1. gr.
Prófnefnd verðbréfaviðskipta heldur próf í verðbréfaviðskiptum samkvæmt 11. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Próf þetta nefnist verðbréfaviðskiptapróf. Starfsmenn fyrirtækis í verðbréfaþjónustu, sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf skv. 8. og 9. gr. laga um verðbréfaviðskipti, skulu hafa staðist nám í verðbréfaviðskiptum.
Viðskiptaráðherra skipar prófnefnd til fjögurra ára í senn. Í henni eiga sæti fimm menn, einn tilnefndur af lagadeild Háskóla Íslands, einn tilnefndur af viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, einn tilnefndur af Samtökum verðbréfafyrirtækja, einn tilnefndur sameiginlega af kauphöllum og skipulegum tilboðsmörkuðum skv. lögum nr. 34/1998 og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Varamenn skal skipa með sama hætti.
2. gr.
Próf skulu að jafnaði haldin eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Prófnefnd ákveður fjölda prófa. Próf skulu að jafnaði vera skrifleg. Próf skulu auglýst í fjölmiðlum með a.m.k. átta vikna fyrirvara. Í auglýsingu skal koma fram hvar og hvenær próf eru haldin, tímalengd þeirra, hvaða hjálpargögn eru leyfileg, hvaða lágmarkseinkunna er krafist, hver fjárhæð prófgjalda er og hvernig þau skuli greidd. Einnig skal koma fram hvar upplýsingar um prófkröfur og prófsefni er að finna.
Ekki er skylt að halda sérstakt sjúkra- eða upptökupróf í tengslum við próf samkvæmt 1. mgr.
Ráðherra ákveður prófgjöld að fenginni tillögu prófnefndar og skal greiða þau fyrir þau tímamörk sem prófnefnd ákveður.
3. gr.
Prófnefnd tekur ákvörðun um efni sem prófað er úr á verðbréfaviðskiptaprófi. Prófnefnd semur próflýsingu í viðkomandi grein og skal hún liggja fyrir þegar námskeið er auglýst skv. 1. mgr. 2. gr.
Verðbréfaviðskiptapróf skiptast í þrjá hluta, I. hluta, almenna lögfræði, II. hluta, almenna viðskiptafræði og III. hluta, fjármagnsmarkaðinn. Við ákvörðun skv. 1. mgr. skal prófnefnd leggja til grundvallar að efni hvers hluta krefjist þekkingar á eftirtöldum sviðum:
I. hluti
Fræðikerfi íslenskrar lögfræði og réttarfari. Lagareglum á sviði fjármuna- og félagaréttar.
II. hluti
Grundvallarþáttum í fjármunaútreikningum. Greiningu ársreikninga, skattamálum. Grunnatriðum í þjóðhagfræði.
III. hluti
Lögum og reglum um fjármagnsmarkaðinn. Verðbréfamarkaði og helstu tegundum verðbréfa. Eignastýringu, samvali verðbréfa og rekstri sjóða. Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Verðbréfaviðskiptum og ráðgjöf.
Prófnefnd er heimilt að fengnu samþykki viðskiptaráðherra að gera breytingar á þeim sviðum sem tilgreind eru í 2. mgr.
4. gr.
Öllum er heimilt að skrá sig til verðbréfaviðskiptaprófs.
Þeir sem lokið hafa embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands, eru undanþegnir töku prófa á I. hluta skv. 2. mgr. 3. gr. Þeir sem lokið hafa lokaprófi frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands eru undanþegnir töku prófa á II. hluta 2. mgr. 3. gr.
Prófnefnd getur veitt próftaka, sem um það sækir, undanþágu frá því að þreyta próf í einstökum greinum. Skilyrði þess að slíka undanþágu megi veita er að próftaki sýni fram á það með fullnægjandi hætti, s.s. með vottorði frá viðkomandi menntastofnun, að hann hafi staðist sambærileg próf á háskólastigi að mati prófnefndar.
5. gr.
Einkunnir á prófum skulu gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0-10. Til þess að standast verðbréfaviðskiptapróf þarf próftaki að hljóta a.m.k. 7,0 í meðaleinkunn úr þeim prófum er hann hefur þreytt. Próftaki telst ekki hafa staðist einstök próf hljóti hann lægri einkunn en 5,0.
Próftaki á rétt á að sjá prófúrlausn sína ef hann æskir þess innan fimmtán daga frá birtingu einkunnar. Próftaka er heimilt að skjóta mati kennara á úrlausn sinni til prófnefndar til endurmats. Mat prófnefndar á úrlausn er endanlegt.
Prófnefnd staðfestir að próftaki hafi staðist verðbréfaviðskiptaprófið.
6. gr.
Prófnefnd er heimilt að fela óháðum aðilum að semja próflýsingu í viðkomandi grein, semja prófverkefni, fara yfir og gefa einkunn fyrir prófúrlausn. Þá er prófnefnd heimilt að semja við óháðan aðila um framkvæmd prófa.
Prófnefnd er heimilt að standa fyrir námskeiði í einstökum greinum til undirbúnings verðbréfaviðskiptaprófi ef hún telur ástæðu til. Prófnefnd er heimilt að semja við aðra aðila um að halda námskeið samkvæmt þessari málsgrein. Gjöld fyrir námskeiðin skulu ákveðin af ráðherra að fenginni tillögu prófnefndar, nema samningar takist við framkvæmdaraðila um að hann beri fjárhagslega ábyrgð á námskeiðinu.
7. gr.
Prófnefnd er heimilt að ráða sér starfsmann til að hafa umsjón með undirbúningi og framkvæmd prófa og námskeiða skv. 2. mgr. 6. gr.
8. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 58. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, sbr. 11. gr. sömu laga. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 301/1999 um próf í verðbréfamiðlun.
Viðskiptaráðuneytinu, 7. júlí 2000.
Valgerður Sverrisdóttir.
Þorgeir Örlygsson.