Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

900/2004

Reglugerð um veitingu héraðsdómslögmannsréttinda til erlendra lögmanna. - Brottfallin

I. KAFLI
Lögmenn frá EES eða EFTA.
1. gr.

Ríkisborgari í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES-ríki) eða Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), öðru en Íslandi, sem hefur öðlast lögmannsréttindi í heimaríki sínu getur öðlast héraðsdómslögmannsréttindi hér á landi að uppfylltum skilyrðum þeim sem í reglugerð þessari greinir. Með heimaríki er átt við EES-ríki eða EFTA-ríki þar sem lögmaðurinn öðlaðist rétt til að nota eitthvert þeirra starfsheita sem talin eru í 2. gr.


2. gr.

Starfsheiti lögmanna skv. 1. gr. sem reglugerð þessi tekur til eru eftirfarandi:

í Austurríki Rechtsanwalt
í Belgíu Avocat/Advocaat/Rechtsanwalt
í Danmörku Advokat
í Eistlandi Vandeadvokaat
í Finnlandi Asianajaja/Advocat
í Frakklandi Avocat
í Grikklandi Dikhgoroq (Dikigoros)
í Hollandi Advocaat
í Írlandi Barrister/Solicitor
á Ítalíu Avvocato
á Kýpur Δικηgóroç
í Lettlandi Zvērinats advokāts
í Liechtenstein Rechtsanwalt
í Litháen Advokatas
í Luxembourg Avocat
á Möltu Avukat/Prokuratur Legali
í Noregi Advokat
í Portúgal Advogado
í Póllandi Adwokat/Radca prawny
í Slóveníu Odvetnik/Odvetnica
í Slóvakíu Advokát/Komercný právnik
á Spáni Abogado/Advocat/Avogado/Abokatu
í Stóra-Bretlandi Advocate/Barrister/Solicitor
í Sviss Avocat/Advokat, Rechtsanwalt, Anwalt, Fürsprecher, Fürsprech/Avvocato
í Svíþjóð Advokat
í Tékklandi Advokát
í Ungverjalandi Ügyvéd
í Þýskalandi Rechtsanwalt


3. gr.

Lögmaður, sem hefur heimild til að nota starfsheiti samkvæmt 2. gr., og óskar eftir við dómsmálaráðuneytið að öðlast héraðsdómslögmannsréttindi hér á landi skal uppfylla skilyrði 1.-3. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um lögmenn, hafa þekkingu á meginreglum íslenskra laga og réttarkerfis og hafa nægjanlega kunnáttu og vald á íslenskri tungu til að geta flutt mál fyrir dómi.

Með umsókn hans skv. 1. mgr. skulu fylgja gögn um ríkisborgararétt hans og starfsréttindi og staðfesting, eigi eldri en tveggja mánaða, um að hann sé skráður með lögmannsréttindi hjá lögbæru yfirvaldi í heimaríki sínu. Hann skal einnig leggja fram gögn sem sýna að hann uppfylli skilyrði 1.-3. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um lögmenn. Séu skilyrði uppfyllt gefur ráðuneytið út staðfestingu á að honum sé heimilt að þreyta prófraun skv. 4. gr.


4. gr.

Prófnefnd skv. 1. mgr. 7. gr. laga um lögmenn skal meta þekkingu og kunnáttu umsækjanda á þeim atriðum sem talin eru í 1. mgr. 3. gr. Skal nefndin prófa þekkingu umsækjanda í helstu greinum bóknáms sem varða lögmannsstörf hér á landi og í siðareglum lögmanna. Prófraunin skal vera bæði munnleg og skrifleg og fara fram á íslensku.

Umsækjandi skal greiða gjald fyrir prófraunina, sem ákveðið er af ráðherra, og greiðist við útgáfu staðfestingar samkv. 3. gr. Gjaldið skal miðað við að það standi undir kostnaði við prófraunina, þar með talin laun prófnefndarmanna.

Meti prófnefnd þekkingu og kunnáttu umsækjanda fullnægjandi má veita honum réttindi sem héraðsdómslögmaður.


II. KAFLI
Lögmenn utan EES eða EFTA.
5. gr.

Óski lögmaður sem hefur lögmannsréttindií ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða EFTA eftir leyfi til að vera héraðsdómslögmaður á grundvelli lögmannsréttinda sinna metur dómsmálaráðherra umsóknina á grundvelli framlagðra gagna. Umsækjandi skal ávallt þreyta prófraun skv. 4. gr.

Leyfisveiting skal ætíð háð því skilyrði að ríki það sem veitti umsækjanda lögmannsréttindi veiti íslenskum lögmanni sambærileg réttindi með samsvarandi hætti.


III. KAFLI
Gildistaka.
6. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 6. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998 og 4. gr. laga um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, nr. 83/1993, sbr. tilskipun 89/48/EBE, sem vísað er til í 1. tölul. VII. viðauka við saminginn um Evrópska efnahagssvæðið, og með hliðsjón af tilskipun 77/249/EBE og tilskipun 98/5/EC, sem vísað er til í 2. tl. og 2. tl. a. VII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 101/1998 um málflutningsréttindi erlendra lögmanna o.fl.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 10. nóvember 2004.

Björn Bjarnason.
Bryndís Helgadóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica