1. gr.
Skilgreining á dvalarrými.
Dvalarrými eru úrræði fyrir fólk sem er 67 ára og eldra. Dvalarrými falla undir stofnanaþjónustu fyrir aldraða skv. 1. tölul. 14. gr. laga um málefni aldraðra, eru sérhönnuð með þarfir aldraðra í huga og ætluð þeim sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Óheimilt er að bjóða öldruðum einstaklingi búsetu í dvalarrými nema að undangengnu mati á þörf hans fyrir dvalarrými samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar.
2. gr.
Umsjón með mati á þörf fyrir dvalarrými.
Í hverju heilbrigðisumdæmi, sbr. reglugerð um heilbrigðisumdæmi, skal einn félagsráðgjafi og einn hjúkrunarfræðingur, skipaðir af félags- og tryggingamálaráðherra, sinna mati á þörf fólks 67 ára og eldra fyrir dvalarrými. Skal félagsráðgjafinn vera umsjónarmaður matsins í umdæminu. Ráðherra skipar einnig félagsráðgjafa sem varamann og er heimilt að kalla hann tímabundið til starfa eftir því sem þörf krefur.
Matsaðilar eru ábyrgir fyrir mati á þörf íbúa fyrir dvalarrými á því starfssvæði þar sem þeir starfa. Ábyrgðin felur meðal annars í sér að afla allra áskilinna gagna og upplýsinga, sbr. 5. gr., og tryggja að fagleg sjónarmið ráði ferðinni við matsgerðina. Matsaðilar bera ábyrgð á rafrænni skráningu matsins og skal skráningin gerð í samræmi við notendahandbók sem fylgir matskerfinu.
Matsaðilar skulu í störfum sínum hafa að leiðarljósi þá stefnu að fólki skuli gert kleift með viðeigandi þjónustu og stuðningi að búa á eigin heimili utan stofnana eins lengi og unnt er.
Kostnaður við umsjón með mati á þörf fyrir dvalarrými greiðist úr ríkissjóði.
3. gr.
Forsendur fyrir mati á þörf fyrir dvalarrými.
Skrifleg beiðni skv. 4. gr. er forsenda þess að fram fari mat á þörf einstaklings fyrir breytta búsetu og flutning í dvalarrými.
4. gr.
Umsókn um mat á þörf fyrir dvalarrými.
Beiðni um mat á þörf fyrir dvalarrými skal einungis lögð fram telji hinn aldraði að hann sé ekki fær um að búa áfram á heimili sínu þrátt fyrir heimaþjónustu, aðra félagslega þjónustu sem honum stendur til boða og eftir atvikum heimahjúkrun eða annan stuðning. Beiðnin þarf að vera skrifleg og skal hún send til félagsþjónustu sveitarfélagsins þar sem hinn aldraði er búsettur. Eyðublöð vegna umsóknar um mat á þörf fyrir dvalarrými skulu vera aðgengileg hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna. Eyðublöðin skulu gefin út af félags- og tryggingamálaráðuneytinu.
Undirrituð beiðni einstaklings um mat á þörf fyrir dvalarrými felur í sér heimild til þeirra sem sinna matinu að afla upplýsinga sem nauðsynlegar eru við gerð matsins um félagslegar og heilsufarslegar aðstæður viðkomandi og þjónustu sem honum er veitt.
5. gr.
Framkvæmd matsins.
Þegar umsókn um mat á þörf fyrir dvalarrými hefur borist félagsþjónustu sveitarfélags skal fagmenntaður starfsmaður félagsþjónustunnar yfirfara umsóknina og kynna sér aðstæður hins aldraða. Leiði athugun í ljós að umsækjandi geti fengið aukinn stuðning til áframhaldandi búsetu á heimili sínu skal bjóða honum aukna þjónustu og mögulegt annað búsetuform. Séu öll möguleg stuðningsúrræði hins vegar fullreynd eða viðkomandi telur sér ekki fært að búa lengur heima þrátt fyrir boð um aukna þjónustu skal umsókn hans send umsjónarmanni matsins í viðkomandi heilbrigðisumdæmi, sbr. 2. gr. Hlutverk umsjónarmannsins er að afla eftir þörfum nánari upplýsinga um ástand og aðstæður umsækjanda í samræmi við reglur sem félags- og tryggingamálaráðuneytið gefur út og sjá til þess að matið og niðurstöður þess séu skráðar í rafræna vistunarmatsskrá samkvæmt leiðbeiningum ráðuneytisins.
Miða skal við að alla jafna líði ekki meira en sex vikur frá því að beiðni um mat á þörf fyrir dvalarrými berst umsjónarmanni matsins þar til að niðurstaða liggur fyrir.
Ef hlutaðeigandi einstaklingur sættir sig ekki við niðurstöðu matsins getur hann skotið málinu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
6. gr.
Kynning á niðurstöðu matsins.
Niðurstaða mats á þörf fyrir dvalarrými skal kynnt skriflega fyrir viðkomandi umsækjanda og afrit sent félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags. Ef niðurstaða matsins er sú að umsækjandi sé ekki í þörf fyrir dvalarrými skal niðurstaðan rökstudd.
Þegar niðurstaða matsins liggur fyrir og matið hefur leitt í ljós að viðkomandi er í þörf fyrir dvalarrými skal fulltrúi félagsþjónustunnar í því sveitarfélagi þar sem umsækjandi býr kynna umsækjanda hvaða dvalarrými standa til boða og sjá til þess að óskir um dvalarstað berist umsjónarmanni þjónustumatsins.
7. gr.
Gildistími matsins og endurmat.
Gildistími mats samkvæmt reglugerð þessari er níu mánuðir frá staðfestingu þess. Fari ekki fram endurmat innan níu mánaða fellur mat viðkomandi einstaklings úr gildi. Þegar mat fellur úr gildi skal það kynnt fyrir þeim sem hlut eiga að máli með óyggjandi hætti og kannað hvort þörf sé fyrir endurmat.
8. gr.
Trúnaður og meðferð upplýsinga.
Þeir aðilar sem sinna mati á þörf fyrir dvalarrými skulu gæta fyllstu þagmælsku og trúnaðar um upplýsingar er varða einkahagi þeirra sem matið tekur til. Þeir skulu við skipun til þessa verkefnis undirrita drengskaparheit um þagnarskyldu. Þagnarskyldan helst eftir að fólk lætur af störfum.
Um skráningu, meðferð og varðveislu gagna skal farið samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
9. gr.
Ákvörðun um úthlutun dvalarrýmis.
Stjórn stofnunar tekur ákvörðun um úthlutun dvalarrýmis í samræmi við niðurstöður mats á þörf fyrir dvalarrými. Þegar dvalarrými losnar á stofnun skal umsjónarmaður matsins, sbr. 2. gr., veita stofnuninni aðgang að upplýsingum um þrjá einstaklinga sem óskað hafa eftir að vistast þar og eru metnir í mestri þörf umsækjenda fyrir dvalarrými. Stjórn viðkomandi stofnunar skal bjóða dvalarrými einhverjum úr hópi þessara þriggja einstaklinga. Engum má bjóða dvalarrými nema hann hafi gilt mat á þörf fyrir slíkt úrræði í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.
10. gr.
Boð um dvalarrými.
Þegar stjórn stofnunar hefur tekið ákvörðun um hverjum skuli boðið dvalarrými, sbr. 9. gr., skal hún tilkynna það hlutaðeigandi einstaklingi, félagsþjónustunni í því sveitarfélagi þar sem einstaklingurinn býr og einnig umsjónarmanni matsins skv. 2. gr.
11. gr.
Fagleg yfirumsjón.
Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur faglega yfirumsjón með úthlutun dvalarrýma og skal standa fyrir reglulegum samráðs- og fræðslufundum með þeim sem sinna mati á þörf fyrir dvalarrými.
12. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 4. mgr. 15. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, öðlast þegar gildi.
Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. skal mat á þörf einstaklings fyrir dvalarrými sem framkvæmt hefur verið af þjónustuhópi aldraðra fyrir 1. janúar 2008 hafa gildi í 18 mánuði frá staðfestingu þess.
Félags- og tryggingamálaráðuneytinu, 6. júní 2008.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Lára Björnsdóttir.