Dómsmálaráðuneyti

1420/2020

Reglugerð um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla með tilliti til aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið og tilgangur.

Reglugerðin gildir um tilkynningarskylda aðila samkvæmt 2. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Um skilgreiningar hugtaka vísast til 3. gr. laga nr. 140/2018.

Tilgangur reglugerðarinnar er að tilgreina starfsheiti sem teljast til háttsettra opinberra starfa í samræmi við 6. tl. 3. gr. laga nr. 140/2018 og setja reglur um útgáfu lista yfir starfsheitin.

Tilgangur reglugerðarinnar er einnig að setja nánari reglur um ráðstafanir tilkynningarskyldra aðila vegna einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.

 

II. KAFLI

Tilgreining starfsheita sem teljast til háttsettra opinberra starfa innanlands.

2. gr.

Forseti Íslands og ráðherrar.

Undir a-lið 6. tl. 3. gr. laga nr. 140/2018 falla embætti forseta Íslands og embætti ráðherra í ríkis­stjórn Íslands.

 

3. gr.

Þingmenn.

Undir b-lið 6. tl. 3. gr. laga nr. 140/2018 falla alþingismenn.

Til alþingismanna teljast einnig varaþingmenn sem tekið hafa fast sæti á Alþingi.

 

4. gr.

Einstaklingar í stjórnum stjórnmálaflokka.

Undir c-lið 6. tl. 3. gr. laga nr. 140/2018 falla einstaklingar í stjórnum stjórnmálaflokka.

Til stjórnmálaflokka í þessum skilningi teljast þeir stjórnmálaflokkar sem eiga kjörna fulltrúa á Alþingi.

Til stjórna stjórnmálaflokka í þessum skilningi teljast æðstu stjórnir eða stjórnareiningar stjórn­málaflokks en ekki stjórnir eða stjórnareiningar sem starfa innan einstakra kjördæma eða lands­hluta.

 

5. gr.

Hæstaréttardómarar, Landsréttardómarar og dómarar
við alþjóðadómstóla og sérdómstóla.

Undir d-lið 6. tl. 3. gr. laga nr. 140/2018 falla dómarar við Hæstarétt Íslands, Landsrétt og íslenskir dómarar við alþjóðadómstóla.

Undir ákvæðið falla einnig dómarar við sérdómstóla hérlendis, þar með talið Félagsdóm, Endur­upptökudóm, og Landsdóm enda hafi Alþingi tekið ákvörðun um málshöfðun.

 

6. gr.

Hæstráðendur Seðlabanka Íslands.

Undir e-lið 6. tl. 3. gr. laga nr. 140/2018 falla seðlabankastjóri og varaseðlabankastjórar Seðla­banka Íslands.

 

7. gr.

Sendiherrar og staðgenglar sendiherra.

Undir f-lið 6. tl. 3. gr. laga nr. 140/2018 falla þeir sem eru skipaðir sendiherrar, þeir sem bera sendiherranafnbót og þeir sem eru staðgenglar sendiherra.

Staðgengill sendiherra er sá starfsmaður sendiskrifstofu sem hefur með höndum það hlutverk að gegna forstöðu sendiskrifstofu í fjarveru sendiherra.

 

8. gr.

Fulltrúar í stjórn og framkvæmdastjóri fyrirtækis í eigu íslenska ríkisins.

Undir g-lið 6. tl. 3. gr. laga nr. 140/2018 falla framkvæmdastjórar og einstaklingar í stjórn fyrir­tækis í eigu íslenska ríkisins.

Með fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins er átt við fyrirtæki þar sem íslenska ríkið á með beinum eða óbeinum hætti 50% hlut eða meira í lögaðilanum.

Til fyrirtækja í eigu ríkisins teljast fyrirtæki á hvaða félagaformi sem er, þar með talið hluta­félög, einkahlutafélög, opinber hlutafélög, samlagshlutafélög, sameignarfélög, samlagsfélög og samvinnu­félög.

 

9. gr.

Fyrirsvarsmenn alþjóðasamtaka og alþjóðastofnana.

Undir h-lið 6. tl. 3. gr. laga nr. 140/2018 falla íslenskir framkvæmdastjórar, aðstoðar­fram­kvæmda­stjórar og stjórnarmenn alþjóðasamtaka og alþjóðastofnana.

Með alþjóðastofnunum og alþjóðasamtökum er átt við samtök eða stofnanir á alþjóðavettvangi sem hafa orðið til á grundvelli bindandi samkomulags ríkja.

 

III. KAFLI

Listi yfir háttsett opinber störf innanlands.

10. gr.

Um listann.

Fjármálaeftirlitið heldur lista yfir þau starfsheiti hér á landi sem teljast til háttsettra opinberra starfa samkvæmt II. kafla. Á listanum skal taka fram starfsheiti og nafn stofnunar, samtaka, fyrir­tækis eða stjórnmálaflokks, eftir því sem við á. Listinn skal birtur opinberlega á vefsvæði Seðla­banka Íslands, í fyrsta skipti þann 1. febrúar 2021.

Uppfæra skal listann samkvæmt 1. mgr. eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu á vefsvæði Seðlabanka Íslands þegar listinn hefur verið uppfærður.

Ríkiskattstjóri skal birta upplýsingar á vefsvæði sínu þannig að tilkynningarskyldir aðilar geti nálgast upplýsingar um nýjustu útgáfu listans með aðgengilegum hætti.

 

11. gr.

Upplýsingagjöf vegna lista yfir háttsett opinber störf.

Stjórnmálaflokkar sem starfa hér á landi og eiga kjörna fulltrúa á Alþingi skulu senda Fjármála­eftirlitinu upplýsingar um stjórnskipulag viðkomandi flokks. Einnig skulu stjórnmálaflokkar senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar verði breytingar á stjórnskipulagi viðkomandi flokks, innan tveggja vikna frá því breytingin kemur til framkvæmda.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið skal senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um fyrirtæki í eigu ríkisins. Fjármála- og efnahagsráðuneytið skal uppfæra upplýsingar um fyrirtæki í eigu ríkisins reglu­­lega, þó eigi sjaldnar en árlega.

Utanríkisráðuneytið skal senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um nöfn alþjóðasamtaka og alþjóða­stofnana þar sem kunnugt er að Íslendingur gegnir starfi dómara, framkvæmdastjóra, aðstoðar­framkvæmdastjóra eða stjórnarmanns. Utanríkisráðuneytið skal uppfæra upplýsingar um slíkar stöður sem kunnugt er um reglulega, þó eigi sjaldnar en árlega.

 

IV. KAFLI

Viðskipti við einstakling í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.

12. gr.

Mat tilkynningarskyldra aðila.

Tilgreining starfsheita og útgáfa lista samkvæmt II. og III. kafla reglugerðarinnar hefur ekki áhrifá skyldu tilkynningarskyldra aðila samkvæmt 17. gr. laga nr. 140/2018 að meta hverju sinni hvort innlendur eða erlendur viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi sé í áhættuhópi vegna stjórn­málalegra tengsla, en hægt er að hafa listann til hliðsjónar við matið. Þeir aðilar sem gegna þeim störfum sem tilgreind eru í II. kafla reglugerðarinnar teljast þó alltaf til aðila sem eru í áhættu­hópi vegna stjórnmálalegra tengsla.

 

13. gr.

Ráðstafanir tilkynningarskyldra aðila vegna
nánustu fjölskyldu eða náins samstarfsmanns.

Nánasta fjölskylda og nánir samstarfsmenn einstaklinga sem eru eða hafa verið háttsettir í opin­berri þjónustu teljast einnig til einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, sbr. 3. gr. laga nr. 140/2018.

Ráðstafanir tilkynningarskyldra aðila samkvæmt lögum nr. 140/2018 og reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli laganna skulu taka til þess að meta hvort viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi teljist til nánustu fjölskyldu eða náins samstarfsmanns einstaklings sem er háttsettur í opin­berri þjónustu.

 

14. gr.

Frekari athugun.

Ef tilkynningaskyldur aðili fær vísbendingar eða upplýsingar um að viðskiptavinur eða raun­veru­legur eigandi sé eða geti verið í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla ber honum að fram­kvæma frekari athugun og ganga úr skugga um hvort viðkomandi tilheyri slíkum hópi.

 

15. gr.

Viðbrögð tilkynningarskyldra aðila.

Þegar viðskipti víkja frá því sem búast má við út frá gögnum eða upplýsingum um uppruna auðs og uppruna fjármuna, eða þegar óvenjulegar færslur koma í ljós við reglubundið eftirlit eða þegar tilefni þykir að öðru leyti til, ber tilkynningarskyldum aðila að framkvæma frekari athugun og taka ákvörðun um viðbrögð.

Á grundvelli athugunar samkvæmt 1. mgr. skal tilkynningarskyldur aðili taka ákvörðun um hvort stofna eigi til viðskiptasambands, því skuli fram haldið eða hvort gripið skuli til frekari ráð­stafana, svo sem að binda enda á viðskiptasamband og/eða senda skrifstofu fjármálagreininga lög­reglu tilkynningu samkvæmt 21. og 22. gr. laga nr. 140/2018.

 

16. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 56. gr. laga nr. 140/2018 og öðlast þegar gildi.

Við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmála­legra tengsla með tilliti til aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 811/2008.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 15. desember 2020.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Haukur Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica