REGLUGERÐ
um miðlun vátrygginga.
Almenn ákvæði.
1. gr.
Reglugerð þessi gildir um miðlun vátrygginga. Í því felst m.a.;
1. að undirbúa samninga um vátryggingu,
2. gerð slíkra samninga,
3. aðstoð við framkvæmd á slíkum samningum, einnig þegar krafa um vátryggingabætur er sett fram.
Með vátryggingamiðlara í reglugerð þessari er átt við einstakling eða lögaðila sem stundar vátryggingamiðlun.
2. gr.
Ákvæði reglugerðar þessarar eiga ekki við um starfsemi sem rekin er í umboði einstakra vátryggingafélaga og þegar gert er samkomulag við vátryggingafélag eða -félög sem takmarkar heimildir til miðlunar til annarra vátryggingafélaga.
Ákvæði reglugerðar þessarar eiga ekki við um starfsemi þar sem einungis fer fram tjónsuppgjör eða ráðgjöf á vátryggingasviði án þess að jafnframt sé starfað við að koma á vátryggingasamningum í frumtryggingum.
Þegar við á eiga ákvæði reglugerðar þessarar við um starfsemi vátryggingasölumanna sem eru í þjónustu vátryggingamiðlara.
Leiki vafi á um hvort starfsemi falli undir ákvæði laga um vátryggingastarfsemi og reglugerðar þessarar, sker ráðherra vátryggingamála úr.
3. gr.
Sá einn má nota heitið vátryggingamiðlari sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi eða hefur verið skráður í vátryggingamiðlaraskrá.
Skilyrði starfsleyfis lögaðila er að framkvæmdastjóri uppfylli skilyrði til að fá starfsleyfi sem vátryggingamiðlari.
Starfsleyfi vátryggingamiðlara í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins telst jafngilda starfsleyfi hér á landi enda séu uppfyllt skilyrði laga um vátryggingastarfsemi og reglugerðar þessarar. Vátryggingamiðlari með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem hyggst starfa hér á landi skal skráður hjá Vátryggingaeftirlitinu. Kröfum um þekkingu og starfsreynslu skal talið fullnægt séu uppfyllt ákvæði 9. gr. eftir því sem við getur átt. Sé starfsemin ekki háð starfsleyfi í heimaríkinu skal vátryggingamiðlari sækja um starfsleyfi og gilda þá sömu reglur og um innlenda vátryggingamiðlara.
4. gr.
Einungis má miðla frumtryggingum til vátryggingafélaga sem hafa starfsleyfi hér á landi. Starfsleyfi vátryggingafélags í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins telst jafngilda starfsleyfi hér á landi enda séu uppfyllt skilyrði laga um vátryggingastarfsemi varðandi heimildir til stofnunar útibús eða til að veita hér þjónustu.
5. gr.
Vátryggingaeftirlitið hefur eftirlit með miðlun vátrygginga hér á landi. Þeim er stunda þá starfsemi er skylt að veita eftirlitinu allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að framfylgja eftirliti með starfseminni, þar á meðal allar upplýsingar sem það óskar um vátryggingasamninga sem þeir hafa komið á vegna vátryggingaáhættu hér á landi. Vátryggingaeftirlitinu er heimilt að gera vettvangskönnun í því skyni þegar þörf er á.
Starfsleyfi. Hæfiskröfur.
6. gr.
Skrifleg umsókn um starfsleyfi einstaklings sem vátryggingamiðlara skal send viðskiptaráðuneytinu. Eftirfarandi skal koma fram eða fylgja umsókn:
1. Nafn, fæðingardagur og ár, kennitala og lögheimili.
2. Heiti greinaflokka vátrygginga sem miðla á, sbr. 22. og 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi, eða skaðatryggingar, persónutryggingar (líf-, sjúkra- og slysatryggingar) eða frumtryggingar í heild.
3. Upplýsingar um þekkingu og starfsreynslu á sviði vátrygginga og tengdum sviðum eða skírteini gefið út af lögbærum yfirvöldum eða þar til bærum aðilum um þá þekkingu sem umsækjandi býr yfir til starfans.
4. Staðfesting á lögræði, óflekkuðu mannorði og að umsækjandi hafi ekki á síðustu fimm árum verið úrskurðaður gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi.
5. Yfirlýsing umsækjanda um sjálfstæði gagnvart einstökum vátryggingafélögum og að fjárhagsleg tengsl séu engin við vátryggingafélög, sem miðlað er til vegna eignaraðildar eða hagsmuna annarra en þeirra sem tengjast þeim vátryggingasamningum sem komið er á.
6. Greinargerð um tengsl við einstök vátryggingafélög og félög í þeirra eigu.
7. Vottorð um gilda starfsábyrgðartryggingu, skilmálar hennar og heiti og aðsetur hlutaðeigandi vátryggingafélags.
7. gr.
Umsækjandi um starfsleyfi skal leggja fram vottorð gefið út af til þess bæru yfirvaldi í dóms- eða stjórnkerfi heimaríkis eða upprunaríkis hans, er sanni að ákvæði 4. tl. 6. gr. séu uppfyllt.
Séu skjöl af því tagi sem tilgreind eru í 1. mgr. ekki gefin út í heimaríki umsækjanda getur eiðsvarin yfirlýsing komið í staðinn eða yfirlýsing að viðlögðum drengskap sem hlutaðeigandi gefur til þess bæru yfirvaldi í dóms- eða stjórnkerfi eða lögbókanda og staðfest skal af þeim. Slík yfirlýsing gefin ráðuneytinu skal tekin gild hér á landi.
Skjöl gefin út samkvæmt 1. mgr. mega ekki vera eldri en þriggja mánaða talið frá útgáfudegi þegar þau eru lögð fram.
Staðfesting af til þess bærum aðilum á Evrópska efnahagssvæðinu skal tekin gild hér á landi.
8. gr.
Skrifleg umsókn lögaðila um starfsleyfi sem vátryggingamiðlari skal send viðskiptaráðuneytinu. Eftirfarandi skal koma fram eða fylgja umsókn:
1. Heiti og lögheimili lögaðilans og vottorð um firmaskráningu, nöfn stjórnarmanna og framkvæmdastjóra ásamt fæðingardegi og ári eða kennitölu og lögheimili hvers þeirra.
2. Gögn samkvæmt 2. tl. og 5. tl. - 7. tl. 6. gr.
3. Gögn samkvæmt 1. tl. og 3. tl. - 6. tl. 6. gr. um framkvæmdastjóra lögaðilans.
9. gr.
Umsækjandi um starfsleyfi sem vátryggingamiðlari telst því aðeins fullnægja kröfum um þekkingu og starfsreynslu uppfylli hann eitt eftirtalinna skilyrða:
1. Hafi starfað í stjórnunarstöðu samfellt í fjögur ár við miðlun vátrygginga.
2. Hafi starfað í stjórnunarstöðu samfellt í tvö ár við miðlun vátrygginga og hafi starfað í þrjú ár með vátryggingaumboðsmönnum eða vátryggingamiðlurum eða hjá vátryggingafélögum.
3. Hafi starfað í stjórnunarstöðu samfellt í eitt ár við miðlun vátrygginga og leggi fram skírteini um að hann hafi hlotið menntun til starfans sem viðurkennd er af stjórnvöldum.
4. Hafi starfað í stjórnunarstöðu samfellt í fjögur ár í vátryggingafélagi eða annars staðar á sviði vátrygginga.
5. Leggi fram prófskírteini þess efnis að hann hafi lokið prófi á námskeiði í vátryggingamiðlun hér á landi sem haldið hefur verið á vegum prófnefndar sem skipuð hefur verið af ráðherra.
Með starfi í stjórnunarstöðu skv. 1. - 4. tölul. er átt við starf framkvæmdastjóra, útibússtjóra eða fulltrúa þeirra með sambærilegri ábyrgð. Sama gildir hafi það heyrt undir störf einstaklings í vátryggingafélagi að hafa umsjón með umboðsmönnum eða eftirlit með starfi þeirra. Störfum á vátryggingasviði sem tilgreind eru í 2. tölul. 1. mgr. skal hafa fylgt ábyrgð í sambandi við öflun, umsjá eða framkvæmd vátryggingasamninga.
Eigi skulu hafa liðið meira en tíu ár síðan störfum eða námi sem tilgreind eru í 1. - 5. tölul. 1. mgr. lauk, þegar sótt er um starfsleyfi.
10. gr.
Viðskiptaráðuneytið sendir Vátryggingaeftirlitinu umsókn um starfsleyfi til umsagnar. Umsögn Vátryggingaeftirlitsins skal send ráðuneytinu innan mánaðar frá móttöku umsóknar og allra gagna sem fylgja eiga umsókn. Séu skilyrði leyfis uppfyllt veitir ráðherra vátryggingamála starfsleyfi.
Neitun um starfsleyfi skal rökstudd og tilkynnt umsækjanda skriflega.
11. gr.
Vátryggingamiðlari er hyggst taka upp nýjan greinaflokk vátrygginga skal sækja um leyfi til viðskiptaráðuneytisins fyrir hinni nýju starfsemi. Í umsókn skal koma fram hvaða greinaflokka er fyrirhugað að taka upp og gögn er sanni að gild starfsábyrgðartrygging sé fyrir hendi. Afgreiðsla umsóknarinnar fer samkvæmt 10. gr.
12. gr.
Heimilt er vátryggingamiðlara að leggja inn til ráðuneytisins starfsleyfi sitt. Óheimilt er honum að segja upp starfsábyrgðartryggingu sinni fyrr en að fenginni staðfestingu ráðuneytisins á innlögn leyfisins. Leyfisins getur hann vitjað aftur gegn framvísun staðfestingar á gildri starfsábyrgðartryggingu.
Ráðuneytið skal tilkynna Vátryggingaeftirlitinu um innlögn leyfis og jafnframt þegar leyfi er afhent að nýju. Vátryggingaeftirlitið skal skrá afgreiðslu þessa í vátryggingamiðlaraskrá og birta tilkynningu þessa efnis í Lögbirtingablaði.
Skráning.
13. gr.
Vátryggingaeftirlitið skal halda skrá, vátryggingamiðlaraskrá, yfir þá sem leyfi hafa til vátryggingamiðlunar hér á landi. Sá sem fengið hefur starfsleyfi skal þegar í stað skráður í skrána og í aðra opinbera skrá ef fyrirmæli eru um slíkt í lögum.
Vátryggingamiðlari með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem hyggst starfa hér á landi skal óska skráningar í vátryggingamiðlaraskrá.
Eftirfarandi atriði skulu skráð:
1. Nafn, fæðingardagur og ár, kennitala, lögheimili og aðsetur vátryggingamiðlara.
2. Útgáfudagur starfsleyfis.
3. Greinaflokkar vátrygginga sem heimilt er að miðla.
4. Tengsl við einstök vátryggingafélög og félög í eigu þeirra.
5. Nafn og aðsetur þess vátryggingafélags er veitir lögboðna starfsábyrgðartryggingu og gildistími, vátryggingafjárhæð og eigin áhætta.
6. Þegar við á nöfn, fæðingardagar og ár, kennitölur og heimili stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.
7. Innlögn starfsleyfis og endurútgáfa samkvæmt 12. gr.
Allar breytingar varðandi atriði sem skráð eru í vátryggingamiðlaraskrá skulu tilkynntar til Vátryggingaeftirlitsins eins fljótt og unnt er og eigi síðar en mánuði eftir að þær hafa tekið gildi.
Almenningi skal heimill aðgangur að vátryggingamiðlaraskrá.
14. gr.
Birta skal í Lögbirtingablaði tilkynningar um skráningu í vátryggingamiðlaraskrá og árlega skrá um þá sem skráðir eru.
Verði skráning felld niður skal þegar í stað má nafn leyfishafa úr skránni og tilkynna í Lögbirtingablaði.
Starfshættir.
15. gr
Vátryggingamiðlari skal veita ráðgjöf og aðstoð á hlutlægan hátt um þá valkosti í vátryggingum sem í boði eru á vátryggingamarkaði og samrýmast vátryggingaþörf þeirra sem hann starfar fyrir.
Sé verulegum hluta iðgjaldamagns á einhverju ári miðlað til eins og sama vátryggingafélags skulu Vátryggingaeftirlitinu skýrðar ástæður þess.
Skylt er að upplýsa vátryggingataka sem starfað er fyrir um hvers konar tengsl við einstök vátryggingafélög sem áhrif gætu haft á ráðgjöf og aðstoð við vátryggingatakann.
Skilyrði starfsleyfis teljast brostin, sé gert samkomulag við vátryggingafélag er skerðir frelsi til miðlunar til annarra félaga.
16. gr.
Í skriflegum samningi vátryggingamiðlara við þann sem falast eftir vátryggingu skal koma fram í hverju umboð hans felst, hversu víðtækt það er og til hvaða þátta á starfsviði hans það nær. Samningurinn má vera í formi staðlaðs umboðs eða yfirlýsingar. Einnig skal koma fram hvort heimilt er að taka við fjármunum fyrir hönd umbjóðenda og um skil á þeim.
Skylt er að upplýsa þá sem starfað er fyrir um þóknun frá vátryggingafélagi vegna viðskiptanna sé þess óskað. Vátryggingamiðlari má ekki taka við þóknun af neinu tagi frá vátryggingafélagi nema vegna vátryggingasamninga sem komið hefur verið á milli vátryggingafélagsins og vátryggingataka.
Upplýsa skal þá sem starfað er fyrir um það sem í boði er hjá félögum sem miðlað er til, og um valmöguleika almennt á vátryggingamarkaðnum á því sviði vátrygginga sem þjónustu er leitað.
17. gr.
Hafi vátryggingasamningur komist á er vátryggingamiðlara heimilt að taka við iðgjöldum fyrir hönd vátryggingafélags eða fulltrúa þess samkvæmt skriflegu samkomulagi. Í samkomulaginu skal m.a. skýrt kveðið á um skil vátryggingamiðlarans á iðgjöldum til félagsins og tímamörk. Vátryggingamiðlara er skylt að halda fjármunum þessum aðgreindum frá eigin fjármunum. Skulu þeir varðveittir á sérstökum bankareikningi, vörslufjárreikningi. Heimilt er að féð sé varðveitt á fleiri reikningum svo sem með sundurgreiningu á einstök vátryggingafélög eða á annan hátt.
18. gr.
Auglýsingar og gögn ætluð almenningi skulu veita hlutlægar upplýsingar um þá þjónustu sem veitt er og hlutleysis skal gætt gagnvart einstökum vátryggingafélögum. Í þeim má ekkert koma fram sem talist getur í andstöðu við kröfu um sjálfstæði vátryggingamiðlara gagnvart vali á einstökum vátryggingafélögum. Hlutleysis er ekki gætt ef vátryggingamiðlari auglýsir einstök vátryggingafélög.
Tilkynningar og skil á gögnum.
19. gr.
Vátryggingamiðlari skal senda Vátryggingaeftirlitinu ársreikning endurskoðaðan af löggiltum endurskoðanda eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Ársreikningurinn skal undirritaður af vátryggingamiðlara og af stjórn og framkvæmdastjóra þegar um lögaðila er að ræða.
20. gr.
Ársreikningi skal fylgja skrá yfir þau vátryggingafélög sem miðlað er til vegna vátryggingaáhættu hér á landi ásamt iðgjaldamagni og þóknun frá hverju félagi vegna vátryggingasamninga sem komið hefur verið á, með skiptingu á greinaflokka vátrygginga. Einnig skal fylgja greinargerð um önnur tengsl við vátryggingafélög.
21. gr.
Vátryggingamiðlari skal láta Vátryggingaeftirlitinu í té sýnishorn af formi umboða og annarra samninga sem gerðir eru við vátryggingataka og vátryggingafélög vegna starfa á sviði vátryggingamiðlunar.
22. gr.
Vátryggingamiðlari skal þegar í stað tilkynna Vátryggingaeftirlitinu verði gerð skaðabótakrafa vegna starfa hans og um efni og fjárhæð kröfunnar.
Eftirlitsgjald.
23. gr.
Þeir sem heimild hafa til miðlunar vátrygginga hér á landi skulu árlega greiða til Vátryggingaeftirlitsins 0,033% af iðgjaldamagni sem miðlað er til vátryggingafélaga á því ári vegna vátryggingaáhættu hér á landi, þó eigi lægri fjárhæð en 25.000 kr., vegna kostnaðar sem eftirlit með starfseminni hefur í för með sér. Hafi vátryggingamiðlari sem starfar hjá lögaðila ekki stundað sjálfstæða starfsemi á árinu fellur eftirlitsgjald hans niður. Gjaldið ber að greiða til Vátryggingaeftirlitsins innan mánaðar frá lokum almanaksárs vegna starfseminnar á árinu á undan.
Vátryggingaeftirlitið getur gert leyfishafa að greiða kostnað samkvæmt reikningi vegna sérstakra kannana sem það telur nauðsynlegt að framkvæma vegna eftirlits með starfsemi hans.
Sérstakar ráðstafanir.
24. gr.
Vanræki vátryggingamiðlari gróflega skyldur sínar, greiði ekki eftirlitsgjaldið, samrýmist starfsemin ekki hlutverki hans sem vátryggingamiðlara eða séu skilyrði starfsleyfis eða skráningar ekki lengur uppfyllt skal Vátryggingaeftirlitið afturkalla starfsleyfi og fella niður skráningu. Þó er heimilt, telji Vátryggingaeftirlitið það fullnægjandi, að veita viðvörun eða frest til úrbóta því sem úrskeiðis hefur farið. Ráðherra skal staðfesta afturköllun starfsleyfis innan 7 daga.
Sé skráningarskyld starfsemi rekin án heimildar skal Vátryggingaeftirlitið gera ráðstafanir til að slíkri starfsemi verði hætt.
Ýmis ákvæði.
25. gr.
Handhafar óskilyrts bráðabirgðastarfsleyfis skv. reglugerð um miðlun vátrygginga nr. 473/1994 geta sótt um endurnýjun á bráðabirgðastarfsleyfi þar til uppfyllt eru skilyrði um fullt starfsleyfi skv. 9. gr. Hið sama á við um handhafa skilyrts bráðabirgðastarfsleyfis þó þannig að þeir skulu hlíta þeim skilyrðum sem sett voru við starfsleyfisveitingu á grundvelli reglugerðar um miðlun vátrygginga nr. 473/1994.
26. gr.
Brot gegn reglugerð þessari varðar fésektum eða varðhaldi nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum.
27. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 52. gr., 81. gr., 85. gr. og 98. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994 með síðari breytingum öðlast þegar gildi.
Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um miðlun vátrygginga, nr. 473/1994, og reglugerð nr. 656/1994, um breytingu á þeirri reglugerð.
Viðskiptaráðuneytinu, 5. júní 1997.
Finnur Ingólfsson.
Halldór J. Kristjánsson.