Gildissvið.
1. gr.
Reglugerð þessi tekur til prófana og löggildinga rennslismæla fyrir vökva aðra en vatn þar sem vökvinn orsakar hreyfingu á hreyfanlegum veggjum í mælihólfum er gera kleift að mæla hvaða magn sem er. Reglugerðin tekur einnig til viðbótarbúnaðar með rennslismælum eins og þess sem mælt er fyrir um í reglugerð um viðbótarbúnað með rennslismælum fyrir vökva aðra en vatn nr. 141/1994. Ennfremur tekur hún til mælikerfa eins og þau sem mælt er fyrir um í reglugerð um mælikerfi fyrir vökva aðra en vatn nr. 142/1994.
Skilgreiningar.
2. gr.
Frumsannprófun: Frumsannprófun er aðferð til að ganga úr skugga um að framleiðsla tækis sé í samræmi við viðurkennda frumgerð og standist mælifræðilegar kröfur, m.a. um heimiluð hámarksfrávik og merkingar. Aðferðinni er lýst nánar í reglugerðum.
Gerðarviðurkenning: Gerðarviðurkenning byggir á ítarlegri gerðarprófun, þar sem prófað hefur verið eftir kröfum viðkomandi tilskipana og reglugerða eða annarra kröfuskjala. Gerðarviðurkenning er forsenda frumsannprófunar og markaðssetningar eftir öðrum leiðum.
Heimiluð hámarksfrávik: Heimiluð hámarksfrávik skulu vera í samræmi við viðkomandi reglugerðir, sbr. 1. gr.
Leyfilegt lágmarkssölumagn: Leyfilegt lágmarkssölumagn er minnsta afhendingarmagn sem selja má frá rennslismæli.
Mæligrunnur: Merkir áþreifanlegan mælikvarða, mælitæki eða mælibúnað til þess að skilgreina, raungera, varðveita eða birta einingu eða gildi eðlisfræðistærðar til þess að flytja þessa einingu eða stærð yfir á önnur mælitæki með samanburði.
Qmax : Hámarksrennsli rennslismælis samkvæmt tegundarviðurkenningu hans.
Qmax-raun : Raunhámarksrennsli mælis. Raunhámarksrennsli mælis er raunverulegt hámarksrennsli eftir að mælirinn hefur verið settur upp á notkunarstað. Það skal vera á bilinu 0,9Qmax og 1,1Qmax við frumsannprófun en á bilinu 0,5Qmax og 1,1Qmax við endurlöggildingu.
Qmed : Rennsli sem er meira en tvö- eða þrefalt Qmin og minna en hálft Qmax-raun .
Qmin : Minnsta rennsli sem rennslismælir getur afkastað án þess að frávik verði meiri en heimiluð hámarksfrávik.
Hæfniskröfur aðila með B-faggildingu og starfsmanna prófunarstofu.
3. gr.
Prófunarmaður skal vera vélfræðingur eða raffræðingur eða hafa sambærilega menntun og hafa yfir að ráða nægilegri tæknikunnáttu til að annast löggildingar rennslismæla og meta ástand þeirra út frá prófunum eða skoðunum. Tryggt skal að kunnáttu hans sé við haldið með endurmenntun. Hann skal kunna skil á þeim reglum sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið setur varðandi rennslismæla.
Tæknilegur stjórnandi skal vera verkfræðingur eða tæknifræðingur og hafa þekkingu á rennslismælum og reynslu af löggildingu þeirra. Undanþágu má gera frá framangreindum skilyrðum um þekkingu og reynslu ef viðkomandi hefur menntun eða starfsreynslu og þjálfun sem faggildingardeild Löggildingarstofu telur fullnægjandi. Tæknilegur stjórnandi er ábyrgur fyrir öllum löggildingum sem prófunarstofa vinnur.
Aðilar með B-faggildingu á sviði löggildinga skulu uppfylla sömu hæfniskröfur og prófunarmaður.
Mælitæki notuð við löggildingu.
4. gr.
Allir mæligrunnar sem prófunarstofa eða aðili með B-faggildingu notar í tengslum við löggildingar rennslismæla skulu vera kvarðaðir og skal kvörðunin rekjanleg til landsmæligrunna á Íslandi. Óvissa mæligrunna skal vera mest þriðjungur af heimiluðu hámarksfráviki á því rennslisviði sem verið er að prófa.
5. gr.
Prófunarstofa eða aðili með B-faggildingu skal hafa yfir að ráða nauðsynlegum mælitækjum til að staðfesta að umhverfi rennslismælis henti honum.
Aðstæður.
6. gr.
Uppsetning löggildingarskylds rennslismælis skal vera í samræmi við ákvæði í reglugerðum og fyrirmæli framleiðanda um umhverfisaðstæður og frágang. Rennslismælir skal ekki löggiltur nema umhverfishiti sé innan vinnuhitasviðs hans og skal staðfest með mælingu að umhverfisþættir hafi hverfandi áhrif á mæliniðurstöður.
Prófunarstofa skal hafa yfir að ráða nauðsynlegum mælitækjum til að staðfesta að umhverfisaðstæður rennslismælis henti honum.
7. gr.
Í verklagsreglum skal prófunarstofa sýna fram á með útreikningum hver heildaróvissa við löggildingar er.
Í verklagsreglum hennar skal m.a. tekið fram hve mikið frávik má vera án þess að stilla þurfi rennslismælinn eða fella löggildingu hans úr gildi.
Prófunarstofa skal sýna fram á, með 95% vissu (k = 2), að öryggisbil mælinga sé innan heimilaðra hámarksfrávika.
Löggildingarhæfi.
8. gr.
Löggildingarhæfi rennslismælis felst í því að staðfesta með skoðun og prófun að hann uppfylli eftirfarandi atriði:
a) Ákvæði reglugerðar nr. 140/1994 um markaðssetningu. Tekið skal tillit til undanþáguákvæða um rennslismæla sem voru markaðsfærðir fyrir setningu reglugerðar nr. 140/1994.
b) Að merkingar séu í samræmi við kröfur reglugerðar nr. 140/1994.
c) Að aðstæður og notkun henti rennslismælinum.
d) Að mælifræðilegir eiginleikar hans séu í samræmi við kröfur reglugerðar nr. 140/1994, þetta skal staðfest með prófun. Einkum er um að ræða staðfestingu þess að kröfum um heimiluð hámarksfrávik, endurtekningarhæfni og verðútreikning séu uppfyllt.
e) Að virkni og frávik viðbótarbúnaðar séu í samræmi við ákvæði reglugerðar um viðbótarbúnað með rennslismælum fyrir vökva aðra en vatn, nr. 141/1994.
f) Að virkni og frávik mælikerfa séu í samræmi við ákvæði reglugerðar um mælikerfi fyrir vökva aðra en vatn nr. 142/1994.
Heimilt er að löggilda rennslismæli þó svo að merkingar séu ekki í fyllsta samræmi við kröfur að því tilskildu að lágmarksmerkingar komi fram. Þetta á þó aðeins við um rennslismæla sem markaðssettir voru fyrir setningu reglugerðar nr. 140/1994. Lágmarksmerkingar eru:
g) Framleiðandi.
h) Gerð.
i) Hámarksrennsli.
j) Lágmarksrennsli.
k) Leyfilegt lágmarkssölumagn.
l) Raðnúmer.
Í þeim tilvikum sem rennslismælir uppfyllir ekki fyllstu kröfur um merkingar skal prófunarstofa gera athugasemd um að merkingum sé ábótavant og að rennslismælirinn verði ekki endurlöggiltur nema að úr því verði bætt. Athugasemdinni skal komið á framfæri við ábyrgðarmann rennslismælis og Löggildingarstofu.
Fyrir mælt magn sem er minnst 2 l er heimilað hámarksfrávik við löggildingu ± 5 ‰. Í þeim tilfellum sem notað er vatn við prófun mjólkurmæla eru heimiluð hámarksfrávik - 0 ‰ og +10 ‰.
Til að rennslismælir standist prófun mega frávik ekki vera meiri en heimiluð hámarksfrávik. Gildir þetta um hvert atriði sem prófað er eftir því sem við á. Prófunarstofa skal taka tillit til heildaróvissu sinnar við mat á frávikum. Við mat á hvar mæligildi liggur skal prófunarstofa miða við k=2 (95% vissa).
Við prófun rennslismæla skal prófun framkvæmd í það minnsta við Qmax-raun, Qmin og leyfilegt lágmarkssölumagn. Fyrir mæla með hámarksrennsli til og með 100 l/mín skal láta renna í mæliker við Qmax-raun í minnst 30 sekúndur. Sé hámarksrennsli meira en 100 l/mín skal tíminn vera í það minnsta 60 sekúndur. Rennslismælar sem hafa Qmax sem er meira en 70 l/mín skulu einnig mældir við Qmed .
Löggilding rennslismæla.
9. gr.
Í samræmi við 10. gr. laga um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992 ber ábyrgðarmanni rennslismælis að sjá til þess að hann sæti reglubundnu eftirliti og uppfylli þær kröfur sem til hans eru gerðar samkvæmt lögum og reglugerðum og að löggilding hans sé ætíð í gildi.
Áður en rennslismælir er fyrst tekin í notkun skal samræmi hans við gerðarviðurkenningu staðfest með frumsannprófun. Frumsannprófun er lýst í viðkomandi reglugerðum.
Rennslismæli má löggilda hafi löggildingarhæfi hans verið staðfest með skoðun og prófun. Sé rennslismælir löggildingarhæfur er festur á hann löggildingarmiði og telst hann þá löggiltur. Hafi rennslismælirinn íhluti sem notanda er óheimilt að fjarlægja eða stilla skal tryggt gegn slíku með innsigli áður en löggildingarmiði er festur á hann. Rennslismæli skal ekki löggilda nema heimilað hámarskfrávik viðbótarbúnaðar sem tengdur er við hann sé innan leyfilegra marka. Noti margir rennslismælar sama viðbótarbúnaðinn er fullnægjandi að staðfesta frávik hans fyrir hverja rennslismælasamstæðu, ekki er nauðsynlegt að staðfesta frávik hans fyrir hvern rennslismæli.
Í þeim tilfellum sem rennslismælir reynist vera kominn lítillega út fyrir leyfileg fráviksmörk er prófunarstofu heimilt að stilla hann þannig að frávik hans séu innan leyfilegra marka, enda sé ekki um viðgerð að ræða. Slík stilling skal gerð í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda eða viðurkenndar aðferðir, séu leiðbeiningar framleiðanda ekki til. Starfsmenn eða stjórnendur prófunarstofu mega ekki gera við rennslismæli.
Aðili með B-faggildingu á þessu sviði hefur heimild til að veita rennslismæli bráðabirgðalöggildingu að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í reglugerð um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu. Aðili með B-faggildingu hefur heimild til að veita þeim rennslismælum sem tilgreindir eru í starfsleyfi hans, bráðabirgðalöggildingu að undangenginni viðgerð og stillingu. Aðili með B-faggildingu má ekki veita öðrum rennslismælum bráðabirgðalöggildingu en þeim sem hafa áður hlotið fulla löggildingu og eru tilgreindir í starfsleyfi hans.
Tíðni löggildinga.
10. gr.
Gildistími löggildingar rennslismæla fyrir eldsneyti svo sem bensín og steinolíu, er eitt ár. Rennslismælar fyrir smurolíu þurfa aðeins fyrstu löggildingu svo fremi sem frávik í notkun eru ekki meiri en ein tvöföld heimiluð hámarksfrávik.
11. gr.
Löggilding fellur úr gildi við eftirtalið:
a) Ef rennslismælir bilar.
b) Ef innsigli rennslismælis er rofið.
c) Ef viðgerð er framkvæmd á rennslismælinum sem áhrif getur haft á mæliniðurstöður hans.
d) Ef frávik eru meiri en tvöföld þau heimiluðu hámarksfrávik sem gefin eru upp í töluliðum 1, 2 og 3 í II. kafla reglugerðar nr. 140/1994.
e) Ef löggildingargjald er ekki greitt innan fjögurra vikna frá löggildingu.
12. gr.
Skýrslugjöf til Löggildingarstofu skal vera í samræmi við reglugerð um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Löggildingarstofu.
Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í prófunarskýrslum sem lagðar eru til grundvallar löggildingu:
1) Frávik við mælingu.
2) Endurtekningarhæfni.
3) Frávik verðútreiknings.
4) Frávik viðbótarálestrarbúnaðar.
5) Frávik þegar fyrirframstilling er notuð.
6) Aðstæður.
Þessar upplýsingar skulu vera aðgengilegar starfsmönnum Löggildingarstofu.
Málskot.
13. gr.
Komi upp ágreiningur um úrskurð Löggildingarstofu um einhver atriði varðandi ákvæði eða beitingu þessarar reglugerðar má skjóta málinu til ráðherra.
Gildistaka.
14. gr.
Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992 og öðlast gildi 1. júlí 1997.
Viðskiptaráðuneytinu, 11. júní 1997.
F. h. r.
Halldór J. Kristjánsson.
Atli Freyr Guðmundsson.