Mennta- og menningarmálaráðuneyti

173/2017

Reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til samræmdra könnunarprófa í íslensku og stærðfræði að hausti í 4. og 7. bekk og samræmdra könnunarprófa í íslensku, stærðfræði og ensku að vori í 9. bekk.

Allir nemendur í 4. og 7. bekk og nemendur í 9. bekk skv. nánari ákvörðun ráðherra skulu gangast undir próf samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar og nánari fyrirmælum þessarar reglugerðar.

Nýti ráðherra heimild í 39. gr. laga um grunnskóla að halda próf í öðrum námsgreinum og náms­sviðum þá skal framkvæmd og fyrirkomulag þeirra fara fram með sama hætti og próf skv. 1. og 2. mgr.

2. gr.

Skilgreiningar.

Með samræmdum könnunarprófum er átt við próf sem metur hæfni með sama hætti og við sam­bæri­legar aðstæður í námsgreinum, sbr. 1. gr.

Með einstaklingsmiðuðum samræmdum könnunarprófum er átt við próf sem laga sig að getu nem­andans miðað við frammistöðu hans á prófinu.

Prófatriði eru allar spurningar eða verkefni sem reyna á tiltekna hæfni. Prófúrlausn samanstendur af svörum nemanda við prófatriðum.

Með rafrænu prófakerfi er átt við kerfi sem heldur utan um prófatriði og upplýsingar um þau, prófa­banka, próffyrirlagnir og prófúrlausnir.

Prófabanki er safn endurnýtanlegra prófatriða sem notuð eru við fyrirlögn á einstaklingsmiðuðum samræmdum könnunarprófum.

Með rafrænu upplýsingakerfi er átt við kerfi á vegum Menntamálastofnunar þar sem haldið er utan um nauðsynlegar upplýsingar vegna fyrirlagnar samræmdra könnunarprófa, s.s. hvaða nemendur eru með stuðningsúrræði eða undanþágu frá töku prófanna. Þá eru niðurstöður samræmdra könn­unar­prófa gerðar aðgengilegar fyrir skóla í gegnum upplýsingakerfið.

3. gr.

Tilgangur.

Tilgangur samræmdra könnunarprófa í grunnskólum er að:

  a) athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í við­kom­andi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð,
  b) vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda,
  c) veita nemendum, foreldrum, skólum og menntayfirvöldum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda,
  d) veita upplýsingar um hvernig einstakir skólar og skólakerfið í heild stendur í þeim náms­greinum og námsþáttum sem prófað er úr.

Niðurstöður prófa skulu nýttar við skipulag náms og kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt og taka tillit til réttmætra óska nemenda og foreldra þeirra um slíkt. Menntamálastofnun skal nýta niðurstöður prófa til að stuðla að umbótum og þróun í skóla­starfi.

4. gr.

Ábyrgð á fyrirlagningu prófa.

Ráðherra leggur grunnskólum til samræmd könnunarpróf sem haldin eru samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Grunnskólum er skylt að leggja prófin fyrir nemendur í 4., 7. og 9. bekk og fylgja fyrirmælum þessarar reglugerðar um framkvæmd þeirra.

5. gr.

Framkvæmd.

Ráðherra felur Menntamálastofnun gerð og framkvæmd samræmdra könnunarprófa og að setja um þau nánari reglur og birta opinberlega. Heimilt er að leggja prófin fyrir með rafrænum hætti.

Ekki má fela kennara að semja prófverkefni ef hann kennir sömu námsgrein í viðkomandi árgangi eða að meta úrlausnir nemenda úr þeim skóla sem hann kennir.

Trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á þeim sem sjá um og taka þátt í að semja prófverkefni og meta úrlausnir.

Menntamálastofnun skal varðveita upplýsingar og gögn sem unnin eru upp úr samræmdum könn­unar­prófum hverju sinni.

6. gr.

Rafrænt prófakerfi.

Menntamálastofnun er heimilt að nota rafrænt prófakerfi vegna rafrænna samræmdra könnunar­prófa. Í prófakerfinu er haldið utan um upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að halda próf, fyrir­lögn prófanna og svör nemenda við prófatriðum. Til að tryggja öryggi þeirra gagna sem verða til við slíka vinnslu er stofnuninni heimilt að ákveða hvaða viðurkenndar leiðir eru notaðar til að fá aðgang að gögnunum.

Þær kröfur sem vél- og hugbúnaður skóla þarf að fullnægja svo að próf geti farið fram með raf­rænum hætti skulu liggja fyrir eigi síðar en mánuði fyrir próf og skal Menntamálastofnun vekja athygli skóla á því ef kröfur breytast milli prófa. Haga skal þessum kröfum með það fyrir augum að búnaður sem flestra skóla nýtist.

7. gr.

Stuðningur við próftöku.

Ef aðstæður hamla því að nemandi geti sýnt færni sína við úrlausn prófverkefnis, svo sem vegna fötlunar, langvarandi veikinda, annars móðurmáls en íslensku eða vegna annarra þarfa getur skóla­stjóri heimilað að nemandinn fái stuðning við próftökuna, s.s. upplestur eða lengri próftíma.

Foreldrar þurfa að sækja um stuðning við próftöku til skólastjóra samkvæmt nánari reglum sem skólinn setur. Skólastjóri skal skrá upplýsingar um stuðning inn í rafrænt upplýsingakerfi Mennta­mála­stofnunar í síðasta lagi tveimur vikum fyrir próf.

Menntamálastofnun setur nánari viðmið um stuðning við próftöku og birtir opinberlega.

8. gr.

Undanþágur.

Í sérstökum undantekningartilvikum er skólastjóra heimilt að fenginni skriflegri beiðni foreldra að veita nemanda undanþágu frá því að þreyta samræmd könnunarpróf ef gildar ástæður mæla með því. Heimild skólastjóra til undanþágu tekur einungis til:

  a) nemenda með annað móðurmál en íslensku vegna prófs í íslensku, stærðfræði og ensku sem að mati skólaþjónustu henta ekki slík próf,
  b) nemenda sem stunda nám skv. 42. gr. laga um grunnskóla,
  c) nemenda sem hafa orðið fyrir líkamlegu eða andlegu áfalli og henta því ekki slík próf að mati skólaþjónustu.

Skólastjóri skal skrá upplýsingar um hvaða nemendur fá undanþágu frá því að þreyta próf og skrá inn í rafrænt upplýsingakerfi Menntamálastofnunar. Jafnframt skal hann tilkynna stofnuninni um nemendur sem eru fjarverandi eða forfallast vegna veikinda eða af öðrum ástæðum.

9. gr.

Afhending einkunna.

Menntamálastofnun veitir skólastjórum aðgang að einkunnum nemenda í samræmdum könn­unar­prófum innan fjögurra vikna frá því að próf voru lögð fyrir. Skólastjórar skulu afhenda nem­endum og foreldrum einkunnirnar eigi síðar en tveimur vikum eftir að þær hafa borist þeim.

Nemendur skulu fá heildareinkunnir fyrir hvert próf, einkunnir er gefa yfirlit yfir árangur þeirra í skilgreindum prófþáttum og auk þess upplýsingar sem varpa nánara ljósi á stöðu nemenda. Heildar­einkunnir skulu gefnar í bókstöfunum A, B+, B, C+, C og D í samræmi við matsviðmið aðal­námskrár grunnskóla.

10. gr.

Samantekt og birting.

Menntamálastofnun skal eigi síðar en sex vikum eftir að próf eru haldin, gefa út yfirlit um heildar­niðurstöður prófanna á rafrænu formi og gera niðurstöðurnar aðgengilegar fyrir grunnskóla, mennta­yfirvöld, sveitarfélög og ríki og birta þær opinberlega. Þar skulu koma fram landsmeðaltöl og meðal­töl einstakra skóla eftir námsgreinum og námsþáttum. Einnig skal koma fram hlutfall nemenda eftir sveitarfélögum sem ekki þreyta hvert próf og aðrar upplýsingar sem þarf til að skýra niður­stöður og auðvelda túlkun þeirra. Upplýsingar um einstaka skóla þar sem tíu eða færri nemendur þreyttu sam­ræmd próf skulu ekki birtar opinberlega samkvæmt þessari grein.

Menntamálastofnun skal birta opinberlega dæmi um prófatriði úr öllum námsgreinum og náms­þáttum ásamt lýsingu á þeirri hæfni sem metin er. Þá skal Menntamálastofnun gera próf­úrlausnir aðgengilegar fyrir skóla svo hægt sé að skoða svör nemenda. Skólinn afhendir for­eldrum próf­úrlausnir ef eftir því er óskað.

Menntamálastofnun er ekki skylt að birta prófatriði samræmdra könnunarprófa hverju sinni enda séu þau endurnýtt við að þróa prófabanka fyrir einstaklingsmiðuð samræmd könnunarpróf.

11. gr.

Upplýsingar frá Menntamálastofnun.

Menntamálastofnun er heimilt að veita öðrum en skólastjóra og foreldrum upplýsingar um einkunnir nemenda vegna:

  a) flutnings nemenda milli grunnskóla, enda liggi fyrir samþykki viðkomandi foreldra,
  b) athugana sem menntayfirvöld, þ.e. ríki og sveitarfélög, standa fyrir enda sé krafist þagnar­­skyldu,
  c) fræðilegra rannsókna enda sé krafist þagnarskyldu.

Ef kostur er skal miðla upplýsingum vegna athugana og rannsókna samkvæmt b- og c-lið í ópersónu­greinanlegu formi.

12. gr.

Sérfræðingahópur.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti skipar þriggja manna sérfræðingahóp sem fylgist með fram­kvæmd og þróun samræmdra könnunarprófa hjá Menntamálastofnun, fjallar um álitamál vegna framkvæmdar, innihalds og niðurstaðna samræmdra könnunarprófa og kemur á framfæri ábend­ingum um nauðsynlegar umbætur til stofnunarinnar. Einn fulltrúi skal skipaður án tilnefningar og vera sérfræðingur í prófagerð í grunnskólum, einn tilnefndur af Kennarasambandi Íslands og einn til­nefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og skulu þeir hafa góða þekkingu og reynslu af fram­kvæmd samræmds námsmats. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

13. gr.

Persónuvernd og varðveisla upplýsinga og gagna.

Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga með áorðnum breytingum og reglugerðir settar með stoð í lögunum, eiga við um alla vinnslu og meðferð persónuupplýsinga samkvæmt reglu­gerðinni. Um varðveislu upplýsinga og gagna fer samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn með áorðnum breytingum.

Ef unnið er með viðkvæmar persónuupplýsingar, t.d. upplýsingar um heilsuhagi eða lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, skulu þær geymdar í persónumöppum og varðveittar í læstum hirslum og/eða dulritaðar með fullnægjandi hætti. Sama gildir um persónuupplýsingar um nemendur, sem lúta að hvers konar upplýsingum um greiningar og/eða sérúrræði.

Menntamálastofnun skal hafa öryggiskerfi sem tryggir vernd persónuupplýsinga og sjá til þess að innra eftirlit sé viðhaft með vinnslu þeirra.

14. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 6. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 39. gr. laga nr. 91/2008 um grunn­skóla með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 435/2009, um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 10. bekk grunn­skóla.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði í 1. og 4. gr. um að samræmd könnunarpróf skulu haldin í 9. bekk grunnskóla skal vorið 2017 einnig halda samræmd könnunarpróf í 10. bekk grunnskóla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 2. mars 2017.

Kristján Þór Júlíusson.

Ásta Magnúsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica