1. gr.
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði er endurhæfingardeild og heilsuhæli í eigu Náttúrulækningafélags Íslands, sem annast sjúklinga sem búið er að sjúkdómsgreina og þarfnast meðferðar.
Meðferð á endurhæfingardeild er fólgin í endurhæfingu sbr. 5. málsgr. 24. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum. Starfsemi heilsuhælis er meðal annars fólgin í heilsurækt og heilsuverndarstarfi í anda náttúrulækningastefnunnar í samræmi við íslenska heilbrigðislöggjöf og íslenska heilbrigðisáætlun.
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði er sjálfstæð stofnun, rekin sem sér rekstrareining með sjálfstæðan fjárhag og sérstaka stjórn.
2. gr.
Stjórn Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði skal skipuð í samræmi við 4. málsgr. 30. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990, með síðari breytingum. Stjórnin skal þannig skipuð að eigendur stofnunarinnar kjósa þrjá fulltrúa, starfsmannaráð stofnunarinnar kýs einn fulltrúa og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tilnefnir einn fulltrúa. Við ríkisstjórnaskipti er ráðherra heimilt að skipta um fulltrúa sinn.
Fulltrúar ráðherra og eigenda mega ekki vera starfsmenn stofnunarinnar. Fulltrúi starfsmanna skal vera í a.m.k. hálfu starfi við stofnunina.
Kjörtímabil stjórnar er 2 ár.
Varamenn í stjórn skulu valdir á sama hátt og aðalmenn.
3. gr.
Stjórn Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði skiptir sjálf með sér verkum.
Stjórnin heldur fundi svo oft sem þörf krefur eða þegar tveir stjórnarmenn óska þess.
Til fundar skal boða með tryggilegum hætti.
Fjöldi atkvæða ræður úrslitum allra mála, sem stjórninni er falið að ráða.
Fundur stjórnar telst lögmætur ef meirihluti stjórnar situr fund og til hans hefur verið boðað með löglegum hætti.
4. gr.
Stjórn Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði ræður framkvæmdastjóra, hjúkrunarforstjóra og yfirlækni í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 með síðari breytingum.
Með verkaskiptingu milli framkvæmdastjóra, hjúkrunarforstjóra og yfirlæknis fer skv. 29. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 með síðari breytingum.
5. gr.
Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk en um getur í 4. gr. í samráði við yfirlækni og hjúkrunarforstjóra eftir því sem við á. Framkvæmdastjóri ræður og annað starfsfólk stofnunarinnar.
Um kjör starfsfólks fer eftir gildandi kjarasamningum eins og þeir eru á hverjum tíma.
6. gr.
Framkvæmdastjóra, hjúkrunarforstjóra og yfirlækni skal heimilt að sitja fundi stjórnar stofnunarinnar og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.
7. gr.
Stjórn stofnunarinnar skal gera þróunar- og rekstraráætlanir fyrir stofnunina. Slík áætlun skal gerð a.m.k. tvö ár fram í tímann en vera í árlegri endurskoðun og unnin í nánu samstarfi við yfirlækni, framkvæmdastjóra og hjúkrunarforstjóra.
8. gr.
Stjórn stofnunarinnar skal sjá um að rekstrarútgjöld hennar séu innan þeirra marka er tekjur og fjárveitingar leyfa.
9. gr.
Reikningsár stofnunarinnar er almanaksárið. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.
10. gr.
Um Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Ísland í Hveragerði gilda að öðru leyti og eftir því sem við á lög og reglugerðir um heilbrigðisstofnanir, svo sem ákvæði um eftirlit, skýrslugerðir og geymslu sjúkragagna.
11. gr.
Verði Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði lögð niður renna eignir stofnunarinnar til Náttúrulækningafélags Íslands, ef það félag er starfandi en að öðrum kosti til ríkisins.
12. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 2. málgr. 24. gr. laga nr. 97/1990, með síðari breytingum öðlast þegar gildi.
Reglugerðin tekur ekki til stofnunar eða slita eldri fjárhagsskuldbindinga, sem stjórn N.L.F.Í. hefur löglega gert samkvæmt samþykktum félagsins. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 535/1991.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 22. janúar 1993.
Sighvatur Björgvinsson.
Páll Sigurðsson.