Markmið reglugerðar þessarar er að takmarka notkun asbests og koma í veg fyrir heilsutjón og mengun af völdum þess.
Reglugerð þessi tekur til innflutnings, framleiðslu, sölu, notkunar og annarrar meðhöndlunar, þar með talið förgunar á asbesti og vörum úr asbesti.
Með asbesti er átt við eftirfarandi þráðlaga, kristölluð sílikatsambönd, bæði sem hreint asbest og í blöndu af öðrum efnum:
Takmarkanir.
3. gr.
Innflutningur, framleiðsla, sala og notkun asbests er bönnuð með þeim undantekningum sem tilteknar eru í 4. gr. Bann þetta gildir einnig um tæki, vélar eða annan búnað sem í eru hlutar úr asbesti.
Undanþágur.
4. gr.
Vinnueftirlit ríkisins getur, að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins, veitt undanþágu frá ákvæðum 3. gr. um bann við innflutningi, sölu og notkun asbests og vörum úr asbesti, sjá þó 2. mgr. þessarar greinar. Undanþágur skal takmarka við þá notkun að önnur efni komi ekki með góðu móti í stað asbests. Skal í hverju tilfelli taka fram til hverra nota varan er ætluð og er óheimilt að nota hana til annars.
Undanþágur frá banni við innflutningi, sölu og notkun á asbesti og vörum úr asbesti má veita fram til 1. janúar 2005 og einungis fyrir vörur sem innihalda asbest af gerðinni krýsótíl (hvítt asbest). Heimilt er að veita undanþágu fyrir eftirtaldar vörur:
a) asbest-sementsrör,
b) pakkningar og pakkningaefni til notkunar í gufuaflsstöðvum,
c) vörur til annarra tæknilegra nota þar sem ekki er unnt að nota hættuminni efni.
Vinnueftirlit ríkisins skal senda upplýsingar um veittar undanþágur til umhverfisráðuneytis og Hollustuverndar ríkisins.
Rísi ágreiningur um veitingu undanþága samkvæmt 1. mgr. sker umhverfisráðherra úr.
Notkun og meðhöndlun asbests.
5. gr.
Um notkun, vinnslu og meðhöndlun asbests á vinnustöðum fer samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum nr. 379/1996 um asbest. Það sama gildir um niðurrif bygginga, byggingahluta eða búnaðar. Leita skal heimildar hjá Vinnueftirliti ríkisins til niðurrifs ef asbest er til staðar.
Starfsleyfisskylda.
6. gr.
Tryggja skal að starfsemi sem felur í sér vinnslu á vörum sem innihalda asbest valdi ekki umhverfismengun.
Atvinnurekstur sem gæti haft í för með sér losun asbests út í umhverfið, þar með talið niðurrif bygginga, byggingahluta eða búnaðar, er starfsleyfisskyldur, samanber reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Heilbrigðisnefnd viðkomandi sveitarfélags veitir starfsleyfi fyrir slíka starfsemi.
Hreinsun á útblæstri.
7. gr.
Í þeim tilvikum þegar veitt er leyfi fyrir notkun asbests skal asbestmengað loft hreinsað áður en því er blásið út í andrúmsloftið. Nota skal hreinsibúnað sem samþykktur er af heilbrigðiseftirliti viðkomandi sveitarfélags.
Við niðurrif mannvirkis, byggingar eða búnaðar sem inniheldur asbest skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að ekki verði umhverfismengun af völdum asbestsryks.
Meðhöndlun úrgangs.
8. gr.
Eigi má farga asbesti nema að fengnu leyfi heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags sem hefur um slíkt samráð við Hollustuvernd ríkisins.
Tryggja skal að við flutning og losun úrgangs sem inniheldur asbest sé engum asbesttrefjum eða asbestryki hleypt út í andrúmsloftið. Jafnframt skal þess gætt að vökva, sem kann að innihalda asbesttrefjar, verði fargað þannig að asbesttrefjar berist ekki út í andrúmsloftið.
Þegar úrgangur sem inniheldur asbest er urðaður skal tryggja að hann sé meðhöndlaður, pakkaður og þakinn þannig að komið sé í veg fyrir að asbestagnir berist út í umhverfið. Hollustuvernd ríkisins skal samþykkja urðunarstað í samráði við heilbrigðiseftirlit viðkomandi sveitarfélags.
Merkingar.
9. gr.
Asbest og vörur sem í er asbest skal greinilega merkt af framleiðanda eða innflytjanda í samræmi við viðauka við reglugerð þessa.
Viðurlög.
10. gr.
Um refsingar fyrir brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 26. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Gildistaka.
11. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. og 29. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni og 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið hvað snertir afskipti Vinnueftirlits ríkisins.
Reglugerðin er ennfremur sett með hliðsjón af 4. tölul., XV. kafla, II. viðauka við EES-samninginn (tilskipun nr. 76/769/EBE um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi takmörkun á sölu og notkun tiltekinna skaðlegra efna og efnablandna eins og henni var breytt með tilskipunum 83/478/EBE, 85/610/EBE, 91/659/EBE og 1999/77/EB) svo og 18. tölul., XX. viðauka við EES-samninginn (tilskipun 87/217/EBE).
Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 74/1983 um bann við innflutningi og notkun asbests og reglugerð nr. 794/1999 um varnir gegn mengun af völdum asbests.
Umhverfisráðuneytinu, 28. nóvember 2000.
Siv Friðleifsdóttir.