Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

871/2004

Reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands. - Brottfallin

1. gr.
Gildissvið.

Þurfi læknir í héraði að vísa sjúkratryggðum frá sér til óhjákvæmilegrar sjúkdómsmeðferðar á opinberum sjúkrastofnunum eða hjá öðrum aðilum heilbrigðiskerfisins sem sjúkratryggingar hafa gert samning við, tekur Tryggingastofnun ríkisins þátt í ferðakostnaði hans samkvæmt reglugerð þessari enda sé um að ræða meðferð sem stofnunin tekur þátt í að greiða. Kostnaður vegna ferða til tannréttinga, sem falla undir 10. gr. reglugerðar nr. 815/2002 um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við tannlækningar, fellur einnig undir reglugerð þessa.


2. gr.
Langar ferðir.

Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í kostnaði við tvær ferðir sjúklings á 12 mánaða tímabili, þegar um er að ræða nauðsynlega ferð, a.m.k. 20 km vegalengd á milli staða, til að sækja að tilhlutan læknis í héraði óhjákvæmilega sjúkdómsmeðferð hjá þeim aðilum sem tilgreindir eru í 1. gr. til greiningar, meðferðar, eftirlits eða endurhæfingar. Skilyrði er að þjónustan sé ekki fyrir hendi í heimahéraði og að ekki sé unnt að nota eða bíða eftir skipulögðum lækningaferðum út í héruð á vegum heilbrigðisstjórnar eða annarra aðila.

Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í ferðakostnaði vegna ítrekaðra ferða, samkvæmt sömu skilyrðum ef um er að ræða eftirtalda alvarlega sjúkdóma: illkynja sjúkdóma, nýrnabilun, alvarlega augnsjúkdóma, brýnar lýtalækningar, bæklunarlækningar barna og tannréttingar vegna meiri háttar galla eða alvarlegra tilefna skv. 9. gr. reglugerðar nr. 815/2002 um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við tannlækningar. Ennfremur er á sama hátt heimilt að endurgreiða vegna annarra sambærilegra sjúkdóma, alvarlegra vandamála í meðgöngu og vegna glasafrjóvgunarmeðferðar.

Tryggingastofnun ríkisins endurgreiðir 2/3 hluta kostnaðar af fargjaldi með áætlunarferð eða sé eigin bifreið notuð 2/3 hluta kostnaðar sem miðast við kr. 17,20 á ekinn km. Greiðsluhluti sjúklings skal þó aldrei verða hærri en kr. 1.500 í hverri ferð. Ef hluti sjúklings fer yfir kr. 10.000 á 12 mánaða tímabili skal greiðsluhluti hans aldrei verða hærri en kr. 500 í hverri ferð það sem eftir er tímabilsins.

Sé um að ræða áætlunarferðir endurgreiðir Tryggingastofnun ríkisins fargjald fylgdarmanns samkvæmt ákvæðum þessarar greinar ef sjúklingur er yngri en 18 ára eða ef hann er ekki fær um að ferðast á eigin vegum. Greiðsluhluti skal miðast við samanlagðan kostnað sjúklings og fylgdarmanns.


3. gr.
Stuttar og ítrekaðar ferðir.

Þegar um er að ræða nauðsynlegar ítrekaðar ferðir sjúklings vegna meðferðar á þeim alvarlegu sjúkdómum sem taldir eru upp í 2. mgr. 2. gr. endurgreiðir Tryggingastofnun ríkisins 3/4 hluta ferðakostnaðar með leigubifreið milli aðseturs sjúklings og meðferðarstaðar samkvæmt framlögðum kvittunum þótt vegalengd sé skemmri en 20 km, enda sé sjúklingur ekki fær um að ferðast með áætlunarbifreið eða almenningsvagni. Sé eigin bifreið notuð í slíkum tilvikum endurgreiðir Tryggingastofnun ríkisins 2/3 hluta kostnaðar sem miðast við kr. 17,20 á ekinn km.


4. gr.
Ýmis sérákvæði.

Taki nauðsynleg sjúkdómsmeðferð fjarri heimili sjúklings a.m.k. fjórar vikur endurgreiðir Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt ákvæðum 2. gr. ferðir sjúklings heim aðra hverja helgi. Sé sjúklingur yngri en 18 ára er heimilt að endurgreiða samkvæmt ákvæðum 2. gr. ferðir sjúklings heim hverja helgi.

Tryggingastofnun ríkisins endurgreiðir samkvæmt ákvæðum 2. gr. daglegar bílferðir foreldris eða nánasta aðstandanda, allt að 200 km hvora leið, til að vitja sjúklings yngri en 18 ára á sjúkrahúsi enda sé um að ræða langvarandi eða ítrekaða sjúkrahúsvist. Endurgreiðsla flugferða takmarkast við eina ferð á viku.

Tryggingastofnun ríkisins endurgreiðir kostnað við ferðir vegna bráðatilvika sem farnar eru samkvæmt ákvörðun læknis og ekki er unnt að sinna í héraði. Með bráðatilviki er átt við slys eða sjúkdóma sem eru þess eðlis að heilsu sjúklings er bráð hætta búin sé þeim ekki sinnt innan mjög skamms tíma (48 stundir). Endurgreitt er samkvæmt ákvæðum 2. gr.

Tryggingastofnun ríkisins endurgreiðir kostnað við ferð sjúklings heim að loknum sjúkraflutningi. Endurgreitt er samkvæmt ákvæðum 2. gr.

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að endurgreiða kostnað við ferðir foreldra eða nánustu aðstandenda alvarlega fatlaðra einstaklinga og sjúklinga sem haldnir eru langvinnum og alvarlegum sjúkdómum til að sækja fræðslunámskeið sem viðurkennd eru af Tryggingastofnun. Endurgreitt er samkvæmt ákvæðum 2. gr.

Ef sjúklingur/aðstandandi á ekki bifreið og ekki er unnt að nota almenningsfarartæki af heilsufarslegum ástæðum, t.d. vegna sýkingarhættu, endurgreiðir Tryggingastofnun ríkisins 3/4 hluta í nauðsynlegum kostnaði í ferðum til sjúkdómsmeðferðar vegna leigubifreiðar (skemmri ferðir) eða leigu á bifreið hjá viðurkenndri bílaleigu.

Þurfi umsækjandi um örorkulífeyri eða endurhæfingarlífeyri að takast á hendur ferð til að mæta í viðtal eða skoðun vegna færnimats, örorkumats eða mats á endurhæfingarmöguleikum sem Tryggingastofnun ríkisins telur nauðsynlegt að fari fram, er heimilt að endurgreiða ferðakostnað samkvæmt ákvæðum 2. gr.


5. gr.
Endurgreiðsla.

Tryggingastofnun ríkisins ákvarðar um rétt til endurgreiðslu ferðakostnaðar samkvæmt reglugerð þessari, þar á meðal um gildistíma ferðaheimildar. Með umsókn sinni um endurgreiðslu skal sjúklingur leggja fram staðfestingu á hverri komu frá þeim sem meðferðina veitir auk staðfestingar frá sjúkrahúsi um sjúkrahúslegu eftir því sem við á.

Sé um að ræða tvær ferðir sjúklings á tólf mánaða tímabili samkvæmt 1. mgr. 2. gr. skal sjúklingur framvísa staðfestingu læknis í héraði á því að hann hafi þurft að vísa sjúklingi til meðferðar utan héraðs þar sem þjónustan sé ekki fyrir hendi í heimahéraði og ekki hafi verið unnt að nota eða bíða eftir skipulögðum lækningaferðum.

Til þess að unnt sé að ákvarða um endurgreiðslu vegna langra ítrekaðra ferða samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skal læknir í héraði senda Tryggingastofnun ríkisins skýrslu um sjúkling þar sem kemur skýrt fram að læknirinn geti ekki sinnt tilfellinu og skulu rök færð fyrir því. Einnig skulu koma fram almennar upplýsingar um sjúkling, sjúkdómsgreining og sjúkdómsgreiningarnúmer (ICD-númer). Þar skal enn fremur gera grein fyrir sjúkrasögu í stuttu máli, nauðsyn meðferðar, tímabilum hennar og fyrirhuguðum fjölda ferða. Þegar um er að ræða stuttar ítrekaðar ferðir samkvæmt 3. gr. skal meðferðaraðili senda Tryggingastofnun ríkisins skýrslu. Hið sama gildir um ferðir vegna fræðslunámskeiða samkvæmt 5. mgr. 4. gr. og þegar sjúklingi er ekki unnt að nota almenningsfarartæki af heilsufarslegum ástæðum, sbr. 6. mgr. 4. gr.

Ákvörðun Tryggingastofnunar samkvæmt 2. og 3. mgr. skal að jafnaði liggja fyrir áður en ferð er farin nema um bráðatilvik sé að ræða.

Við endurgreiðslu skal framvísa farseðlum ef ferð er farin með flugi, ferju, áætlunarbifreið eða öðrum almenningsfarartækjum. Hið sama gildir um kvittanir fyrir greiðslu annars kostnaðar sem reglugerð þessi tekur til, þ. á m. vegna leigu á bifreið, leigubifreiða og fyrir greiðslu vegtolla. Umboð Tryggingastofnunar ríkisins getur krafist kvittana fyrir eldsneyti ef eigin bifreið er notuð.

Viðmiðunargjald á ekinn km samkvæmt 1. ml. 3. mgr. 2. gr. og 2. ml. 3. gr. breytist í hlutfalli við akstursgjald ríkisstarfsmanna samkvæmt auglýsingu ferðakostnaðarnefndar á hverjum tíma.


6. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í i-lið 1. mgr. 36. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr., laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur tryggingaráðs nr. 213/1999 um ferðakostnað sjúkratryggðra sjúklinga og aðstandenda þeirra innanlands, með síðari breytingum.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 28. október 2004.

Jón Kristjánsson.
Davíð Á. Gunnarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica