Töluliður nr. 5 í 2. mgr. 8. gr. orðast svo:
Heimilt er að veiða rjúpu frá 15. október til og með 22. desember nema innan svæðis sem markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan Soginu og Ölfusá til sjávar.
Innan ofangreindra marka, sjá meðfylgjandi kort, er öll rjúpnaveiði óheimil til 2007.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 7. gr. nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með ofangreindum gildistíma.