Viðskiptaráðuneyti

477/2001

Reglugerð um útboð verðbréfa. - Brottfallin

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

Almennt útboð telst sala verðbréfa í sama verðbréfaflokki sem boðin eru almenningi til kaups með kynningu eða með öðrum hætti. Með verðbréfaflokki er átt við einsleit verðbréf þar sem réttindi og skilmálar bréfanna eru að öllu leyti hin sömu.


2. gr.

Almennt útboð verðbréfa, hvort heldur í upphaflegri sölu eða síðari sölu, er háð því að útboðslýsing hafi verið gefin út í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, sbr. þó 6. gr.


3. gr.

Almennt útboð verðbréfa skal fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja eða annarra aðila sem til þess hafa heimild í lögum, hér eftir nefnd verðbréfafyrirtæki.


II. KAFLI
Fagfjárfestar.
4. gr.

Fagfjárfestar, sbr. þó 5. gr., eru:

1. Eftirtaldir opinberir aðilar:
a. Ríkissjóður.
b. Seðlabanki Íslands.
c. Íbúðalánasjóður.
2. Eftirtaldir aðilar með starfsleyfi á fjármálamarkaði:
a. Viðskiptabankar og sparisjóðir.
b. Lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir.
c. Verðbréfafyrirtæki.
d. Verðbréfasjóðir.
e. Vátryggingafélög.
f. Lífeyrissjóðir.


5. gr.

Einstaklingar og lögaðilar geta einnig talist fagfjárfestar óski þeir skriflega eftir því við verðbréfafyrirtæki og uppfylla eftirfarandi skilyrði:

1. Búa yfir faglegri þekkingu til að meta fjárfestingarkosti með tilliti til áhættu.
2. Eiga reglulega viðskipti á verðbréfamarkaði.
3. Búa yfir verulegum fjárhagslegum styrk.

Skilyrði 1. tölul. 1. mgr. telst uppfyllt ef einstaklingur eða þeir aðilar sem stýra verðbréfaviðskiptum lögaðila hafa hlotið menntun á sviði verðbréfaviðskipta eða sýna með öðrum hætti fram á að búa yfir faglegri þekkingu sem verðbréfafyrirtæki metur fullnægjandi.

Skilyrði 2. tölul. 1. mgr. telst uppfyllt ef einstaklingur eða lögaðili hefur átt fimm eða fleiri viðskipti á verðbréfamarkaði að meðaltali á hverjum ársfjórðungi á síðustu fjórum ársfjórðungum.

Skilyrði 3. tölul. 1. mgr. telst uppfyllt ef einstaklingar eða lögaðilar eiga verðbréf að áætluðu markaðsverðmæti að minnsta kosti 100 milljónir króna.

Verðbréfafyrirtæki skulu ganga úr skugga um að einstaklingar og lögaðilar skv. 1. mgr. uppfylli skilyrði greinarinnar.


III. KAFLI
Undanþágur frá almennu útboði.
6. gr.

Undanþegin 2. gr. eru:

1. Útboð þar sem eitt eða fleiri eftirtalinna tilvika eiga við:
a. Hlutabréf eða samvinnuhlutabréf eru einungis boðin forgangsréttarhöfum í félagi og hömlur eru lagðar á viðskipti með bréfin.
b. Hlutabréf eða samvinnuhlutabréf eru einungis boðin eigendum í félagi, enda séu þeir færri en 50 og hlutafé eða stofnsjóður B-deildar samvinnufélags lægri en 50 milljónir króna.
c. Verðbréf eru boðin tilgreindum afmörkuðum hópi aðila, án auglýsingar eða kynningar, enda sé hópurinn ekki stærri en 25 aðilar.
d. Áætlað heildarsöluverð verðbréfanna nemur ekki meiru en fimm milljónum kr., sbr. þó 2. mgr.
e. Hver fjárfestir þarf að reiða af hendi að minnsta kosti fimm milljónir kr. til kaupa á verðbréfunum, sbr. þó 2. mgr.
f. Verðbréf eru boðin fagfjárfestum.
2. Verðbréf af eftirfarandi gerðum:
a. Verðbréf sem gefin eru út að áætluðu markaðsverði að minnsta fimm milljónir kr. hvert, sbr. þó 2. mgr.
b. Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða með starfsleyfi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
c. Verðbréf sem gefin eru út í tengslum við yfirtökutilboð.
d. Verðbréf sem gefin eru út í tengslum við samruna fyrirtækja.
e. Jöfnunarhlutabréf og önnur hlutabréf sem hluthafar fá afhent án endurgjalds.
f. Hlutabréf eða verðbréf sem eru ígildi hlutabréfa ef þau eru boðin í skiptum fyrir hlutabréf í sama félagi, ef boðið á hinum nýju verðbréfum hefur ekki í för með sér hækkun á hlutafé í félaginu.
g. Verðbréf sem vinnuveitandi eða fyrirtæki tengt honum býður eingöngu núverandi eða fyrrverandi fastráðnum starfsmönnum sínum, eða verðbréf sem boðin eru fram í þágu þeirra.
h. Verðbréf sem til eru komin vegna breytinga á breytanlegum skuldabréfum eða vegna þess að neytt er réttinda sem kaupréttur að hlut veitir, svo og hlutabréf sem boðin eru í skiptum fyrir skiptanleg skuldabréf enda hafi útboðslýsing á hinum breytilegu eða skiptanlegu skuldabréfum, eða þeim skuldabréfum sem kaupréttur að hlut fylgir, verið gefin út á Íslandi.
i. Verðbréf sem gefin eru út af lögaðilum sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni í þeim tilgangi að afla fjár til framdráttar markmiðum sínum, sem ekki lúta að hag sjálfra lögaðilanna.
j. Framseljanleg verðbréf sem gefin eru út af ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða eru með ríkisábyrgð.

Fjárhæðir í 1. mgr. skulu aldrei nema lægri fjárhæð en 40 þúsund evrum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) Seðlabanka Íslands eins og það er skráð á hverjum tíma.


IV. KAFLI
Aðdragandi útboðs, útboðslýsing og útboðstímabil.
7. gr.
Fjármálaeftirlitið skal hafa umsjón með athugun á útboðslýsingum. Þó skulu kauphallir annast athugun á skráningarlýsingum samkvæmt lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða þegar óskað er eftir skráningu í viðkomandi kauphöll, enda sé hún tekin sem gild útboðslýsing. Fjármálaeftirlitið getur falið skipulegum verðbréfamörkuðum að annast athugun á útboðslýsingum öðrum en þeim sem kveðið er á um í 2. málsl.

Seðlabanki Íslands getur sett nánari reglur um fyrsta söludag einstakra almennra útboða í því skyni að draga úr sveiflum í framboði nýrra verðbréfa á verðbréfamarkaðinum.

Skipulegur verðbréfamarkaður skal senda Fjármálaeftirlitinu eintak af útboðslýsingum sem hann annast athugun á.

Þóknun fyrir athugun á útboðslýsingum er ákveðin af Fjármálaeftirlitinu eða skipulegum verðbréfamarkaði skv. 1. mgr.


8. gr.
Útboðstímabil er að hámarki einn mánuður, nema Fjármálaeftirlitið eða skipulegur verðbréfamarkaður sem annast athugun á útboðslýsingum heimili annað og skal tilgreint í útboðslýsingu.


9. gr.
Fjármálaeftirlitið eða skipulegur verðbréfamarkaður sem annast athugun á útboðslýsingu getur veitt undanþágu að hluta eða öllu leyti frá því að birta útboðslýsingu þegar svo háttar að verðbréfin, sem boðin eru í almennu útboði, eru skuldabréf eða ígildi þeirra og gefin út reglulega af lánastofnunum.


10. gr.
Hafi útboðslýsing verið birt í samræmi við 2. gr. er ekki þörf á að birta nýja útboðslýsingu í tengslum við almennt útboð nema liðnir séu meira en 12 mánuðir frá birtingu útboðslýsingar til fyrsta söludags í nýju útboði, eða orðið hafi breytingar á högum útgefanda, sem ætla má að hafi veruleg áhrif á markaðsverð verðbréfanna.

Ef útboðslýsing hefur birst á Íslandi á næstliðnum 12 mánuðum þarf aðeins að tilgreina í næstu útboðslýsingu, er varðar önnur verðbréf sama útgefanda, þær breytingar sem hafa orðið síðan útboðslýsingin var birt og áhrif gætu haft á verðmæti verðbréfanna, svo og upplýsingar um bréfin sem fram eru boðin. Útboðslýsingin skal þó fylgja með þegar hin nýja er birt eða vísað til hennar.


11. gr.
Almennt útboð verðbréfa getur ekki hafist fyrr en Fjármálaeftirlitið eða skipulegur verðbréfamarkaður sem annast athugun á útboðslýsingum hefur staðfest að athugun á útboðslýsingum, tilkynningum, veggspjöldum og öðrum gögnum sem tilkynna almennt útboð sé lokið.


12. gr.
Birta skal auglýsingu um almennt útboð í einu eða fleiri dagblöðum sem gefin eru út á Íslandi eigi síðar en fjórum dögum fyrir fyrsta söludag útboðsins, enda liggi fyrir samþykki Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, hafi bankinn sett reglur um fyrsta söludag almennra útboða verðbréfa.

Í auglýsingu skv. 1. mgr. skal eftirfarandi koma fram:

1. Heiti útgefanda,
2. tegund útboðs,
3. útboðstímabil,
4. heildarfjárhæð sem boðin er út,
5. lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki sem annast sölu til almennings og
6. hvar nálgast má útboðslýsingu.


13. gr.
Birta skal útboðslýsingu eigi síðar en fjórum dögum fyrir fyrsta söludag útboðs.

Útboðslýsing skal birtast annaðhvort:

1. í einu eða fleiri dagblöðum sem gefin eru út á Íslandi eða
2. í ókeypis bæklingi sem aðgengilegur er almenningi á Íslandi eða með rafrænum hætti á netinu, og á skráðri skrifstofu þess sem sér um útboðið og á skrifstofum fjármálafyrirtækja sem sjá um greiðslur fyrir hann á Íslandi.


14. gr.
Þegar almennt útboð fer fram á verðbréfum skal útboðslýsingin geyma þær upplýsingar sem með hliðsjón af eðli útgefandans og verðbréfanna eru nauðsynlegar fjárfestum til þess að þeir geti á grundvelli þekkingar sinnar metið rétt eignir og skuldir, fjárhagsstöðu, afkomu og framtíðarhorfur útgefanda sem og þau réttindi sem fylgja verðbréfunum.

Til þess að fullnægja þeirri skyldu sem kveðið er á um í 1. mgr. skal útboðslýsingin, samanber þó undantekningarheimildir, tilgreina á skýran og skilmerkilegan hátt að minnsta kosti þau atriði sem fram koma í viðauka með reglugerð þessari.


15. gr.

Fjármálaeftirlitið eða skipulegur verðbréfamarkaður sem annast athugun á útboðslýsingu getur heimilað að tilteknum upplýsingum í viðauka með reglugerð þessari sé sleppt í útboðslýsingu:

1. ef þær hafa litla þýðingu og ólíklegt er að þær hafi áhrif á mat á eignum eða skuldum útgefanda, fjárhagsstöðu, afkomu eða framtíðarhorfum;
2. ef birting þeirra myndi skaða útgefandann verulega, að því tilskildu að undanþágan verði ekki til þess að almenningur fái rangar hugmyndir um staðreyndir og aðstæður sem eru nauðsynlegar til að meta hlutaðeigandi verðbréf, eða ef þessi birting stangast á við hagsmuni almennings.


16. gr.
Komi fram nýjar upplýsingar sem máli geta skipt um mat á útgefanda eða verðbréfum hans frá því að útboðslýsing var birt og þar til hinu almenna útboði er lokið skal útbúa viðauka við útboðslýsingu þar sem greint er frá hinum nýju upplýsingum. Þennan viðauka skal senda Fjármálaeftirlitinu eða skipulegum verðbréfamarkaði sem annast athugun á útboðslýsingum til samþykktar og birta án ástæðulauss dráttar með sama hætti og útboðslýsingu skv. 13. gr.


17. gr.
Fjármálaeftirlitið getur viðurkennt útboðslýsingar sem samþykktar hafa verið af lögbærum yfirvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að í útboðslýsingum skv. 1. mgr. skuli veittar sérstakar upplýsingar um íslenska markaðinn, svo sem um skattamál, fjármálafyrirtæki sem annast greiðslur og fleira. Einnig skal vekja sérstaka athygli á atriðum sem varða réttindi eigenda bréfanna á grundvelli annarra réttarreglna en íslenskra og eru ekki í samræmi við íslenskar réttarreglur.

Fjármálaeftirlitið getur krafist að útboðslýsingar samkvæmt þessari grein séu þýddar á íslensku af löggiltum skjalaþýðanda.


18. gr.
Stjórn útgefanda ber að sjá til þess að í útboðslýsingu séu allar nauðsynlegar upplýsingar, þannig að gefin sé fullnægjandi mynd af útgefanda og verðbréfum hans í samræmi við reglugerð þessa og viðauka.

Stjórn útgefanda skal að viðlagðri bótaábyrgð, eða annarri ábyrgð að lögum, undirrita yfirlýsingu þess efnis að upplýsingar í útboðslýsingunni séu eftir bestu vitund hennar í samræmi við staðreyndir og að engu mikilvægu atriði sé sleppt sem áhrif getur haft á mat á útgefanda og verðbréfum hans.

Umsjónaraðili skal að viðlagðri bótaábyrgð, eða annarri ábyrgð að lögum, undirrita yfirlýsingu þess efnis að hann hafi aflað þeirra gagna sem að hans mati voru nauðsynleg til þess að útboðslýsingin gæfi rétta mynd af útgefanda og verðbréfum hans og að hans mati sé engu atriði sleppt sem áhrif getur haft á mat á útgefanda og verðbréfum hans sem óskað er skráningar á.

Yfirlýsing endurskoðanda útgefanda skal jafnframt fylgja, þess efnis að hann hafi endurskoðað þá ársreikninga útgefanda, milliuppgjör og/eða forsendur rekstraráætlunar, ef við á, sem birt eru í útboðslýsingu og að upplýsingar í útboðslýsingunni er varða reikningsskil séu í samræmi við reikningana.


V. KAFLI
Viðvarandi upplýsingaskylda.
19 gr.
Félög, sem farið hafa í almennt útboð án skráningar í kauphöll samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, skulu senda Fjármálaeftirlitinu endurskoðaðan ársreikning og fréttatilkynningu vegna birtingar ársreiknings.

Félag skal leitast við að láta reikningsskil sín ávallt uppfylla ströngustu kröfur sem almennt eru gerðar til félaga í þeirri grein sem það starfar í. Reikningsskilin skulu vera í samræmi við gildandi lög og góða reikningsskilavenju. Endurskoðaðan ársreikning skal senda Fjármálaeftirlitinu um leið og hann er fullgerður og eigi síðar en fjórum mánuðum frá lokum þess reikningsárs sem hann nær til.

Í kjölfar þess stjórnarfundar þar sem ársreikningur félagsins er formlega samþykktur skal félagið birta fréttatilkynningu vegna hans. Í slíkri fréttatilkynningu skulu vera svo ítarlegar upplýsingar að ársreikningurinn feli ekki í sér að mati félagsins viðbótarupplýsingar sem gætu haft veruleg áhrif á verðmyndun viðkomandi félags.


VI. KAFLI
Viðurlög.
20 gr.
Fjármálaeftirlitið getur aflað upplýsinga um framkvæmd útboðs hjá aðila sem býður fram verðbréf í útboði. Telji Fjármálaeftirlitið að ekki hafi verið farið að reglum um almennt útboð verðbréfa getur það stöðvað útboðið og veitt frest til úrbóta, sé þess kostur. Fjármálaeftirlitið getur birt opinberlega yfirlýsingu um umrætt mál og lagt á aðila dagsektir samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjámálastarfsemi.


VII. KAFLI
Gildistaka o.fl.
21. gr.
Reglugerð þessi er sett í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar ráðsins 89/298/EBE um samræmingu á kröfum við gerð, athugun og dreifingu á útboðslýsingu sem birta skal við almennt útboð framseljanlegra verðbréfa.


22. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 28. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. júlí 2001. Viðvarandi upplýsingaskylda skv. 19. gr. gildir ekki um félög sem fóru í almennt útboð fyrir gildistöku reglugerðar þessarar.


Viðskiptaráðuneytinu, 19. júní 2001.

Valgerður Sverrisdóttir.
Benedikt Árnason.



VIÐAUKI
Efni útboðslýsingar fyrir verðbréf sem ekki er sótt um að tekin verði
til opinberrar skráningar í kauphöll.

Þegar almennt útboð fer fram á verðbréfum skal útboðslýsingin geyma þær upplýsingar sem með hliðsjón af eðli útgefandans og verðbréfanna eru nauðsynlegar fjárfestum til að þeir geti á grundvelli þekkingar metið rétt eignir og skuldir, fjárhagsstöðu, afkomu og framtíðarhorfur útgefanda sem og þau réttindi sem fylgja verðbréfunum.

Til þess að fullnægja þeirri skyldu sem kveðið er á um í 1. mgr. skal útboðslýsingin, samanber þó undantekningarheimildir, tilgreina á skýran og skilmerkilegan hátt að minnsta kosti eftirfarandi:

1. Þá sem eru ábyrgir fyrir útboðslýsingunni:
1.1. nöfn og kennitölur,
1.2. starfsheiti og
1.3. yfirlýsingu þeirra um að samkvæmt bestu vitund þeirra sé útboðslýsing rétt og í hana vanti ekkert sem áhrif geti haft á gildi hennar.
2. Hið almenna útboð og hver þau verðbréf eru sem fram eru boðin:
2.1. eðli þeirra,
2.2. fjárhæð og tilgang útgáfunnar,
2.3. fjölda útgefinna bréfa og réttinda sem fylgja þeim,
2.4. skatt sem haldið er eftir,
2.5. útboðstímabilið,
2.6. hvenær réttindi hefjast til arðs eða vaxta,
2.7. þá sem tryggja eða ábyrgjast útboðið,
2.8. takmörkun á sölu verðbréfa sem í boði eru og markaði sem hafa viðskipti með þau,
2.9. stofnanir sem annast greiðslur,
2.10. útboðsverð bréfanna ef þekkt er, eða
2.11. hvernig og hvenær verðið skal ákveðið ef það er ekki vitað þegar útboðslýsing er gerð,
2.12. greiðslufyrirkomulag,
2.13. hvernig forkaupsréttar er neytt, sé hann fyrir hendi og
2.14. hvernig og með hvaða fresti afhending bréfanna fer fram.
3. Útgefanda:
3.1. nafn, kennitölu og skráða skrifstofu,
3.2. stofndag,
3.3. löggjöf sem um útgefandann gildir og rekstrarform hans,
3.4. tilgang hans,
3.5. hvar félagið er skráð,
3.6. fjárhæð hlutafjár sem áskrift er fyrir,
3.7. fjölda og helstu einkenni þeirra bréfa sem mynda hlutaféð og þá hluta hlutafjárins sem ógreiddir eru,
3.8. fjölda allra breytanlegra skuldabréfa, skiptanlegra skuldabréfa sem kaupréttur að hlutunum fylgir og hvernig breyting, skipting eða áskrift fari fram og
3.9. fyrirtækjasamstæðu sem útgefandi tilheyrir,
3.10. ef við á þegar um er að ræða hlutabréf skal einnig tilgreina eftirfarandi: fjárhæð hlutafjár og hversu lengi heimild til hlutafjárútgáfu gildir og hluthafa þá sem beint eða óbeint fara með eða gætu farið með úrslitavald í rekstri útgefandans, svo fremi sem um þá er vitað.
4. Aðalstarfsemi útgefandans:
4.1. lýsingu á helstu starfsemi hans og alla óvenjulega þætti sem áhrif hafa haft á starfsemi hans þar sem við á,
4.2. öll einkaleyfi, leyfi eða samninga sem máli skipta,
4.3. upplýsingar um yfirstandandi fjárfestingar sem eiga sér stað ef þær skipta máli og
4.4. dómsmál sem kunna að standa yfir ef þau geta haft veruleg áhrif á fjárhagstöðuna.
5. Eignir og skuldir útgefandans fjárhagsstöðu og afkomu:
5.1. eigin ársreikninga undangengin tvö reikningsár og samstæðureikninga þar sem við á,
5.2. ef útgefandi færir aðeins samstæðureikninga skulu þeir færðir inn í útboðslýsinguna,
5.3. ef útgefandi færir bæði eigin ársreikninga og samstæðureikninga skal hann færa bæði uppgjörin inn í útboðslýsinguna en þó má hann færa inn annað uppgjörið eingöngu ef það sem ekki er fært inn felur ekki í sér viðbótarupplýsingar sem máli skipta,
5.4. séu liðnir meira en 9 mánuðir frá lokum þess reikningsárs sem síðasti ársreikningur tilheyrir skal sýna hlutaársreikning sem nær til a.m.k. 6 mánaða þar á eftir. Sé hann ekki endurskoðaður skal þess getið,
5.5. nafn og kennitölu þess sem ber ábyrgð á endurskoðun reikninga og
5.6. hafi endurskoðandinn haft fyrirvara í áritun sinni eða synjað um hana verður að geta þess og tilgreina ástæður.
6. Stjórn útgefanda, framkvæmdastjórn og eftirlit:
6.1. nöfn og kennitölur,
6.2. heimilisföng og starfsheiti og
6.3. sé um að ræða almennt útboð á hlutum í félagi með takmarkaða ábyrgð skal geta um laun þeirra sem annast stjórn, framkvæmdastjórn og skoðun reikninga.
7. Framvindu viðskipta útgefanda undanfarið og framtíðarhorfur að svo miklu leyti sem slíkar upplýsingar geta haft áhrif sem máli skipta við mat á honum:
7.1. markverðustu nýjungar varðandi framvindu viðskipta útgefanda frá lokum næstliðins reikningsárs og
7.2. framtíðarhorfur hans að minnsta kosti á yfirstandandi reikningsári og hafi endurskoðandi eða óháður matsmaður yfirfarið forsendur.


Þegar almennt útboð fer fram á skuldabréfum sem einn eða fleiri lögaðilar ábyrgjast skal einnig veita þær upplýsingar sem nefndar eru í liðum 3.-7. í 2. mgr. um ábyrgðaraðila.

Þegar almennt útboð fer fram á breytanlegum skuldabréfum eða skiptanlegum skuldabréfum eða skuldabréfum með kauprétti á hlut eða á kaupréttinum sjálfum, verður einnig að veita upplýsingar um eðli þeirra hlutabréfa eða skuldabréfa sem rétturinn beinist að og hvenær og hvernig breyting, skipti eða áskrift megi fara fram. Þegar útgefandi hlutabréfanna eða skuldabréfanna er ekki sá sami og gaf út hin upphaflegu skuldabréf eða veitti kaupréttinn, verða þær upplýsingar, sem tilgreindar eru í liðum 3.-7. í 2. mgr. um útgefandann, að koma fram.

Þegar tímabilið frá því að útgefandi hóf starfsemi sína er styttra en um er getið í 2. mgr., þarf aðeins að veita upplýsingar sem lúta að þeim tíma frá því starfsemi hófst.

Ef í ljós kemur að upplýsingar, sem tilgreindar eru í 2. mgr., eiga ekki við um starfssvið útgefanda eða rekstrarform hans vegna þeirra verðbréfa sem í boði eru, skal gera útboðslýsingu með jafngildar upplýsingar.

Ef hlutabréf eru boðin hluthöfum útgefanda á grundvelli forkaupsréttar þeirra við skráningu á skipulegum verðbréfamarkaði getur Fjármálaeftirlitið, eða skipulegur verðbréfamarkaður sem annast athugun á útboðslýsingum, heimilað að sumum upplýsingum sem tilgreindar eru í liðum 4.-6. í 2. mgr., sé sleppt, svo fremi sem fjárfestar hafi yfir að ráða nýjustu upplýsingum um útgefandann, jafngildum þeim sem krafist er í þessum viðauka.

Þegar flokkur hlutabréfa er skráður á skipulegum verðbréfamarkaði getur Fjármálaeftirlitið, eða skipulegur verðbréfamarkaður sem annast athugun á útboðslýsingum, veitt undanþágu að öllu leyti eða að hluta frá því að birta útboðslýsingu. Skilyrði þess eru að áætlað markaðsverð, nafnverð eða, sé nafnverð ekki tilgreint, bókfært verð hinna útboðnu bréfa nemi minna en 10% af sambærilegu verðgildi hlutabréfa í sama flokki sem þegar eru hafin viðskipti með og að fjárfestar hafi yfir að ráða nýjustu upplýsingum um útgefandann, jafngildum þeim sem krafist er í þessum viðauka.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica