Heilbrigðisráðuneyti

411/2021

Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 467/2015. - Brottfallin

1. gr.

1. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Reglugerð þessi gildir um réttindi og skyldur lækna, veitingu almennra lækningaleyfa, sérnám í læknisfræði og veitingu sérfræðileyfa.

 

2. gr.

Orðin "og starfsnámi skv. 4. gr." í 1. mgr. 3. gr. falla brott.

 

3. gr.

Í stað orðanna "reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011," í 4. mgr. 3. gr., 8. mgr. 7. gr. og 18. gr. reglugerðarinnar kemur, í viðeigandi beygingarfalli: reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heil­brigðis­starfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi, nr. 510/2020.

 

4. gr.

4. gr. reglugerðarinnar fellur brott.

 

5. gr.

Orðin "og skilyrði 4. gr." og "og starfsnám" í 5. gr. reglugerðarinnar falla brott.

 

6. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. reglugerðarinnar:

  1. Orðin "og starfsnámi skv. 4. gr." í a-lið 2. mgr. falla brott.
  2. Á eftir "hafa lokið viðurkenndu sérnámi" í c-lið 2. mgr. kemur: , að meðtöldum sérnáms­grunni,.
  3. 3. mgr. orðast svo:
      Aðeins er heimilt að veita sérfræðileyfi hér á landi í þeim sérgreinum þar sem marklýsing fyrir sérnámið í heild hefur verið samþykkt af mats- og hæfisnefnd, sbr. 15. gr. Þó er landlækni heimilt að staðfesta sérfræðileyfi frá öðru ríki.
  4. 4. mgr. orðast svo:
      Heildarnámstími sérnáms skal vera að lágmarki 5 ár (60 mánuðir) í aðalgrein, að undan­gengnum sérnámgrunni eða starfsnámi skv. 6. mgr. 8. gr., og tvö ár (24 mánuðir) í undirsérgrein, sbr. þó. 7. mgr.

 

7. gr.

8. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Sérnám í læknisfræði skal fela í sér fræðilegt og verklegt nám við háskóla eða heilbrigðis­stofnun sem viðurkennd er af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi eða háskóla eða heilbrigðisstofnun sem viðurkennd er til slíks sérnáms í því ríki þar sem sérnámið er stundað.

Sérnám í læknisfræði skal uppfylla, hvað varðar innihald og námstíma, kröfur um sérnám sem gerðar eru í því ríki þar sem sérnám er stundað, en við mat á sérnámi frá ríki utan EES og Sviss skal haft til hliðsjónar það sérnám í læknisfræði sem fram fer á Íslandi. Ef slíkt er ekki að fullu skilgreint hér á landi skal höfð hliðsjón af sérnámi í öðrum ríkjum, svo sem á Norðurlöndum eða í Banda­ríkjunum.

Sérnám skal hefjast á sérnámsgrunni sem skal vera 12 mánaða klínískt nám og þannig skipu­lagður að 4 mánuðir séu á lyflækningadeild, a.m.k. 4 mánuðir á heilsugæslu, og 2 til 4 mánuðir á öðrum deildum, hámark tveimur. Sérnámsgrunni skal að fullu lokið áður en sérnám í aðalgrein hefst.

Tímalengd sérnámsgrunns miðast við fullt starf (100%). Námstíminn skal að jafnaði skipu­lagður sem námsblokkakerfi í eitt ár í senn. Fjarvistir umfram tvær vikur lengja sérnámsgrunninn sem því nemur. Heimilt er að veita undanþágu frá reglu um 100% starfshlutfall og veita heimildir til töku sérnámsgrunns í hlutastarfi, þó að lágmarki 50% starfi, enda lengist námstími hvers hluta sérnáms­grunnsins sem því nemur. Störf sem unnin eru utan skipulagðra námsblokka samkvæmt þessu ákvæði teljast ekki hluti af sérnámsgrunni.

Viðkomandi heilbrigðisstofnanir og sérnámslæknir skulu gera með sér samning þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur stofnunar og læknis í sérnámsgrunni. Nám í sérnámsgrunni skal fara fram samkvæmt marklýsingu fyrir sérnámsgrunn, sbr. 15. gr. Viðkomandi heilbrigðisstofnun ber ábyrgð á að námið sé í samræmi við markmið marklýsingar.

Heimilt er að meta fyrstu stig sérnáms sem stundað hefur verið erlendis upp í sérnámsgrunn enda uppfylli námið skilyrði 3. og 4. mgr. og var stundað við heilbrigðisstofnun sem er viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum í því ríki þar sem námið var stundað og heil­brigðis­yfirvöldum hér á landi.

Ráðherra skal skipa nefnd til fjögurra ára sem skipuleggur námsblokkir, fjölda þeirra og ráðn­ingarferli fyrir lækna í sérnámsgrunni í samvinnu við þær heilbrigðisstofnanir sem viðurkenndar eru til slíks náms. Nefndin skal skipuð sex fulltrúum með læknismenntun, tveimur frá Landspítala, einum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, einum frá heilbrigðisstofnun utan höfuðborgarsvæðisins, einum frá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og einum frá Félagi almennra lækna. Skipa skal jafn­marga fulltrúa til vara. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Aðsetur nefndarinnar skal vera á Landspítala sem leggur nefndinni til starfsmann og starfsaðstöðu. Námsblokkirnar skulu auglýstar lausar til umsóknar eigi síðar en 15. desember ár hvert. Formaður nefndarinnar staðfestir á grundvelli vottorða frá framkvæmdastjórum lækninga þeirra stofnana þar sem námið fór fram að sérnámslæknir hafi lokið starfsnámi á full­nægjandi hátt. Ef vafi leikur á um að sérnámslæknir uppfylli kröfur marklýsingar skal nefndin í samráði við framkvæmdastjóra lækninga á viðkomandi heilbrigðisstofnun gera við­eig­andi ráðstafanir.

Sérnám sem unnt er að stunda hér á landi, þar með talinn sérnámsgrunnur, skal fara fram á viðurkenndri heilbrigðisstofnun eða deild heilbrigðisstofnunar sem hlotið hefur viðurkenningu til slíks sérnáms af nefnd skv. 15. gr. Sérnám sem stundað er hér á landi að öllu leyti eða hluta skal fara fram í samræmi við námsaðferðir og vera í samræmi við marklýsingu, sbr. 15. gr., sem sett hefur verið fyrir sérgreinina.

Í marklýsingu skal meðal annars kveðið á um inntöku í sérnám, innihald, fyrirkomulag og lengd sérnámsins og einstakra námshluta, gæðakröfur, handleiðslu og hæfismat.

Sérnámið skal fara fram á ábyrgð framkvæmdastjóra lækninga heilbrigðisstofnunar sem viður­kennd hefur verið af nefnd skv. 15. gr. og skal framkvæmdastjóri lækninga skipa kennslustjóra með sérfræðileyfi í viðkomandi sérgrein sem umsjónarmann sérnámsins. Læknir í sérnámi og fram­kvæmda­stjóri lækninga skulu gera með sér samning þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur stofnunar og læknis í sérnámi, áætlun um sérnám sem og lengd og fyrirkomulag ætlaðrar sérnáms­dvalar. Heimilt er að viðurkenna allt að eins árs vísindavinnu í stað eins árs í aðalgrein, enda sé það í samræmi við marklýsingu og sam­þykkt af kennslustjóra.

Áunnið sumarleyfi og vaktafrí sem tekin eru á sérnámstímanum reiknast sem hluti af heildar­námstíma. Fjarvistir umfram tvær vikur utan fastra réttinda á ári hverju lengja sérnám sem því nemur. Miðað skal við að starfs­hlutfall í sérnámi sé 100%. Sé starfshlutfall lægra, lengist lágmarks­námstími þannig að heildar­námstími samsvari minnst 72 mánuðum í fullu starfi að meðtöldum sérnáms­grunni.

Þeir sem ljúka sérnámi bæði í aðalsérgrein og undirsérgrein á sjö árum geta haft sveigjan­legri tímamörk milli aðalsérgreinar og undirsérgreinar en að framan getur, svo fremi sem hæfni­viðmiðum marklýsinga sé fullnægt. Þó má aðal­grein aldrei taka skemmri tíma en þrjú ár.

Um frekari skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis fer skv. 16. gr.

Um gjaldtöku fyrir veitingu sérfræðileyfis fer skv. 18. gr.

 

8. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað orðanna "fyrir starfsnám til lækningaleyfis skv. 4. gr. og til að annast sérnám skv. 7. og 8. gr." í 2. og 10. mgr. kemur: til að annast sérnám skv. 7. og 8. gr., þar með talinn sérnáms­grunn.
  2. Í stað orðanna "starfsnám til starfsleyfis skv. 4. gr." í 3. mgr. kemur: sérnámsgrunn skv. 8. gr.
  3. Orðin "starfsnám og" í 8. mgr. falla brott.
  4. Á eftir orðinu "sérnám" í 8. mgr. kemur: , þar með talinn sérnámsgrunn,.
  5. Í stað orðsins "starfsnám" í 9. mgr. kemur: sérnámsgrunn.
  6. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Mats- og hæfisnefnd um sérnám í læknisfræði.

 

9. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað orðsins "eru" í 3. mgr. kemur: er.
  2. Táknin ", 4." í 4. mgr. falla brott.

 

10. gr.

Í stað ákvæða til bráðabirgða í reglugerðinni kemur nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Þeir sem lögðu stund á eða höfðu lokið formlegu starfsnámi, sambærilegu við það sem kveðið er á um í 3. mgr. 8. gr., við gildistöku reglugerðar þessarar, teljast við lok starfsnámstímans hafa lokið sérnámsgrunni, enda hafi starfsnámið farið fram samkvæmt marklýsingu skv. 15. gr.

 

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5., 8., 30. og 31. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, öðlast þegar gildi.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 9. apríl 2021.

 

Svandís Svavarsdóttir.

Hrönn Ottósdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica