1. gr.
Rétt til þess að bera starfsheitið áfengis- og vímuefnaráðgjafi og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem til þess hefur leyfi heilbrigðisráðherra.
2. gr.
Leyfi skv. 1. grein má aðeins veita þeim sem uppfyllir skilyrði 3. gr. um menntun á sviði áfengis- og vímuefnaráðgjafar, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið metur gilda. Áður en leyfi er veitt skal leita álits fagráðs, sem landlæknir skipar um hæfni umsækjenda.
3. gr.
Menntun og þjálfun umsækjanda skal að lágmarki uppfylla eftirtaldar kröfur:
Fullt þriggja ára starf eða 6000 klukkustundir alls við áfengis- og vímuefnaráðgjöf á heilbrigðisstofnun, þar sem þverfaglegt teymi undir faglegri stjórn læknis í fullu starfi vinnur að áfengis- og vímuefnameðferð.
Umsækjandi skal hafa fengið fræðslu sem nemur 300 klukkustundum. Fræðsla skal lúta að lyfjafræði vímuefna, vinnutilhögun og faglegri framgöngu í ráðgjafarstarfinu, ásamt hugmyndafræði og siðfræði áfengislækninga.
Umsækjandi skal hafa fengið handleiðslu af þar til bærum heilbrigðisstarfsmanni í hópstarfi, viðtölum og á samráðsfundum, alls 225 klukkustundir.
Þekking umsækjanda þarf að hafa verið sannreynd með prófi sbr. 4. gr. og starfshæfni þeirra vottuð af faglegum yfirmanni heilbrigðisstofnunarinnar þar sem námið fór fram.
4. gr.
Landlæknir gerir tillögur um nauðsynlega undirbúningsmenntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa og hvernig henni skuli hagað og senda heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til staðfestingar. Ráðuneytið skal í samráði við Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) og Landspítala háskólasjúkrahús (LSH) og aðra þá aðila sem fagráð metur hæfa, sjá til þess að veitt sé nauðsynleg kennsla á þessu sviði.
5. gr.
Áfengis- og vímuefnaráðgjafar stunda ráðgjöf á sviði áfengismála á ábyrgð lækna eða annarra háskólamenntaðra starfsmanna, sem fagráð telur hæfa og eru í starfi sínu háðir faglegu eftirliti landlæknis í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 og ákvæði læknalaga nr. 53/1988.
6. gr.
Áfengis- og vímuefnaráðgjöfum ber að viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar varðandi starfið. Þeir skulu eftir því sem unnt er eiga kost á upprifjunarnámskeiðum og faglegri og verklegri tilsögn þar sem henni verður við komið.
7. gr.
Um þagnarskyldu áfengis- og vímuefnaráðgjafa gilda ákvæði laga um réttindi sjúkinga nr. 74/1997.
8. gr.
Verði landlæknir þess var að áfengis- og vímuefnaráðgjafi vanrækir skyldur sínar, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti í bága við fyrirmæli laga eða heilbrigðisyfirvalda, skal hann áminna viðkomandi. Nú kemur áminning ekki að haldi og skal landlæknir þá senda málið til ráðherra með tillögu um hvað gera skuli. Um áfengis- og vímuefnaráðgjafa gilda að öðru leyti ákvæði læknalaga nr. 53/1988.
9. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 2. gr. laga nr. 24/1985 um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta öðlast þegar gildi.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 13. nóvember 2006.
Siv Friðleifsdóttir.
Davíð Á. Gunnarsson.