1. gr.
Tilkynning til Innheimtustofnunar sveitarfélaga um meðlagsskyldu.
Tryggingastofnun ríkisins skal senda Innheimtustofnun sveitarfélaga alla meðlagsúrskurði, skilnaðarleyfisbréf og skilnaðarsamninga, sem skylda foreldris um meðlagsgreiðslur er byggð á.
Skjöl þessi, ásamt afriti af bréfi sbr. 3. mgr. þessarar greinar, skal Tryggingastofnun ríkisins eða umboðsmaður hennar senda Innheimtustofnun sveitarfélaga innan eins mánaðar frá fyrstu greiðslu meðlags með barni.
Tryggingastofnun ríkisins skal tilkynna meðlagsskyldu foreldri bréflega um greiðsluskyldu þess um leið og fyrsta meðlag er greitt.
2. gr.
Innheimta meðlaga.
Að fengnum þeim gögnum, sem um ræðir í 1. gr., gerir Innheimtustofnun sveitarfélaga nauðsynlegar ráðstafanir til innheimtu meðlags hjá meðlagsskyldu foreldri, svo sem nánar er fyrir mælt í reglugerð þessari.
3. gr.
Gjalddagi meðlaga.
Meðlag skal greiða mánaðarlega fyrirfram, sbr. barnalög nr. 20/1992.
Hafi safnast fyrir skuld hjá meðlagsgreiðanda er heimilt að gefa honum kost á að greiða skuldina með jöfnum mánaðargreiðslum. Jafnan skal þó leitast við að ná fullnaðargreiðslu fyrir hver áramót.
4. gr.
Vanskil meðlaga.
Hafi meðlagsgreiðandi ekki gert skil á meðlögum þeim, sem honum ber að greiða, eftir að hafa fengið tilkynningu frá Tryggingastofnun ríkisins um greiðsluskyldu sína, skal Innheimtustofnun sveitarfélaga senda greiðsluítrekun til skuldara. Innheimtustofnun sveitarfélaga getur, ef meðlagsskylt foreldri vanrækir að einhverju eða öllu leyti að verða við innheimtukröfu, krafið launagreiðanda um að halda eftir hluta af kaupi eða aflahlut. Slíkar kröfur skulu ganga fyrir öðrum kröfum, þar á meðal kröfum sveitarsjóða og innheimtumanna ríkissjóðs að undanskilinni staðgreiðslu opinberra gjalda sbr. lög nr. 45/1987. Aldrei skulu launagreiðendur þó halda eftir meiru en nemur 50% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni til greiðslu á meðlögum sem launagreiðanda er skylt að halda eftir af launum viðkomandi.
Kröfur skv. 1. mgr. þessarar greinar skal gera innan 14 daga frá móttöku greiðslutilkynningar skv. 2. mgr. 1. gr.
5. gr.
Greiðsla með skuldabréfum og tryggingar.
Heimilt er að taka verðtryggð skuldabréf, sem tryggð verði með veði í fasteign, innan 60% marka af brunabótamati eignar, til greiðslu á meðlagsskuld. Slík skuldabréf skulu þá tekin sem greiðsla miðað við gangverð þeirra. Önnur verðbréf hefur stofnunin heimild til að taka sem tryggingu fyrir skilvísri greiðslu meðlagsskuldar. Verðbréf, sem stofnunin veitir viðtöku skal hún afhenda viðskiptabanka sínum til varðveislu og innheimtu.
6. gr.
Kröfur í gjaldþrotabú og dánarbú.
Innheimtustofnun skal gera kröfu í dánarbú skuldara ef hinn látni á ólokið greiðslu samkvæmt reglugerð þessari.
Sama gildir um gjaldþrotabú, eftir því sem við á.
7. gr.
Aðför.
Vanræki meðlagsgreiðandi að verða við kröfu Innheimtustofnunarinnar um greiðslu, getur stofnunin krafist fjárnáms í eignum skuldara. Áður en til slíkrar aðfarar kemur, skal stofnunin rita skuldara bréf og tilkynna honum um fjárnámið með tveggja vikna fyrirvara.
Sama gildir, ef vanskil verða hjá launagreiðanda, eftir því sem við á.
8. gr.
Dráttarvextir vegna vanskila.
Eindagi meðlags er síðasti dagur þess mánaðar er meðlagið féll í gjalddaga, sbr.
3. gr. Nú greiðir meðlagsskylt foreldri ekki meðlag innan eins mánaðar frá því meðlagskrafa féll í eindaga samkvæmt ákvæðum skilnaðarleyfisbréfs, skilnaðarsamnings eða úrskurðar sýslumanns og skal hann þá greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er og skulu þeir vera hinir sömu og hjá innlánsstofnunum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands, sbr. vaxtalög nr. 25/1987.
9. gr.
Niðurfelling dráttarvaxta.
Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að víkja frá dráttarvaxtatöku skv. 8. gr. eða fella niður dráttarvexti ef um sérstaka félagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara, þ.e. við eftirfarandi aðstæður:
a) Að skuldari hafi leitað skriflega eftir samkomulagi við stjórn stofnunarinnar um greiðslu skuldarinnar og niðurfellingu dráttarvaxta.
b) Að skuldari hafi sýnt fram á, að hann hafi möguleika á, að standa við greiðslutilboð sitt, væru dráttarvextir felldir niður.
c) Að til skuldarinnar hafi verið stofnað vegna sérstakra félagslegra erfiðleika skuldara, svo sem af heilsufarsástæðum, ónógum tekjum, skertri starfsorku, mikilli greiðslubyrði, barnamergð eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
10. gr.
Niðurfelling dráttarvaxta.
Að jafnaði skal aðeins fella niður dráttarvexti af meðlagsskuldum einu sinni hjá hverjum skuldara.
Verði samkomulag um greiðslu meðlagsskuldar vanefnt verulega eftir að dráttarvextir hafa verið felldir niður, getur stjórn stofnunarinnar lagt svo fyrir, að skuldin verði tekin til dráttarvaxtareiknings að nýju.
11. gr.
Skuld sem til fellur á mánuði nemur hærri fjárhæð
en þremur barnsmeðlögum.
Stjórn Innheimtustofnunar getur heimilað, ef þess er óskað, að einungis verði innheimt, mánaðarlega, fjárhæð sem nemi þremur barnsmeðlögum hjá þeim, sem greiða meðlag er nemur hærri fjárhæð en þremur barnsmeðlögum og búa við sérstaka félagslega erfiðleika, sbr. 9. gr. Stjórn Innheimtustofnunar er og heimilt í þessum tilvikum, verði eftir því leitað, að fella niður dráttarvexti af þeim meðlagsgreiðslum sem frestað yrði að svo stöddu að innheimta.
12. gr.
Samningur um lægri upphæð en til fellur mánaðarlega.
Stjórn Innheimtustofnunar er heimilt að gera tímabundna samninga sem kveða á um greiðslu skuldara á lægri upphæð en til fellur mánaðarlega þegar til skuldarinnar hefur verið stofnað sökum félagslegra erfiðleika skuldara, sbr. c-lið 9. gr. Slíka samninga skal endurskoða reglulega og a.m.k. á sex mánaða fresti.
13. gr.
Höfuðstóll afskrifaður að hluta eða öllu leyti.
Ef um áframhaldandi félagslega og fjárhagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara, þrátt fyrir samning skv. 12. gr., og stjórnin telur fullljóst að aðstæður skuldara séu þannig að hann geti ekki greitt áfallinn höfuðstól eða hluta hans, auk meðlaga sem falla til mánaðarlega, er stjórn Innheimtustofnunar heimilt að afskrifa höfuðstól skuldara að hluta eða öllu leyti.
Heimild til niðurfellingar höfuðstóls eða hluta hans er bundin því skilyrði að skuldari hafi í a.m.k. þrjú ár staðið við samning skv. 12. gr.
14. gr.
Barnsfaðernismál breytir meðlagsskyldu.
Stjórn Innheimtustofnunar er heimilt að afskrifa og endurgreiða höfuðstól skuldara sem stofnast hefur eftir að niðurstaða blóðrannsóknar liggur fyrir og/eða mál hefur verið höfðað til ógildingar á faðernisviðurkenningu eða til vefengingar á faðerni barns. Heimildin til afskriftar og endurgreiðslu er þó bundin því skilyrði að niðurstaða dómsmáls leiði í ljós að skuldari er ekki faðir viðkomandi barns.
15. gr.
Form umsókna og fylgiskjöl.
Óski skuldari eftir fyrirgreiðslu skv. 9.-14. gr. reglugerðar þessarar skal hann skila skriflegri umsókn til stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga ásamt staðfestu afriti af síðasta skattframtali hans. Jafnframt skulu fylgja umsókninni læknisvottorð ef við á svo og önnur gögn sem Innheimtustofnunin óskar eftir og málið varða.
Þegar umsóknir skv. 9.-14. gr. eru teknar til umfjöllunar í stjórn Innheimtustofnunar skal liggja fyrir umsögn forstjóra stofnunarinnar um þær.
16. gr.
Nauðasamningar.
Stjórn Innheimtustofnunar er heimilt að mæla með nauðasamningi þar sem fjallað er um niðurfellingu höfuðstóls og/eða dráttarvaxta að hluta eða öllu leyti, enda sé ljóst að hagsmunum stofnunarinnar verði betur borgið með nauðasamningi.
17. gr.
Gjaldþrotaskipti.
Krafa um gjaldþrotaskipti skal ekki gerð, nema til komi samþykki stjórnar stofnunarinnar.
18. gr.
Skil til Tryggingastofnunar ríkisins.
Innheimtum meðlögum samkvæmt kröfum Tryggingastofnunar ríkisins skal skilað mánaðarlega eftir á, þó eigi síðar en 3. næsta mánaðar.
Vextir, sem til falla af innheimtufé, skulu koma til frádráttar rekstrarkostnaði við Innheimtustofnunina.
19. gr.
Skil til Tryggingastofnunar ríkisins og greiðslur
úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Innheimtustofnun sveitarfélaga skal skila Tryggingastofnun ríkisins innheimtufé mánaðarlega eftir því sem það innheimtist og skal það ganga upp í meðlagsgreiðslur Tryggingarstofnunarinnar. Það sem á vantar að Tryggingastofnunin hafi fengið meðlög að fullu endurgreidd með slíkum skilum skal Innheimtustofnun sveitarfélaga greiða innan tveggja mánaða frá því að meðlag var greitt.
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir Innheimtustofnun sveitarfélaga það sem á vantar að tekjur hennar nægi til endurgreiðslu til Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 1. mgr., og greiðslu rekstrarkostnaðar Innheimtustofnunarinnar. Greiðslur Jöfnunarsjóðs skulu inntar af hendi það tímanlega að Innheimtustofnunin geti staðið í skilum við Tryggingastofnunina á réttum gjalddögum, sbr. 1. mgr.
20. gr.
Önnur verkefni Innheimtustofnunar.
Innheimtustofnunin getur tekið að sér hvers konar innheimtur fyrir einstök sveitarfélög gegn greiðslu, einkum þó innheimtu á sveitarsjóðaskuldum manna, sem fluttir eru brott úr sveitarfélagi. Stofnunin getur einnig, að beiðni ráðuneyta, með sama hætti tekið að sér innheimtu meðlagsskulda erlendra ríkisborgara og meðlög sem greidd eru erlendis vegna íslenskra ríkisborgara.
Einnig er Innheimtustofnuninni heimilt, sé þess óskað, að taka að sér innheimtu gegn greiðslu á þeim hluta barnsmeðlags, sem hærri er en lögmæltur barnalífeyrir, svo og öðrum kröfum, sem framfærslumaður barns kann að eiga á meðlagsskylt foreldri, þar með talinn framfærslueyrir hjóna vegna skilnaðar samkvæmt skilnaðarleyfisbréfi, skilnaðarsamningi, úrskurði sýslumanns, dómi eða lögum.
Fyrir innheimtu þá, sem um ræðir í þessari grein, ber Innheimtustofnuninni þóknun, sem vera skal 10% af fé því, sem hún innheimtir.
21. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 54/1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga með síðari breytingum, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um innheimtu og skil á meðlögum o.fl. á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga nr. 214/1973, sbr. rgl. nr. 549/1980, 210/1987, 136/1988, 231/1990 og 264/1993.
Félagsmálaráðuneytinu, 6. september 1996.
Páll Pétursson.
Sesselja Árnadóttir.