1. gr.
Rétt til þess að kalla sig tannfræðing og starfa sem slíkur hefur sá einn, sem til þess hefur leyfi heilbrigðismálaráðherra.
2. gr.
Leyfi samkvæmt 1. gr. skal veita þeim íslenskum ríkisborgurum, sem lokið hafa prófi frá skólum, sem viðurkenndir eru sem slíkir af heilbrigðisyfirvöldum. Leita skal umsagnar Félags íslenskra tannfræðinga, tannlæknadeildar Háskóla Íslands og landlæknis áður en leyfi er veitt.
3. gr.
Starfsvettvangur tannfræðinga er á heilbrigðisstofnunum, tannlæknastofum, uppeldis-og kennslustofnunum. Tannfræðingar starfa undir handleiðslu og á ábyrgð tannlækna. Tannfræðingar starfa að fræðslu, ráðgjöf, skipulagningu og framkvæmd tannverndar. Auk þess starfa tannfræðingar að þeim verklegu störfum sem tannlæknar fela þeim og þeir hafa hlotið menntun til.
4. gr.
Óheimilt er að ráða, sem tannfræðinga, aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari.
5. gr.
Tannfræðingi er skylt að gæta þagmælsku um atriði, sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt hann láti af störfum. Sömu reglur gilda um starfsfólk það, sem tannfræðingar kunna að hafa í starfi.
6. gr.
Tannfræðingi ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.
7. gr.
Tannfræðingi er skylt að halda sjúkraskýrslu um þá, er leita til hans og aðrar skýrslur í samræmi við fyrirmæli landlæknis.
8. gr.
Um tannfræðinga gilda að öðru leyti reglur læknalaga nr. 80/1969.
Reglur læknalaga gilda um viðurlög við brotum í starfi og sviptingu starfsleyfis og endurveitingu starfsréttinda.
9. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 24/1985 um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta og skv. lögum um tannlækningar nr. 38/1985, öðlast gildi þegar í stað.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 30. desember 1987.
Guðmundur Bjarnason.
Magnús R. Gíslason.