1. gr.
Gildissvið.
Þeir sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu, þar með taldar bráðabirgðalöggildingar, skulu uppfylla ákvæði reglugerðar þessarar.
2. gr.
Skilgreiningar.
Ábyrgðarmaður mælitækis er eigandi þess eða sá sem hann tilnefnir.
B-faggilding þjónustuverkstæða á sviði löggildinga er faggilding sem framkvæmd er í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 354/1997 um starfsemi þjónustuverkstæða með B-faggildingu. Það eru verkstæði sem annast bráðabirgðalöggildingar í umboði Löggildingarstofu.
Bráðabirgðalöggildingarmiði er miði sem festur er á mælitæki og sýnir að það hafi bráðabirgðalöggildingu með takmarkaðan gildistíma. Útlit og málsetningar miðans koma fram í viðauka I við reglugerð þessa. Á honum kemur einnig fram hámarksgildistími bráðabirgðalöggildingar og faggildingarnúmer þjónustuverkstæðisins sem framkvæmir löggildinguna.
Innsiglismerki er límmiði með hringlaga merki, löggildingarhnappur festur á innsiglisþráð, brúnarmerki vínmáls eða innslegið löggildingartákn. Merkin eru notuð til að innsigla mælitæki og þau eru þannig gerð að ekki er hægt að fjarlægja þau eftir að þeim hefur verið komið fyrir án þess að þau eyðileggist. Útlit og málsetningar límmiðans og löggildingartáknsins koma fram í viðauka I við þessa reglugerð.
Löggildingaraðili er prófunarstofa eða þjónustuverkstæði með B-faggildingu með starfsleyfi til löggildingar mælitækja.
Löggildingargjald er gjald sem löggildingaraðilar greiða Löggildingarstofu fyrir umsýslu með framkvæmd löggildinga á viðkomandi löggildingarsviði. Greitt er í samræmi við gjaldskrá Löggildingarstofu fyrir hverja löggildingu eða bráðabirgðalöggildingu.
Löggildingarhnappur er hnappur eða flipi sem notaður er sem innsiglismerki. Hann er úr plasti eða mjúkum málmi og er festur á innsiglisþráð. Þá er jafnframt þrykkt í hann faggildingarnúmeri löggildingaraðila og löggildingartákni sem sýnir að mælitæki sem ber hann hefur verið löggilt.
Löggildingarhæfi mælitækis merkir að það sé hæft til að hljóta löggildingu. Undanfari þess er skoðun og prófun mælitækis til staðfestingar þess að það uppfylli settar kröfur.
Löggildingarmiði er miði sem festur er á mælitæki. Á honum kemur fram að mælitækið sem ber hann sé löggilt og hámarksgildistími löggildingarinnar og faggildingarnúmer prófunarstofu sem framkvæmdi löggildinguna. Útlit og málsetningar miðans koma fram í viðauka I við reglugerð þessa.
Löggildingarsvið heita þau svið sem löggildingar mælitækja skiptast í. Löggildingarsviðin afmarkast af reglugerðum sem fjalla um einstakar gerðir mælitækja.
Löggildingartákn er einfaldað skjaldarmerki sem sýnir að mælitæki hefur verið löggilt. Með tákninu skal standa ártal þegar löggilt er og faggildingarnúmer löggildingaraðila sem framkvæmir löggildinguna. Form og útlit táknsins kemur fram í viðauka I við reglugerð þessa.
Mæligrunnur er áþreifanlegur mælikvarði, mælitæki eða mælibúnaður til þess að skilgreina, varðveita eða birta einingu eða gildi eðlisfræðistærðar til þess að flytja þessa einingu eða stærð yfir á önnur mælitæki með samanburði.
Prófun merkir tæknilega framkvæmd sem felur í sér ákvörðun á einu eða fleiri einkennum tiltekinnar vöru, ferlis eða þjónustu samkvæmt fyrir fram tilgreindum verklagsreglum.
Prófunarstofa merkir hér faggilta prófunarstofu sem uppfyllir ákvæði reglugerðar um starfsemi faggiltra prófunarstofa nr. 351/1993. Hún skal hafa hlotið starfsleyfi Löggildingarstofu til að annast löggildingar mælitækja í umboði hennar.
Þjónustugjald er gjald sem ábyrgðarmaður löggildingarskylds mælitækis greiðir löggildingaraðila fyrir prófun og löggildingu þess.
3. gr.
Tæknilegar kröfur.
Tæknileg framkvæmd löggildinga skal vera í samræmi við ákvæði í viðeigandi reglugerðum sem gilda um einstök löggildingarsvið þar sem tæknilegum kröfum til löggildingaraðila, starfsmanna, búnaðar o.s.frv. er lýst.
4. gr.
Heildaróvissa.
Prófunarstofa skal sýna fram á að heildaróvissa við löggildingar sem hún annast eða ætlar sér að annast sé ekki meiri en þriðjungur af leyfilegu hámarksfráviki mælitækisins. Prófunarstofan skal einnig sýna fram á að áhrifsþættir svo sem umhverfisaðstæður geti ekki aukið heildaróvissuna upp fyrir leyfileg mörk.
5. gr.
Starfsumhverfi.
Prófunarstofa sem annast löggildingar skal hafa hlotið faggildingu í samræmi við reglugerð nr. 351/1993 um starfshætti faggiltra prófunarstofa og nánari ákvæði í reglugerðum, sem settar eru með heimild í lögum nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu, um hvert löggildingarsvið fyrir sig.
Prófunarstofu er aðeins heimilt að löggilda þau mælitæki sem starfsleyfi hennar nær til og skal hún geta löggilt öll mælitæki sem falla undir viðkomandi löggildingarsvið eins og það er afmarkað í reglugerð um viðkomandi flokk mælitækja. Prófunarstofu má faggilda til að annast löggildingar á fleiri en einu löggildingarsviði en ekki hluta af sviði.
Starfsvettvangur prófunarstofu er landið allt. Berist prófunarstofu ósk um löggildingu mælitækis, sem fellur undir löggildingarsvið hennar, er henni hvorki heimilt að hafna löggildingu vegna landfræðilegrar staðsetningar mælitækis, sem prófað er á vettvangi, né af öðrum þeim sökum sem teljast þrengja starfssvið prófunarstofunnar. Hún skal framkvæma löggildinguna svo skjótt sem auðið er.
6. gr.
Starfsleyfi.
Löggildingaraðili sem starfar við löggildingar mælitækja skal hafa starfsleyfi frá Löggildingarstofu. Til að öðlast starfsleyfi þarf hann að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:
Löggildingaraðilinn skal vera faggiltur til að framkvæma þær prófanir og skoðanir sem nauðsynlegar eru til að staðfesta löggildingarhæfi mælitækja á viðkomandi löggildingarsviði.
Löggildingaraðilinn skal hafa í föstu starfi tæknilegan stjórnanda sem uppfyllir hæfniskröfur sem settar eru fram í viðeigandi reglugerðum. Tæknilegur stjórnandi ber tæknilega ábyrgð á framkvæmd löggildinga.
Löggildingaraðilinn skal hafa nægilegan fjölda fastra starfsmanna með fullnægjandi menntun, þekkingu og reynslu til að annast löggildingar. Þeir skulu uppfylla hæfniskröfur sem settar eru fram í viðkomandi sérreglugerðum.
Löggildingaraðilinn skal hafa yfir að ráða þeim mælitækjum og búnaði sem nauðsynlegur er til að löggilda viðkomandi mælitæki og lýst er í viðeigandi sérreglugerðum. Mælitækjum og búnaði skal haldið í góðu ástandi.
Mæligrunnar og mælitæki sem löggildingaraðili notar við löggildingar skulu vera kvörðuð og skal kvörðunin vera rekjanleg til landsmæligrunna á Íslandi.
Löggildingaraðilinn skal taka þátt í samanburðarskoðunum sem Löggildingarstofa ákveður og skal bera eigin kostnað vegna þessa.
Löggildingaraðilinn skal senda Löggildingarstofu upplýsingar um allar löggildingar sem hann framkvæmir ásamt nauðsynlegum skýrslum.
Löggildingaraðilinn skal greiða löggildingargjald til Löggildingarstofu fyrir hverja löggildingu sem hann framkvæmir.
7. gr.
Bráðabirgðastarfsleyfi.
Þegar aðili sækir í fyrsta sinn um starfsleyfi til að framkvæma löggildingar er hægt að veita honum starfsleyfi til bráðabirgða. Bráðabirgðastarfsleyfið gildir aldrei lengur en til eins árs. Á þessum tíma getur hann löggilt tæki eins og um löggildingaraðila sé að ræða. Aðili getur aðeins fengið bráðabirgðastarfsleyfi einu sinni fyrir hvert löggildingarsvið.
Þeir sem sækja um bráðabirgðastarfsleyfi skulu hafa komið upp nauðsynlegu gæðakerfi og verklagsreglum ásamt því að leggja fram áætlun um á hvern hátt þeir hyggjast nota aðlögunartímann til að byggja upp starfsemi sína til að uppfylla öll þau ákvæði sem liggja til grundvallar fullu starfsleyfi.
Áður en bráðabirgðastarfsleyfi er veitt skal sá sem um starfsleyfið sækir hafa staðfest forúttekt faggildingarsviðs Löggildingarstofu.
8. gr.
Leyfissvipting.
Löggildingarstofa getur svipt löggildingaraðila starfsleyfi ef skilyrði fyrir leyfisveitingu eru ekki lengur fyrir hendi. Sama á við ef löggildingaraðilinn hlítir ekki fyrirmælum Löggildingarstofu eða faggildingarsviðs hennar, vanrækir hlutverk sitt og skyldur eða sýnir af sér ítrekaða óvarkárni í starfi. Starfsleyfi fellur sjálfkrafa niður hafi löggildingaraðili verið sviptur faggildingu sinni.
9. gr.
Löggildingar.
Mælitæki sem uppfyllir almennar forsendur fyrir löggildingarhæfi og stenst prófanir um að það mæli rétt með tilliti til leyfilegra fráviksmarka telst löggildingarhæft. Nauðsynlegt getur reynst að stilla mælitæki inn fyrir leyfileg fráviksmörk. Skýrsla er gerð um prófunina og síðan er lokið við löggildingu með því að festa á það löggildingarmerki og gefa út löggildingarvottorð. Gefa má út eitt löggildingarvottorð fyrir fleiri en eitt tæki. Jafnframt er tækið innsiglað til þess að mælifræðilegum eiginleikum þess verði ekki breytt á milli löggildinga.
Notkun löggildingartákna, miða og hnappa fer eftir því hvað hentar mismunandi gerðum mælitækja. Ártal og mánuður á löggildingarmiðum sýnir hvenær löggilding rennur út en ártal sem þrykkja má í mælitæki eða hnapp sýnir árið þegar löggilding fer fram. Kveða má á um frávik frá þessari almennu reglu um notkun ártals í sérreglugerð um löggildingu tiltekins mælitækjaflokks.
10. gr.
Löggildingarmerki, innsigli og skýrslublöð.
Útlit og málsetningar löggildingarmiða, löggildingartákns og innsiglismerkja eru skilgreind í viðauka I við reglugerð þessa. Löggildingarstofa lætur löggildingaraðila í té mót af löggildingartákni. Ekki má nota önnur mót en þau sem Löggildingarstofa hefur látið í té.
Skýrslublöð eru tvenns konar. Annars vegar löggildingarvottorð og hins vegar prófunarskýrslur þar sem skráðar eru niðurstöður prófana á mælitæki. Skýrslublöð skulu liggja fyrir þegar sótt er um starfsleyfi. Löggildingaraðili skal hafa frumrit löggildingarvottorða aðgengileg starfsmönnum Löggildingarstofu. Fullnægjandi er að hafa prófunarskýrslur á rafrænu formi.
Í reglugerðum er kveðið á um þær upplýsingar sem skulu koma fram í prófunarskýrslum sem lagðar eru til grundvallar löggildingu. Þessar upplýsingar skulu vera aðgengilegar starfsmönnum Löggildingarstofu.
11. gr.
Samskipti.
Upplýsingum um niðurstöður löggildinga skal skila til Löggildingarstofu mánaðarlega. Upplýsingum skal skila á tölvutæku formi samkvæmt nánari fyrirmælum Löggildingarstofu þar um. Eftirfarandi skal koma fram fyrir hvert löggilt mælitæki en nánari fyrirmæli kunna að vera gefin í starfsleyfi:
1. Nafn, kennitala og aðsetur eiganda mælitækisins.2. Kennistærðir mælitækisins, svo og raðnúmer.3. Dagsetning löggildingar og gildistími.4. Löggildingarstaða mælitækis fyrir prófun.
Auk þess skulu vera aðgengilegar upplýsingar um beiðnir um löggildingar sem borist hafa og um stöðu verka í vinnslu þegar það á við vegna markaðseftirlits og/eða löggildingareftirlits.
Árlega skal löggildingaraðili afhenda Löggildingarstofu ársskýrslu í samræmi við starfsleyfi og verklagsreglur Löggildingarstofu þar að lútandi með tölfræðilegum upplýsingum um niðurstöður löggildinga síðastliðið ár, m.a. upplýsingar um frávik og stillingar eftir því sem unnt er.
12. gr.
Sérákvæði um aðila sem annast bráðabirgðalöggildingar.
Almennt gilda sömu ákvæði um aðila sem annast bráðabirgðalöggildingar og um prófunarstofur sem annast löggildingar en þó eru nokkur frávik sem hér eru tilgreind nánar.
Aðilar sem annast bráðabirgðalöggildingar:
1. Skulu hafa hlotið faggildingu í samræmi við reglugerð um starfsemi þjónustuverkstæða með B-faggildingu nr. 354/1997.2. Mega aðeins löggilda þau mælitæki sem starfsleyfi þeirra nær til.3. Þurfa ekki að geta löggilt öll mælitæki sem falla undir tiltekið mælisvið og hafa takmarkaðan starfsvettvang.4. Þurfa ekki að meta heildaróvissu.
Skilyrði fyrir því að veita megi löggildingarskyldu mælitæki bráðabirgðalöggildingu eru að:
1. Mælitæki hafi áður hlotið löggildingu.2. Stöðva þurfi starfsemi.3. Prófunarstofa geti ekki framkvæmt löggildingu nægilega skjótt.
Bráðabirgðalöggilding gildir í allt að mánuð og skal tilkynnt Löggildingarstofu samdægurs. Tilkynningin skal innihalda eftirtaldar upplýsingar:
1. Nafn, kennitölu og aðsetur eiganda mælitækisins.2. Upplýsingar um notanda mælitækis ef hann er annar en eigandi þess.3. Kennistærðir mælitækisins, svo og raðnúmer.4. Staðfestingu um að búið sé að óska eftir löggildingu hjá prófunarstofu.
Aðili með B-faggildingu þarf ekki að skila skýrslum ársfjórðungslega heldur aðeins árlega eins og fram kemur í 4. málsgrein 11. gr.
13. gr.
Málskot.
Komi upp ágreiningur um úrskurð Löggildingarstofu um einhver atriði varðandi ákvæði eða beitingu þessarar reglugerðar má skjóta málinu til ráðherra.
14. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 353/1997 um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði löggildingarstofu.
Viðskiptaráðuneytinu, 18. ágúst 2000.
F. h. r.
Þorgeir Örlygsson.
Atli Freyr Guðmundsson.
Viðauki I
Útlit og málsetning löggildingarmiða, bráðabirgðalöggildingarmiða og innsiglismerkis skulu vera sem hér segir:
LÖGGILT MÆLITÆKIStærð 35 x 28 mmBRÁÐABIRGÐA-LÖGGILDINGStærð 35 x 28 mmGrunnur:Graduated hvítur að grænum (35% Cyan 845 Yellow)
INNSIGLI
Stærð 35 x 35 mmLetur:Löggildingarstofa, Berling Roman condensed 80% 10 ptInnsigli, Berling Roman Condensed 90% 11 ptSKJALDARMERKI einfaldað fyrir leturgrafaraMerkið er notað sem löggildingartákn eða innsigli.Stærð 10 mm á hæð x 9 mm á breidd
Heimilt er að nota öll merkin fjögur í öðrum stærðum, en litir og hlutföll skulu vera óbreytt.
MERKI LÖGGILDINGARSTOFU Í LIT
Blár flötur:PANTON 286PROCESS-LITIR C 100% M 60% K 6%Rauður flötur:PANTON 032PROCESS-LITIR M 91% Y87%Fáni í skjaldarmerki:Dekkri grár: K 55%Ljósari grár: K 40%Letur:Berling Roman condensed 80%