Samgönguráðuneyti

992/2007

Reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Markmið reglugerðarinnar er að kveða á um ráðstafanir sem stuðla að öryggi vegfarenda í jarðgöngum með því að koma í veg fyrir hættuleg atvik sem kunna að stefna manns­lífum, umhverfinu og gangamannvirkjum í hættu og með því að kveða á um viðeig­andi ráðstafanir ef slys eiga sér stað.

Reglugerðin gildir um jarðgöng á þeim vegum á Íslandi sem tilheyra samevrópska vega­kerfinu. Ennfremur gildir reglugerðin um öll önnur jarðgöng sem eru lengri en 1000 metrar og umferðarþungi er meiri en 2000 ökutæki að meðaltali á dag á akrein.

Við hönnun jarðganga sem ekki falla undir gildissvið reglugerðarinnar skal höfð hliðsjón af ákvæðum I. viðauka reglugerðarinnar og öryggisbúnaður jarðganga skilgreindur með tilliti til gerðar jarðganga og áætlaðs umferðarþunga um þau.

2. gr.

Orðskýringar.

Samevrópska vegakerfið: Vegakerfið sem skilgreint er í 2. þætti I. viðauka við ákvörðun nr. 1692/96/EB og skýrt með kortum og/eða lýst í II. viðauka við þá ákvörðun.

Neyðarþjónusta: Öll staðbundin þjónusta, hvort sem hún tengist opinberum aðilum, einkaaðilum eða starfsfólki jarðganga, sem er kölluð út ef slys ber að höndum, þ.m.t. lögregla, slökkvilið og björgunarsveitir.

Lengd jarðganga: Lengd lengstu akreinar mæld í þeim hluta jarðganganna sem er að fullu lokaður.

II. KAFLI

Stjórn öryggismála í jarðgöngum.

3. gr.

Umsjón með öryggismálum jarðganga.

Vegagerðin skal hafa eftirlit með því að jarðgöng séu tekin í notkun í samræmi við málsmeðferð sem mælt er fyrir um í II. viðauka.

Vegagerðin skal sjá til þess að haft sé eftirlit með að öryggiskröfur séu uppfylltar í jarð­göngum. Aðili sem sinnir eftirliti, mati og prófunum í þessu skyni skal uppfylla hæfnis­kröfur, viðhafa verklagsreglur sem tryggja mikil gæði og starfa óháð stjórnanda jarð­ganganna.

Vegagerðin skal grípa til viðeigandi ráðstafana og eftir atvikum stöðva tímabundið eða takmarka starfsemi jarðganga ef öryggiskröfum er ekki fullnægt. Vegagerðin getur sett sem skilyrði fyrir því að eðlileg umferð geti hafist aftur að gripið verði til nánar tiltekinna ráðstafana sem auka öryggi jarðganganna.

Vegagerðin skal sjá til þess að sinnt sé eftirfarandi verkefnum til að tryggja öryggi jarð­ganga:

  1. Reglubundnar prófanir og skoðanir á jarðgöngum og samning öryggiskrafna þar að lútandi.
  2. Að til séu neyðaráætlanir fyrir jarðgöng, þ. á m. að neyðarþjónusta hljóti nauðsynlega þjálfun og hafi yfir að ráða nauðsynlegum búnaði.
  3. Að skilgreind verði verklagsregla um tafarlausa lokun jarðganga á neyðar­stundum.
  4. Að framkvæmdar séu ráðstafanir sem mælt er fyrir um til að draga úr hættu í jarð­göngum.

4. gr.

Stjórnandi jarðganga.

Vegamálastjóri tilnefnir þann aðila sem gegnir hlutverki stjórnanda jarðganga samkvæmt reglugerðinni, og ábyrgur er fyrir öryggismálum jarðganganna, hvort sem er á hönn­unar­stigi, í byggingu eða rekstri.

Þegar Vegagerðin er veghaldari jarðganga skal stjórnandi viðkomandi vegagerðarsvæðis teljast stjórnandi jarðganganna.

Stjórnandi jarðganga skal án tafar láta semja skýrslu um umtalsverð atvik eða slys sem eiga sér stað í jarðgöngunum. Í skýrslunni skal greina frá málsatvikum og ráðstöfunum í kjölfarið. Skýrsluna skal þegar í stað senda öryggisfulltrúa skv. 5. gr., Vegagerðinni og neyðarþjónustu eftir atvikum ásamt rannsóknarskýrslu sem kann að vera gerð af sama tilefni.

5. gr.

Öryggisfulltrúi jarðganga.

Stjórnandi jarðganga skal skipa einn öryggisfulltrúa fyrir sérhver jarðgöng sem skal samræma allar forvarnar- og öryggisráðstafanir til að tryggja öryggi vegfarenda og starfsfólks. Skipun öryggisfulltrúa er háð samþykki vegamálastjóra.

Öryggisfulltrúi jarðganga má vera starfsmaður í jarðgöngunum eða starfsmaður neyðarþjónustu. Honum ber að vera óháður aðili að því er varðar öryggismál í veg­göngum og hann skal ekki taka við fyrirmælum frá atvinnuveitanda varðandi þessi mál. Öryggisfulltrúa er heimilt að sinna störfum sínum og verkefnum í nokkrum jarðgöngum á tilteknu svæði.

Öryggisfulltrúi skal sinna eftirfarandi störfum og verkefnum:

  1. Tryggja samstarf við neyðarþjónustu og taka þátt í undirbúningi viðbragðs­áætlana.
  2. Þátttaka í skipulagningu, framkvæmd og mati á neyðaraðgerðum.
  3. Þátttaka í skilgreiningu öryggisáætlana og forskrifta fyrir byggingu, búnað og rekstur, bæði hvað varðar ný jarðgöng og breytingar á jarðgöngum sem fyrir eru.
  4. Eftirlit með að starfsfólk og neyðarþjónusta hljóti þjálfun og fræðslu um öryggi jarðganga. Þátttaka í skipulagningu reglubundinna viðbragðsæfinga.
  5. Veitir ráðgjöf um öryggisþætti í tengslum við notkun, búnað og rekstur jarðganga.
  6. Hefur eftirlit með að viðhald mannvirkja og búnaðar í jarðgöngum uppfylli öryggis­kröfur.
  7. Þátttaka í mati á öllum umtalsverðum atvikum eða slysum sem um getur í 3. mgr. 5. gr.

III. KAFLI

Öryggiskröfur fyrir jarðgöng.

6. gr.

Almennt.

Jarðgöng sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar skulu uppfylla öryggiskröfur sem kveðið er á um í I. viðauka reglugerðarinnar samkvæmt eftirfarandi ákvæðum þessa kafla.

Reynist ekki unnt að fullnægja tilteknum byggingarkröfum sem mælt er fyrir um í I. við­auka með tæknilausnum, eða ef kostnaður við þær er óhóflegur, skal gripið til annarra ráðstafana til að draga úr áhættu í stað þess að beita þeim kröfum, að því tilskildu að þær ráðstafanir leiði til sambærilegrar eða aukinnar verndar. Sýna skal fram á skilvirkni þessara ráðstafana með áhættugreiningu sem samræmist ákvæðum 13. greinar. Ráðstafanir skv. þessari málsgrein eru háðar samþykki Vegagerðarinnar.

7. gr.

Ný jarðgöng.

Ný jarðgöng sem hönnun hefur ekki verið samþykkt fyrir skulu uppfylla kröfur I. viðauka og tekin í notkun í samræmi við málsmeðferð sem mælt er fyrir um í II. viðauka.

Þegar um er að ræða jarðgöng sem hönnun hefur verið samþykkt fyrir en sem hafa ekki verið opnuð almenningi fyrir gildistöku reglugerðar þessarar, skal Vegagerðin meta hvort jarðgöngin séu í samræmi við öryggiskröfur I. viðauka með sérstöku tilliti til gagna um öryggi sem kveðið er á um í II. viðauka.

8. gr.

Jarðgöng í notkun.

Þegar um er að ræða jarðgöng sem hafa verið opnuð almenningi fyrir gildistöku reglu­gerðar þessarar skal Vegagerðin, svo fljótt sem auðið er en eigi síðar en sex mánuð­um síðar, hafa lokið mati á því hvort jarðgöngin samræmist ákvæðum reglugerðar­innar. Matið skal gert að teknu sérstöku tilliti til gagna um öryggi sem kveðið er á um í II. viðauka og á grundvelli skoðunar.

Stjórnandi jarðganga skal að kröfu Vegagerðarinnar leggja fram áætlun um hvernig aðlaga megi jarðgöngin að ákvæðum reglugerðarinnar, eða niðurstöðum áhættu­greiningar skv. 9. gr., og gera grein fyrir þeim ráðstöfunum til úrbóta sem hann hyggst gera og hvenær áætlað er að þeim verði lokið. Vegagerðin metur hvort fyrir­hugaðar ráðstafanir teljast fullnægjandi og mælir fyrir um breytingar á þeim.

Ef ráðstafanir til úrbóta fela í sér verulegar breytingar á byggingu eða rekstri skal beita málsmeðferðinni sem mælt er fyrir um í II. viðauka þegar þessar ráðstafanir hafa verið gerðar.

Komi til þess að grípa þurfi til ráðstafana til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar skal Vegagerðin vinna skýrslu um hvernig að því skuli staðið og leggja fyrir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Tilkynna skal um stöðu framkvæmda á tveggja ára fresti og breytingar sem gerðar hafa verið.

Endurnýjun jarðganga samkvæmt þessari grein skal lokið eigi síðar en 30. apríl 2014.

IV. KAFLI

Áhættugreining og reglubundið eftirlit.

9. gr.

Áhættugreining.

Áhættugreining er greining áhættu í tilteknum jarðgöngum þar sem tekið er tillit til allra hönnunarþátta og umferðaraðstæðna sem hafa áhrif á öryggi, einkum einkenna og gerðar umferðar, lengdar og lögunar jarðganga auk þess fjölda þungaflutningabifreiða sem spáð er að fari um þau á dag.

Stjórnandi jarðganga skal láta fara fram áhættugreiningu í samræmi við ákvæði reglu­gerðar þessarar og viðauka við hana.

Vegamálastjóri getur gefið stjórnanda jarðganga fyrirmæli um að gera skuli áhættu­greiningu fyrir tiltekin jarðgöng.

Stjórnandi jarðganga skal sjá til þess að áhættugreining sé unnin af aðila sem óháður er stjórnanda jarðganga og starfar í samræmi við viðurkennda, ítarlega og vel skilgreinda aðferðafræði.

10. gr.

Reglubundið eftirlit.

Stjórnandi jarðganga skal sjá til þess að fram fari reglubundnar skoðanir á þeim öryggis­þáttum sem kveðið er á um í reglugerð þessari og viðauka I. Reglubundnar skoðanir skulu framkvæmdar af aðilum sem óháðir eru stjórnanda jarðganga og starfa eftir verklagsreglum sem tryggja mikil gæði.

Vegamálastjóri getur kallað eftir niðurstöðum og öllum gögnum um reglubundnar skoðanir skv. 1. mgr. Komi í ljós við skoðun á þeim að jarðgöng samræmist ekki ákvæðum reglugerðarinnar skal stjórnanda jarðganga og öryggisfulltrúa tilkynnt um það og að gera verði viðeigandi ráðstafanir til að auka öryggi í jarðgöngunum. Vegamála­stjóri skal setja viðeigandi skilyrði fyrir áframhaldandi notkun jarðganganna, þ. á m. um lokun jarðganga eða takmörkun á almennri umferð um þau, þar til úrbætur hafa verið gerðar.

V. KAFLI

Öryggisþættir er varða rekstur jarðganga.

11. gr.

Ákvæði er varða rekstur.

Rekstur jarðganga skal uppfylla nánar tilteknar kröfur til að tryggja öryggi, sem fram koma í 3. kafla I. viðauka.

12. gr.

Skyldur stjórnanda jarðganga.

Stjórnandi jarðganga skal sjá til þess að rekstur ganga sé í samræmi við öryggiskröfur sbr. 11. gr.

13. gr.

Ákvæði er varða umferð.

Um umferð í jarðgöngum, þ. á m. flutning á hættulegum farmi, og merkingar, gilda við­eigandi ákvæði umferðarlaga og reglugerða settra samkvæmt þeim.

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

14. gr.

Undanþágur fyrir aðferðir sem byggja á nýsköpun.

Til að gera kleift að setja upp eða nota öryggisbúnað sem byggir á nýsköpun eða beita öryggisreglum sem byggja á nýsköpun og veita sambærilega eða betri vernd en fyrir­liggjandi tækni, eins og mælt er fyrir um í þessari tilskipun, er Vegagerðinni heimilt að veita undanþágu frá kröfum þessarar tilskipunar á grundvelli tilhlýðilega skjalfestrar beiðni frá stjórnanda jarðganganna.

Ef Vegagerðin veitir undanþágu samkvæmt 1. mgr. skal gerð viðeigandi grein fyrir því í samræmi við ákvæði tilskipunar 2004/54/EB.

15. gr.

Sérstök undanþága.

Heimilt er að víkja frá kröfum greinar 2.3.6. í I. viðauka fyrir jarðgöng allt að 10 km að heildarlengd þar sem umferð er allt að 4000 ökutæki að meðaltali á dag á akrein.

16. gr.

Skýrsla um atvik í jarðgöngum.

Á tveggja ára fresti skal Vegagerðin láta taka saman skýrslu um eldsvoða í jarðgöngum og um slys sem hafa greinileg áhrif á öryggi vegfarenda í jarðgöngum og um orsakir og tíðni slíkra atvika, meta þau og veita upplýsingar um raunverulegt hlutverk og skilvirkni öryggisaðstöðu og -ráðstafana. Skýrsluna skal senda Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fyrir lok september næsta árs á eftir tímabili sem skýrslan tekur til.

17. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/54/EB frá 29. apríl 2004 um lágmarksöryggiskröfur fyrir jarðgöng í samevrópska vegakerfinu, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn nr. 10/2006, frá 1. desember 2006, sem birtist í EES-við­auka nr. 17 2006, bls. 11.

18. gr.

Viðaukar.

I. viðauki   

Öryggisráðstafanir sem um getur í 6. gr.

II. viðauki   

Samþykki fyrir hönnun, gögn um öryggi, að taka jarðgöng í notkun, breyt­ingar og reglubundnar æfingar.

III. viðauki   

Skilti fyrir jarðgöng.

19. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með vísan til 2. mgr. 4. gr. vegalaga nr. 45/1994 og öðlast þegar gildi.

Við gildistöku nýrra vegalaga nr. 80/2007 þann 1. janúar 2008 falla vegalög nr. 45/1994 úr gildi og fær reglugerðin frá þeim tíma stoð í 42. og 46., sbr. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007.

Samgönguráðuneytinu, 23. október 2007.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica