Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks þegar um er að ræða:
a. | fæðingu, |
b. | frumættleiðingu barns yngra en átta ára, |
c. | töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur, |
d. | fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu, |
e. | andvanafæðingu eftir 22ja vikna meðgöngu. |
Foreldri sem starfar á innlendum vinnumarkaði öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í starfi, sbr. 1. mgr. 4. gr., í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Þegar kona hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr. og 4. mgr. 17. gr. laganna um fæðingar- og foreldraorlof, skal þó miða við þann dag er hún hefur fæðingarorlof að því er hana varðar.
Mánaðarleg greiðsla til foreldris skv. 1. mgr., sem er starfsmaður og leggur niður störf, skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt teljast til launa þær greiðslur sem koma til skv. a–d-liðum 3. gr.
Mánaðarleg greiðsla til foreldris skv. 1. mgr., sem er sjálfstætt starfandi og leggur niður störf, skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr.
Mánaðarleg greiðsla til foreldris sem hefur bæði verið starfsmaður og sjálfstætt starfandi skal nema 80% af meðaltali heildartekna skv. 2. og 3. mgr.
Meðaltal heildarlauna miðast við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 3. gr. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikninga á meðaltali heildarlauna.
Þrátt fyrir 2.–4. mgr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi aldrei nema hærri fjárhæð en 480.000 kr.
Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25–49% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur 67.184 kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50–100% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur 93.113 kr. á mánuði.
Þegar foreldri uppfyllir skilyrði 1. mgr. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2.–3. mgr. skal foreldrið öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 7. mgr. í samræmi við starfshlutfall þess.
Foreldri á innlendum vinnumarkaði sem á rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, en uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr., á rétt á fæðingarstyrk skv. 18. gr. laganna, sbr. þó 9. mgr. 19. gr. laganna.
Ætli foreldri að haga fæðingarorlofi á þann veg að það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, með samkomulagi við vinnuveitanda, skulu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði nema 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem svara til þess starfshlutfalls sem fæðingarorlofið telst til.
Það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, felur í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.
Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:
a. | orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, |
b. | sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, |
c. | sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, |
d. | sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa. |
Hlutaðeigandi úthlutunarnefnd, sbr. lög um atvinnuleysistryggingar, metur hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði foreldri skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 2. mgr. Um rétt til atvinnuleysisbóta fer samkvæmt skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.
Tryggingastofnun ríkisins, sbr. lög um almannatryggingar, metur hvort foreldri hefði átt rétt á sjúkradagpeningum hefði foreldri sótt um þá fyrir þann tíma sem um er að ræða, sbr. c-lið 2. mgr. Um rétt til sjúkradagpeninga fer samkvæmt skilyrðum laga um almannatryggingar.
Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil. Enn fremur telst til samfellds starfs þau tilvik sem talin eru upp í a–d-lið 2. mgr. 3. gr.
Þegar meta á starfshlutfall starfsmanns skv. 6. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, skal fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Þegar kona hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr., og 4. mgr. 17. gr. laganna, skal þó miða við þann dag er hún hefur fæðingarorlof af því er hana varðar. Foreldri sem hefur unnið 86–172 vinnustundir á mánuði telst vera í 50–100% starfi en foreldri sem hefur unnið 43–85 stundir á mánuði telst vera í 25–49% starfi. Þó skal jafnan taka tillit til fjölda vinnustunda sem teljast fullt starf samkvæmt kjarasamningi.
Sé foreldri ekki í sama starfshlutfalli á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varnlegt fóstur skal miða við meðaltal starfshlutfalls yfir tímabilið. Þó má foreldri aldrei vera í minna en 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. 1. mgr. 4. gr.
Starfshlutfall foreldris sem fær greiddar atvinnuleysisbætur á þeim tíma sem um ræðir miðast við það starfshlutfall sem tekið er mið af við útreikning atvinnuleysisbóta.
Starfshlutfall foreldris sem fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga miðast við það starfshlutfall sem tekið er mið af við útreikning dagpeninga.
Þegar meta á starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skal fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir.
Sé um að ræða launað starf við gæslu barna í heimahúsi telst heilsdagsgæsla eins barns á mánuði nema fjórðungi úr fullu starfi eða 43 vinnustundum á mánuði, sbr. reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum. Leggja skal fram staðfestingu á starfsleyfi og tekjum.
Vinnuframlag maka bónda á búinu skal metið sem a.m.k. 50% starfshlutfall bóndans þegar makinn er hvorki formlega skráður sem aðili að búrekstri né starfar utan búsins.
Hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum skal Tryggingastofnun ríkisins senda út greiðsluáskorun til foreldris vegna fjárhæðarinnar ásamt viðbættu 15% álagi. Þegar foreldri telur að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Tryggingastofnunar um hærri greiðslur úr sjóðnum skal foreldri færa skriflega fyrir því rök innan fjögurra vikna frá því að greiðsluáskorun sannanlega barst foreldri. Tryggingastofnun skal taka afstöðu til þess innan fjögurra vikna frá því að erindið barst stofnuninni hvort rök foreldris leiði til þess að fella skuli niður álagið. Ákvarðanir Tryggingastofnunar samkvæmt ákvæði þessu eru kæranlegar til Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Endurgreiði foreldri ekki ofgreiddar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt greiðsluáskorun, sbr. 1. mgr., skal innheimtuaðilum skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, falin innheimtan. Um skuldajöfnun á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt gilda almennar reglur um skuldajöfnuð og reglugerðir um barnabætur og vaxtabætur.
Endurgreiðsla foreldra á ofgreiddum greiðslum ásamt viðbættu álagi samkvæmt ákvæði þessu skulu renna í Fæðingarorlofssjóð.
Hafi foreldri fengið lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála skal Tryggingastofnun ríkisins greiða þá fjárhæð sem vangreidd var úr Fæðingarorlofssjóði eins og fljótt og unnt er eftir að leiðrétting hefur verið gerð. Skal jafnframt greiða vexti af fjárhæðinni skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim tíma sem féð hefði átt að vera greitt úr Fæðingarorlofssjóði til þess tíma er greiðslan er innt af hendi. Þegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum frá foreldri falla vextir niður.
Þegar nauðsynlegt er af öryggis- og heilbrigðisástæðum á vinnustað að veita þungaðri konu leyfi frá störfum, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti, skal hún eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þann tíma.
Starfsmaður skal leggja fram vottorð vinnuveitanda um leyfið ásamt rökstuðningi hans fyrir ástæðum þess.
Tryggingastofnun ríkisins getur óskað eftir því að Vinnueftirlit ríkisins endurskoði ákvörðun vinnuveitanda um leyfisveitingu. Beiðni um endurskoðun skal liggja fyrir innan 14 daga frá því ákvörðun var formlega tilkynnt, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.
Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf, sbr. 1. mgr. 3. gr., meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar vegna heilsufarsástæðna niður frá þeim tíma.
Með heilsufarsástæðum er hér átt við:
a. | sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, |
b. | sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni, |
c. | fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni. |
Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæði þessu með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta læknisfræðilega hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg. Jafnframt þarf að fylgja staðfesting vinnuveitanda þar sem fram kemur hvenær launagreiðslur féllu niður.
Þegar um er að ræða fjölburafæðingu eiga foreldrar sameiginlegan rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt, enda fæðist tvö eða fleiri börn á lífi.
Foreldrar sem ættleiða eða taka í varanlegt fóstur fleiri börn en eitt á sama tíma eiga sameiginlegan rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt.
Þurfi barn að dvelja á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dvelur á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu. Þó má aldrei lengja fæðingarorlof af þessari ástæðu lengur en um fjóra mánuði. Heimild þessi á einnig við þegar barn fæðist fyrir áætlaðan fæðingardag og þarf að dvelja lengur á sjúkrahúsi af þeim sökum.
Upphaf greiðslna miðast við fæðingardag barns og lok þeirra við fyrstu heimkomu barns eftir fæðingu. Ef um fjölburafæðingu er að ræða gildir dvalartími þess barns sem lengur/lengst dvelst á sjúkrahúsinu. Ef barn innritast að nýju á sjúkrahús veitir það ekki rétt til frekari framlengingar á greiðslum.
Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæði þessu með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta læknisfræðilega hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg.
Heimilt er að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.
Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæði þessu með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta læknisfræðilega hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg.
Greiðslur samkvæmt þessu ákvæði geta átt sér stað í framhaldi af allt að fjögurra mánaða framlengingu fæðingarorlofs vegna barns sem dvelur á sjúkrahúsi lengur en fjóra mánuði eða í framhaldi af útskrift, sbr. 11. gr.
Heimilt er að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati lækna ófær um að annast barn sitt.
Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæði þessu með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta læknisfræðilega hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg.
Rétt til fæðingarstyrks á foreldri sem er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Skilyrði um lögheimili er í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar.
Til þess að heimilt sé að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim tíma sem um ræðir í 1. mgr. skal foreldri afhenda Tryggingastofnun ríkisins staðfesta yfirlýsingu (E-104) sem sýnir tryggingatímabil er foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir.
Hafi verið gerður samningur við annað ríki sem nær til greiðslna vegna fæðingar barns, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur skal meta búsetu foreldris í því ríki samkvæmt ákvæðum samningsins.
Greiðsla fæðingarstyrks til foreldris skal innt af hendi eftir á fyrir undanfarandi mánuð, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi skal vera 41.621 kr. á mánuði.
Greiðsla fæðingarstyrks vegna fæðingar getur í fyrsta lagi hafist fyrsta virkan dag þess mánaðar sem fer á eftir fæðingarmánuði barns og er þá greitt fyrir fæðingarmánuð barns óháð hvaða mánaðardag barn fæddist.
Greiðsla fæðingarstyrks vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur getur í fyrsta lagi hafist fyrsta virkan dag þess mánaðar sem fer á eftir þeim mánuði er barn kemur inn á heimili eða þeim mánuði sem ferð foreldris/foreldra hefst til að sækja barnið til annars lands.
Foreldri getur ákveðið að greiðslur hefjist síðar en greiðslum þarf að ljúka áður en barnið nær 18 mánaða aldri er rétturinn vegna fæðingar barns fellur sjálfkrafa niður. Réttur til fæðingarstyrks vegna ættleiðingar og varanlegs fósturs fellur niður 18 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið. Óheimilt er að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks yfir á fleiri en eitt tímabil.
Rétt til fæðingarstyrks á foreldri sem hefur verið í fullu námi, sbr. 18. gr., í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuðina þar á undan, sbr. þó 17. gr. Skilyrði um lögheimili er í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar.
Til þess að heimilt sé að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim tíma sem um ræðir í 1. mgr. skal foreldri afhenda Tryggingastofnun ríkisins staðfesta yfirlýsingu (E-104) sem sýnir tryggingatímabil er foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir.
Hafi verið gerður samningur við annað ríki sem nær til greiðslna vegna fæðingar barns, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur skal meta búsetu foreldris í því ríki samkvæmt ákvæðum samningsins.
Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. er heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Skal foreldri jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og 18. gr., sbr. þó 19. og 20. gr. reglugerðar þessarar.
Skilyrði samkvæmt ákvæði þessu er að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingar, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur í því ríki.
Njóti foreldri greiðslu vegna sömu fæðingar, ættleiðingar eða varanlegs fósturs í búsetulandinu kemur hún til frádráttar fæðingarstyrknum, sbr. 3. mgr. 33. gr. laganna.
Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama á við um 75–100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðar þessarar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms.
Leggja skal fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75–100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.
Verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur skal meta sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. II. kafla.
Heimilt er að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 18. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna skv. 2. mgr. 9. gr. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 18. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða hefði átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar. Skal móðir jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og 16. gr., sbr. þó 17. gr., og 18. gr., sbr. þó 20. gr. reglugerðar þessarar. Tryggingastofnun ríkisins metur hvort móðir hefði átt rétt á sjúkradagpeningum fyrir þann tíma sem um er að ræða samkvæmt lögum um almannatryggingar.
Umsókn skal fylgja staðfesting frá viðkomandi skóla um að móðir hafi verið skráð í nám á því tímabili sem um ræðir og vottorð frá lækni. Tryggingayfirlæknir skal meta læknisfræðilega hvort skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt, sbr. einnig 2. mgr. 9. gr.
Heimilt er á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þó að foreldri fullnægi ekki skilyrði 1. mgr. 18. gr. um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu. Skal foreldri jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og 16. gr., sbr. þó 17. gr., og 18. gr., sbr. þó 19. gr. reglugerðar þessarar.
Greiðsla fæðingarstyrks til foreldris skal innt af hendi eftir á fyrir undanfarandi mánuð, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi skal vera 93.113 kr. á mánuði.
Greiðsla fæðingarstyrks vegna fæðingar getur í fyrsta lagi hafist fyrsta virkan dag þess mánaðar sem fer á eftir fæðingarmánuði barns og er þá greitt fyrir fæðingarmánuð barns óháð hvaða mánaðardag barn fæddist.
Greiðsla fæðingarstyrks vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur getur í fyrsta lagi hafist fyrsta virkan dag þess mánaðar sem fer á eftir þeim mánuði er barn kemur inn á heimili eða þeim mánuði sem ferð foreldris/foreldra hefst til að sækja barnið til annars lands.
Foreldri getur ákveðið að greiðslur hefjist síðar en greiðslum þarf að ljúka áður en barnið nær 18 mánaða aldri er rétturinn vegna fæðingar barns fellur sjálfkrafa niður. Réttur til fæðingarstyrks vegna ættleiðingar eða varanlegs fósturs fellur niður 18 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið. Óheimilt er að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks yfir á fleiri en eitt tímabil.
Þegar um er að ræða fjölburafæðingu eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt, enda fæðist tvö eða fleiri börn á lífi.
Foreldrar sem ættleiða eða taka í varanlegt fóstur fleiri börn en eitt á sama tíma eiga sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt.
Þurfi barn að dvelja á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarstyrks um þann dagafjölda sem barn dvelur á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu. Þó má aldrei lengja réttinn til fæðingarstyrks af þessari ástæðu lengur en um fjóra mánuði. Heimild þessi á einnig við þegar barn fæðist fyrir áætlaðan fæðingardag og þarf að dvelja lengur á sjúkrahúsi af þeim sökum.
Upphaf greiðslu fæðingarstyrks miðast við fæðingardag barns og lok hennar við fyrstu heimkomu barns eftir fæðingu. Ef um fjölburafæðingu er að ræða gildir dvalartími þess barns sem lengur/lengst dvelst á sjúkrahúsinu. Ef barn innritast að nýju á sjúkrahús veitir það ekki rétt til frekari framlengingar á greiðslum.
Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á rétti til fæðingarstyrks samkvæmt ákvæði þessu með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta læknisfræðilega hvort lenging á rétti til fæðingarstyrks er nauðsynleg.
Heimilt er að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.
Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á rétti til fæðingarstyrks samkvæmt ákvæði þessu með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta læknisfræðilega hvort lenging á rétti til fæðingarstyrks er nauðsynleg.
Greiðslur samkvæmt ákvæði þessu geta átt sér stað í framhaldi af allt að fjögurra mánaða framlengingu réttar til fæðingarstyrks vegna barns sem dvelur á sjúkrahúsi lengur en fjóra mánuði eða í framhaldi af útskrift, sbr. 23. gr.
Heimilt er að framlengja rétt móður til fæðingarstyrks um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu.
Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á rétti til fæðingarstyrks samkvæmt ákvæði þessu með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta læknisfræðilega hvort lenging á rétti til fæðingarstyrks er nauðsynleg.
Greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil koma til frádráttar við greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Hafi foreldri verið búsett erlendis og öðlast þar rétt til greiðslna í tengslum við fæðingu, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur skulu fylgja með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins gögn sem staðfesta hvort foreldri muni njóta greiðslna í því ríki vegna sömu fæðingar, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Njóti foreldri greiðslna í öðru ríki skulu jafnframt koma fram fjárhæðir þeirra og greiðslutímabil.
Kæra vegna ágreiningsefna sem kunna að rísa á grundvelli reglugerðar þessarar skal berast úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála skriflega innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.
Skattyfirvöld skulu annast eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, nema annars sé sérstaklega getið.
Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað viðurlögum skv. 31. gr. a laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.
Fæðingarorlofssjóður skal fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins.
Fæðingarorlofssjóður skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins sem sér um reikningshald, daglega afgreiðslu og ávöxtun sjóðsins. Stofnunin skal auk þess sjá um afgreiðslu fæðingarstyrks. Skal Fæðingarorlofssjóður vera fjárhagslega aðskilinn frá öðrum rekstrarþáttum stofnunarinnar.
Félagsmálaráðherra hefur fjárhagslegt eftirlit með Fæðingarorlofssjóði og skal gæta þess að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar.
Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans. Tryggingastofnun ríkisins fær greitt samkvæmt samningi við félagsmálaráðuneytið fyrir þá þjónustu sem stofnunin innir af hendi vegna Fæðingarorlofssjóðs.
Reikningar Fæðingarorlofssjóðs skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir ár hvert í Lögbirtingablaði.
Við undirbúning fjárlaga ár hvert skal Tryggingastofnun ríkisins gera fjárhagsáætlun fyrir viðkomandi rekstrarár Fæðingarorlofssjóðs sem félagsmálaráðherra leggur fyrir fjármálaráðherra.
Í fjárhagsáætluninni skulu meðal annars koma fram áætlaðar greiðslur til foreldra sem njóta réttar í fæðingarorlofi ásamt áætluðum rekstrargjöldum vegna umsýslu Fæðingarorlofssjóðsins.
Tryggingastofnun ríkisins skal sjá til þess að allar upplýsingar um réttindi foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og til greiðslu fæðingarstyrks verði aðgengilegar þeim sem á þurfa að halda.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 7. og 11. mgr. 13. gr., 6. mgr. 15. gr., 2. mgr. 15. gr. a, 2. mgr. 15. gr. b, 4. mgr. 17. gr., 3. mgr. 18. gr., 3. og 10. mgr. 19. gr., 3. mgr. 23. gr. og 35. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2005.
Jafnframt falla úr gildi reglugerð nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, og reglugerðir um breytingu á þeirri reglugerð nr. 969/2001, 915/2002, 186/2003 og 1003/2003.