Félagsmálaráðuneyti

204/1994

Reglugerð um stjórnarnefnd málefna fatlaðra og Framkvæmdasjóð fatlaðra. - Brottfallin

I. KAFLI 

 Stjórnarnefnd málefna fatlaðra.

Skipun stjórnarnefndar og stjórnsýsluleg staða.

Málsmeðferð.

1. gr.

Stjórnarnefnd málefna fatlaðra er fjölskipað stjórnvald skipað af félagsmálaráðherra til fjögurra ára í senn.

Fimm menn eiga sæti í stjórnarnefnd. Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp og Samband ísl. sveitarfélaga tilnefna einn fulltrúa hver. Ráðherra skipar tvo án tilnefningar, þar af annan formann. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti og aðalmenn.

Þegar aðalmaður forfallast um stundarsakir tekur varamaður sæti hans í nefndinni. Forfallist aðalmaður varanlega eða fellur frá tekur varamaður sæti hans þar til nýr aðalmaður er skipaður og nýr varamaður.

Þegar stjórnarnefnd fjallar um umsóknir og úthlutanir úr Framkvæmdasjóði fatlaðra skal fulltrúi tilnefndur af fjárlaganefnd Alþingis taka sæti í nefndinni.

2. gr.

Hlutverk stjórnarnefndar er eftirfarandi:

  1. Vera félagsmálaráðuneyti til ráðgjafar um málefni fatlaðra.
  2. Gera tillögur til félagsmálaráðherra um sérhæfða þjónustu við fatlaða á landsvísu.
  3. Hafa á hendi stjórn Framkvæmdasjóðs fatlaðra.

3. gr.

Stjórnarnefnd skal funda reglulega.

Formaður stjórnarnefndar boðar til funda með hæfilegum fyrirvara.

Stjórnarnefnd er ályktunarhæf þegar a.m.k. fjórir nefndarmanna sitja fund.

Fáist ekki samhljóða niðurstaða skal gengið til atkvæða og ræður afl atkvæða úrslitum. Verði atkvæði jöfn telst tillaga fallin.

Um vanhæfi nefndarmanna gilda almennar vanhæfisreglur.

Fundargerðir stjórnarnefndar skulu vera í vörslu skjalasafns félagsmálaráðuneytis.

Verkefni stjórnarnefndar.

4. gr.

Stjórnarnefnd skal vera félagsmálaráðuneyti til ráðgjafar, s.s. vegna stefnumótunar og framkvæmdar laganna eða við einstök úrlausnarefni í málefnum fatlaðra. Auk þess felur ráðgjöf stjórnarnefndar m.a. í sér að yfirfara heildaráætlun um þjónustu við fatlaða. Jafnframt að samræma umsóknir um framlög úr Framkvæmdasjóði frá öllum starfssvæðum og leggja umsóknirnar með þeim hætti fyrir félagsmálaráðherra.

5. gr.

Berist stjórnarnefnd tillaga frá svæðisskrifstofu, eða öðrum aðila, um sérhæfða þjónustu á landsvísu, sbr. 3. gr. reglugerðar um svæðisskrifstofur málefna fatlaðra, nr. 273/1993, skal stjórnarnefnd taka málið til umfjöllunar og gera tillögu til ráðherra. Stjórnarnefnd getur einnig að eigin frumkvæði komið slíkum tillögum til ráðherra.

6. gr.

Stjórnarnefnd fer með stjórn Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Hún fjallar um umsóknir um framlög úr sjóðnum og gerir tillögu til ráðherra um úthlutun.

Um verkefni og starfshætti stjórnarnefndar, sem sjóðsstjórnar Framkvæmdasjóðs fatlaðra, vísast að öðru leyti til II. og III. kafla reglugerðar þessarar.

II. KAFLI

Framkvæmdasjóður fatlaðra.

7. gr.

Um fjármögnun sjóðsins fer samkvæmt 39. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra.

8. gr.

Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur eftirfarandi hlutverk:

  1. Fjármagna stofnkostnað heimila fatlaðra, í skilningi 3.Ð6. tölul. 10. gr. laga um málefni fatlaðra, sem eru á vegum ríkisins.
  2. Fjármagna stofnkostnað þjónustustofnana fatlaðra, sbr. 9. gr. laga um málefni fatlaðra, sem eru á vegum ríkisins.
  3. Fjármagna stofnanir og heimili fatlaðra, sbr. 1.Ð2. tölul., sem eru á vegum sveitarfélaga, þegar gerðir hafa verið samningar þar að lútandi milli ríkis og sveitarfélags, sbr. 13. gr. laga um málefni fatlaðra.
  4. Veita styrki til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, til stofnana og heimila fatlaðra, sbr. 1.Ð2. tölul.
  5. Veita styrki til framkvæmdaaðila félagslegra íbúða sem ætlaðar eru til leigu, sbr. 4. tölul. 40. gr. laga um málefni fatlaðra.
  6. Verja allt að 10% af ráðstöfunarfé til að bæta aðgengi opinberra stofnana.
  7. Verja allt að 25% af ráðstöfunarfé til meiri háttar viðhaldsframkvæmda stofnana og heimila fatlaðra, sbr. 1.Ð4. tölul.
  8. Veita fé til breytinga á almennum vinnustöðum.
  9. Veita fé til kannana og áætlana í málefnum fatlaðra.
  10. Veita fé til annarra framkvæmda en fram koma í grein þessari sem nauðsynlegar eru taldar í þágu fatlaðra..

Framkvæmdasjóður fatlaðra er í vörslu félagsmálaráðuneytis sem fer með daglegan rekstur hans.

9. gr.

Umsóknir um stofnkostnað heimila og þjónustustofnana fatlaðra berast stjórnarnefnd sem hér segir:

  1. Frá svæðisskrifstofum.
  2. Frá sveitarfélögum, félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum.

Að fengnum tillögum og umsögnum um þær hefst undirbúningsvinna að tillögugerðum um úthlutun.

10. gr.

Berist stjórnarnefnd umsókn um úthlutun úr Framkvæmdasjóði frá sveitarfélagi, félagasamtökum fatlaðra eða sjálfseignarstofnunun, sem ekki hefur hlotið umfjöllun svæðisskrifstofu og svæðisráðs, skal umsóknum vísað til þeirra til umsagnar.

A. Framlög til stofnkostnaðar heimila og þjónustustofnana fatlaðra.

Framkvæmdir á vegum ríkisins.

11. gr.

Svæðisskrifstofa skal sjá til þess að áform um fyrirhugaðar framkvæmdir, sem ætlað er að Framkvæmdasjóður fjármagni, séu kynntar félagsmálaráðuneyti. Samþykki ráðuneytisins þarf til áður en stofnað er til fjárútláta.

12. gr.

Skilyrði fyrir úthlutun til framkvæmda er að fyrir liggi frumathugun í skilningi laga um opinberar framkvæmdir og áætlanagerð.

Við hverja umsókn skal gerð krafa um sundurliðaða áætlun þar sem gerð verður grein fyrir öllum kostnaði. Kostnaðaráætlun skal miðuð við byggingarvísitölu í október hvers árs. Framreikna skal kostnaðaráætlunina til áætlaðrar meðalvísitölu (byggingarvísitölu) úthlutunarársins. Stjórnarnefnd ber að taka mið af kostnaðaráætlunum þannig framreiknuðum.

Um framkvæmdir fer samkvæmt lögum um opinberar framkvæmdir, þ.e. útboð, gerð verksamninga og eftirlit með framkvæmdum.

Um tilhögun greiðslu fer eftir samningi milli verkkaupa (félagsmálaráðuneytis) og verksala.

Framkvæmdir á vegum sveitarfélaga, félagasamtaka eða sjálfseignarstofnana.

13. gr.

Hlutaðeigandi aðili, þ.e. sveitarfélag, félagasamtök eða sjálfseignarstofnun, skal sjá til þess að áform um fyrirhugaðar framkvæmdir séu kynntar svæðisskrifstofu og félagsmálaráðuneyti.

14. gr.

Ákvæði laga um opinberar framkvæmdir skulu höfð til hliðsjónar hvað varðar undirbúning framkvæmda eftir því sem við á, svo sem áætlanagerð, samningagerð og greiðslutilhögun.

Framlög til stofnkostnaðarframkvæmda skulu ekki greidd fyrr en fyrir liggi starfs- og rekstrarleyfi. Um kostnaðaráætlun gildir ákvæði 11. gr.

Framlögin skulu greidd samkvæmt sérstökum samningi við félagsmálaráðuneyti. Í þeim samningi skal m.a. tilgreina kostnað, fjármögnun, framkvæmdahraða, eignarhlut aðila, svo og tilhögun greiðslu sem skal vera eftir verkstöðu á hverjum tíma eða eftir verklok samkvæmt reikningi. Jafnframt komi fram í samningnum að óheimilt sé að ráðstafa húsnæðinu eða selja það nema með samþykki félagsmálaráðuneytis og skal kvöð um það þinglýst.

Framlög samkvæmt þessari grein eru afturkræf sé húsnæði ráðstafað til annarra nota en í þágu fatlaðra.

B. Framlög til viðhalds á heimilum fatlaðra og þjónustustofnunum.

15. gr.

Heimilt er að verja allt að 25% af framkvæmdafé Framkvæmdasjóðs til meiri háttar viðhalds á heimilum fatlaðra, sbr. 3.Ð6. tölul. 10. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og þjónustustofnunum, sbr. 9. gr. sömu laga, enda hafi hlutaðeigandi byggingar verið byggðar eða keyptar innan gildissviðs þeirra laga. Sama á við um sams konar heimili og stofnanir sem byggðar hafa verið samkvæmt eldri lögum, t.d. lögum um málefni fatlaðra nr. 41/1983.

Með viðhaldi er átt við allar meiri háttar viðhaldsframkvæmdir, svo sem endurnýjun á þaki, útveggjum og gluggum, en ekki rekstrarviðhald í skilningi fjárlaga.

Grein þessi á jöfnum höndum við um stofnanir og heimili á vegum ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, enda falli heimilin/stofnanirnar undir lög um málefni fatlaðra, sbr. 1. mgr.

16. gr.

Úthlutun þess fjár sem varið er til viðhaldsframkvæmda skal vera í höndum félagsmálaráðuneytis. Áform um ráðstöfun fjárins skal kynnt stjórnarnefnd og henni gefinn kostur á að veita umsögn um hana.

17. gr.

Um viðhaldsframkvæmdir, sem falla undir lög um opinberar framkvæmdir, fer samkvæmt þeim lögum.

Sé um viðhald á vegum sveitarfélaga, félagasamtaka eða sjálfseignarstofnana að ræða skulu ákvæði laga um opinberar framkvæmdir höfð til hliðsjónar eftir því sem við á, svo sem áætlanagerð, samningagerð og greiðslutilhögun. Gerð skal sundurliðuð kostnaðaráætlun. Framlög til viðhaldsframkvæmda skulu greidd samkvæmt sérstökum samningi við félagsmálaráðuneytið. Í þeim samningi skal m.a. tilgreina kostnað, fjármögnun, framkvæmdahraða og tilhögun greiðslu sem skal vera eftir verkstöðu á hverjum tíma eða eftir verklok samkvæmt reikningi.

C. Framlög vegna félagslegra íbúða.

18. gr.

Heimilt er að veita sveitarfélögum, félagasamtökum fatlaðra og sjálfseignarstofnunum, framlög til að eignast félagslegar íbúðir sem ætlaðar eru til leigu fyrir fatlaða. Skilyrði er að félagasamtök og sjálfseignarstofnanir hafi hlotið staðfestingu félagsmálaráðherra sem fullgildur framkvæmdaaðili skv. lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Þegar sveitarfélög eiga í hlut má framlag Framkvæmdasjóðs nema helmingi af framlagi sem framkvæmdaaðila ber að leggja fram skv. lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Þegar félagasamtök eða sjálfseignarstofnanir standa fyrir félagslegum íbúðum getur framlag úr Framkvæmdasjóði tekið til alls framlagsins sem framkvæmdaaðila ber að greiða skv. lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Þær félagslegu íbúðir, sem undir grein þessa heyra, eru annars vegar félagslegar leiguíbúðir og hins vegar félagslegar kaupleiguíbúðir sem eru í leigu. Íbúðir þessar geta verið starfræktar sem verndaðar íbúðir í skilningi 2. tölul. 10. gr. laga um málefni fatlaðra.

Framlög samkvæmt grein þessari eru endurkræf sé íbúð tekin til annarra nota en í þágu fatlaðra. Við útreikning á endurgreiðslu skal taka mið af ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins um ákvörðun á eignarhluta eiganda félagslegrar íbúðar við endursölu íbúðar.

19. gr.

Með umsókn um framlög til félagslegra íbúða fylgi staðfesting Húsnæðisstofnunar um lánsúthlutun til viðkomandi framkvæmdaaðila. Áður en til útgreiðslu kemur til þeirra, sem fengið hafa úthlutun, skal liggja fyrir samþykki Húsnæðisstofnunar um verkið með gerð lánssamnings við hlutaðeigandi aðila. Greitt skal samkvæmt verkstöðu á hverjum tíma eða eftir verklok samkvæmt reikningi.

D. Framlög til að bæta aðgengi opinberra bygginga.

20. gr.

Til að auka möguleika fatlaðra til fullrar þátttöku í þjóðfélaginu er Framkvæmdasjóði fatlaðra heimilt að verja allt að 10% af ráðstöfunarfé sjóðsins til lagfæringa á aðgengi opinberra bygginga með það að markmiði að fatlaðir geti farið þar um með eðlilegum hætti, innan húss sem utan.

Framlag úr sjóðnum til þessa viðfangsefnis skal þó aldrei nema meiru en sem nemur helmingi af kostnaði hverrar einstakrar framkvæmdar við aðgengi.

21. gr.

Með opinberri byggingu er í reglugerð þessari átt við byggingar á vegum ríkis eða sveitarfélaga þar sem rekin er ýmiss konar þjónusta við almenning, svo sem sjúkrahús, heilsugæslustöðvar, skólahús, skrifstofuhús, pósthús, kirkjur, bókasöfn, íþróttamannvirki leikhús, félagsheimili o.fl.

Allar byggingar sem byggðar eru fyrir gildistöku byggingarreglugerðar nr. 292/1979 skulu njóta forgangs. Heimilt er að veita framlag til yngri bygginga enda mæli sérstakar ástæður með því.

Leita skal umsagnar ferlinefndar félagsmálaráðuneytis.

22. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 21. gr. falla utan reglugerðar þessarar þær byggingar sem falla undir lög um málefni aldraðra, sbr. ákvæði þeirra laga um Framkvæmdasjóð aldraðra. Sama á við um opinberar stofnanir sem byggðar eru eftir gildistöku laga þar sem tilgreint er sérstaklega að fatlaðir skuli njóta þjónustu, sbr. t.d. lög um grunnskóla nr. 49/1991 og lög um framhaldsskóla nr. 57/1988.

23. gr.

Við hverja umsókn skal lögð fram sundurliðuð áætlun þar sem gerð verður grein fyrir öllum kostnaði. Greitt skal samkvæmt verkstöðu á hverjum tíma eða eftir verklok samkvæmt reikningi.

E. Framlög til breytinga á vinnustöðum.

24. gr.

Heimilt er að veita framlög til breytinga á almennum vinnustöðum í þágu fatlaðra starfsmanna. Um umsókn og útgreiðslu vísast til 23. gr. reglugerðar þessarar.

F. Framlög til kannana og áætlana.

25. gr.

Heimilt er að veita einstaklingum, félagasamtökum og opinberum aðilum fé til kannana, hagnýtra rannsókna og tilraunaverkefna í málefnum fatlaðra. Jafnframt að veita opinberum aðilum fé til áætlana í sama skyni.

Umsóknir skulu berast stjórnarnefnd samkvæmt nánari ákvörðun hennar. Niðurstöður verkefna, sem veitt eru fjárframlög til, skulu kynntar stjórnarnefnd.

G. Framlög til annarra framkvæmda.

26. gr.

Heimilt er að veita fé til annarra framkvæmda en fram koma í 1.Ð9. tölul. 8. gr., enda sé það tvímælalaust í þágu fatlaðra og fjármögnun ekki möguleg eftir öðrum leiðum.

III. KAFLI

Almenn atriði varðandi starfshætti stjórnarnefndar og hlutaðeigandi aðila við úthlutanir úr Framkvæmdasjóði fatlaðra.

27. gr.

Umsóknir um framlög úr sjóðnum skulu hafa borist stjórnarnefnd eigi síðar en 15. nóvember ár hvert fyrir úthlutanir sem fram eiga að fara á næsta ári. Við úrvinnslu á tillögunum skal tekið tillit til þjónustuþarfar fatlaðra einstaklinga á hverju svæði.

Endanlegar tillögur að úthlutun skulu lagðar fyrir félagsmálaráðherra eigi síðar en 1. mars. Tillögunum skal fylgja rökstuðningur.

28. gr.

Þeim aðilum, er fá úthlutað fé, samkvæmt ákvörðun félagsmálaráðherra, úr Framkvæmdasjóði fatlaðra, skal gerð skriflega grein fyrir úthlutun og til hvaða verkefna hún nær. Aðili máls getur óskað eftir skriflegum rökstuðningi ef umsókn hefur ekki verið tekin til greina að öllu leyti eða að hluta til.

29. gr.

Móttakandi greiðslu úr Framkvæmdasjóði fatlaðra skal halda bókhald og senda sjóðsstjórn staðfest yfirlit yfir ráðstöfun fjárins eigi síðar en ári eftir úthlutun.

Eigi verður úthlutað á ný til aðila nema yfirlit, sbr. 1. mgr., hafi áður borist stjórnarnefnd.

30. gr.

Komi til þess að forsendur bregðist varðandi ráðstöfun á úthlutunum sjóðsins og úthlutun því afturkölluð, skal það fært með skýrum hætti í bókhald Framkvæmdasjóðs og til hvaða verkefnis úthlutunin rennur í stað hins upphaflega verkefnis.

IV. KAFLI 

 Um eignarhald heimila fatlaðra og stofnana sem byggðar eru með framlögum úr Framkvæmdasjóði fatlaðra.

31. gr.

Heimili fatlaðra og stofnanir sem ríkið kemur á fót skv. lögum um málefni fatlaðra eru eign ríkisins.

Sé um að ræða heimili fatlaðra og stofnanir á vegum annarra aðila en ríkisins miðast eignarhlutfall ríkisins við stofnframlög úr Framkvæmdasjóði fatlaðra.

Í öllum tilvikum skal skrá fasteign í opinbera skrá þegar um er að ræða eignir sem veitt eru stofnframlög til úr Framkvæmdasjóði fatlaðra.

Eignarhluta ríkisins, sbr. 2. mgr., í byggingum á vegum félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, skal þinglýst.

32. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, öðlast gildi þegar í stað.

Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um verkefni og starfshætti stjórnarnefndar og um verkefni Framkvæmdasjóðs fatlaðra nr. 20 9. janúar 1990.

Félagsmálaráðuneytið, 15. apríl 1994.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Þorgerður Benediktsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica