingagjöf látin í té í því skyni að fá endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, varðar við 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
9. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, er sett með heimild í ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 122/ 1993, um breytingar í skattamálum og 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og öðlast gildi 1. janúar 1994 og gildir til 28. febrúar 1994. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 637/1989, um endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts af matvöru o.fl.
Fjármálaráðuneytið, 31. desember 1993.
F.h.r
Snorri Olsen.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir