1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi kveður á um hverjir teljast einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, skv. 12. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
2. gr.
Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla í skilningi 12. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru einstaklingar búsettir utan Íslands, sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, ásamt nánustu fjölskyldu þeirra og nánum samstarfsmönnum.
Til háttsettra einstaklinga í opinberri þjónustu teljast:
a) |
þjóðhöfðingjar, ráðherrar og staðgenglar ráðherra eða aðstoðarráðherrar; |
b) |
þingmenn; |
c) |
hæstaréttardómarar, dómarar við stjórnlagadómstóla eða aðrir háttsettir dómarar við dómstóla þaðan sem niðurstöðu er ekki hægt að áfrýja nema í undantekningartilvikum; |
d) |
dómarar við endurskoðunarrétt eða stjórnarmenn seðlabanka; |
e) |
sendiherrar, staðgenglar sendiherra og háttsettir yfirmenn herja; |
f) |
fulltrúar í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fyrirtækja í eigu ríkis. |
Þeir sem taldir eru upp í a-e liðum 1. mgr. teljast einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, jafnvel þótt þeir gegni viðkomandi stöðum hjá Evrópusambandinu eða á alþjóðavettvangi.
Til nánustu fjölskyldu skv. 1. mgr. teljast:
a) |
maki; |
b) |
sérhver sambúðarmaki, sem samkvæmt landslögum hefur sömu stöðu og maki; |
c) |
börn og makar þeirra eða sambúðarmakar; |
d) |
foreldrar. |
Til náinna samstarfsmanna skv. 1. mgr. teljast:
a) |
einstaklingar sem vitað er að hafi verið raunverulegir eigendur lögaðila með einstaklingi, sem er eða hefur verið háttsettur og gegnt opinberri þjónustu; |
b) |
einstaklingar er átt hafa náin viðskiptatengsl við einstakling, sem er eða hefur verið háttsettur og gegnt opinberri þjónustu; |
c) |
einstaklingur sem er einn raunverulegur eigandi lögaðila sem vitað er að í reynd var stofnað til til hagsbóta fyrir einstakling sem er eða hefur verið háttsettur og gegnt opinberri þjónustu |
Nú hefur einstaklingur ekki verið háttsettur í opinberri þjónustu í eitt ár og telst hann þá ekki vera einstaklingur í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
3. gr.
Lögleiðing.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 28. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006.
Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 70/2006 frá 1. ágúst 2006 þar sem mælt er fyrir um framkvæmdaráðstafanir vegna tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB að því er varðar skilgreininguna á "einstaklingur í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla" og tæknilegar kröfur varðandi einfaldaða skoðun með tilhlýðilegri kostgæfni á áreiðanleika viðskiptamanns og varðandi undanþágur á grundvelli fjármálastarfsemi sem stunduð er stöku sinnum eða að mjög takmörkuðu leyti, sem vísað er til í IX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 152/2006, dags. 8. desember 2006.
4. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð um tilkynningarskyldu og könnun á áreiðanleika viðskiptamanns í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 550/2006.
Viðskiptaráðuneytinu, 11. ágúst 2008.
Björgvin G. Sigurðsson.
Jónína S. Lárusdóttir.