Efnahags- og viðskiptaráðuneyti

397/2010

Reglugerð um beitingu dagsekta og févítis í opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um beitingu Fjármálaeftirlitsins á dagsektum og févíti gagnvart aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar, sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests eða brýtur gegn ákvörðunum sem teknar hafa verið af Fjármálaeftirlitinu.

Reglugerð þessi tekur jafnt til eftirlitsskyldra aðila sem og einstaklinga og lögaðila sem falla undir lög er Fjármálaeftirlitinu er falið að framkvæma. Sama gildir um aðila er veitt geta upplýsingar í þágu athugana samkvæmt ákvæðum laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eða sérlaga.

2. gr.

Ákvörðun um dagsektir eða févíti.

Stjórn Fjármálaeftirlitsins leggur á dagsektir eða févíti með sérstakri ákvörðun. Stjórn er heimilt að fela forstjóra að taka ákvarðanir um dagsektir vegna reglubundinna gagnaskila eftirlitsskyldra aðila. Aðila sem ákvörðun um dagsektir eða févíti beinist að skal veittur sjö daga frestur til að koma að skriflegum andmælum áður en stjórn Fjármálaeftirlitsins tekur ákvörðun samkvæmt 1. mgr.

Ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins um dagsektir eða févíti skal kynnt aðila skriflega með sannanlegum hætti án ástæðulausra tafa.

3. gr.

Málshöfðunarfrestur.

Nú vill aðili ekki una ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina.

4. gr.

Fjárhæð dagsekta og févítis.

Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag frá þeim degi sem skila bar upplýsingunum í síðasta lagi og fram að þeim degi sem skyldunni er fullnægt. Heimilt er að ákveða dagsektir sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri hins eftirlitsskylda aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika hins eftirlitsskylda aðila.

Févíti getur numið frá 10.000 kr. til 2 millj. kr. Við ákvörðun um fjárhæð févítis skal tekið tillit til alvarleika brots og fjárhagslegs styrks aðila.

5. gr.

Innheimta dagsekta og févítis.

Ákvarðanir um févíti og dagsektir eru aðfararhæfar.

Innheimt févíti og innheimtar dagsektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þó að eftirlitsskyldur aðili verði síðar við kröfum Fjármálaeftirlitsins nema stjórn Fjármálaeftirlitsins ákveði það sérstaklega.

Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar um dagsektir skv. 2. gr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.

II. KAFLI

Reglubundin skil gagna.

6. gr.

Dagsektir vegna tafa á reglubundnum skilum.

Heimilt er að leggja á dagsektir þegar eftirlitsskyldur aðili skilar ekki umbeðnum gögnum til Fjármálaeftirlitsins.

Umbeðin eru þau gögn sem eftirlitsskyldum aðila ber að skila til Fjármálaeftirlitsins innan tilskilins frests samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða samkvæmt ósk Fjármálaeftirlitsins um reglubundin skil gagna eftirlitsskyldra aðila.

Dagsektir leggjast á frá þeim degi sem skila bar upplýsingunum í síðasta lagi og fram að þeim degi sem skyldunni er fullnægt.

7. gr.

Gögnum skilað.

Gögnum skv. 6. gr. telst skilað til Fjármálaeftirlitsins innan tilskilins frests ef fullnægjandi gögn hafa borist Fjármálaeftirlitinu á skiladegi.

Ef í ljós kemur við úrvinnslu gagna að innihald þeirra er ófullnægjandi leggur Fjármálaeftirlitið fyrir hinn eftirlitsskylda aðila að bæta þar úr án ástæðulausra tafa. Heimilt er að beita dagsektum sbr. 6. gr. ef stjórn Fjármálaeftirlitsins telur þörf á.

8. gr.

Frestun skila.

Þegar skila á gögnum á fyrirfram ákveðnum dögum, sbr. 6. gr., verður frestur til að skila þeim að jafnaði ekki framlengdur.

III. KAFLI

Skylda til að skila inn gögnum eftir sérstakri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

9. gr.

Fjármálaeftirlitið kallar eftir gögnum í sérstöku tilviki.

Fjármálaeftirlitið getur lagt fyrir aðila að skila inn gögnum og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum á þann hátt sem það telur þörf á í tengslum við eftirlit og athuganir mála samkvæmt ákvæðum sérlaga.

Aðila skal veittur hæfilegur frestur til að skila inn gögnum skv. 1. mgr.

10. gr.

Dagsektir vegna tafa á skilum umbeðinna gagna.

Heimilt er að leggja á dagsektir þegar aðili fylgir ekki fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins skv. 9. gr.

Dagsektir leggjast á frá þeim degi sem skila bar upplýsingunum í síðasta lagi og fram að þeim degi sem skyldunni er fullnægt.

IV. KAFLI

Kröfur Fjármálaeftirlitsins um úrbætur.

11. gr.

Krafa gerð um úrbætur.

Ef í ljós kemur að eftirlitsskyldur aðili fylgir ekki lögum og öðrum reglum sem gilda um starfsemi hans skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.

Fjármálaeftirlitið skal gera athugasemdir ef það telur hag eða rekstur eftirlitsskylds aðila að öðru leyti óheilbrigðan og brjóta í bága við eðlilega viðskiptahætti, enda þótt ákvæði 1. mgr. eigi ekki við og er jafnframt heimilt að krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.

12. gr.

Dagsektir og févíti vegna brota gegn ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

Stjórn Fjármálaeftirlitsins er heimilt að leggja févíti eða dagsektir á eftirlitsskyldan aðila sem sinnir ekki eða brýtur gegn ákvörðunum sem teknar hafa verið af Fjármálaeftirlitinu. Til ákvarðana samkvæmt þessari grein teljast kröfur um úrbætur samkvæmt 11. gr.

13. gr.

Úrbótum lokið.

Úrbótum telst lokið þegar aðili skilar til Fjármálaeftirlitsins skriflegri greinargerð um ráðstafanir sem gerðar hafa verið til fylgja eftir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Um skiladag greinargerðar gilda reglur 7. gr.

Nú eru úrbætur ekki fullnægjandi og telst þeim þá ekki lokið innan frests sem gefinn hefur verið samkvæmt 11. gr.

V. KAFLI

Gildistaka.

14. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 7. mgr. 11. gr., sbr. 19. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og öðlast hún þegar gildi.

Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 560/2001 um beitingu dagsekta og févítis í opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, 14. apríl 2010.

Gylfi Magnússon.

Jónína S. Lárusdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica