1. gr.
60. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:
Samkvæmt 29. gr. laga um Seðlabanka Íslands skal starfa við bankann innri endurskoðun undir umsjón bankaráðs. Yfirmaður innri endurskoðunar skal hafa löggildingu sem endurskoðandi. Bankaráð setur honum erindisbréf.
Yfirmaður innri endurskoðunar skal vinna í nánu samstarfi við daglega yfirstjórn bankans að viðfangsefnum skv. 61. grein. Hann skal hafa fullt sjálfstæði til ákvarðana um verklag og umfang einstakra kannana. Hann undirritar ársreikning bankans ásamt bankastjórn og aðalbókara. Eigi sjaldnar en árlega skal hann gefa bankaráði skýrslu um starfsemi innri endurskoðunar. Skýrslur til bankaráðs skulu einnig sendar Ríkisendurskoðun og skoðunarmanni sbr. 62. gr.
2. gr.
61. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:
Innri endurskoðun skal framkvæma eftir góðri endurskoðunarvenju og í því sambandi gera þær kannanir á bókhaldi og öðrum gögnum, sem nauðsynlegar kunna að þykja.
Verkefni innri endurskoðunar eru m.a. eftirfarandi:
a) Að kanna áreiðanleika fjárhags- og rekstrarupplýsinga.
b) Að kanna og fylgjast með að virk innri eftirlitskerfi séu fyrir hendi og beinist að þeim þáttum rekstrar þar sem áhættan er mest.
c) Að fylgjast með því að upplýsingakerfi bankans séu virk og að fyllsta rekstraröryggis sé ávallt gætt.
d) Að kanna hvort fyrir hendi séu skýrar og greinargóðar starfsreglur, sem endurspegla m.a. ákvæði laga, reglugerða, reglna og samþykkta, sem um bankann gilda á hverjum tíma.
e) Að fylgjast með að varðveisla og skráning eigna sé með viðeigandi hætti.
f) Að meta hagkvæmni og hagsýni í notkun fjármagns og mannafla sem er til ráðstöfunar.
3. gr.
62. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:
Ársreikningur Seðlabanka Íslands skal endurskoðaður og áritaður af Ríkisendurskoðun og skoðunarmanni sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Skoðunarmaður skal hafa löggildingu sem endurskoðandi.
Að lokinni endurskoðun og áritun ársreiknings Seðlabanka Íslands skal ráðherra og bankaráði send endurskoðunarskýrsla.
4. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í lögum nr. 36 5. maí 1986 um Seðlabanka Íslands, öðlast þegar gildi.
Viðskiptaráðuneytinu, 23. september 1999.
Finnur Ingólfsson.
Þorgeir Örlygsson.