1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi fjallar um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila staðbundinnar starfsemi sem heyra undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál. Reglugerðin gildir fyrir viðskiptatímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2020.
2. gr.
Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:
Árangursviðmið staðbundinnar starfsemi: Viðmið sem notað er við útreikning á úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila staðbundinnar starfsemi. Árangursviðmið er ákveðið fyrir hverja framleiðsluvöru og miðast að jafnaði við meðalárangur fyrirtækja sem töldust meðal 10% hagkvæmustu fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu frá loftslagssjónarmiði í hverjum geira eða undirgeira á tímabilinu 1. janúar 2007 til 31. desember 2008, þ.e. losuðu minnst magn gróðurhúsalofttegunda á hverja framleiðslueiningu.
Framleiðslustig: Tala sem notuð er við útreikning á úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til nýrra þátttakenda í staðbundinni starfsemi. Framleiðslustig er einnig nefnt starfsemisstig.
Gróðurhúsalofttegundir: Lofttegundir sem tilgreindar eru í III. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.
Koldíoxíðsígildi: Eitt tonn af koldíoxíðsígildi samsvarar einu tonni af koldíoxíði eða því magni gróðurhúsalofttegunda sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt.
Losun gróðurhúsalofttegunda: Útstreymi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið af mannavöldum.
Losunarheimild: Heimild til losunar gróðurhúsalofttegunda. Ein losunarheimild jafngildir heimild til losunar á einu tonni af koldíoxíðsígildi á tilteknu tímabili.
Losunarleyfi: Leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda sem rekstraraðila ber að hafa til þess að geta stundað starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og til þess að geta sótt um og fengið úthlutað losunarheimildum, sbr. reglugerð um losunarleyfi rekstraraðila í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
Lögbært stjórnvald: Stjórnvald sem ber ábyrgð á framkvæmd reglna um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
Nýr þátttakandi í staðbundinni starfsemi:
Raforkuframleiðandi: Starfsstöð sem hefur 1. janúar 2005 eða eftir þá dagsetningu framleitt raforku til sölu til þriðja aðila, og þar sem engin starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál fer fram, önnur en brennsla eldsneytis.
Rekstraraðili: Aðili sem starfrækir eða stjórnar starfsstöð eða ber fjárhagslega ábyrgð á tæknilegri virkni starfsstöðvar þar sem fram fer starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.
Sjóður fyrir nýja þátttakendur í staðbundinni starfsemi: Sjóður sem hefur að geyma 5% af heildarfjölda losunarheimilda fyrir staðbundna starfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu á viðskiptatímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2020.
Söguleg starfsemi: Tala sem notuð er við útreikning á úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila starfandi starfsstöðva. Söguleg starfsemi er einnig nefnd sögulegt starfsemisstig.
Starfandi starfsstöð: Starfsstöð þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir starfsemi sem heyrir undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir og sem:
Starfsstöð: Staðbundin tæknileg eining þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og öll önnur starfsemi sem gæti haft áhrif á losun og mengun og tengist með beinum og tæknilegum hætti þeirri starfsemi sem fram fer á staðnum. Starfsstöð er einnig nefnd stöð.
Starfsstöðvarhluti: Aðföng (hráefni og hjálparefni), afurðir og tilheyrandi losun sem tengjast tiltekinni úthlutunaraðferð. Starfsstöðvarhlutar eru aðgreinanlegir hlutar starfsstöðvar, en ekki nauðsynlega skilgreindir út frá efnislegum (fýsískum) mörkum framleiðslueininga. Starfsstöðvarhluti er einnig nefndur undirstöð.
Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir: Kerfi sem starfrækt er á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt tilskipun 2003/87/EB, með síðari breytingum, sbr. samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Viðskiptatímabil: Tímabil, mælt í almanaksárum, sem notað er sem viðmiðun við ákvörðun á heildarfjölda losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
3. gr.
Umhverfisstofnun.
Umhverfisstofnun er lögbært stjórnvald vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Stofnunin tekur ákvarðanir um úthlutun losunarheimilda og leiðréttingu á úthlutun losunarheimilda eftir því sem kveðið er á um í reglugerð þessari.
Stjórnvaldsákvarðanir Umhverfisstofnunar skv. reglugerð þessari eru kæranlegar til ráðherra.
4. gr.
Samræmdar reglur um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda
á Evrópska efnahagssvæðinu.
Til fyllingar ákvæðum reglugerðar þessarar skulu gilda samræmdar reglur um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sbr. 21. gr. reglugerðar þessarar.
5. gr.
Forsendur úthlutunar endurgjaldslausra losunarheimilda
til rekstraraðila starfandi starfsstöðva.
Rekstraraðilar starfandi starfsstöðva þar sem fram fer starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál eiga rétt á úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda vegna viðskiptatímabilsins 1. janúar 2013 til 31. desember 2020.
Úthlutun skv. 1. mgr. skal vera margfeldi eftirfarandi þátta:
Heildarúthlutun vegna starfsstöðvar skal vera samanlögð úthlutun skv. 2. mgr. til starfsstöðvarhluta sem tilheyra viðkomandi starfsstöð.
Þrátt fyrir 1. mgr. skal engum endurgjaldslausum losunarheimildum úthlutað til raforkuframleiðenda eða vegna föngunar og flutnings koldíoxíðs eða geymslu þess í jarðlögum.
6. gr.
Söguleg starfsemi.
Umhverfisstofnun skal ákvarða sögulega starfsemi starfsstöðvar út frá miðgildi ársframleiðslu á tímabilinu 1. janúar 2005 til 31. desember 2008 eða tímabilinu 1. janúar 2009 til 31. desember 2010, eftir því á hvoru tímabilinu starfsemin var meiri.
7. gr.
Árangursviðmið staðbundinnar starfsemi.
Árangursviðmið staðbundinnar starfsemi skal vera það sem getið er í I. og II. viðauka ákvörðunar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um samræmda úthlutun losunarheimilda án endurgjalds, sbr. 21. gr. reglugerðar þessarar.
8. gr.
Leiðréttingarstuðull kolefnisleka.
Leiðréttingarstuðull kolefnisleka skal vera 0,8 árið 2013 og minnka jöfnum skrefum niður í 0,3 árið 2020. Leiðréttingarstuðull kolefnisleka skal þó vera 1 fyrir starfsemi sem telst hætt við kolefnisleka, sbr. 2. mgr., og skal haldast óbreyttur allt viðskiptatímabilið nema endurskoðað mat á starfsemi leiði í ljós að henni teljist ekki lengur hætt við kolefnisleka.
Þeirri starfsemi telst hætt við kolefnisleka sem getið er í ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um geira og undirgeira sem teljast hætt við kolefnisleka, sbr. 21. gr. reglugerðar þessarar.
9. gr.
Almennur leiðréttingarstuðull.
Almennur leiðréttingarstuðull skal vera 1.
10. gr.
Ákvörðun um úthlutun til rekstraraðila starfandi starfsstöðva.
Umhverfisstofnun tekur ákvörðun um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila starfandi starfsstöðva byggða á upplýsingum um sögulega starfsemi rekstraraðila og skiptingu viðkomandi starfsstöðva í starfsstöðvarhluta. Umhverfisstofnun skal tilkynna rekstraraðilum um fyrirhugaða ákvörðun með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara og gefa rekstraraðilum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Kærufrestur vegna ákvörðunarinnar er tvær vikur frá því að hún er tekin.
11. gr.
Sjóður fyrir nýja þátttakendur í staðbundinni starfsemi.
Endurgjaldslausum losunarheimildum verður úthlutað á viðskiptatímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2020 úr sjóði fyrir nýja þátttakendur í staðbundinni starfsemi.
12. gr.
Forsendur úthlutunar úr sjóði fyrir nýja þátttakendur í staðbundinni starfsemi.
Úthlutun skv. 11. gr. skal vera margfeldi eftirfarandi þátta:
Engum losunarheimildum skal úthlutað úr sjóði fyrir nýja þátttakendur í staðbundinni starfsemi vegna rafmagnsframleiðslu.
13. gr.
Framleiðslustig.
Umhverfisstofnun skal ákvarða framleiðslustig starfsstöðvar eða starfsstöðvarhluta í samræmi við samræmdar reglur um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sbr. 21. gr. reglugerðar þessarar.
14. gr.
Stuðull fyrir línulegan samdrátt.
Stuðull fyrir línulegan samdrátt skal vera 1 árið 2013 og lækka með línulegum hætti niður í 0,8782 árið 2020.
15. gr.
Ákvörðun um úthlutun til nýrra þátttakenda í staðbundinni starfsemi.
Nýir þátttakendur í staðbundinni starfsemi sem óska eftir úthlutun losunarheimilda úr sjóði skv. 11. gr. reglugerðar þessarar skulu senda umsókn til Umhverfisstofnunar. Umsókn skal send eftir upphafsdag nýrrar starfsemi eða aukningar á framleiðslugetu og eftir að upphafsframleiðslugeta hefur verið skilgreind. Sækja þarf um úthlutun innan árs frá upphafsdegi nýrrar starfsemi eða aukningar á framleiðslugetu viðkomandi starfsstöðvar eða starfsstöðvarhluta.
Umhverfisstofnun er heimilt að krefjast þess að umsókn sé skilað á sérstöku eyðublaði sem stofnunin lætur rekstraraðilum í té. Umhverfisstofnun er einnig heimilt að krefjast þess að gögnum sé skilað á rafrænu formi sem stofnunin ákveður.
Ef Umhverfisstofnun telur umsókn ófullnægjandi skal hún gera rekstraraðila grein fyrir því hvaða gögn eða upplýsingar skortir og gefa honum hæfilegan frest til að bæta úr. Umsókn telst hafa borist Umhverfisstofnun á þeim degi þegar fullnægjandi gögn eða upplýsingar berast.
Rekstraraðili skal verða við ósk Umhverfisstofnunar um upplýsingar sem stofnuninni eru nauðsynlegar til að meta hvort skilyrði fyrir úthlutun séu uppfyllt. Umhverfisstofnun er heimilt að krefjast þess að tilteknar upplýsingar séu vottaðar af óháðum vottunaraðila.
Umhverfisstofnun skal taka ákvörðun um úthlutun eins fljótt og verða má eftir að umsókn berst. Umhverfisstofnun skal tilkynna umsækjanda um fyrirhugaða ákvörðun með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Kærufrestur er tvær vikur frá því að ákvörðunin er tekin.
16. gr.
Úthlutun losunarheimilda.
Umhverfisstofnun skal úthluta losunarheimildum á reikning viðkomandi rekstraraðila í skráningarkerfi skv. reglugerð um skráningarkerfi fyrir losunarheimildir fyrir 28. febrúar á hverju því ári sem úthlutun tekur til.
17. gr.
Leiðrétting á úthlutun losunarheimilda.
Ef ljóst verður að rekstraraðili hefur fengið úthlutað fleiri losunarheimildum en hann á rétt á skv. reglugerð þessari skal Umhverfisstofnun færa þann fjölda sem umfram er af reikningi rekstraraðila í skráningarkerfi skv. reglugerð um skráningarkerfi fyrir losunarheimildir. Ef ekki eru nægar losunarheimildir á reikningi rekstraraðila er Umhverfisstofnun heimilt að draga þann fjölda heimilda sem upp á vantar af úthlutun næsta árs.
Ef starfsemi starfsstöðvar hefur verið hætt skal Umhverfisstofnun hætta úthlutun losunarheimilda til hennar frá og með næsta almanaksári nema rekstraraðili sýni stofnuninni fram á að starfsemi hefjist á ný innan tiltekins og eðlilegs tíma.
Ef framleiðslugeta starfsstöðvar minnkar verulega skal Umhverfisstofnun leiðrétta úthlutun losunarheimilda til viðkomandi starfsstöðvar frá og með næsta almanaksári.
Ef breyting verður á almennum leiðréttingarstuðli í kjölfar endurskoðunar skv. 8. mgr. 10. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál skal leiðrétta úthlutun til rekstraraðila í samræmi við það frá og með næstu úthlutun skv. 16. gr. reglugerðar þessarar.
Rekstraraðilar skulu tilkynna Umhverfisstofnun tafarlaust með skriflegum hætti um allar fyrirhugaðar breytingar á rekstri starfsstöðvar sem geta haft áhrif á úthlutun losunarheimilda.
Umhverfisstofnun skal tilkynna rekstraraðila um fyrirhugaða ákvörðun skv. 1.-4. mgr. með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin. Kærufrestur er tvær vikur frá því að ákvörðunin er tekin.
18. gr.
Birting ákvörðunar um úthlutun losunarheimilda.
Ákvarðanir Umhverfisstofnunar um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda skulu birtar opinberlega, s.s. á heimasíðu stofnunarinnar eða í fjölmiðlum.
19. gr.
Aðgangur að upplýsingum.
Almenningur skal hafa aðgang að upplýsingum um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda hjá Umhverfisstofnun í samræmi við ákvæði laga um upplýsingarétt um umhverfismál.
20. gr.
Þagnarskylda starfsmanna.
Starfsfólk Umhverfisstofnunar sem sinnir verkefnum skv. reglugerð þessari er bundið trúnaði um allar trúnaðarupplýsingar sem það verður áskynja í starfi sínu og leynt skulu fara. Undir trúnaðarupplýsingar heyra m.a. upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni rekstraraðila. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Rekstraraðilar geta óskað eftir því að litið verði á tilteknar upplýsingar sem sendar eru Umhverfisstofnun skv. reglugerð þessari sem trúnaðarupplýsingar. Ef ósk berst um afhendingu slíkra upplýsinga er Umhverfisstofnun óheimilt að afhenda þær nema rekstraraðila hafi verið veittur a.m.k. sjö daga frestur til að tjá sig um framkomna beiðni.
21. gr.
Innleiðing EES-gerða.
Eftirfarandi EES-gerðir skulu öðlast gildi hér á landi:
a) |
Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/278/ESB frá 27. apríl 2011 um umbreytingarreglur á vettvangi Sambandsins um samræmda úthlutun losunarheimilda án endurgjalds skv. 10. gr. a í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB, sem vísað er til í tölulið 21alc, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2012, frá 26. júlí 2012, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Ákvörðunin er birt í fylgiskjali 1 við reglugerð þessa. |
|
b) |
Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/2/ESB frá 24. desember 2009 þar sem tekin er saman skrá, samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB, um atvinnugreinar og undirgreinar sem teljast búa við umtalsverða hættu á kolefnisleka, sem vísað er til í tölulið 21alb, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2012, frá 26. júlí 2012, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Ákvörðunin er birt í fylgiskjali 2 við reglugerð þessa. |
|
c) |
Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/745/ESB frá 11. nóvember 2011 um breytingu á ákvörðunum 2010/2/ESB og 2011/278/ESB hvað varðar þá geira og undirgeira sem teljast vera í umtalsverðri áhættu á kolefnisleka, sem vísað er til í töluliðum 21alb og 21alc, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2012, frá 26. júlí 2012, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54 frá 27. september 2012, 2012/EES/54/99, bls. 1297-1300. |
|
d) |
Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2012/498/ESB frá 17. ágúst 2012 um breytingu á ákvörðunum 2010/2/ESB og 2011/278/ESB hvað varðar þá geira og undirgeira sem teljast vera í umtalsverðri áhættu á kolefnisleka, sem vísað er til í töluliðum 21alb og 21alc, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 235/2012, frá 31. desember 2012, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Ákvörðunin er birt í fylgiskjali 3 við reglugerð þessa. |
22. gr.
Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 11. mgr. 10. gr., 7. mgr. 11. gr. og 4. mgr. 12. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.
Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Ákvæði 12. gr. reglugerðar þessarar um forsendur úthlutunar úr sjóði fyrir nýja þátttakendur í staðbundinni starfsemi skulu endurskoðuð þegar helmingi losunarheimilda úr sjóðnum hefur verið úthlutað til rekstraraðila á Evrópska efnahagssvæðinu, í því skyni að stuðla að sanngjarnri úthlutun úr sjóðnum.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 4. janúar 2013.
Svandís Svavarsdóttir.
Sigríður Auður Arnardóttir.
Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)