Félagsmálaráðuneyti

198/1992

Reglugerð um daggæslu í heimahúsum - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til gæslu barna í heimahúsi sem rekin er í atvinnuskyni.

Leyfi til daggæslu í heimahúsi skal veitt einum einstaklingi.

Heimilt skal þó að veita tveimur einstaklingum leyfi í sama húsnæði enda fullnægi þeir skilyrðum reglugerðar þessarar. Skal þá leyfi veitt hvorum einstaklingi um sig. Samþykki heilbrigðisnefndar skal liggja fyrir, sbr. gr. 89.6 í heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990, svo og samþykki annarra íbúa húss ef um fjölbýlishús er að ræða.

II. KAFLI

Stjórn og skipulag.

Skyldur sveitarstjórna. Skyldur ríkisins.

2. gr.

Félagsmálanefnd/félagsmálaráð í hverju sveitarfélagi ber almenna ábyrgð á velferð barna í sveitarfélaginu og skal sjá til þess að aðbúnaði barna sé ekki áfátt, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

3. gr.

Félagsmálanefnd/félagsmálaráð, eða önnur sú nefnd sem sveitarstjórn ákveður, hér eftir í reglugerð þessari nefnd félagsmálanefnd, veitir leyfi til daggæslu barna í heimahúsi gegn gjaldi. Óheimilt er að taka barn í slíka gæslu án þess leyfis.

4. gr.

Sveitarfélög bera ábyrgð á því að haldin séu námskeið fyrir dagmæður sem sé skilyrði þess að leyfi sé veitt. Heimilt er að taka gjald fyrir námskeiðin.

Félagsmálaráðuneytið leggur til námsgögn og samræmda námsskrá fyrir landið allt.

5. gr.

Sveitarfélög skulu leitast við að sjá til þess að foreldrar barna hjá dagmæðrum eigi aðgang að ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu sem börn í leikskólum eiga rétt á, sbr. IX. kafla laga um leikskóla nr. 48/1991. Sveitarfélög geta sameinast um þetta verkefni, sbr. 7. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

6. gr.

Sveitarfélög bera ábyrgð á því að höfð sé umsjón og eftirlit með starfsemi dagmæðra.

III. KAFLI

Leyfisveitingar.

7. gr.

Formlegar leyfisveitingar eru á vegum félagsmálanefndar. Heimilt er sveitarstjórn að ákveða visst leyfisgjald.

Félagsmálanefnd sendir Hagstofu Íslands og félagsmálaráðuneyti árlega upplýsingar um fjölda leyfa og fjölda barna í daggæslu í heimahúsi í sveitarfélaginu.

8. gr.

Heimilt er að veita bráðabirgðaleyfi þar til væntanleg dagmóðir hefur sótt námskeið. Þó skal slíkt leyfi ekki veitt án undangenginnar kynningar á undirstöðuatriðum í starfi dagmæðra.

9. gr.

Skilyrði leyfisveitinga eru:

1. 20 ára aldur.

2. Námskeið. Skilyrði fyrir veitingu leyfis í upphafi er að umsækjandi hafi sótt námskeið, sbr. 4. gr. Heimilt er að veita undanþágu frá því skilyrði ef umsækjandi hefur menntun á sviði uppeldismála sem félagsmálanefnd metur gilda.

Standi námskeið umsækjanda ekki til boða skal heimilt að veita honum bráðabirgðaleyfi þar til hann hafi átt þess kost að ljúka námskeiði, sbr. 8. gr.

3. Læknisvottorð. Vottorðið skal staðfesta að ekki hafi fundist merki um sjúkdóm eða annað sem hindrað geti að umsækjandi geti tekið að sér barnagæslu. Einnig skal koma fram að aðrir heimilismenn hafi einnig verið skoðaðir og ekkert fundist athugavert við heilsufar þeirra sem hindri samvistir við börn.

4. Umsögn síðasta vinnuveitanda dagmóður eða tveggja ábyrgra aðila. Umsögnin skal bera með sér að umsækjandi teljist hæfur til að taka að sér daggæslu barna.

5. Sakavottorð. Umsækjandi skal í öllum tilvikum leggja fram sakavottorð. Sé sakavottorðið ekki hreint metur félagsmálanefnd hvort athæfi, sem fram kemur á sakavottorði, hafi áhrif á hæfni umsækjanda til að hafa barn í umsjá sinni. Kemur þar m.a. til álita hversu langt er um liðið frá því refsivert athæfi átti sér stað.

Heimilt er að krefja maka dagmóður um sakavottorð.

6. Brunavarnir. Fyrir liggi skoðun eldvarnareftirlits hvers sveitarfélags á heimili umsækjanda einkum um ástand rafmagns og útgönguleiðir.

Reykskynjari skal ávallt vera í íbúðinni.

7. Umsögn heilbrigðisnefndar. Heimilt er að leita umsagnar heilbrigðisnefndar, hvað húsnæði varðar, ef ástæða þykir til.

8. Leikrými fyrir börn. Lágmarksleikrými fyrir hvert barn skal vera um 3.5 fm innanhúss, auk þess skal aðstaða til útivistar vera fullnægjandi og hættulaus. Félagsmálanefnd eða umsjónaraðili metur hvort skilyrðum þessum er fullnægt og getur kallað eftir teikningum.

9. Samþykki leigusala ef um leiguhúsnæði er að ræða. Skriflegt samþykki liggi fyrir.

Auk ofangreindra skilyrða skal umsækjandi virða 10. gr. laga nr. 74/1984 um tóbaksvarnir, þess efnis að viðhafa ekki tóbaksreykingar í návist þeirra barna sem eru í daggæslu.

10. gr.

Félagsmálanefnd er heimilt að fela umsjónaraðila, sbr. 22. gr., að sjá um að undirbúa leyfisveitingar og afgreiða umsóknir.

11. gr.

Telji umsjónaraðili, sbr. 10. gr., að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði 9. gr., og því geti hann ekki mælt með honum til starfsins, skal hann gera honum grein fyrir því.

Sætti umsækjandi sig ekki við þá niðurstöðu getur hann lagt málið fyrir félagsmálanefnd

og jafnframt gert kröfu um að málið verði kannað á nýjan leik.

12. gr.

Leyfi, sbr. 9. gr., tekur til allt að fjögurra barna, samtímis, að meðtöldum þeim sem fyrir eru á heimilinu yngri en 6 ára, þó þannig að að jafnaði skulu eigi vera á heimilinu fleiri en tvö börn undir eins árs aldri.

Eftir a.m.k. eins árs samfelldan starfstíma er félagsmálanefnd heimilt að veita leyfi fyrir einu barni til viðbótar, enda hafi dagmóðir sýnt af sér hæfni til starfsins og veitt börnum góðan aðbúnað í hvívetna.

Synjun á leyfisveitingu skv. 2. mgr. þessarar greinar skal vera skrifleg og rökstudd.

13. gr.

Að liðinni eins árs reynslu í starfi skal sótt um endurnýjun leyfisins. Hið endurnýjaða leyfi skal gilda til 3ja ára.

IV. KAFLI

Námskeið.

14. gr.

Þátttaka í námskeiði er skilyrði þess að fá leyfi sem dagmóðir, sbr. 4. og 9. gr. Meginmarkmið með námskeiði er að veita hnitmiðaða og vel uppbyggða fræðslu um uppeldi og umönnun barna, þarfir þeirra og þroska og hvernig koma eigi til móts við þær þarfir.

Auk ofangreindra atriða skal frætt um eftirfarandi:

* Slys í heimahúsum og fyrstu hjálp.

* Barnasjúkdóma.

* Hvernig bjarga megi börnum beri eldsvoða að höndum.

Jafnframt skal frætt um skyldur og réttindi dagmæðra, svo og samvinnu þeirra við foreldra.

Námskeiðin eru ýmist á vegum sveitarfélaganna eða sveitarfélögin fela öðrum hæfum aðila að sjá um námskeiðin.

Sveitarfélög skulu leitast við að hafa samvinnu um námskeiðahald á vegum héraðsnefnda, byggðasamlaga eða samkvæmt sérstöku samkomulagi milli einstakra sveitarfélaga. Sveitarstjórnir geta leitað liðsinnis félagsmálaráðuneytis við að koma á slíkri samvinnu.

15. gr.

Sveitarfélög skulu leitast við að gefa dagmæðrum kost á framhaldsnámskeiðum.

V. KAFLI

Skyldur dagmæðra.

16. gr.

Dagmóðir ber ábyrgð á andlegri og líkamlegri velferð barnsins meðan á dvöl hjá henni stendur og skal hlúa að heilsu þess í sem víðtækustum skilningi. Þetta á jafnt við um fæðuval, tilfinningalíf og félagslega líðan barns.

Óheimilt er að beita barni andlegri eða líkamlegri hirtingu.

Með allar upplýsingar, sem dagmóðir fær um hag barns og einkahagi forráðamanna þess, skal farið sem trúnaðarmál.

17. gr.

Dagmóðir skal sjá um að umsjónaraðili fái jafnóðum upplýsingar um þau börn sem hefja eða ljúka gæsludvöl hjá henni.

18. gr.

Verði dagmóðir þess áskynja að barn sé vanrækt, uppeldi þess, atlæti eða aðbúnaði ábótavant, ber henni að tilkynna slíkt til barnaverndarnefndar, sbr. lög um vernd barna og ungmenna. Æskilegt er að dagmóðir hafi samráð við umsjónaraðila um slíkt mál.

19. gr.

Dagmóðir skal kaupa slysatryggingu vegna barnanna.

20. gr.

Að öðru leyti setja sveitarfélög leiðbeiningar um skyldur dagmæðra gagnvart börnunum, svo og um samskipti dagmæðra við forráðamenn barna, að höfðu samráði við samtök dagmæðra.

VI. KAFLI

Skyldur foreldra.

21. gr.

Ákvörðun um vistun barns hjá dagmóður er ætíð á ábyrgð forráðamanns. Foreldrar skulu tilkynna dagmóður ef barn er haldið ákveðnum sjúkdómi.

Aðlögun að vist hjá dagmóður skal miða við þarfir barnsins. Æskilegt er að forráðamaður dvelji hjá barni sínu í upphafi vistunar eftir nánara samkomulagi við dagmóður.

Æskilegt er að forráðamaður upplýsi umsjónaraðila um hvernig daggæslan hentar barninu. Skylt skal að tilkynna umsjónaraðila telji forráðamaður daggæslu ábótavant.

Að öðru leyti setur sveitarfélag leiðbeiningar um skyldur foreldra sem vista börn sín hjá dagmæðrum eftir því sem þörf er talin á í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

VII. KAFLI

Eftirlit með starfsemi dagmæðra.

Umsjónaraðilar.

22. gr.

Félagsmálanefnd getur ráðið sérstakan umsjónaraðila sem hefur með höndum undirbúning leyfisveitinga, eftirlit með starfsemi dagmæðra, auk þess að veita dagmóður ráðgjöf og stuðning. Að öðrum kosti er eftirlitið í höndum félagsmálanefndar eða annarrar þeirrar nefndar í sveitarfélaginu sem fer með málefni dagmæðra.

Við ráðningu í starf umsjónaraðila skal ráða fólk með sérþekkingu á uppeldi barna, svo sem fóstrur og annað uppeldismenntað fólk.

Nánar tilgreint er verksvið umsjónaraðila eftirfarandi:

1. Að hafa umsjón með gæslu barna hjá dagmæðrum. Stuðlað skal að því að umsjónin sé í formi stuðnings, fræðslu og ráðgjafar eftir því sem kostur er. Umsjónin skal vera mjög virk fyrsta árið, en síðan skal dregið úr henni smátt og smátt miðað við aðstæður eftir mati umsjónaraðila.

2. Halda reglulega fræðslufundi með dagmæðrum og/eða stuðla að samstarfi dagmæðra sín á milli.

3. Halda fundi með foreldrum barnanna og dagmóður eftir því sem umsjónaraðili telur þörf á.

23. gr.

Telji umsjónaraðili að hann hafi orðið þess áskynja á reynslutímanum, eða að honum loknum, að dagmóðir sé ekki starfi sínu vaxin, eða að skilyrði leyfisveitingar, sbr. 9. gr., séu ekki lengur uppfyllt, skal hann gera dagmóður það ljóst en leggja málið síðan tafarlaust fyrir félagsmálanefnd.

VIII. KAFLI

Ýmis atriði.

24. gr.

Komi upp ágreiningur á milli umsjónaraðila og dagmóður má skjóta honum til úrlausnar félagsmálanefndar.

25. gr.

Telji forráðamaður barns eða annar aðili að barn njóti ekki þess aðbúnaðar og atlætis hjá dagmóður sem því ber skal hann tilkynna málið þegar í stað til félagsmálanefndar eða umsjónaraðila sem kannar málið.

26. gr.

Fái félagsmálanefnd upplýsingar um það að dagmóðir, sem hefur tilskilið leyfi, taki fleiri börn í gæslu en henni er heimilt skv. 12. gr. reglugerðar þessarar, skal hún taka mál það til meðferðar og grípa til viðeigandi ráðstafana.

27. gr.

Félagsmálanefnd getur svipt dagmóður leyfi við alvarleg og endurtekin brot, sbr. 25. og 26. gr. Sama á við ef um er að ræða önnur alvarleg brot á reglugerð þessari.

28. gr.

Fái félagsmálanefnd upplýsingar um að börn séu tekin í gæslu í atvinnuskyni án leyfis skal hún láta málið til sín taka.

29. gr.

Heimilt er sveitarstjórnum að greiða niður kostnað við daggæslu í heimahúsum, t.d. vegna einstæðra foreldra. Skal þá sveitarstjórn setja reglur þar um.

30. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 35. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, öðlast gildi þegar í stað, og gildir um þau leyfi, sem veitt eru frá og með gildistöku reglugerðar þessarar, svo og um endurnýjun á leyfum.

Félagsmálaráðuneytið, 21. maí 1992.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Þorgerður Benediktsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica