Viðskiptaráðuneyti

1160/2007

Reglugerð um breytingu á reglugerð um raforkuvirki nr. 264/1971, með áorðnum breytingum. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

1. gr.

Í stað greinar 1.2.4 kemur ný grein, svohljóðandi:

1.2.4 Gerð virkja og raffanga.

Virki og rafföng má því aðeins taka í notkun að hönnun þeirra, gerð og frágangur stofni ekki öryggi manna og dýra, umhverfi eða eignum í hættu þegar þau eru rétt upp sett, þeim haldið við og þau notuð með þeim hætti sem til er ætlast.

Virki og rafföng skulu vera þannig úr garði gerð, notuð, þeim haldið við og eftir þeim litið að hætta af þeim fyrir heilsu og öryggi manna og dýra, svo og hætta á eignatjóni og umhverfisspjöllum, verði svo lítil sem við verði komið.

Öll virki skulu uppfylla grunnkröfur sem tilgreindar eru í grein 1.10. Þau skulu einnig uppfylla sérstakar öryggiskröfur sem tilgreindar eru í greinum 1.11, 1.12 og 1.13 eftir því sem við á.

Virki sem gerð eru samkvæmt íslenskum stöðlum og sérstökum öryggiskröfum, sem tilgreindar eru í greinum 1.11, 1.12 og 1.13 eftir því sem við á, eru álitin uppfylla grunnkröfur, sbr. grein 1.10, nema annað komi í ljós. Sé beitt öðrum aðferðum við gerð virkja en kveðið er á um í fyrrgreindum stöðlum skulu þær aðferðir og ástæður fyrir beitingu þeirra skjalfestar. Þar skulu koma fram nákvæmar lýsingar á þeim aðferðum sem beitt var til að tryggja öryggi, sbr. grein 1.10. Gögn þessi skulu vera aðgengileg eftirlitsstjórnvöldum (Neytendastofu og skoðunarstofum á vegum stofnunarinnar) í a.m.k. tíu ár eftir verklok.

Öll rafföng skulu uppfylla grunnkröfur um öryggi sem tilgreindar eru í grein 1.7.

2. gr.

Í stað greinar 1.6.2 kemur ný grein, svohljóðandi:

1.6.2 Skrá um neysluveitur og flokkun þeirra.

Rafveitur skulu annast skráningu neysluveitna á veitusvæði sínu. Í skránni skulu neysluveitur flokkaðar eftir notkun skv. skilgreindum verklagsreglum Neytendastofu. Rafveitum ber að veita Neytendastofu aðgang að þessari skráningu.

3. gr.

Í stað greinar 1.6.3 kemur ný grein, svohljóðandi:

1.6.3 Lokayfirferð af hálfu löggilts rafverktaka.

Löggiltir rafverktakar skulu fara yfir eigin verk að þeim loknum og tilkynna þau til Neytendastofu samkvæmt skilgreindum verklagsreglum hennar. Þetta gildir bæði um nýjar veitur og breytingar á veitum í rekstri.

4. gr.

Á eftir grein 1.9. bætast fjórar nýjar greinar við, svohljóðandi, og breytist númeraröð annarra greina samkvæmt því:

1.10 Almennar öryggiskröfur.

Grunnkröfur til öryggis.

Virki skulu vera þannig úr garði gerð, notuð, þeim haldið við og eftir þeim litið að hætta af þeim fyrir heilsu og öryggi manna og dýra, svo og hætta á eignatjóni og umhverfis­spjöllum, verði svo lítil sem við verði komið.

Vörn gegn raflosti.

Virki skal þannig gert að menn og dýr séu varin gegn hættu sem stafar af beinni snertingu við spennuhafa hluta eða bera leiðna hluta þess sem geta orðið spennuhafa við bilun.

Loftlína skal gerð og lögð með þeim hætti að burðarvirki hennar og lega veiti tryggt öryggi gegn hættu fyrir menn og dýr og tjóni á eignum. Hún skal lögð í öruggri fjarlægð yfir jörð, frá gróðri, öðrum línum, umferðarleiðum og byggingum.

Vörn gegn hitaáraun og kraftrænni áraun.

Virki skal þannig gert að því fylgi ekki hætta fyrir menn og dýr eða líkur á tjóni á eignum vegna hás hita, ljósboga eða kraftrænnar áraunar sem orsakast af straumi við venju­legan rekstur eða af yfirstraumi.

Vörn gegn yfirspennu.

Virki skal þannig gert að það þoli þá spennu sem vænta má í virkinu við venjulegar aðstæður.

Virki skal þannig gert að því fylgi ekki hætta fyrir menn, dýr eða líkur á tjóni á eignum vegna yfirsláttar milli spennuhafa hluta í straumrásum á mismunandi hárri spennu eða milli spennuhafa hluta og jarðar.

Merking og skráning.

Virki skal merkt og gerðar um það nauðsynlegar skrár til þess að auðkenna hluta þess vegna reksturs og viðhalds. Skrárnar skulu vera á íslensku nema annað tungumál sé hentugra með tilliti til rekstraröryggis. Ákvörðun um slíkt skal studd skriflegum gögnum.

Viðhald virkja.

Virki skal þannig gert að öruggt sé að vinna í því og sinna venjulegu viðhaldi.

1.11 Sérstakar öryggiskröfur fyrir lágspennuvirki og lágspennuloftlínur.

Almennt.

Í þessari grein eru tilgreind sérákvæði um lágspennuvirki og lágspennuloftlínur með tilliti til íslenskra aðstæðna. Lágspennuvirki og lágspennuloftlínur skulu uppfylla neðangreind ákvæði þessarar greinar.

Lágspennuvirki, sem notuð eru til raforkuframleiðslu, -flutnings og -dreifingar og uppfylla neðangreind ákvæði ásamt ákvæðum ÍST 200:2006, eru álitin uppfylla grunnkröfur sem tilgreindar eru í grein 1.10.

Uppsetning á almennri götulýsingu og almennum lýsingarkerfum, sem eru hluti af almennu rafdreifikerfi, umferðarljósum og lömpum sem festir eru á hús og tengdir eru innanhússraflögn þess, og sem uppfylla neðangreind ákvæði ásamt ákvæðum ÍST 200:2006, eru álitin uppfylla grunnkröfur sem tilgreindar eru í grein 1.10. Þetta gildir þrátt fyrir að í ÍST 200:2006 sé tilgreint að staðallinn gildi ekki hvað þennan tiltekna búnað varðar.

Önnur lágspennuvirki, sem uppfylla neðangreind ákvæði ásamt ákvæðum ÍST 200:2006, eru álitin uppfylla grunnkröfur sem tilgreindar eru í grein 1.10.

Lágspennuvirki.

Lagnadýpt jarðskauts skal ekki vera minni en 0,7 m.

Jarðstrengir skulu ekki lagðir grynnra en 0,7 m undir yfirborði. Ef þannig aðstæður eru fyrir hendi að óframkvæmanlegt er að ná fyrrgreindri lagnadýpt skal velja aðra lagna­aðferð sem telst jafnörugg.

Varnarnúllleiðari (PEN) skal vera með gul/grænni einangrun, allur leiðarinn, og með ljósbláum merkjum á endum (t.d. ljósblár hringur, herpiádrag) þar sem hann er tengdur.

Merking um spennukerfi lágspennuvirkja skal vera hluti af merkingum rafmagnstaflna.

Í kvíslum íbúðarhúsa og sambærilegu húsnæði (skólar, dagheimili, hótel og gististaðir) skal ætíð lögð varnartaug (PE).

Þegar um er að ræða viðbót við raflögn þar sem litamerking er samkvæmt eldri reglum ber að geta þess með greinilegri áletrun í hlutaðeigandi töflu að litamerkingar núlltauga (N), varnartauga (PE) og varnarnúlltauga (PEN) séu mismunandi í eldri og nýrri hluta lagnar­innar.

Raflagnir í byggingu eða hluta byggingar, sem er íbúð, skóli, dagheimili, hótel, gististaður, eða opinber bygging, skulu varðar með bilunarstraumsrofa með málgildi útleysistraums ekki hærra en 30 mA, sem viðbótarvörn.

Tenglar í íbúðarhúsum og sambærilegu húsnæði (skólar, dagheimili, hótel og gististaðir) skulu vera búnir fiktvörn (öryggislokum).

Ekki er leyfilegt að beita staðareinangrun sem vörn gegn raflosti við óbeina snertingu nema sérstök skilyrði geri það nauðsynlegt.

Bráðabirgðalágspennuvirki.

Tenglar og fasttengd neyslutæki, sem hafa málstraum 16 A eða lægri í bráðabirgðavirki, skulu varin á einn eftirtalinna hátta:

- Með bilunarstraumsrofa sem hefur málgildi útleysistraums 30 mA eða lægra
- með tengingu við öryggissmáspennu (SELV), sbr. ÍST 200:2006
- með sérstökum aðskilnaðarspennum.

Lágspennuloftlínur.

Í þessari grein eru tilgreind ákvæði um lágspennuloftlínur með tilliti til íslenskra aðstæðna. Lágspennuloftlínur skulu uppfylla neðangreind sérákvæði þessarar greinar. Loftlínur, sem uppfylla neðangreind ákvæði ásamt ákvæðum ÍST EN 50423-1:2005 og ÍST EN 50423-3:2005 eins og við á, eru álitnar uppfylla grunnkröfur sem tilgreindar eru í grein 1.10.

Lágspennuloftlínur, sem notaðar eru sem heimtaugar að húsum, má festa á húsin, þó ekki lægra en í 2,5 m hæð þar sem ekki er umferð enda séu vírar með haldgóðri veður­þolinni einangrun.

Heimilt er að miða straumáraun víra í lágspennuloftlínum við töflu 52A í ÍST 200:2006, lagnaraðferð E, F og G eins og við á.

Þar sem því verður við komið á bil milli óeinangraðra víra á miðju hafi milli stólpa að vera a.m.k. 1% af lengd hafsins, þó aldrei minna en 0,40 m milli víra sem eru hver upp af öðrum í lóðréttum fleti, og 0,35 m milli víra sem liggja hlið við hlið í láréttum fleti.

Þrátt fyrir ákvæði ÍST 200:2006 þar um er ekki heimilt að leggja loftlínur yfir tjald- og hjólhýsasvæði.

1.12 Sérstakar öryggiskröfur fyrir háspennuvirki.

Almennt.

Í þessari grein eru tilgreind ákvæði um háspennt raforkuvirki með tilliti til íslenskra aðstæðna. Virkin skulu uppfylla neðangreind sérákvæði þessarar greinar. Virki, sem uppfylla neðangreind ákvæði ásamt ákvæðum staðalsins ÍST 170:2005, eru álitin uppfylla grunnkröfur sem tilgreindar eru í grein 1.10.

Uppsetning spennistöðva og dreifikerfa í strjálbýli, sem falla ekki undir ákvæði ÍST 170:2005, skal vera samkvæmt verklýsingu Neytendastofu VL3 sem birt skal með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

1.13 Sérstakar öryggiskröfur fyrir háspenntar loftlínur.

Almennt.

Í þessari grein eru tilgreind ákvæði um háspenntar loftlínur með tilliti til íslenskra aðstæðna. Háspennulínur, sem uppfylla ákvæði ÍST EN 50341-1:2001, ÍST EN 50341-3-12:2001, ÍST EN 50423-1:2005 og ÍST EN 50423-3:2005, eru álitnar uppfylla grunnkröfur sem tilgreindar eru í grein 1.10.

5. gr.

Kafli 2 Heiti og hugtök og kafli 3 Reglur um gerð, tilhögun og starfrækslu raforkuvirkja falla brott.

6. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á grein 1.10.2 (sem verður grein 1.14.2 skv. upphafsmálslið 4. gr.):

  1. Í stað dagsetningarinnar "19. febrúar 1973" kemur: 12. desember 2006;
  2. Í stað "73/23/EBE" (með áorðnum breytingum) kemur: 2006/95/EB.

7. gr.

Með reglugerð þessari er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/95/EB frá 12. desember 2006 um samhæfingu laga aðildarríkjanna um rafföng sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 13. gr. laga nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga og öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði greinar 1.11, Sérstakar öryggiskröfur fyrir lágspennuvirki og lágspennuloftlínur, sbr. 3. gr. reglugerðar þessarar, er heimilt fram til 1. janúar 2009 að fara eftir ákvæðum reglugerðar nr. 264/1971 um raforkuvirki, með áorðnum breytingum, eins og við á, vegna vinnu við raflagnir lágspenntra neysluveitna. Vinnu við raflagnir lágspenntra neysluveitna skv. ákvæðum reglugerðar nr. 264/1971, sbr. 1. málsl. þessa ákvæðis, skal lokið eigi síðar en 1. janúar 2010.

Viðskiptaráðuneytinu, 27. nóvember 2007.

Björgvin G. Sigurðsson.

Jónína S. Lárusdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica