1. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr hugsanlegum skaðlegum áhrifum eldsneytis á heilsu fólks og umhverfi.
2. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um eldsneyti til notkunar í ökutækjum, vinnuvélum, skipum og öðrum tækjum sem búin eru rafkveikju- eða þrýstikveikjuhreyflum, auk eldsneytis til nota í iðnaði og til hitunar.
Reglugerð þessi gildir einnig um metanól sem eldsneyti fyrir flugför, flugmódel og ökutæki í akstursíþróttum.
Reglugerð þessi gildir ekki um eldsneyti, annað en metanól, ætlað til notkunar í flugvélum.
Ákvæði um brennisteinsmagn í fljótandi eldsneyti gilda ekki um eldsneyti ætlað til notkunar við rannsóknir og þróun, olíuvinnslu eða olíuhreinsun, eða til nota í björgunar-, varð- eða herskipum.
3. gr.
Skilgreiningar.
Bensín: Allar rokgjarnar olíur sem ætlaðar eru til þess að knýja rafkveikjuhreyfla sem notaðir eru í hvers konar tæki og búnað annan en flugvélar.
Bílagasolía (dísilolía): Gasolía sem einkum er ætluð fyrir vélknúin ökutæki, sbr. reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Til bílagasolíu telst einnig gasolía til nota á færanlegar vinnuvélar sem ætlaðar eru til nota utan vegar.
Gasolía: Eldsneyti, annað en skipaolía, sem unnið er úr jarðolíu og tilheyrir millieimingarsviði, þar sem minna en 65% af rúmmáli eimast við 250°C og þar sem a.m.k. 85% af rúmmáli eimast við 350°C skv. ASTM D86 aðferðinni.
Markaðssetning: Fyrsta afhending eldsneytis gegn greiðslu eða án endurgjalds, í því skyni að dreifa því og/eða nota það hér á landi eða í öðru ríki sem aðild á að Evrópska efnahagssvæðinu.
MARPOL-samningurinn: Alþjóðasamningur frá 1973, um varnir gegn mengun sjávar frá skipum, ásamt bókun frá 1978 (MARPOL 73/78).
Skipadísilolía: Skipaolía sem hefur seigju eða eðlismassa á því bili sem gefið er upp fyrir DMB og DMC flokka í töflu 1 í ISO staðli 8217:2005.
Skipagasolía: Skipaolía sem hefur seigju eða eðlismassa á því bili sem gefið er upp fyrir DMA og DMX flokka í töflu 1 í ISO staðli 8217:2005.
Skipaolía (marine fuel): Allt fljótandi eldsneyti sem ætlað er til nota í skipum og bátum, þ.m.t. eldsneyti sem skilgreint er í ISO 8217:2005.
SOx-svæði: Eystrasalt og Norðursjór, þar sem gilda takmarkanir á losun brennisteins skv. VI. viðauka MARPOL-samningsins.
Svartolía: Skipaolía sem ætluð er til nota í skipum og flokkuð er í töflu 2 í ISO staðli 8217:2005. Einnig eldsneyti til nota í föstum brennslustöðvum á landi. Svartolía er unnin úr jarðolíu og flokkast sem þung olía á grundvelli eimingarsviðs þar sem minna en 65% af rúmmáli eimast við 250°C skv. ASTM D86 aðferðinni. Ef ekki er mögulegt að ákvarða eimingarhlutfall fellur eldsneyti einnig undir þennan flokk.
4. gr.
Kröfur til eldsneytis.
Einungis er heimilt að markaðssetja eldsneyti, annað en metanól, sbr. 9. gr., sem uppfyllir kröfur sem settar eru fram í I.-IV. viðauka. Um bensín gildir I. viðauki, um bílagasolíu II. viðauki, um svartolíu, skipadísilolíu og skipagasolíu III. viðauki og um aðra gasolíu IV. viðauki.
Í föstum brennslustöðvum á landi má ekki nota svartolíu með meiri brennisteini en 1%, sbr. III. viðauka, á þeim á svæðum þar sem hætta er á að loftgæði með tilliti til brennisteins fari yfir umhverfismörk fyrir brennisteinsdíoxíð, sbr. reglugerð um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu og upplýsingar til almennings, nema annað sé sérstaklega tilgreint í starfsleyfi viðkomandi brennslustöðvar með viðeigandi mótvægisaðgerðum.
Ekki má markaðssetja skipagasolíu sbr. III. viðauka og aðra gasolíu sbr. IV. viðauka sem inniheldur meiri brennistein en 0,1%, á þeim á svæðum þar sem hætta er á að loftgæði með tilliti til brennisteins fari yfir umhverfismörk fyrir brennisteinsdíoxíð, sbr. reglugerð um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu og upplýsingar til almennings.
5. gr.
Sérstakar kröfur til skipaolíu.
Söluaðilum skipaolíu er skylt að afhenda kvittun sem Umhverfisstofnun viðurkennir til viðskiptavina sinna þar sem fram koma upplýsingar um brennisteinsinnihald olíunnar. Með sérhverri kvittun skal fylgja dæmigert sýni af þeirri olíu sem afgreidd er, innsiglað og staðfest af söluaðila, sem móttakandi kvittar fyrir. Sýni skal geyma um borð í skipinu í að minnsta kosti 12 mánuði eftir afhendingu olíunnar og kvittun í minnst 3 ár.
Öll skip innan íslenskrar mengunarlögsögu og íslensk skip hvar sem þau eru stödd skulu hafa rétt útfylltar olíudagbækur þar sem fram kemur hvers konar olía er notuð og hve langan tíma tekur að skipta um olíu ef þurfa þykir.
Brennisteinsmagn í skipaolíu íslenskra skipa sem fara um SOx-svæði, sbr. VI. viðauki MARPOL-samningsins, skal ekki fara yfir 1,5% (m/m).
6. gr.
Eftirlit.
Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.
Til að hafa eftirlit með brennisteinsinnihaldi skipaolíu er Umhverfisstofnun eða aðilum í umboði hennar, heimilt að taka sýni úr skipum, tönkum og olíubirgðastöðvum, til nánari greiningar eða fá upplýsingar frá rannsóknastofu olíufélaganna. Einnig er Umhverfisstofnun heimill aðgangur að olíudagbókum skipa og kvittun frá söluaðila olíu þar sem fram koma upplýsingar um brennisteinsinnihald skipaolíu.
7. gr.
Skýrslugjöf.
Umhverfisstofnun skal halda skrá yfir alla sem flytja inn og selja skipaolíu.
Innflytjendur eldsneytis skulu senda Umhverfisstofnun niðurstöður mælinga viðurkenndra rannsóknastofa á þeim prófunarþáttum sem tilgreindir eru í I. - IV. viðauka og skulu prófanir vera samkvæmt þeim aðferðum sem þar eru tilgreindar. Tekin skulu sýni til prófunar úr öllum eldsneytisförmum sem fluttir eru til landsins. Skila skal skýrslum fyrir 1. mars ár hvert fyrir næstliðið ár.
8. gr.
Íblöndunarefni.
Óheimilt er að selja eða setja íblöndunarefni í eldsneyti sem raskað getur efnasamsetningu eldsneytisins þannig að það uppfylli ekki ákvæði í I.-IV. viðauka. Afla skal samþykkis Umhverfisstofnunar fyrir notkun annarra íblöndunarefna.
9. gr.
Metanól.
Olíuinnflytjendum er heimilt að selja vatnsblöndur metanóls til eldsneytis á flugför án þess að til kaupanna þurfi sérstök leyfi, sbr. ákvæði reglugerðar um útgáfu og afgreiðslu eiturbeiðna og annarra tilsvarandi leyfa. Heimildin er bundin því skilyrði að metanólblöndurnar séu tryggilega geymdar og afgreiddar beint á sérstaka geyma í flugförum.
Verslunum er fengið hafa til þess leyfi umhverfisráðherra er heimilt, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, að flytja inn og selja óblandað metanól til eldsneytis á ökutæki í akstursíþróttum. Óblandað metanól skal aðeins afhenda þeim sem náð hafa 18 ára aldri og hafa gilt leyfi til kaupa og notkunar eiturefna.
Seljandi skal færa upplýsingar um selt magn metanóls í þar til gerða sölubók sem Umhverfisstofnun leggur til og skal sölubók skilað til stofnunarinnar við lok hvers árs.
Verslunum er fengið hafa til þess leyfi umhverfisráðherra er heimilt, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, að flytja inn eða selja sem eldsneyti á módelmótora, blöndur metanóls og rísínusolíu (laxerolíu) eða tilbúinnar olíu. Sölu- og innflutningsleyfi skulu bundin nánari skilyrðum um ílát, merkingar, færslur í sölubækur, varðveislu o.fl. í samræmi við leyfi viðkomandi verslana.
Módeleldsneyti sem inniheldur yfir 10% metanól má aðeins selja eða afhenda þeim sem eru 18 ára eða eldri og hafa gilt leyfi til kaupa og notkunar eiturefna. Ekki þarf þó sérstakt leyfi til kaupanna ef eldsneytið inniheldur meira en 2% rísínusolíu (laxerolíu).
10. gr.
Undanþágur.
Þegar sérstaklega stendur á getur umhverfisráðherra, að fenginni skriflegri og rökstuddri umsókn hlutaðeigandi og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, veitt heimild til að nota aðra gasolíu en bílagasolíu á landbúnaðarvélar og vinnuvélar utan vega með þeim skilyrðum sem sett kunna að vera í hverju tilviki. Sé slík heimild veitt, ber að tilkynna hana innflutnings- og söluaðilum sem eru starfandi á hverjum tíma.
Umhverfisráðherra getur, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, veitt heimild til að nota skipaolíu með hærra brennisteinsmagni en getið er um í 5. gr. vegna prófunar á nýjum mengunarvarnarbúnaði á útblástur skipa. Heimildin er bundin þeim skilyrðum að prófunartími sé að hámarki 18 mánuðir, fylgst sé með losun brennisteins með viðeigandi tæknibúnaði allan prófunartímann og að losun jafnist á við að notað sé eldsneyti sem uppfyllir kröfur reglugerðar þessarar. Meta skal áhrif vegna losunar frá hreinsibúnaði á vistkerfi í höfnum og árósum. Niðurstöður prófana skulu birtar opinberlega í síðasta lagi 6 mánuðum eftir að þeim er lokið.
Umhverfisráðherra getur einnig, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, veitt heimild til að nota skipaolíu með hærra brennisteinsmagni en getið er um í 5. gr. að því tilskildu að sett hafi verið upp viðurkennt hreinsikerfi á útblástur eða notuð sé önnur tæknileg aðferð sem takmarkar losun brennisteins þannig að útblástur jafnist á við að notað sé eldsneyti sem uppfyllir kröfur reglugerðar þessarar. Heimildin er bundin þeim skilyrðum að skráð sé samfellt losun brennisteins með þar til gerðum búnaði og sýnt fram á að losun frá hreinsibúnaði í hafnir, árósa og á viðkvæmum svæðum hafi ekki áhrif á vistkerfi.
11. gr.
Þvingunarúrræði.
Um þvingunarúrræði vegna brota á reglugerð þessari gilda ákvæði VI. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og V. kafla laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda.
12. gr.
Viðurlög.
Brot gegn reglugerð þessari varða sektum. Sé brot stórfellt eða ítrekað getur það varðað fangelsi allt að tveimur árum.
13. gr.
Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. og 29. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988 og v. tölul. 6. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004.
Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á eftirfarandi tilskipunum (a-e) sem vísað er til í tl. 6 og 6a í XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/94, þann 21. apríl 1994, nr. 90/2001, þann 14. júlí 2001, nr. 91/2001, þann 14. júlí 2001 og nr. 9/2005, þann 8. febrúar 2005, sem og tilskipun (f) sem vísað er til í tl. 21ad í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2006, þann 29. apríl 2006.
Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 728/2004, um fljótandi eldsneyti, með síðari breytingum.
Ákvæði til bráðabirgða.
Umhverfisráðuneytinu, 11. júní 2007.
F. h. r.
Magnús Jóhannesson.
Sigríður Auður Arnardóttir.
VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)