R E G L U G E R Ð
um framkvæmd líkbrennslu.
Samkvæmt lögum um líkbrennslu nr. 41 frá 3. nóv. 1915, er hér með sett eftirfarandi reglugerð:
I. KAFLI
Um bálstofur.
1. gr.
Likbrennslu má aðeins framkvæma í bálstofum, sem viðurkenndar hafa verið af kirkjumálaráðuneytinu.
Eigi má hefja byggingu bálstofu, nema fyrir liggi samþukki ráðuneytisins um staðsetningu og fyrirkomulag í aðalatriðum.
Eigi má hefja starfrækslu bálstofu fyrr en ráðuneytinu hefur verið tilkynnt, hverjir séu stjórnendur hennar og ábyrgir fyrir því, að farið sé aðð ákvæðum reglugerðar þessarar.
2. gr.
Bálstofum skal ávallt haldið í góðu lagi. Tæki öll skulu vera vel nothæf, starfslið nægjanlegt og starfshættir hreinlegir, skipulegir og viðfelldnir.
Ráðuneytið og heilbrigðisstjórnin skulu ávallt eiga þess kost að hafa eftirlit með rekstri bálstofanna.
3. gr.
Ef brotin eru fyrirmæli laga eða reglugerðar um líkbrennslu og framkvæmd hennar svo og fyrirmæli stjórnarvalda samkvæmt þeim, má svipta bálstofu viðurkenningu ráðuneytisins, unz tryggt er, að úr sé bætt því, er áfátt er.
II. KAFLI
Um skilyrði fyrir framkvæmd líkbrennslu.
4. gr.
Við hverja bálstofu skal halda bálfarabók, sem skal vera löggilt af ráðuneytinu, og skal þar innfært í samfelldri töluröð, við hvert lík sem brennt er, fullt nafn hins látna, dánarstaður, dánardægur og brennsludagur, svo skal og skráð með hverjum hætti öskunni er fyrir komið.
5. gr.
Eigi má brenna lík nema fengið sé vottorð dánarvottorðsgefanda eða læknis þess, sem stundað hefur hinn látna, um að þeir álíti engan grun fyrir hendi um, að glæpsamlegt verk hafi valdið dauða hins látna. Lögreglustjóri á andlátsstaðnum skal rita á vottorð þetta yfirlýsingu um, að ekkert sé því til fyrirstöðu frá hans hendi, að líkið verði brennt. Skal lögreglustjóri, áður en hann gefur vottorð þetta, fullvissa sig um, að uppfyllt séu skilyrði laga um löglega ákvörðun líkbrennslu, samkvæmt 2. gr. laga um líkbrennslu. Þá skal lögreglustjóri og ganga úr skugga um, að andlátið hafi verið tilkynnt skiptaráðanda og til færslu í kirkjubók.
Nú hefur andlát borið að erlendis, og skal þá fengin yfirlýsing frá lögreglustjóra þar, sem hinn látni var búsettur, en hann hafði eigi átt búsetu hér á landi, skal lögreglustóri þar, sem líkbrennslan er framkvæmd, gefa yfirlýsingu um efni það, sem að ofan greinir.
6. gr.
Vottorð samkvæmt 5. gr. skulu merkt með innfærzlutölu líkbrennslu í bálfarabók, og skulu geymd í skjalasafni bálstofu.
Beiðnir aðstandenda um líkbrennslu samkvæmt síðari hluta 1. mgr. og samkvæmt 2. mgr. 2. greinar laga um líkbrennslu, skulu vera skriflegar og geymast með sama hætti.
III. KAFLI
Um framkvæmd líkbrennslu og meðferð ösku.
7. gr.
Stjórnendum bálstofu og starfsmönnum ber að sjá um, að gætt sé góðra hátta við meðferð líks og framkvæmd brennslu.
8. gr.
Þegar að lokinni brennslu skal öskunni vandlega safnað saman og hún látin í lokað hylki eða ker, sem til þess er sérstaklega ætlað. Skulu ílát þessi gerð úr haldgóðu efni, brenndum leir, steini, málmi eða öðru jafngildu efni. Þó má notast við ílát úr haldminna efni, ef jarðsetja skal öskuna þegar í stað í kirkjugarði eða duftreiti við bálstofuna.
Ef eigi skal jarðsetja ösku þegar að lokinni bálför, skulu hylkin eða kerin merkt með einkenni bálstofunnar og nafni hins látna. Skal þá, eftir löglegri ákvörðun hlutaðeigandi aðstandenda, koma hylkjunum eða kerunum fyrir í kapellu eða grafhýsum kirkjugarðs eða geymsluhvelfingum við bálstofuna. Ef senda þarf öskuna til annarra staða, annast forráðamenn bálstofu einir um sendinguna, og skulu þeir aðeins senda öskuna hlutaðeigandi sóknarprestum eða kirkjugarðsvörðum, eða eftir atvikum
forráðamönnum bálstofu, er skulu sjá um jarðsetningu öskunnar.
9. gr.
Ef brennsla fer fram fyrir utan heimilissóknar hins látna, ber forráðamönnum bálstofu að tilkynna sóknarpresti í heimilssókn hins látna brennsludag og stað.
Ef ösku er komið fyrir utan heimilissóknar hins látna, ber þeim, er annast um jarðsetningu, eða aðra geymslu öskunnar, að tilkynna sóknarpresti í heimilssókn hvar öskunni hefur verið fenginn staður.
10. gr.
Eigi skal heimilt nema með leyfi ráðuneytisins að flytja ösku frá þeim stað, er henni hefur verið valinn samkvæmt ofansögðu.
11. gr.
Um duftreiti og kapellur innan kirkjugarða fer eftir þeim reglum, er settar eru af lögskipuðum forráðamönnum kirkjugarðanna, og skulu þeir um þessi efni hafa samráð við forráðamenn bálstofu, er að kirkjugarði liggur.
12. gr.
Ef forráðamenn bálstofu vilja koma upp duftreiti eða geymsluhvelfingum utan kirkjugarða og í sambandi við bálstofuna, skulu um þetta settar reglur, er ráðuneytið samþykkir.
13. gr.
Ef bálstofa er lögð niður, skulu öll skjöl og bálfarabækur afhentar ráðuneytinu. Ráðuneytið skal ávallt eiga aðgang að öllum bókum og skjölum bálstofu.
14. gr.
Reglugerð þessi öðlast gildi þegar í stað.
Kirkjumálaráðuneytið, 9. janúar 1951.
Hermann Jónasson
_________________
Gústav A. Jónasson.