I. KAFLI
Prófnefnd.
1. gr.
Ráðherra vátryggingamála skipar nefnd, prófnefnd vátryggingamiðlara, til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti þrír menn og jafnmargir til vara, allir sérfróðir um vátryggingamál. Ráðherra velur formann en nefndin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Nefndin getur ráðið sér starfsmann.
2. gr.
Hlutverk prófnefndar er að hafa yfirumsjón með og ákveða tilhögun námskeiða fyrir væntanlega vátryggingamiðlara, þ.m.t. að ákveða námsgreinar og prófkröfur, láta semja kennsluskrá, útbúa kennsluefni og ráða leiðbeinendur. Nefndin getur falið öðrum aðila námskeiðshaldið.
3. gr.
Prófnefnd heldur gerðabók. Í hana skal færa ákvarðanir nefndarinnar og niðurstöður prófa.
II. KAFLI
Námskeið og próf.
4. gr.
Námskeið skal að jafnaði halda annað hvert ár. Þó er eigi skylt að halda námskeið nema a.m.k. 10 þátttakendur hafi staðfest þátttöku sína með greiðslu staðfestingargjalds. Prófnefnd ákveður það efni sem prófað er úr og hvernig því efni er skipt upp á námshluta. Til grundvallar ákvörðun sinni hefur prófnefnd til hliðsjónar að væntanlegir vátryggingamiðlarar skuli búa yfir þekkingu í eftirtöldum námsgreinum:
1. Almenn atriði.
1.1 Kynning. Saga. Skilgreining hugtaka.
1.2 Bókhald. Skattareglur.
1.3 Félagaréttur.
1.4 Sölu- og markaðsfræði. Samskiptatækni.
1.5 Starfsskyldur vátryggingamiðlara. Neytendaréttur.
1.6 Framkvæmd vátryggingamiðlunar.
2. Almenn lögfræði.
2.1 Lög um vátryggingastarfsemi.
2.2 Lög um vátryggingarsamninga.
2.3 Skaðabótaréttur.
2.4 Bótaúrræði. Almannatryggingar. Lífeyrissjóðir.
2.5 Samningaréttur.
2.6 Bótaábyrgð vátryggingamiðlara. Refsilöggjöf.
3. Vátryggingagreinar.
3.1 Sjúkra- og slysatryggingar.
3.2 Líftryggingar.
3.3 Almennar ábyrgðartryggingar.
3.4 Eignatryggingar.
3.5 Ökutækjatryggingar.
3.6 Skipatryggingar. Flugvélatryggingar.
3.7 Farmtryggingar.
4. Önnur atriði.
4.1 Áhættumat. Áhættumeðferð.
4.2 Tjónsuppgjör.
4.3 Iðgjaldaákvörðun. Ágrip af tryggingastærðfræði.
4.4 Fjármagnsmarkaðurinn. Ávöxtun fjármagns.
Heimilt er prófnefnd að færa námsgreinar á milli hluta svo og að bæta einni grein við hvern námshluta eða fækka um eina grein. Telji nefndin nauðsyn á frekari tilfærslu eða endurskoðun námsgreina skal hún leita samþykkis ráðherra vátryggingamála.
5. gr.
Heimilt er prófnefnd að ákveða að raunhæf verkefni sem tengjast námsgrein/námsgreinum í viðkomandi námshluta verði lögð fyrir nemendur. Er nefndinni heimilt að ákveða að vægi verkefna í heildareinkunn hverrar námsgreinar sé allt að 30%. Skal nefndin gera grein fyrir vægi verkefna í hverri námsgrein í upphafi hvers námskeiðs.
6. gr.
Heimilt er prófnefnd að veita lögfræðingum undanþágu frá prófi í greinum 1.3, 2.3, 2.5 og 2.6 og viðskiptafræðingum/hagfræðingum í greinum 1.2, 1.4 og 4.4.
Þá er prófnefnd heimilt að veita þátttakanda, sem um það sækir, undanþágu frá því að þreyta próf í einstökum námsgreinum. Skilyrði slíkrar undanþágu er að þátttakandi framvísi vottorði frá viðurkenndri menntastofnun um að hann hafi staðist sambærilegar námskröfur og gerðar eru til þátttakenda á námskeiðinu að mati prófnefndar.
Þátttaka í námskeiðinu án próftöku er heimil, að fengnu samþykki prófnefndar, gegn greiðslu staðfestingargjalds og kennslugjalds sbr. 9. gr. Slík þátttaka veitir ekki starfsréttindi né réttindi til próftöku síðar.
7. gr.
Próf skulu að öllu jöfnu haldin þegar yfirferð er lokið í hverjum námshluta fyrir sig. Skal próftími vera þrjár klukkustundir úr hvorum námshluta 1 og 4 og tvö próf úr hvorum námshluta 2 og 3 og skal hvert um sig standa yfir í þrjár klukkustundir. Vægi einstakra námsgreina á prófi skal tilkynnt a.m.k. 7 virkum dögum fyrir próf.
Til þess að standast próf skal þátttakandi hljóta einkunnina 5,0 að lágmarki úr hverju prófi fyrir sig og að lágmarki 7,0 í samanlagðri meðaleinkunn. Gefa skal einkunnir með einum aukastaf.
8. gr.
Prófnefnd er skylt að gangast fyrir sjúkraprófi hafi þátttakandi ekki getað sótt próf vegna veikinda. Skal hann framvísa læknisvottorði vegna veikindanna.
Prófnefnd er heimilt að halda sérstakt upptökupróf fyrir þá þátttakendur sem ekki ná tilskildri lágmarkseinkunn. Ef slíkt próf er ekki haldið er þeim heimilt að þreyta próf úr viðkomandi námshlutum næst þegar próf eru haldin.
III. KAFLI
Námskeiðsgjöld o.fl.
9. gr.
Ráðherra ákveður að fenginni tillögu prófnefndar námskeiðsgjöld. Þau skiptast í staðfestingargjald, kennslugjald og prófgjald.
Staðfestingargjald greiðir þátttakandi er hann skráir sig á námskeiðið og er það óafturkræft þótt hann hætti við þátttöku. Gjaldið endurgreiðist honum ef ekki verður af námskeiðinu.
Kennslugjald greiðir þátttakandi eigi síðar en 7 virkum dögum eftir að kennsla hefst. Kennslugjald endurgreiðist hlutfallslega miðað við tilkynningu um brottfall úr námskeiði.
Prófgjald greiðir þátttakandi eigi síðar en 7 virkum dögum fyrir hvert próf. Skal þátttakanda óheimil seta á prófi nema hann hafi staðið skil á prófgjaldi. Þeir er fengið hafa undanþágu frá prófi í einstökum greinum, sbr. 6. gr., skulu greiða hlutfallslegt prófgjald.
Við ákvörðun námskeiðsgjalda skal miða við að nemendur greiði allan kostnað af námskeiði og prófi.
10. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 81. gr. og 98. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi með síðari breytingum og öðlast hún þegar gildi.
Viðskiptaráðuneytinu, 5. júní 1997.
Finnur Ingólfsson.
Halldór J. Kristjánsson.