Heilbrigðisráðuneyti

839/2023

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi nr. 467/2015. - Brottfallin

1. gr.

Við ákvæði til bráðabirgða bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Heimilt er að meta umsóknir um sérfræðileyfi í læknisfræði frá læknum, sem höfðu fengið fullt og ótakmarkað lækningaleyfi og hafið sérnám hér á landi fyrir 22. maí 2015, á grundvelli þeirra skil­yrða sem giltu samkvæmt reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi nr. 1222/2012. Embætti landlæknis skal skipa mats- og umsagnar­nefnd til að meta umsókn samkvæmt ákvæði þessu. Heimilt er að meta til sérnáms tíma sem sérnáms­læknir vann utan viðurkenndrar kennslustofnunar sérnáms í viðkomandi sérgrein ef umsagnar­nefndin telur að jafna megi starfinu til viðurkennds sérnáms í sérgreininni. Taka skal mið af handleiðslu og mark­miðum starfsins. Skilyrði er að umsækjandi uppfylli hæfni- og færniviðmið sem krafist er af sérfræð­ingum í viðkomandi sérgrein og að hann hafi tileinkað sér þá þekkingu, aðferðafræði og þá klínísku og verklegu færni sem krafist er fyrir viðkomandi sérgrein. Uppfylli umsækjandi ekki framangreind skilyrði skal umsókn synjað en leiðbeint um hvað upp á vanti miðað við nýjustu reglur um sérnám í viðkomandi sérgrein hér á landi.

 

2. gr.

Markmið.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5. og 30. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012 og 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, öðlast þegar gildi.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 2. ágúst 2023.

 

Willum Þór Þórsson.

Ásthildur Knútsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica