1. gr.
Reglugerð þessi gildir um yfirfærslu á milli viðskiptareikninga á milli landa sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þegar yfirfærslan er í gjaldmiðli aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins eða í evrum. Hún gildir um yfirfærslur allt að kr. 4.000.000 eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í gjaldmiðli aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru miðað við kaupgengi hennar 1. júlí 1999. Ákvæði 2. gr. gilda einnig um yfirfærslur til landa utan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
Í þessari reglugerð telst yfirfærsla á milli viðskiptareikninga á milli landa yfirfærsla sem að ósk viðskiptamanns, sendanda, fer fram á vegum þeirrar viðskiptastofnunar sem hefur tekið að sér að annast yfirfærsluna í því skyni að afhenda sendanda sjálfum eða öðrum viðtakanda fjárhæð til ráðstöfunar í viðskiptastofnun í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins.
Ágreiningi um það hvort að sú stofnun sem hefur tekið að sér yfirfærsluna falli undir ákvæði reglugerðarinnar má vísa til viðskiptaráðherra. Úrskurður hans um þann ágreining er endanlegur.
Reglugerð þessi takmarkar ekki þau réttindi sem viðskiptamaður eða sú viðskiptastofnun sem annast yfirfærsluna kann að hafa samkvæmt lögum.
Upplýsingaskylda.
2. gr.
Viðskiptastofnun skal láta viðskiptamanni í té upplýsingar um almenna skilmála hennar varðandi yfirfærslu á milli viðskiptareikninga landa í milli. Í upplýsingunum skal tilgreint:
Upplýsingarnar skulu vera á íslensku, og eftir atvikum á ensku, þannig að þær séu auðskiljanlegar. Þær má veita með rafrænum hætti.
3. gr.
Strax að lokinni sendingu eða viðtöku yfirfærslu skulu bæði viðskiptastofnun sendanda og viðskiptastofnun viðtakanda veita viðskiptamanni sínum eftirgreindar upplýsingar skriflega:
Hafi sendandi tilgreint að kostnaður í tengslum við yfirfærslu skuli að hluta eða að fullu greiddur af viðtakanda skal viðskiptastofnun viðtakanda tilkynna viðtakanda það.
Við gjaldmiðilsútreikning skal viðskiptastofnun sú sem hefur framkvæmt útreikninginn upplýsa viðskiptamann um gengi og dagsetningu sem miðað var við.
Upplýsingar samkvæmt þessari grein skulu veittar með auðskiljanlegum hætti; þær má veita með rafrænum hætti.
Ekki þarf að veita upplýsingar samkvæmt þessari grein hafi viðskiptamaður með ótvíræðum hætti afsalað sér rétti sínum til þeirra.
Skyldur viðskiptastofnana.
4. gr.
Nú óskar viðskiptamaður eftir því að viðskiptastofnun sem annast yfirfærslu á milli viðskiptareikninga á milli aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið skuldbindi sig til þess að ljúka yfirfærslunni innan tiltekins frests gegn ákveðnu gjaldi og skal þá viðskiptastofnunin verða við þeirri ósk nema hún ákveði að hafna viðskiptunum. Þetta á þó ekki við um þóknun og gjöld sem ráðast af gengi því sem miðað er við.
Yfirfærslutími.
5. gr.
Viðskiptastofnun sendanda skal framkvæma yfirfærsluna innan þess frests sem hún hefur samið um við sendanda.
Hafi ekki verið samið um frest skal umbeðin fjárhæð tekjufærð á reikning viðskiptastofnunar viðtakanda fyrir lok fimmta viðskiptadags (bankadags) frá þeim degi þegar sendandi hefur látið viðskiptastofnun sinni í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að framkvæma yfirfærsluna og staðið skil á þeim greiðslum sem honum ber að inna af hendi.
6. gr.
Ef umbeðin fjárhæð er ekki tekjufærð á reikning viðskiptastofnunar viðtakanda fyrir lok þess frests sem tilgreindur er í 5. gr. skal viðskiptastofnun sendanda greiða honum bætur.
Bætur skv. 1. mgr. eru greiðsla vaxta af umbeðinni yfirfærslufjárhæð sem reiknaðir eru skv. 10. gr. og 11. gr. vaxtalaga, nr. 25/1987. Vextir eru reiknaðir frá og með næsta degi eftir að frestinum lauk fram að þeim degi þegar umbeðin fjárhæð er tekjufærð á reikning í viðskiptastofnun viðtakanda.
Ef viðskiptastofnun sendanda getur sannað að dráttur á lúkningu yfirfærslu sé eingöngu af völdum sendanda á hann ekki rétt á bótum.
7. gr.
Ef milligöngustofnun er völd að því að umbeðin yfirfærsla hafi ekki verið afgreidd fyrir lok þess frests sem tilgreindur er í 5. gr. skal sú stofnun greiða viðskiptastofnun sendanda bætur.
Bætur skv. 1. mgr. samsvara þeirri fjárhæð sem viðskiptastofnun sendanda er skylt að greiða honum samkvæmt löggjöf í því aðildarríki EES-samningsins þar sem viðskiptastofnun sendanda er.
8. gr.
Viðskiptastofnun viðtakanda ber að afhenda honum yfirfærðu fjárhæðina til ráðstöfunar innan þess frests sem hún hefur samið um við viðtakanda.
Hafi ekki verið samið um annan frest skal fjárhæðin vera viðtakanda til ráðstöfunar fyrir lok næsta viðskiptadags (bankadags) eftir þann dag þegar fjárhæðin var tekjufærð á reikning viðskiptastofnunar viðtakanda.
9. gr.
Sé umbeðin fjárhæð ekki til ráðstöfunar fyrir viðtakanda innan þess frests sem tilgreindur er í 8. gr. skal viðskiptastofnun viðtakanda greiða honum bætur.
Bætur skv. 1. mgr. eru greiðsla vaxta af umbeðinni yfirfærslufjárhæð sem reiknaðir eru skv. 10. gr. og 11. gr. vaxtalaga. Vextir eru reiknaðir frá og með næsta degi eftir að tilgreindum fresti lýkur fram að þeim degi þegar fjárhæðin er viðtakanda til ráðstöfunar.
Ef viðskiptastofnun viðtakanda getur sannað að dráttur á lúkningu yfirfærslu sé eingöngu af völdum sendanda eða viðtakanda á viðtakandi ekki rétt á bótum frá viðskiptastofnun viðtakanda.
Kostnaður.
10. gr.
Viðskiptastofnun sendanda, viðskiptastofnun viðtakanda eða milligöngustofnun skulu ekki draga fjárhæð frá umbeðinni yfirfærslu vegna kostnaðar nema viðskiptamaður sem óskaði yfirfærslu hafi tilgreint að kostnaður í tengslum við hana skuli að fullu eða að hluta greiddur af viðtakanda.
Ákvæði 1. mgr. hefur ekki áhrif á almenna möguleika viðskiptastofnunar viðtakanda á að innheimta gjöld hjá viðtakanda fyrir umsýslu reiknings hans í samræmi við gildandi reglur eða samkomulag þar um.
11. gr.
Hafi viðskiptastofnun sendanda eða milligöngustofnun dregið frá hinni umbeðnu yfirfærslu þrátt fyrir ákvæði 10. gr. skal viðskiptastofnun sendanda yfirfæra hina frádregnu fjárhæð til viðtakanda án frádráttar af nokkru tagi og á eigin kostnað. Þetta á þó ekki við ef sendandi fer fram á það að fjárhæðin sé afhent honum til ráðstöfunar.
Milligöngustofnun sem hefur dregið frá hinni umbeðnu yfirfærslu í bága við ákvæði 10. gr. skal án frádráttar af nokkru tagi og á eigin kostnað yfirfæra hina frádregnu fjárhæð til viðskiptastofnunar sendanda eða, ef viðskiptastofnun sendanda krefst þess, til viðtakanda.
12. gr.
Hafi viðskiptastofnun viðtakanda dregið frá hinni umbeðnu yfirfærslu í bága við ákvæði 10. gr. skal hún afhenda viðtakanda hina frádregnu fjárhæð til ráðstöfunar án frádráttar af nokkru tagi og á eigin kostnað.
Endurgreiðsluskylda.
13. gr.
Ef viðskiptastofnun sendanda hefur samþykkt beiðni hans um yfirfærslu og umbeðin fjárhæð hefur ekki verið tekjufærð á reikning viðskiptastofnunar viðtakanda skal viðskiptastofnun sendanda endurgreiða sendanda:
Fjárhæðir þær sem tilgreindar eru í 1. mgr. skulu vera sendanda til ráðstöfunar innan 14 viðskiptadaga (bankadaga) eftir þann dag þegar sendandi setti fram kröfu um endurgreiðslu.
Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við hafi umbeðin yfirfærsla innan þess frests sem tilgreindur er í 2. mgr. verið tekjufærð á reikning viðskiptastofnunar viðtakanda, eða ef milligöngustofnun, sem viðskiptastofnun viðtakanda eða sendandi hefur valið, er völd að því að fjárhæðin hafi ekki verið tekjufærð á reikning viðskiptastofnunar viðtakanda.
Kröfu um endurgreiðslu, skv. 1. mgr., má hið fyrsta setja fram við lok þess frests sem tilgreindur er í 5. gr.
Ákvæði 1. mgr. kemur ekki í veg fyrir að viðskiptastofnun sendanda geti endurgreitt sendanda fjárhæðina að fullu.
14. gr.
Hafi milligöngustofnun tekið að sér að hafa milligöngu um yfirfærslu og sé umbeðin yfirfærslufjárhæð ekki tekjufærð á reikning viðskiptastofnunar viðtakanda skal milligöngustofnunin á eigin kostnað greiða þeirri viðskiptastofnun sem óskaði yfirfærslu:
Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við hafi umbeðin yfirfærsla verið tekjufærð á reikning viðskiptastofnunar viðtakanda áður en ósk um endurgreiðslu er sett fram.
Ef yfirfærsla er ófullnægjandi eða ekki framkvæmd og slíkt stafar af því að viðskiptastofnun sem óskaði yfirfærslu hefur veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar eiga ákvæði 1. mgr. ekki við. Milligöngustofnunin skal þá leitast við í þeim mæli sem unnt er að útvega og síðan endurgreiða yfirfærslufjárhæðina þeirri viðskiptastofnun sem óskaði yfirfærslunnar.
Ákvæði 1. mgr. kemur ekki í veg fyrir að milligöngustofnunin geti endurgreitt fjárhæðina að fullu.
15. gr.
Ef yfirfærsla er ófullnægjandi eða ekki framkvæmd og slíkt stafar af því að milligöngustofnun, sem viðskiptastofnun viðtakanda hefur valið, hefur ekki staðið við sinn þátt viðskiptanna skal viðskiptastofnun viðtakanda afhenda viðtakanda til ráðstöfunar þá fjárhæð sem vantar, þó að hámarki kr. 1.000.000, eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í gjaldmiðlum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru miðað við kaupgengi hennar 1. júlí 1999.
Sú fjárhæð sem tilgreind er í 1. mgr. skal vera viðtakanda til ráðstöfunar innan 14 viðskiptadaga (bankadaga) eftir þann dag þegar viðtakandi óskaði hennar frá viðskiptastofnun sinni.
Milligöngustofnun telst valin af viðskiptastofnun viðtakanda ef síðarnefnda stofnunin hefur sett fram sérstaka beiðni um að notuð skuli sú milligöngustofnun.
Ákvæði 1. mgr. kemur ekki í veg fyrir að viðskiptastofnun viðtakanda geti afhent viðtakanda fjárhæðina að fullu til ráðstöfunar.
16. gr.
Ákvæði 13.-15. gr. eiga ekki við þegar ófullnægjandi eða engin lúkning yfirfærslu hefur átt sér stað og slíkt stafar af því að sendandi hefur gefið viðskiptastofnun sinni ófullnægjandi eða rangar leiðbeiningar eða milligöngustofnun, sem sendandi hefur með ótvíræðum hætti valið, hefur ekki staðið við sinn þátt viðskiptanna.
Milligöngustofnun telst valin af sendanda ef skriflegt samkomulag er milli sendanda og viðskiptastofnunar hans um það.
Viðskiptastofnun sendanda og aðrar viðskiptastofnanir, sem aðild hafa átt að yfirfærslunni, skulu í þeim tilvikum sem um getur í 1. mgr. leitast við í þeim mæli sem unnt er að endurkrefja og síðan endurgreiða umbeðna yfirfærslufjárhæð.
Þegar viðskiptastofnun sendanda fær fjárhæðina endurgreidda skal hún afhenda sendanda fjárhæðina til ráðstöfunar. Þeim viðskiptastofnunum sem aðild hafa átt að viðkomandi yfirfærslu er ekki skylt að endurgreiða gjöld og vexti. Þær geta ennfremur dregið frá sannanlegan kostnað sem endurgreiðslan hefur haft í för með sér.
Óviðráðanleg ytri atvik.
17. gr.
Viðskiptastofnanir, sem eiga aðild að yfirfærslu samkvæmt þessari reglugerð, eru lausar undan skyldum sínum samkvæmt ákvæðum hennar ef fyrir hendi eru óvenjuleg eða ófyrirsjáanleg ytri atvik (force majeure) sem viðskiptastofnunin, sem til þeirra vísar, hefur ekki áhrif á og hefur ekki möguleika á að koma í veg fyrir þótt gætt sé fyllstu varúðar. Gjaldþrot viðskiptastofnunar telst ekki óvenjulegt eða ófyrirsjáanlegt ytra atvik í þessu sambandi.
Lausn ágreinings.
18. gr.
Ágreiningi milli viðskiptamanns og þeirrar innlendu viðskiptastofnunar sem að yfirfærslu hefur komið og fellur undir ákvæði reglugerðar þessarar má skjóta til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Um málsmeðferð fer samkvæmt samþykktum nefndarinnar.
Gildistaka.
19. gr.
Reglugerð þessi er sett með tilvísun til 12. gr., sbr. 17. gr., laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum og öðlast hún gildi þann 1. febrúar 2000.
Viðskiptaráðuneytinu, 26. janúar 2000.
Valgerður Sverrisdóttir.
Þorgeir Örlygsson.