Viðskiptaráðuneyti

695/1994

Reglugerð um hlutverk nokkurra starfsstétta og lögaðila við aðgerðir gegn peningaþvætti. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um fyrirtæki, einstaklinga og stofnanir sem hafa með höndum starfsemi sem líklegt er að verði notuð til að þvætta peninga. Þessir aðilar eru samkvæmt reglugerð þessari:

1. Póst- og símamálastofnunin, þ. m. t. Póstgíróstofan.

2. Greiðslukortafyrirtæki.

3. Verðbréfamiðlarar.

4. Skiptistöðvar sem fengið hafa leyfi Seðlabanka Íslands til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti sbr. 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál.

2. gr.

Aðilar þeir sem nefndir eru í 1. gr. skulu láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti sem grunur leikur á að rekja megi til brots á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni og tilkynna ríkissaksóknara um viðskipti þar sem slík tengsl eru talin vera fyrir hendi. Samkvæmt beiðni ríkissaksóknara eða lögreglu, sem rannsakar peningaþvættismál, skal láta í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru taldar vegna rannsóknarinnar.

Forðast skal viðskipti þegar fyrir hendi er vitneskja eða grunur um að rekja megi þau til brots á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni þar til ríkissaksóknara hefur verið tilkynnt um viðskiptin. Ef ekki er unnt að koma í veg fyrir viðskiptin eða stöðvun þeirra gæti hindrað lögsókn á hendur þeim sem hafa hagnað af viðskiptunum skal ríkissaksóknara tilkynnt um viðskiptin um leið og þau hafa farið fram.

3. gr.

Stjórnendur, starfsmenn og aðrir, sem vinna í þágu þeirra aðila sem í 1. gr. getur, eru skyldir til að sjá til þess að viðskiptamaður eða annar utanaðkomandi aðili fái ekki frá þeim vitneskju um að ríkissaksóknara hafi verið sendar upplýsingar skv. 2. gr. eða að rannsókn sé hafin vegna gruns um brot á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni.

4. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 80 18. maí 1993 um aðgerðir gegn peningaþvætti, öðlast gildi þegar í stað.

Viðskiptaráðuneytið, 27. desember 1994.

F. h. r.

Þorkell Helgason.

Gunnar Viðar.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica