Viðskiptaráðuneyti

608/2000

Reglugerð um vínmál og löggildingu þeirra. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi fjallar um allar gerðir vínmála sem notuð eru til að mæla skammta áfengis sem ætlað er til sölu.

 

2. gr.

Skilgreiningar.

Brúnarmerki eru tvö innsiglismerki sem slegin eru í veltivínmál til staðfestingar málrúmtaki þess. Þau eru slegin í veltivínmál þétt við efstu brún þess. Merkin skulu þannig mótuð að unnt sé að sjá hvort sorfið hafi verið af brúninni eftir að vínmálið hefur verið löggilt. Brúnarmerki skulu vera gegnt hvort öðru.

Frumsannprófun er aðferð til að ganga úr skugga um að framleiðsla tækis sé í samræmi við viðurkennda frumgerð og standist mælifræðilegar kröfur, m.a. um heimiluð hámarksfrávik og merkingar.

Gerðarviðurkenning byggist á ítarlegri gerðarprófun þar sem prófað hefur verið eftir kröfum viðkomandi tilskipana og reglugerða eða annarra kröfuskjala. Gerðarviðurkenning er forsenda frumsannprófunar og markaðssetningar eftir öðrum leiðum.

Glas merkir hér glas eða könnu sem notuð eru til að mæla og selja áfengi.

Heimiluð hámarksfrávik eru stærstu gildi sem leyfð eru fyrir frávik í reglugerðum, stöðlum og öðrum kröfuskjölum fyrir tiltekin mælitæki.

Mæligrunnur merkir áþreifanlega mælikvarða, mælitæki eða mælibúnað til þess að skilgreina, raungera, varðveita eða birta einingu eða gildi eðlisfræðistærðar til þess að flytja þessa einingu eða stærð yfir á önnur mælitæki með samanburði.

Vínmál er samheiti fyrir veltivínmál, vínskammtara og glös.

Vínskammtari er samheiti fyrir hálfsjálfvirka og sjálfvirka vínskammtara fyrir þunnfljótandi áfengi.

Þunnfljótandi telst áfengi sem hefur minna en 5% þurrefnisinnihald, svo sem vodka, viskí og brennivín.

 

3. gr.

Hæfniskröfur.

Löggildingaraðili skal uppfylla þær kröfur sem fram koma í reglugerð um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu.

Prófunarmaður skal hafa yfir að ráða nægilegri tæknikunnáttu til að annast löggildingar vínmála og meta ástand þeirra út frá prófunum og skoðunum. Tryggt skal að kunnáttu hans sé við haldið með endurmenntun. Hann skal kunna skil á þeim reglum sem gilda um  vínmál.

Tæknilegur stjórnandi skal vera verkfræðingur eða tæknifræðingur og hafa þekkingu á vínmálum og reynslu af löggildingu þeirra. Undanþágu má gera frá framangreindum skilyrðum um þekkingu og reynslu ef viðkomandi hefur menntun eða starfsreynslu og þjálfun sem faggildingarsvið Löggildingarstofu telur fullnægjandi. Tæknilegur stjórnandi er ábyrgur fyrir öllum löggildingum sem prófunarstofa vinnur.

Tæknilegur stjórnandi og prófunarmaður aðila með B-faggildingu á sviði löggildinga skulu uppfylla sömu hæfniskröfur og prófunarmaður.

 

4. gr.

Mælitæki notuð við löggildingu.

Öll mælitæki sem löggildingaraðili notar í tengslum við löggildingar vínmála skulu vera kvörðuð og skal kvörðunin rekjanleg til landsmæligrunna á Íslandi.

Vatn notað við prófun skal vera 20 ± 1°C. Vog notuð við prófun skal ekki hafa meiri óvissu en 0,2 g við 30 g en 0,4 g við 60 g. Hitamælir notaður við prófun skal ekki hafa grófari deilingu en 0,2°C við 20°C.

 

5. gr.

Aðstæður.

Vog, sem notuð er við löggildingar vínmála, skal vera lárétt á stöðugu borði, umhverfi skal vera hreint og loft kyrrt og allar aðstæður skulu vera þannig að þær spilli ekki niðurstöðu vigtunar. Lýsing þarf að vera góð þannig að nákvæmlega megi fylgjast með fyllingu vínmála. Aðstaða skal vera til að stilla flöskum upp með stöðugum hætti þannig að auðvelt sé að taka sýni úr fyllingum sjálfvirkra og hálfsjálfvirkra vínskammtara. Umhverfishitastig skal vera stöðugt og sem næst 20°C.

 

6. gr.

Löggildingarhæfi.

Ekki er krafist gerðarviðurkenningar eða frumsannprófunar fyrir vínmál en gerð þeirra er lýst í viðauka.

Löggildingarhæfi vínmála er staðfest með því að skoða og prófa hvort gerð og mælifræðilegir eiginleikar vínmáls séu í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar. Einkum er um að ræða staðfestingu þess að kröfur um heimiluð hámarksfrávik séu uppfylltar.

Löggildingarstofa metur löggildingarhæfi vínskammtara og veitir heimild til löggildingar á grundvelli tæknilegra gagna og prófana.

Heimiluð hámarksfrávik við löggildingu vínmála eru hin sömu og leyfileg notkunarfrávik. Leyfileg frávik eru:

1.    ±1,0 ml fyrir 3 cl  og  ±2,0 ml fyrir 6 cl veltivínmál.

2.    ±1,5 ml fyrir 3 cl og ±3,0 ml fyrir 6 cl vínskammtara.

3.    5% fyrir glös með 10 cl málrúmtak eða minna og 3% fyrir glös með meira en 10 cl málrúmtak.

Kerfisbundin misnotkun vikmarka er óheimil.

 

7. gr.

Löggilding vínmála.

Vínmál má ekki löggilda nema það uppfylli skilyrði um löggildingarhæfi.

Við löggildingu vínmála skal fara eftir verklagsreglum sem Löggildingarstofa hefur samþykkt. Mæla skal rúmtak sérhvers vínskammtara a.m.k. fjórum sinnum.

Veltivínmál eru löggilt með því að löggildingartákn ásamt faggildingarnúmeri prófunarstofu og ártali þess árs sem löggilt er á er slegið í arm þess. Einnig skal slá brúnarmerkin í málið til staðfestingar málrúmtaki. Vínskammtarar eru löggiltir með því að innsigla þá og festa einnig á þá löggildingarmiða þegar því verður við komið. Ártal á löggildingarmiða merkir árið þegar gildistími löggildingar rennur út en ártal á löggildingarhnappi er árið þegar löggilt var. Þegar bæði er settur löggildingarmiði og löggildingarhnappur sem innsigli má sleppa ártali á hnappinum.

Glös sem eru eins að allri gerð eins og lýst er í 3. tölul. viðaukans teljast löggilt.

 

8. gr.

Tíðni löggildinga.

Ekki má taka veltivínmál eða vínskammtara í notkun án undanfarandi löggildingar.

Veltivínmál verða ekki endurlöggilt en vínskammtara skal löggilda á 3 ára fresti.

 

9. gr.

Afturköllun löggildingar.

Löggilding vínmáls fellur úr gildi ef:

1.         Vínmál skaddast eða bilar.

2.         Innsigli er rofið.

3.         Frávik við notkun er meira en heimiluð hámarksfrávik.

 

10. gr.

Skýrslugerð.

Skýrslugjöf til Löggildingarstofu skal vera í samræmi við reglugerð um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu eftir því sem við á um vínmál.

Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í prófunarskýrslum sem lagðar eru til grundvallar löggildingu vínmála:

1.         Gerð vínmáls.

2.         Málstærð vínmáls.

3.         Niðurstaða prófunar.

4.         Aðstæður.

Þessar upplýsingar skulu vera aðgengilegar starfsmönnum Löggildingarstofu.

 

11. gr.

Málskot.

Komi upp ágreiningur um úrskurð Löggildingarstofu um einhver atriði varðandi ákvæði eða beitingu þessarar reglugerðar má skjóta málinu til ráðherra.

 

12. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 541/1996 um vínmál og löggildingu þeirra.

 

Viðskiptaráðuneytinu, 18. ágúst 2000.

 

F. h. r.

Þorgeir Örlygsson.

Atli Freyr Guðmundsson.

 

 

VIÐAUKI

Gerð vínmála.

 

1.    Veltivínmál.

1.1. Veltivínmál er opið mæliker sem velt er við til að tæma það. Veltivínmál skal vera gert úr ryðfríu stáli eða öðrum þeim málmi sem uppfyllir kröfur reglugerðar um efni og hluti sem ætlað er að snerta matvæli. Efnisstyrkur málsins skal nægjanlegur til að það aflagist hvorki við meðhöndlun né langvarandi notkun. Gert skal ráð fyrir að hægt sé að slá í það löggildingartákn án þess að það aflagist.

1.2. Veltivínmál skal hafa hringlaga botn og víkkandi þversnið upp að brún. Brúnir veltivínmáls skulu vera jafnar að ofan og án kanta svo að hægt sé að slá í þær brúnarmerki.

1.3. Veltivínmál skal hafa tvo mótlæga arma til þess að halda málinu uppi þegar það er lagt ofan á glas sem verið er að skammta í. Armarnir skulu þannig gerðir að málið sitji stöðugt á glasi, hvort heldur málið er tómt eða fullt.

1.4. Málrúmtak veltivínmáls miðast við að það sé fyllt að efstu brún.

1.5. Málrúmtak veltivínmála skulu vera 3 eða 6 cl og skal það tilgreint greinilega á þeim.

 

2.    Vínskammtari.

2.1. Vínskammtarar skulu þannig gerðir bæði hvað varðar efni og útlit að þeir hvorki breytist né aflagist í tímans rás eða við notkun.

2.2. Hálfsjálfvirkur vínskammtari er vínmál sem sett er á flöskustút og fyllist sjálfkrafa en tæmist handvirkt. Meginhlutar vínskammtarans eru hólkur sem gengur inn í flöskustútinn, mælihólf, sjálfvirkur loki sem opnar fyrir rennsli í mælihólfið og handvirkur loki sem opnar fyrir rennsli úr því. Við skömmtun áfengis úr flösku með vínskammtaranum er flaskan höfð á hvolfi og handvirki lokinn notaður til að tæma hólfið en á meðan er lokað fyrir rennsli í það.  Sjálfvirki lokinn skal annars standa opinn. Mælihólf hálfsjálfvirkra vínskammtara skal vera þannig gert að hægt sé að sjá hvort það er fullt eða ekki.

2.3. Vínskammtarar skulu svo útbúnir að hægt sé að innsigla þá. Eftir að þeir hafa verið innsiglaðir má ekki vera hægt að breyta neinu því sem haft getur áhrif á mælt magn eða mælinákvæmni, nema með því að rjúfa innsiglið.

2.4. Vínskammtarar mega vera með teljara sem telur hversu oft er skammtað.

2.5. Málrúmtak mælihólfa vínskammtara skulu vera 3 eða 6 cl og skal það tilgreint greinilega á þeim.

 

3.    Glös.

3.1. Glös skulu vera merkt með málrúmtaki og áfyllingarstriki sem sýnir hvar málrúmtaki þess er náð. Áfyllingarstrik skulu vera skörp og vel sýnileg.

3.2. Glös skulu auðkennd þeim sem er ábyrgur fyrir merkingunum. Ábyrgðaraðilinn skal hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu og hafa tilskilin leyfi til merkinga á málrúmtaki glasa og sæta reglubundnu eftirliti.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica