1. gr.
Í reglugerð þessari merkir:
1. Kaupgengi hlutdeildarskírteina: Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina að frádreginni þóknun eins og kveðið er á um í samningi milli verðbréfasjóðs og rekstrarfélags.
2. Sölugengi hlutdeildarskírteina: Söluverð hlutdeildarskírteina, sbr. ennfremur lokamálsl. 6. gr.
3. Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina: Markaðsvirði samanlagðra eigna í verðbréfasjóði að frádregnum skuldum hans við innlausn samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 10/1993, sbr. þó 1. tölul. þessarar greinar.
4. Markaðsvirði: Skráð eða áætlað andvirði verðbréfs á markaði á hverjum tíma, sbr. 2. gr.
5. Niðurfærslureikningur: Reikningur sem skylt er að mynda í verðbréfasjóði eða sérhverri sjóðsdeild þar sem færð eru almenn og sérstök tillög í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.
6. Almennt tillag: Tillag verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar í niðurfærslureikning sem myndað er til að mæta þeirri almennu tapshættu sem talin er vera innan sérhvers áhættuflokks samkvæmt 4. og 5. gr. þessarar reglugerðar.
7. Sérstakt tillag: Tillag verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar í niðurfærslureikning sem myndað er vegna sérstakrar tapshættu í einstökum málum sem verður innan sérhvers áhættuflokks skv. 4. gr. þessarar reglugerðar vegna krafna sem líklegt er talið að muni ekki innheimtast að hluta til eða að öllu leyti, sbr. 5. gr.
2. gr.
Verðbréf í eigu verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar sem skráð eru á opinberum verbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði skulu metin samkvæmt því kaupgengi sem gildir á markaðnum á hverjum tíma. Nú er eingöngu skráð sölugengi verðbréfs og skal þá við það miðað að frádreginni áætlaðri söluþóknun.
Önnur verðbréf í eigu verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar en um ræðir í 1. mgr. skulu metin með hliðsjón af þeirri ávöxtunarkröfu sem þau voru keypt á að viðbættri eða frádreginni þeirri breytingu sem orðið hefur að meðaltali á ávöxtunarkröfu verðbréfa á verðbréfamarkaði frá þeim tíma sem þau voru keypt, sbr. ennfremur 3. gr.
Við mat á verðbréfaeign samkvæmt þessari grein skal taka tillit til sérstakra aðstæðna sem geta haft áhrif til lækkunar á verðmæti hennar, t.d. þegar fyrir liggur að breyta þurfi verðbréfaeign í laust fé með skömmum fyrirvara.
3. gr.
Fyrir hvern verðbréfasjóð eða einstaka sjóðsdeild sé verðbréfasjóður deildaskiptur skal mynda niðurfærslureikning vegna annarra verðbréfa en um ræðir í 1. mgr. 2. gr. í því skyni að gengi hlutdeildarskírteina endurspegli sem best verðmæti eigna hlutaðeigandi sjóðs eða deildar á hverjum tíma. Leyfilegt frávik við útreikning á gengi hlutdeildarskírteina er 0,8% og skal það leiðrétt innan þriggja mánaða.
4. gr.
Tilllag skv. 5. gr. skal vera breytilegt og taka mið af eftirfarandi áhættuflokkun:
Flokkur A:
1. Veðskuldabréf og önnur verðbréf með sjálfsskuldarábyrgð eftirtalinna aðila:
1.1 Ríkissjóðs og stofnana ríkisins enda sé um að ræða sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum þeirra.
1.2 Sveitarfélaga, enda fari skuldir að frádregnum veltufjármunum ekki fram úr 50% af sameiginlegum tekjum og íbúafjöldi þeirra sé a.m.k. 1000.
1.3 Fjármálastofnana er hafa fengið starfsleyfi samkvæmt sérstökum lögum, svo sem viðskiptabankar, sparisjóðir, eignarleigufyrirtæki og vátryggingarfélög.
1.4 Fyrirtækja með 30% eiginfjárhlutfall, veltufjárhlutfall sé 1,2% hið lægsta og eigið fé að lágmarki 350 milljónir króna samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi.
2. Fasteignaveðskuldabréf sem tryggð eru með veði í fasteign á höfðuborgarsvæðinu. Höfuðborgarsvæðið telst vera Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Seltjarnarnes, Garðabær, Bessastaðahreppur og Mosfellsbær. Veðmörk heildarveðsetninga skulu eigi vera hærri en 60% af áætluðu söluverði fasteignar.
3. Hlutdeildarskírteini innlendra verðbréfasjóða sem starfa samkvæmt lögum nr. 10/1993, um verðbréfsjóði, svo og hlutdeildarskírteini erlendra verðbréfasjóða sem eingöngu fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á opinbernm verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði.
Flokkur B:
1. Veðskuldabréf og önnur verðbréf með sjálfsskuldarábyrgð eftirtalinna aðila:
1.1 Sveitarfélaga sem falla ekki undir lið 1.2 í flokki A.
1.2 Fyrirtækja sem falla ekki undir lið 1.4 í flokki A, en hafa 30% eiginfjárhlutfall, veltufjárhlutfall sé 1,2% og eigið fé að lágmarki 150 milljónir króna samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi.
2. Fasteignaveðskuldabréf sem tryggð eru með veði í fasteign á öðrum stöðum á landinu en um ræðir í lið 2.1 í flokki A, enda sé gætt sömu veðmarka og þar greinir.
Flokkur C:
1. Hlutabréf.
2. Önnur verðbréf útgefin af eða með ábyrgð einstaklinga, fyrirtækja eða stofnana.
5. gr.
Tillag í niðurfærslureikning verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar skal fært í samræmi við tilkynningu bankaeftirlits Seðlabanka Íslands til starfandi rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja. Tillag í niðurfærslureikning eigna skiptist í:
1. Almennt tillag sem reiknað skal í hundraðshlutum af bókfærðri heildarfjárhæð verðbréfa að frádregnu sérstöku tillagi skv. 2. tölul.
2. Sérstakt tillag sem reiknað skal í hundraðshlutum af vanskilum, þ.e. gjaldföllnum eftirstöðvum verðbréfa ásamt vöxtum. Tillag tengt vanskilum skal reiknað fyrir hvern byrjaðan mánuð sem vanskil hafa staðið en þó ekki fyrr en að liðnum fyrstu sex mánuðum vanskila. Þegar vanskil sem sérstakt tillag reiknast af hafa staðið í eitt ár eða lengur skal hætt að tekjufæra dráttarvexti svo og þóknun og skal krafan þá standa óbreytt í bókhaldi hlutaðeigandi verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar þangað til ljóst verður hversu hátt hlutfall höfuðstóls og vaxta innheimtist. Sérstakt tillag í niðurfærslureikning skal leiðrétt á þriggja mánaða fresti í samræmi við skriflegt mat sem yfirfarið er af löggiltum endurskoðanda verðbréfasjóðs.
Bankaeftirlitinu er heimilt að kveða nánar á um tillög í niðurfærslureikning samkvæmt þessari grein.
6. gr.
Kaupgengi, innlausnarvirði og sölugengi hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar skal reiknað út daglega.
Ávallt skulu liggja fyrir upplýsingar um kaupgengi, innlausnarvirði og sölugengi hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs eða sjóðsdeildar, svo og upplýsingar um umsýslu- og stjórnunarkostnað hlutaðeigandi sjóðs eða sjóðsdeildar til reiðu fyrir eigendur hlutdeildarskírteina. Ávallt skal tekið fram hvort við útreikning sölugengis hafi verið tekið tillit til lögboðins stimpilgjalds.
7. gr.
Allar fjárhæðir í reglugerð þessari eru miðaðar við lánskjaravísitölu 3282 og skulu þær breytast í hátt við breytingar sem verða á henni og auglýstar eru af Seðlabanka Íslands.
8. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 6. mgr. 19. gr. laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, öðlast gildi 15. september 1993. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 478/1991, um framkvæmd útreiknings á innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða.
Viðskiptaráðuneytið, 31. ágúst 1993.
F. h. r.
Björn Friðfinnsson.
Páll Ásgrímsson.