1. gr.
Á eftir 4. gr. bætist við ný grein, 4. gr. a, er orðast svo:
Skylt er við rækjuveiðar á Eldeyjarsvæði að nota seiðaskilju við veiðarnar. Seiðaskiljan skal þannig gerð að bil milli rimla skal mest vera 22 mm. Skiljunni skal komið fyrir í belg vörpunnar með u.þ.b. 45-50 gráðu halla þannig að neðri kantur skiljunnar nái lengra fram. Skiljan skal fylla út í belginn og skulu allir jaðrar hennar festir við netið í belgnum. Á efra byrði vörpunnar fyrir framan skiljuna skal vera gat þar sem fiskur skilst út.
2. gr.
Við reglugerðina bætist ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
Rækjuveiðar á Eldeyjarsvæðinu eru heimilar frá gildistöku reglugerðar þessarar til 31. desember 2013.
3. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða og laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 11. júní 2013. |
F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, |
Jóhann Guðmundsson. |
Hrefna Karlsdóttir.