Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

101/1998

Reglugerð um málflutningsréttindi erlendra lögmanna o.fl. - Brottfallin

1. gr.

                Dómsmálaráðherra getur veitt ríkisborgara í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES-ríki) og hefur málflutningsréttindi í einhverju þeirra ríkja, öðru en Íslandi, leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi hér á landi, án þess að uppfyllt séu skilyrði 6. tl. 1. mgr. 14. gr. laga um málflytjendur, enda standist hann prófraun sem sýni að hann hafi næga þekkingu á íslenskum lögum og vald á íslenskri tungu.

                Með málflutningsréttindum er átt við starfsheiti þau sem tilgreind eru í reglugerð um rétt lögmanna frá öðru EES-ríki til að veita tímabundna þjónustu á Íslandi, nr. 625 6. desember 1995.

2. gr.

                Umsókn um leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi skal senda dómsmálaráðherra. Með umsókn skal fylgja:

                1.             Staðfesting á ríkisfangi.

                2.             Frumrit eða staðfest afrit af gögnum um starfsréttindi umsækjanda í heimalandi hans og staðfesting á að þau séu gild á þeim tíma sem umsókn er lögð fram.

                Telji dómsmálaráðherra umsækjanda uppfylla skilyrði til að þreyta prófraun gefur hann út staðfestingu þess efnis.

3. gr.

                Prófnefnd, sem dómsmálaráðherra skipar til 4 ára í senn, annast próf lögmanna frá EES-ríki, sem óska leyfis til málflutnings hér á landi, og hafa fengið staðfestingu dómsmálaráðherra um að þeir uppfylli skilyrði til að þreyta prófraun. Í nefndinni eiga sæti þrír menn, einn skipaður eftir tilnefningu Lögmannafélags Íslands, annar samkvæmt tilnefningu lagadeildar Háskóla Íslands, og þriðji skipaður án tilnefningar. Skipa skal jafnmarga varamenn á sama hátt. Ráðherra skipar nefndinni formann og varaformann.

                Prófnefnd metur hvort prófraun skuli bæði vera skrifleg og munnleg. Skal prófraunin ná til þeirra verkefna og þeirra greina bóknáms sem helst varða lögmannsstörf hér á landi, svo og til siðareglna lögmanna. Ávallt skal prófað í íslensku réttarfari. Próf skulu fara fram á íslensku.

                Prófnefnd er heimilt að skipuleggja námskeið til undirbúnings prófraun. Henni er heimilt að fela lagadeild Háskóla Íslands og Lögmannafélagi Íslands að annast einstaka þætti námskeiðs og prófraunar.

                Dómsmálaráðherra ákveður gjald sem umsækjendur greiða fyrir námskeið og prófraun. Skal fjárhæð þess taka mið af kostnaði við námskeið og aðra framkvæmd prófraunar.

                Prófnefnd tilkynnir dómsmálaráðherra um niðurstöðu prófraunar.

4. gr.

                Óski lögmaður, sem hefur málflutningsréttindi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, eftir leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi hér á landi á grundvelli málflutningsréttinda sinna, metur dómsmálaráðherra umsókn hans á grundvelli framlagðra gagna.

                Leyfisveiting skal háð því skilyrði að ríki, sem veitt hefur umsækjanda málflutningsréttindi, veiti íslenskum málflytjendum sambærileg réttindi með samsvarandi hætti.

                Um umsókn hans gilda að öðru leyti ákvæði þessa kafla eftir því sem við á.

II. Heimild til að starfa sem fulltrúi lögmanns.

5. gr.

                Ríkisborgari frá EES-ríki, sem óskar eftir að starfa sem fulltrúi héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanns hér á landi, skv. 3. gr. laga um málflytjendur, og sem lokið hefur prófi í lögfræði við háskóla í öðru EES-ríki en Íslandi, getur sótt um til dómsmálaráðherra að fá viðurkennt að hið erlenda próf sé sambærilegt embættisprófi í lögum við Háskóla Íslands og um staðfestingu á að hann hafi næga þekkingu á íslenskum lögum.

                Með umsókn skal fylgja:

                1.             Staðfesting á ríkisfangi.

                2.             Frumrit eða staðfest afrit af prófskírteini umsækjanda í lögum við erlendan háskóla.

                Telji dómsmálaráðherra umsókn fullnægjandi leggur hann fyrir prófnefnd, skv. 3. gr., að meta hvort umsækjandi hafi næga þekkingu á íslenskum lögum og vald á íslenskri tungu. Skal prófnefnd við mat sitt hafa hliðsjón af tilskipun 89/48 EBE um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár og samningi frá 24. október 1990 milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um norrænan vinnumarkað fólks með minnst þriggja ára æðri menntun sem veitir starfsréttindi.

                Að fenginni umsögn prófnefndar metur ráðherra hvort skilyrði séu fyrir hendi til að gefa út vottorð skv. 2. mgr. 3. gr. laga um málflytjendur.

6. gr.

                Óski lögfræðingur, sem lokið hefur lagaprófi utan Evrópska efnahagssvæðisins eftir að starfa sem fulltrúi lögmanns hér á landi, metur dómsmálaráðherra umsókn hans á grundvelli framlagðra gagna.

                Um umsókn hans gilda að öðru leyti ákvæði þessa kafla eftir því sem við á.

III. Gildistaka.

7. gr.

                Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 3. og 14. gr. laga um málflytjendur, nr. 61/1942, sbr. lög nr. 133/1993, og 4. gr. laga um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum nr. 83/1993, svo og með hliðsjón af 1. tölul. VII. viðauka við EES samninginn (tilskipun 89/48/EBE), öðlast þegar gildi.

                EBE gerðin, sem vísað er til, er birt í sérritinu EES gerðir S34, sbr. auglýsingu nr. 31/1993 í C-deild Stjórnartíðinda.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 16. febrúar 1998.

Þorsteinn Pálsson.

Jón Thors.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica