1. gr.
Gildissvið.
Öryggis- og varnarsvæði eins og þau eru skilgreind í lögum nr. 34/2008, um varnarmál, ásamt mannvirkjum íslenska ríkisins, Atlantshafsbandalagsins eða Bandaríkjanna þar, og starfsemi þeim tengd, skulu undanþegin öllum opinberum gjöldum, þ.m.t. vegna kaupa á vöru og þjónustu til viðhalds og rekstrar.
Um þær eignir og þann rekstur sem Varnarmálastofnun annast fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar, herliðs Bandaríkjanna eða annarra þjóðréttaraðila, sem samkvæmt lögum og alþjóðasamningum eru undanþegnir skatt- og tollskyldu, fer eftir þeim sérreglum sem um þá þjóðréttaraðila gilda.
2. gr.
Endurgreiðsla virðisaukaskatts.
Við kaup á vörum og þjónustu ber Varnarmálastofnun að greiða virðisaukaskatt samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar fær Varnarmálastofnun endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem stofnunin greiðir vegna kaupa á vöru og þjónustu sem fellur undir 1. gr. reglugerðarinnar.
3. gr.
Gögn til staðfestingar endurgreiðslu.
Til staðfestingar á því að ákvæði 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar eigi við skal í hverju tilviki liggja fyrir áritun Varnarmálastofnunar á frumrit reiknings seljanda að um sé að ræða kaup á vöru eða þjónustu sem fellur undir 1. gr. reglugerðarinnar. Upplýsingar um þann virðisaukaskatt sem hefur verið greiddur skal koma fram á frumriti reiknings eða greiðsluskjali úr tolli.
4. gr.
Endurgreiðslutímabil o.fl.
Hvert endurgreiðslutímabil samkvæmt reglugerð þessari er einn mánuður og skal heildarfjárhæð virðisaukaskatts sem sótt er um endurgreiðslu á hverju sinni nema að minnsta kosti 7.000 kr.
5. gr.
Umsýsla vegna endugreiðslna.
Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi annast umsýslu vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts til Varnarmálastofnunar samkvæmt reglugerð þessari og ákveður hvaða form skuli vera á því. Upplýsingar vegna endurgreiðslu skulu berast skattstjóranum eigi síðar en á fimmta degi næsta mánaðar vegna viðskipta fyrra mánaðar. Sé dagurinn helgidagur eða almennur frídagur skal það vera næsti virki dagur á eftir. Upplýsingar um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem berast eftir þann tíma skulu afgreiddar með næsta endurgreiðslutímabili.
Skattstjóri getur óskað eftir nánari skýringum og gögnum frá Varnarmálastofnun vegna endurgreiðslunnar telji hann þess þurfa.
Réttur til endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari fellur niður ef upplýsingar um endurgreiðslu berast skattstjóra eftir að sex ár eru liðin frá því að réttur til endurgreiðslu stofnaðist.
6. gr.
Afgreiðsla endurgreiðslna.
Skattstjóri skal senda Fjársýslu ríkisins upplýsingar um endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt reglugerð þessari eins fljótt og auðið er, þó ekki síðar en 20 dögum eftir lok endurgreiðslutímabils.
Fjársýsla ríkisins annast endurgreiðslu til Varnarmálastofnunar.
7. gr.
Ársskýrsla.
Varnarmálastofnun skal fyrir 1. mars ár hvert senda utanríkisráðuneytinu yfirlit yfir þá reikninga sem hún hefur fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af, á næstliðnu ári.
8. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 21. og 27. gr. laga nr. 34/2008, um varnarmál, tekur gildi 1. september 2009.
Bráðabirgðaákvæði.
Virðisaukaskattur sem Varnarmálastofnun hefur greitt fyrir gildistöku reglugerðar þessarar og fellur undir 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar skal endurgreiddur samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.
Utanríkisráðuneytinu, 3. september 2009.
F. h. r.
Benedikt Jónsson.
Þórður Ægir Óskarsson.