Utanríkisráðuneyti

734/2009

Reglugerð um breyting á reglugerð um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir varðandi Norður-Kóreu nr. 153/2009. - Brottfallin

1. gr.

Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 2. gr.

  1. Fyrirsögn 2. gr. verði:
    Viðskiptabann með hergögn, kjarnabúnað o.fl.
  2. 4. mgr. hljóði svo:

Vopnasölubann skal gilda gagnvart Norður-Kóreu. Jafnframt er lagt bann við innflutningi hergagna frá Norður-Kóreu. Ennfremur er bannað að veita tækniþjálfun, ráðgjöf, þjónustu, aðstoð eða gera fjármálagerninga í tengslum við útvegun, framleiðslu, viðhald eða notkun slíkra hergagna, sbr. 8. mgr. ályktunar nr. 1718 (2006) og 9.-10. mgr. ályktunar nr. 1874 (2009).

2. gr.

3. gr. hljóði svo:

Skoðunarheimild, upptaka farms og þjónustubann.

Sé gild ástæða til að ætla að loftfar eða skip, sem er á leið til eða frá Norður-Kóreu og fer um íslenskt yfirráðasvæði, flytji hluti sem bann er lagt við samkvæmt reglugerð þessari er bærum stjórnvöldum rétt að skoða farminn, sbr. 11. mgr. ályktunar nr. 1874 (2009). Bærum stjórnvöldum er ennfremur rétt að skoða slíkan farm á úthöfum, með samþykki fánaríkis, sbr. 12. mgr. ályktunar nr. 1874 (2009).

Farmur sem finnst í loftfari eða skipi, sem bann er lagt við samkvæmt reglugerð þessari, skal gerður upptækur og honum eytt eða ráðstafað á annan hátt, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, sbr. 14. mgr. ályktunar nr. 1874 (2009).

Bannað er að þjónusta norður-kóreskt loftfar eða skip, þ.m.t. að útvega eldsneyti eða aðföng, ef gild ástæða er til að ætla að loftfarið eða skipið flytji hluti sem bann er lagt við samkvæmt reglugerð þessari, sbr. 17. mgr. ályktunar nr. 1874 (2009).

3. gr.

Ný 4. gr. hljóði svo:

Fjármálaþjónusta og frysting fjármuna.

Bannað er að veita fjármálaþjónustu eða yfirfæra fjármuni eða efnahagslegan auð sem getur gagnast kjarnaáætlunum, skotflaugaáætlunum eða gereyðingarvopnaáætlunum Norður-Kóreu, sbr. 18. mgr. ályktunar nr. 1874 (2009).

Frysta skal fjármuni og efnahagslegan auð í eigu aðila sem eru viðriðnir kjarnaáætlanir, skotflaugaáætlanir eða gereyðingarvopnaáætlanir Norður-Kóreu, sbr. 18. mgr. ályktunar nr. 1874 (2009).

4. gr.

Ný 5. gr. hljóði svo:

Bann við fjárhagsaðstoð.

Bannað er að veita Norður-Kóreu styrki, fjárhagsaðstoð eða vildarlán, nema í mannúðar­skyni eða til þróunar til þess að mæta með beinum hætti þörfum almennings eða til þess að stuðla að því að kjarnavæðingu landsins verði snúið við, sbr. 19. mgr. ályktunar nr. 1874 (2009).

5. gr.

Ný 6. gr. hljóði svo:

Bann við útflutningsaðstoð.

Bannað er að veita opinberu fé til að styðja viðskipti við Norður-Kóreu, þ.m.t. út­flutnings­lán, útflutningsábyrgðir eða útflutningstryggingar, sem getur gagnast kjarna­áætlunum, skotflaugaáætlunum eða gereyðingarvopnaáætlunum Norður-Kóreu, sbr. 20. mgr. ályktunar nr. 1874 (2009).

6. gr.

Núverandi 5., 6. og 7. gr. verði 7., 8. og 9. gr.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 12. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunar­aðgerða nr. 93/2008 og öðlast þegar gildi.

Utanríkisráðuneytinu, 21. júlí 2009.

Össur Skarphéðinsson.

Benedikt Jónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica