Umhverfisráðuneyti

526/2006

Reglugerð um íblöndun bætiefna í matvæli. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um íblöndun bætiefna: vítamína, steinefna, amínósýra og fitusýra í matvæli.

2. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að tryggja að íblöndun bætiefna í matvæli leiði ekki til heilsutjóns.

3. gr.

Íblöndun bætiefna.

Íblöndun bætiefna er háð leyfi Umhverfisstofnunar. Við ákvörðun sína skal stofnunin einkum meta hvort neysla vörunnar, með viðkomandi bætiefni eða bætiefnum, sé til þess fallin að valda heilsutjóni.

Umhverfisstofnun er heimilt að skilyrða leyfi til íblöndunar bætiefna, svo sem um sérstaka merkingu vörunnar.

4. gr.

Eftirlit.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar.

5. gr.

Þvingunarúrræði.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt 30. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

6. gr.

Viðurlög.

Um viðurlög fer samkvæmt 31. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995 sbr. og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 17. og 18. gr. laga um matvæli nr. 93/1995 sbr. og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi 19. gr., ákvæði til bráðabirgða, með reglugerð um aukefni í matvælum, nr. 285/2002.

Ákvæði til bráðabirgða.

Sækja skal um leyfi skv. 3. gr. fyrir vörur sem falla undir reglugerð þessa og sem þegar eru á markaði við gildistöku hennar innan árs frá gildistöku reglugerðarinnar.

Umhverfisráðuneytinu, 14. júní 2006.

Sigríður A. Þórðardóttir.

Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica