Sveitarfélög annast framkvæmd laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, með síðari breytingum, og reglugerðar þessarar.
Grunnfjárhæðir húsaleigubóta skal ákvarða þannig, að grunnstofn til útreiknings húsaleigubóta á mánuði skal vera 8.000 kr. fyrir hverja íbúð. Að auki bætast við 7.000 kr. fyrir fyrsta barn, 6.000 kr. fyrir annað og 5.500 kr. fyrir þriðja. Til viðbótar koma 15% þess hluta leigufjárhæðar er liggur á milli 20.000 – 50.000 kr.
Húsaleigubætur samkvæmt grunnfjárhæðum 1. mgr. geta þó aldrei orðið hærri en sem nemur 50% af leigufjárhæð, að hámarki 31.000 kr. á mánuði.
Húsaleigubætur skerðast óháð fjölskyldustærð í hverjum mánuði um 1% af árstekjum umfram 2,0 millj. kr., sbr. 9. gr. laga um húsaleigubætur.
Að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga tekur félagsmálaráðherra ákvörðun um breytingar á grunnfjárhæðum bóta, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um húsaleigubætur.
Umsókn um húsaleigubætur skal skilað til viðkomandi sveitarfélags á sérstöku þar til gerðu eyðublaði er félagsmálaráðuneytið hefur útbúið í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Eyðublöðin skulu liggja frammi almenningi til afnota, hjá félagsþjónustu og/eða á skrifstofum viðkomandi sveitarfélaga, hjá samtökum leigusala og leigjenda, Íbúðalánasjóði og annars staðar þar sem ástæða þykir til.
Sækja þarf um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og gildir umsóknin til ársloka.
Umsókn um húsaleigubætur skal hafa borist sveitarfélagi eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Berist umsókn síðar verða húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar.
Sé umsókn ófullnægjandi eða henni fylgja ekki nauðsynleg gögn koma bætur ekki til greiðslu í næsta mánuði á eftir, en réttur til bóta miðast hins vegar við umsóknartíma, berist fullnægjandi gögn síðar. Skal þá sveitarfélag gera umsækjanda grein fyrir því sem ábótavant er og honum gefinn kostur á að bæta úr því innan tveggja mánaða. Sinni umsækjandi ekki þeim tilmælum telst umsókn hans fallin niður, sbr. 12. gr. laga um húsaleigubætur.
Ákvörðun um rétt til húsaleigubóta og um bótafjárhæðir skal endurskoða á grundvelli breyttra aðstæðna bótaþega.
Húsaleigubætur greiðast ekki mánaðarlega sé útreiknuð fjárhæð bóta undir 500 kr. Greiðsla þeirra fer fram í desember ár hvert.
Umsókn um húsaleigubætur skulu fylgja eftirfarandi gögn, sbr. 11. gr. laga um húsaleigubætur:
1. | Frumrit þinglýsts húsaleigusamnings sem gerður er á staðfest eyðublað félagsmálaráðuneytis eða Íbúðalánasjóðs og undirritaður af báðum aðilum. |
2. | Ljósrit af skattframtölum þeirra sem lögheimili eiga í íbúðinni fyrir síðasta ár, staðfest af skattstjóra. |
3. | Launaseðlar þeirra sömu og getið er í 2. tölul. fyrir þrjá síðustu mánuði og/eða upplýsingar um reiknað endurgjald vegna sjálfstæðrar starfsemi. |
4. | Staðfesting skóla um nám þeirra sem tilgreindir eru í 2. tölul. og eru 20 ára eða eldri og stunda skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu. |
5. | Íbúavottorð Hagstofu Íslands fyrir viðkomandi íbúð, hafi viðkomandi sveitarfélag ekki beinan aðgang að þjóðskrá. |
Hafi sveitarfélag beinan aðgang að upplýsingum ríkisskattstjóra um tekjur og eignir umsækjanda, þ.m.t. aðgang að staðgreiðslu, getur það ákveðið að umsækjandi þurfi ekki að leggja fram afrit af skattskýrslu né launaseðlum, sbr. 2.-3. tölul. 1. mgr., svo framarlega sem sveitarfélaginu er veitt fullt umboð til þess að afla þeirra upplýsinga hjá skattyfirvöldum.
Um skuldajöfnuð fer skv. 18. gr. laga um húsaleigubætur. Að öðru leyti fer um skuldajöfnuð samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins, svo sem um heimild til að skuldajafna húsaleigubótum sem koma eiga til greiðslu á móti ofgreiddum bótum til sama bótaþega.
Viðmið um eignir sem lagt skal til grundvallar við ákvörðun um fjárhæðir húsaleigubóta árið 1999, skv. 3. mgr. 9. gr. laga um húsaleigubætur, eru þrjár milljónir króna. Fjárhæð þessi er miðuð við verðlag í desember 1997 og breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á neysluvísitölu (183,7 stig í desember 1998).
Félagsmálaráðherra lætur reikna út og birtir nýjar fjárhæðir samkvæmt ákvæði þessu.
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir framlög til sveitarfélaga vegna greiðslu þeirra á húsaleigubótum samkvæmt lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, með síðari breytingum, og reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna húsaleigubóta, nr. 122/2003.
Leigjandi (umsækjandi um húsaleigubætur) getur skotið ákvörðunum sveitarstjórnar um framkvæmd laga um húsaleigubætur og reglugerðar þessarar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu, sbr. 16. gr. laga um húsaleigubætur.
Félagsmálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn þriggja manna samráðsnefnd sem skal fylgjast með framkvæmd laga um húsaleigubætur og reglugerðar þessarar. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir tvo fulltrúa í nefndina og félagsmálaráðherra einn, sem jafnframt er formaður nefndarinnar.
Hlutverk samráðsnefndar er að vera samráðsvettvangur ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um lög um húsaleigubætur og reglugerð þessa, og fylgjast með framkvæmd og þróun húsaleigubótakerfisins. Nefndin skal fjalla um tillögur um breytingar á lögum um húsaleigubætur og reglugerð þessari, meta kostnað slíkra breytinga og önnur áhrif. Einnig skal samráðsnefnd miðla upplýsingum til sveitarfélaga.
Reglugerð þessi, sem sett er skv. 21. gr., sbr. 5., 9. og 13. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um húsaleigubætur, nr. 4/1999, með síðari breytingum.