Menntamálaráðuneyti

435/2009

Reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið og skilgreining.

Reglugerð þessi tekur til samræmdra könnunarprófa í íslensku og stærðfræði í 4., 7. og 10. bekk og að auki í ensku í 10. bekk grunnskóla.

Með samræmdum könnunarprófum er átt við próf í námsgreinum sbr. 1. mgr. sem metur sömu kunnáttu og færni með sama hætti og við sambærilegar aðstæður.

Allir nemendur í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla skulu gangast undir próf samkvæmt 1. mgr. og nánari fyrirmælum reglugerðar þessarar.

2. gr.

Tilgangur.

Tilgangur samræmdra könnunarprófa er að:

  1. athuga eftir því sem kostur er, að hvaða marki námsmarkmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð,
  2. vera leiðbeinandi um áherslur í kennslu fyrir einstaka nemendur,
  3. veita nemendum, foreldrum og skólum upplýsingar um námsárangur og náms­stöðu nemenda,
  4. veita upplýsingar um hvernig skólar standa í þeim námsgreinum sem prófað er úr, miðað við aðra skóla landsins.

3. gr.

Ábyrgð.

Menntamálaráðherra leggur grunnskólum til samræmd könnunarpróf sem fram fara fyrri hluta skólaárs samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Grunnskólum er skylt að leggja prófin fyrir nemendur í 4., 7. og 10. bekk og fylgja fyrirmælum reglugerðar þessarar um framkvæmd þeirra.

4. gr.

Framkvæmd.

Ráðherra felur Námsmatsstofnun framkvæmd samræmdra könnunarprófa og að setja nánari reglur um framkvæmd þeirra.

Ekki má fela kennara að semja prófverkefni ef hann kennir sömu námsgrein í við­kom­andi árgangi eða að meta úrlausnir nemenda úr þeim skóla þar sem hann starfar.

Trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á þeim sem sjá um og taka þátt í að semja prófverkefni og meta úrlausnir.

Námsmatsstofnun skal varðveita upplýsingar og gögn sem unnin eru upp úr samræmdum könnunarprófum hverju sinni.

5. gr.

Aðstoð við próftöku.

Búi nemandi við aðstæður sem hamla því að hann geti sýnt færni sína við úrlausn próf­verkefnis, svo sem vegna fötlunar, langvarandi veikinda eða vegna annarra erfið­leika getur skólastjóri óskað eftir því að hann fái aðstoð við próftökuna.

Um umsókn um aðstoð fer nánar eftir reglum sem Námsmatsstofnun setur. Umsókn skal berast stofnuninni 4 vikum fyrir próf, undirrituð af skólastjóra og staðfest af foreldri eða forráðamanni nemanda.

6. gr.

Undanþágur.

Skólastjóra er heimilt að fengnu skriflegu samþykki foreldris eða forráðamanns að veita nemanda undanþágu frá því að þreyta samræmd könnunarpróf ef gildar ástæður mæla með því. Heimild skólastjóra til undanþágu tekur til:

  1. nemenda með annað móðurmál en íslensku vegna prófs í íslensku,
  2. nemenda með annað móðurmál en íslensku vegna prófs í stærðfræði enda hafi nemandi dvalið skemur á landinu en eitt ár,
  3. nemenda í sérskólum, sérdeildum og öðrum þeim nemendum á skyldunámsaldri sem taldir eru víkja svo frá almennum þroska að þeim henti ekki samræmd könnunar­próf,
  4. nemenda sem hafa orðið fyrir líkamlegu eða andlegu áfalli sem gerir þeim ókleift að þreyta samræmt könnunarpróf.

Skólastjórar skulu tilkynna Námsmatsstofnun um þá nemendur sem fá undanþágu frá því að þreyta próf og tilgreina ástæðu þess.

Undanþága frá próftöku tekur einnig til þeirra sem sannanlega eru forfallaðir vegna veik­inda á prófdegi. Skólastjórar skulu tilkynna Námsmatsstofnun um nemendur sem forfallast af slíkum ástæðum.

7. gr.

Niðurstöður samræmdra könnunarprófa og meðferð þeirra.

Námsmatsstofnun sendir niðurstöður samræmdra könnunarprófa til skólastjóra innan 4 vikna vegna prófa sem lögð eru fyrir nemendur í 10. bekk en innan 8 vikna þegar um er að ræða próf sem lögð hafa verið fyrir nemendur í 4. og 7. bekk.

Innan tveggja vikna frá því að niðurstöður prófanna hafa verið sendar skólum, skal Námsmatsstofnun senda frumrit prófúrlausna til viðkomandi skóla.

Prófúrlausnir skulu nýttar við skipulag kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt en síðan afhentar foreldri eða forráðamanni nemenda eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að úrlausnir hafa borist skólanum.

Nemendur skulu fá heildareinkunnir fyrir hvert próf og auk þess einkunnir er gefa yfirlit yfir árangur þeirra í skilgreindum prófþáttum. Heildareinkunnir skulu gefnar í heilum og hálfum tölum á einkunnakvarðanum 1-10.

8. gr.

Yfirlit um heildarniðurstöður í samræmdum könnunarprófum.

Námsmatsstofnun skal eigi síðar en þremur mánuðum eftir að próf eru haldin, gefa út yfirlit um heildarniðurstöður prófanna og dreifa til grunnskóla og fræðsluyfirvalda. Þar skulu koma fram meðaltöl einstakra skóla og á landsvísu eftir námsgreinum, hlutfall nemenda sem ekki þreyta hvert próf og aðrar upplýsingar sem þarf til að skýra niður­stöðurnar og auðvelda túlkun þeirra.

9. gr.

Upplýsingar frá Námsmatsstofnun.

Námsmatsstofnun er heimilt að veita öðrum en skólastjóra og foreldrum upplýsingar um einkunnir nemenda vegna:

  1. flutnings nemenda milli grunnskóla, enda liggi fyrir samþykki foreldra,
  2. athugana sem fræðsluyfirvöld standa fyrir enda sé krafist fullrar þagnarskyldu,
  3. fræðilegra rannsókna enda sé krafist fullrar þagnarskyldu.

Við miðlun upplýsinga vegna athugana og rannsókna samkvæmt b- og c-lið skal gæta laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

10. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 39. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 414/2000, um fyrir­komulag og framkvæmd samræmdra lokaprófa í 10. bekk, og reglugerð nr. 415/2000, um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í 4. og 7. bekk í grunnskólum, með síðari breytingum.

Menntamálaráðuneytinu, 3. apríl 2009.

Katrín Jakobsdóttir.

Halldór Árnason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica