Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

1266/2007

Reglugerð um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins vegna kostnaðar sjúkratryggðra barna yngri en 18 ára við þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Í reglugerð þessari er kveðið á um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins vegna kostnaðar sjúkratryggðra barna yngri en 18 ára við þjónustu skv. 3. tölul. 2. gr. sem veitt er af sjálfstætt starfandi sálfræðingum sem starfa samkvæmt samningi við heilbrigðisráðherra, sbr. 28. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu.

Sjúkratryggður telst sá sem verið hefur búsettur hér á landi í sex mánuði nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 37. gr. og 12. gr. laga nr. 100/2007 um almanna­tryggingar. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Börn og unglingar eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn.

Tryggingastofnun ríkisins ákvarðar hvort einstaklingur teljist sjúkratryggður. Að öðru leyti gildir um það hverjir teljast sjúkratryggðir hér á landi reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá.

2. gr.

Skilyrði.

Skilyrði fyrir greiðsluþátttöku eru þessi:

  1. Sálfræðingur skal vera aðili að samningi heilbrigðisráðherra og hafa starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 40/1976 um sálfræðinga, með síðari breytingum, og upp­fylla faglegar lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, lögum nr. 41/2007 um landlækni og reglugerð nr. 786/2007 um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu.
  2. Að um sé að ræða sjúkratryggð börn yngri en 18 ára sem þurfa á þjónustu að halda skv. 3. tölul. að mati þverfaglegs greiningarteymis heilbrigðisstarfsmanna skv. 4. tölul.
  3. Að þjónustan taki til sálfræðimeðferðar á grundvelli tilvísunar skv. 4. tölul. vegna alvarlegra geð-, hegðunar- og þroskaraskana, svo sem vegna kvíða, þunglyndis eða þráhyggjueinkenna. Fjöldi meðferðarskipta á grundvelli hverrar tilvísunar getur verið allt að tíu.
  4. Að fyrir liggi tilvísun á sérfræðiþjónustuna frá þverfaglegu greiningarteymi heilbrigðisstarfsmanna sem er með samning þar um við heilbrigðisráðherra. Í tilvísun er tilgreindur fjöldi meðferðartíma sem er að hámarki tíu, svo og gildistími tilvísunar sem er allt að sex mánuðir frá útgáfudegi hennar. Rísi ágreiningur milli teymisins og sjúklings (forráðamanns) um þörf á tilvísun getur sjúkratryggður einstaklingur snúið sér til landlæknis, sbr. 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni. Sé að mati teymisins þörf á tilvísun ákveður sjúkratryggður einstaklingur til hvaða samningsbundins sálfræðings honum er vísað. Teymið veitir aðstoð við val á sálfræðingi ef sjúkratryggður einstaklingur óskar eftir því. Sjúkratryggður einstaklingur greiðir ekkert gjald fyrir tilvísun.

3. gr.

Hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði.

Fyrir hverja komu til samningsbundins sálfræðings utan sjúkrastofnana skulu sjúkra­tryggðir greiða gjald sem nemur 20% af umsömdu heildarverði við komuna, sbr. þó 3. mgr.

Þegar reikningur er gerður til Tryggingastofnunar ríkisins fyrir sálfræðiþjónustu skal draga greiðslu sjúkratryggðra frá umsömdu heildarverði. Með umsömdu heildarverði, sbr. 1. mgr., er átt við það gjald sem samið hefur verið um í samningum heilbrigðis­ráðherra við sjálfstætt starfandi sálfræðinga skv. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 28. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu.

Gjald það sem sjúkratryggður einstaklingur greiðir samkvæmt reglugerð þessari veitir rétt til afsláttarskírteinis skv. 15. gr. reglugerðar nr. 1265/2007 um hlutdeild sjúkra­tryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Hafi sjúkratryggður fengið útgefið afsláttar­skírteini skal hann greiða gjald sem nemur 10% af umsömdu heildarverði við komuna það sem eftir er almanaksársins.

4. gr.

Lok meðferðar.

Í lok meðferðar (meðferðarlotu) skal sálfræðingur senda skýrslu um árangur meðferðar til tilvísandi greiningarteymis, sbr. 4. tölul. 2. gr., þar sem fram komi stutt ágrip af inni­haldi meðferðar, árangur á grundvelli markmiða samkvæmt tilvísun og þörf á frekari meðferð hjá sálfræðingi og í þeim tilvikum, áætluð meðferðarlengd.

5. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 2. og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 100/2007 um almanna­tryggingar, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2008.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 21. desember 2007.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Berglind Ásgeirsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica