1. gr.
Við 9. gr. bætast þrjár mgr. og greinin verður þannig:
9. gr.
Afturköllun löggildingar.
Löggilding fellur úr gildi, þrátt fyrir að gildistími skv. 8. gr. sé ekki liðinn, ef:
1. vog bilar,
2. innsigli er rofið,
3. viðgerð er framkvæmd á voginni sem áhrif getur haft á mæliniðurstöður hennar,
4. vog er flutt á annað þyngdarsvæði en hún var löggilt eða stillt fyrir,
5. frávik eru meiri en tvöföld þau heimiluð hámarksfrávik sem gefin eru upp í lið 4.1 í viðauka I við reglugerð nr. 616/2000.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er þjónustuaðila, sem Neytendastofa samþykkir, heimilt að rjúfa innsigli og annast minni háttar viðgerðir án þess að löggilding falli úr gildi. Þjónustuaðilinn skal innsigla vogina að nýju með auðkenni sínu og senda Neytendastofu skýrslu um hvað var gert.
Samþykki þjónustuaðila er háð skilyrðum og ákvörðun Neytendastofu eftir könnun á hæfni og vinnubrögðum hans til þess að tryggja að mæliniðurstöður verði áfram innan mesta leyfilega fráviks í notkun.
Neytendastofa gefur út skriflegt leyfi til þjónustuaðila með nánari skilmálum og afmörkun heimilaðra viðgerða. Uppfylli þjónustuaðili ekki lengur þau skilyrði, sem samþykki Neytendastofu er háð, getur hún afturkallað og fellt úr gildi heimild þjónustuaðila skv. þessari grein.
2. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.
Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Viðskiptaráðuneytinu, 17. janúar 2008.
Björgvin G. Sigurðsson.
Áslaug Árnadóttir.