Umhverfisráðuneyti

884/2003

Reglugerð um merkingu matvæla sem innihalda kínín og matvæla sem innihalda koffín. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um matvæli sem innihalda kínín og matvæli sem innihalda koffín. Ákvæði hennar ná þó ekki til slíkra matvæla sem ætluð eru til útflutnings til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Að öðru leyti en greinir í 2.–4. gr. reglugerðar þessarar gilda ákvæði reglugerðar um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla og reglugerðar um merkingu næringargildis matvæla og reglugerðar um aukefni í matvælum.


2. gr.

Þegar kínín eða koffín er notað sem bragðefni í framleiðslu eða tilreiðslu matvæla, skal í innihaldslýsingu koma skýrt fram að um sé að ræða kínín og/eða koffín. Merkja má með flokksheitinu bragðefni, en þar á eftir skal merkja heitið á bragðefninu sem notað er, þ.e. kínín og/eða koffín eftir því hvaða efni er notað.


3. gr.

Þegar drykkur, sem ætlaður er til neyslu án breytinga (tilbúinn til drykkjar) eða eftir að þykknið eða þurrkaða varan hefur verið enduruppleyst, inniheldur koffín, hvaðan sem það er upprunnið, í meira magni en 150 mg/l ber að setja eftirfarandi texta á merkimiðann þannig að hann beri fyrir augu um leið og heitið á söluvörunni:
"Inniheldur mikið af koffíni"

Á eftir ofangreindum texta skal í sviga tilgreina hvert magn koffíns er í mg í 100 ml af vöru.

Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um drykki sem gerðir eru úr kaffi, tei eða kaffi- eða tekjarna ef orðið "kaffi" eða "te" kemur fyrir sem hluti af heiti vörunnar.


4. gr.

Innlendur framleiðandi eða innflytjandi er ábyrgur fyrir því að matvælin sem um getur í 1. gr. séu í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og almenn ákvæði um hollustuhætti matvæla.


5. gr.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt nema annað sé ákvarðað samkvæmt lögum eða sérreglum.


6. gr.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt 30. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum sbr. og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Um viðurlög fer samkvæmt 31. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995 sbr. og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.


7. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995 sbr. og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 og til innleiðingar á tilskipun 2002/67/EB sem vísað er til í 4. tölul. XII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.


Umhverfisráðuneytinu, 24. nóvember 2003.

F. h. r.
Magnús Jóhannesson.
Sigrún Ágústsdóttir.

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica