I. KAFLI
Gildissvið, skilgreiningar og almenn ákvæði.
1. gr.
Reglugerð þessi gildir fyrir þau efni og hluti sem í fullunnu ástandi er ætlað að snerta matvæli. Undanskilin eru vatnsveitukerfi, fornmunir og efni sem eru hluti af matvælum, svo sem efni til að hjúpa eða húða ostskorpu, unnar kjötvörur eða ávexti.
2. gr.
Efni og hlutir eru hvers konar umbúðir, ílát, áhöld, tækjabúnaður, borðbúnaður og öll efni, sem slíkir hlutir eru samsettir úr.
3. gr.
Með flæði er átt við að efni geti borist úr efnum og hlutum í matvæli. Heildarflæði er samanlagt flæði allra efna sem geta borist úr efninu eða hlutnum í matvæli.
4. gr.
Efni og hlutir skulu framleidd samkvæmt viðurkenndum framleiðsluháttum þannig að við eðlilega eða fyrirsjáanlega notkun flæði ekki úr þeim efni í svo miklum mæli að heilsu manna kunni að stafa hætta af, eða það valdi óviðunandi breytingum á efnasamsetningu matvæla eða raski skynrænum eiginleikum þeirra.
II. KAFLI
Merkingar.
5. gr.
Efni og hlutir, í þessum kafla nefnd vara, sem uppfylla ákvæði 4. gr. og ákvæði í sérreglugerðum eða lögum, skulu merkt í samræmi við þennan kafla, sem gildir með fyrirvara um undantekningar sem fram geta komið í sérreglugerðum.
6. gr.
Vara sem seld er fyrir matvæli sérstaklega skal auðkennd með áletruninni "fyrir matvæli " eða með merki sem sýnt er í viðauka, eða með upplýsingum um til hvers hún er ætluð. Sé varan augljóslega, eðli sínu samkvæmt ætluð fyrir matvæli, er ekki skylt að auðkenna hana á þennan hátt. Þá skulu notkunarleiðbeiningar fylgja þegar það er nauðsynlegt fyrir rétta meðhöndlun vörunnar.
Í þeim tilvikum, sem fyrrnefndra merkinga er krafist, skulu þær vera á íslensku, ensku eða norðurlandamáli öðru en finnsku. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að þessar upplýsingar komi fram á mörgum tungumálum.
7. gr.
Vörur skulu merktar annaðhvort með skráðu vörumerki eða heiti/fyrirtækisheiti ásamt skráðu heimilisfangi framleiðanda, vinnslufyrirtækis eða seljanda.
8. gr.
Merkingar skulu vera áberandi, læsilegar og óafmáanlegar:
a) Í smásölu:
Á vörunni sjálfri, umbúðum hennar eða þar til gerðum merkimiða sem settur er á vöruna eða umbúðir hennar, eða á skilti í nánasta nágrenni vörunnar sem kaupandi sér auðveldlega. Þegar um merkingu skv. 7. gr. er að ræða er aðeins heimilt að nota síðast talda kostinn í undantekningartilvikum, þegar ófært er af tæknilegum ástæðum við framleiðslu eða markaðssetningu, að merkja vöruna sjálfa, umbúðir eða nota merkimiða.
b) Á öðrum stigum dreifingar:
Á vörunni eða umbúðum hennar, merkimiðum eða í fylgiskjölum.
III. KAFLI
Sérreglugerðir.
9. gr.
Um eftirtalda flokka efna og hluta og þar sem við á efnasamsetningu þessara efna og hluta skal fjallað í sérreglugerðum:
a) plastefni, þar með talin lökk og húðunarefni
b) endurunninn sellulósa
c) teygjanleg gerviefni og gúmmí
d) pappír og pappaspjöld
e) leirhluti
f) gler
g) málma og málmblendi
h) við, þar með talinn kork
i) textílvörur
j) paraffín og örkristallað vax
10. gr.
Í sérreglugerðum skal kveða á um að efnum og hlutum skuli fylgja skrifleg yfirlýsing sem vottar að þau fullnægi þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar. Auk þessa er þar heimilt að kveða á um eftirfarandi atriði:
a) leyfileg efni og skulu öll önnur efni þá útilokuð (jákvæður listi)
b) hreinleika efna
c) notkun efna og/eða þeirra efna og hluta sem þau eru notuð í
d) takmarkanir varðandi flæði efna yfir í eða á matvæli
e) heildarmörk fyrir flæði efna yfir í eða á matvæli
f) verndun heilsu manna fyrir hugsanlegri hættu ef efni og hlutir snerta munn
g) tryggingu þess að farið sé að ákvæðum 4. greinar
h) tryggingu þess að eftirlit sé haft með því að farið sé að d-, e-, f- og g-lið
i) sýnatöku og greiningaraðferðir vegna eftirlits með ákvæðum í liðum a-g
11. gr.
Ákvæði í sérreglugerðum, sem ætlað er að varði heilsu manna, skulu vera í samræmi við eftirfarandi atriði:
1. Þegar við á skal gera jákvæðan lista, sbr. a-lið 10. gr., fyrir efni og hluti sem ætlað er að snerta matvæli. Þegar ákveðið er hvaða efni skulu vera á slíkum lista skal tekið mið af mögulegu flæði efnisins í matvæli og eiturhrifum þess.
2. Einungis er heimilt að setja efni á jákvæðan lista þegar ólíklegt er, við eðlileg og fyrirsjáanleg notkunarskilyrði, að efnið flæði í slíkum mæli í matvæli að heilsu manna geti stafað hætta af.
3. Í þeim tilvikum þar sem ekki er talin þörf á að gera jákvæðan lista til að vernda heilsu manna, skal setja mörk um flæði einstakra efna í matvæli ef talið er að þau geti valdið heilsutjóni. Skilyrði sem fram koma í 1. og 2. tl. skulu einnig gilda um þessi efni.
4. Ákvæði um efni skv. 10. gr. skal endurskoða þegar vísindaleg gögn gefa tilefni til.
5. Þegar daglegt neyslugildi eða daglegt hámarksneyslugildi hefur verið sett fyrir tiltekin efni skal meta hvort setja þurfi flæðimörk til að tryggja að neysla fari ekki umfram þessi gildi. Þegar slík flæðimörk eru ákveðin skal taka fullt tillit til þess að efnið getur haft aðrar uppsprettur.
6. Við ákveðnar aðstæður er ákvörðun flæðimarka efnis ekki sú leið sem best er til þess fallin að fyrirbyggja heilsutjón. Í slíkum tilvikum skal verndun heilsu manna sitja í fyrirrúmi þegar ákveðið er hvernig að málum skuli staðið.
IV. KAFLI
Eftirlit og gildistaka.
12. gr.
Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hver á sínum stað, eftirlit með því að farið sé að reglugerð þessari og sérreglum sem settar eru á grundvelli hennar.
13. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og lögum nr. 24/ 1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, ásamt síðari breytingum. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samnings um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í II. viðauka, XII. kafla, 48. tölul., tilskipun 89/ 109/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi efni og hluti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli, 24. tölul. tilskipun 80/590/EBE um ákvörðun merkis sem má fylgja efnum og hlutum sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli, með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af II. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 1994.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 22. desember 1993.
Guðmundur Árni Stefánsson.
Páll Sigurðsson.
Viðauki
Merki til að auðkenna vörur skv. 6. grein.